Bruschetta (snittubrauð með tómötum, hvítlauk og ólífuolíu)

Þetta er svoooo, svoooo, svoooo góð samsetning og ekki versnar hún með vel þroskuðu avocadoi söxuðu ofan á tómatana. Namm. Ítalir myndu sennilega fórna höndum yfir þessari útgáfu af bruschetta (brúsketta), með heimabökuðu speltsnittubrauði en mér er alveg sama he he. Fyrir þá sem vilja vera voða ítalskir þarf að kaupa venjulegt snittubrauð en hollt, heimabakað og gerlaust snittubrauð dugar allavega vel fyrir mig. Það sem er svo frábært við bruschetta er að það er einfalt, yfirþyrmandi hollt (tómatar, ólífuolía, hvítlaukur) og svo hressandi. Það er sko ekkert skrýtið að Ítalir eru svona langlífir. Bruschetta er upplagt sem létt snarl eða forréttur en við borðum það reyndar oft sem léttan kvöldmat líka....bara nógu mikið af því..enda erfitt að hætta!


Bruschetta með tómötum, hvítlauk og ólífuolíu

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Bruschetta (snittubrauð með tómötum, hvítlauk og ólífuolíu)

Fyrir 5-6 sem forréttur

Innihald

  • Snittubrauð (um 8-10 sneiðar og um 1,5 sm þykkar)
  • 4 vel þroskaðir plómutómatar (eða tómatar on the vine, saxaðir frekar smátt)
  • 1 vel þroskað avocado, afhýtt og saxað (má sleppa)
  • 3 stór hvítlauksrif skorin í tvennt
  • 2 msk góð ólífuolía
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk
  • Svartur, grófur pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Útbúið snittubrauðið.
  2. Saxið tómatana smátt.
  3. Afhýðið avocadoið og saxið það smátt.
  4. Skerið snittubrauð í sneiðar og ristið í brauðristinni.
  5. Skerið hvítlaukinn í helminga og nuddið opna endanum aðeins í brauðið (má ekki vera of sterkt hvítlauksbragð).
  6. Raðið tómötum og avocadoi ofan á sneiðarnar í hrúgu.
  7. Dreypið nokkrum dropum af ólífuolíu ofan á.
  8. Saltið og piprið eftir smekk.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að saxa ferskt basil og dreifa yfir en einnig er gott að setja þunna mozarella sneið undir tómatana.