Brauðvasar
20. maí, 2007
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu glúteinlausa brauði, þetta eru ekki bollur og ekki brauð heldur meira svona eins og vasar. Skiptir svo sem ekki máli hvað brauðið heitir því það er ofsalega gott og glúteinlaust í þokkabót! Það er lang, lang best beint úr ofninum með bráðnum osti á milli en líka getur maður gert pítubrauð úr deiginu (og haft það stærra). Einnig getur maður gert litla nestisvasa með hummus eða sultu eða bara osti! Skorpan verður hörð en brauðið er mjúkt að innan.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Brauðvasar
Gerir um 20 stykki
Innihald
- 150 g hrísmjöl (enska: rice flour)
- 150 g kartöflumjöl (enska: potato flour)
- 150 g maísmjöl (enska: mais flour eða corn flour)
- 50 g hirsimjöl (enska: millet grain)
- 0,5 msk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 2 msk vínsteinslyftiduft
- 250 ml AB mjólk, súrmjólk eða jógúrt (gæti þurft meira eða minna)
Aðferð
- Blandið saman í stóra skál hrísmjöli, kartöflumjöli, maísmjöli, hirsimjöli, vínsteinslyftidufti og salti. Gott er að nota sigti.
- Blandið AB mjólkinni saman við. Gæti þurft meira eða minna af henni.
- Hnoðið lauslega.
- Mótið kúlur, álíka og tennisbolta og fletjið gætilega út með höndunum.
- Dreifið á bökunarplötu með bökunarpappír undir.
- Bakið við 200°C í um 30-40 mínútur.
Gott að hafa í huga
- Mér finnst best að nota lífrænt framleidda hrísmjölið frá Holle sem er sniðið fyrir barnagrauta, mér finnst það mun bragðbetra en hefðbundið hrísmjöl.
- Gott er að skera brauðin nýbökuð og setja ost á milli, algjört nammi því osturinn bráðnar.
- Hægt er að nota þessi brauð sem glúteinlaus pítubrauð með því að hafa þau stærri, þynnri þ.e. fletja meira út.
- Í staðinn fyrir AB mjólk getið þið notað haframjólk, sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
- Ef þið notið ekki jógúrt, AB mjólk eða súrmjólk getið þið blandað mjólkinni sem þið notið saman við 1 msk sítrónusafa og látið standa á borðinu þangað til hún fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025