Brauð með sólblóma- og sesamfræjum

Þessi uppskrift var að mig minnir aftan á fyrsta speltpakkanum sem ég keypti. Það var ekkert auðvelt að fá spelti hérna í London fyrst eftir að við fluttum árið 2001. Við fórum alltaf inn í Soho í hjarta London, í uppáhaldsheilsubúðina okkar, Fresh and Wild (nú Whole Foods Market) og keyptum Doves Organic Spelt. Þessi búð, er snilld, og hana sækir allt fræga fólkið til að sinna sínum dyntum og sérþörfum, allt frá Madonnu til Mr. Bean!!!! Madonna vill nefnilega einhverjar ákveðið grænmeti, frá ákveðnum lífrænum ræktanda, sem er gróðursett bara þegar tunglið situr á einhverjum ákveðnum stað og bara tekið upp þegar það er búið að færast ákveðið mikið. Ég er nú ekki alveg svona sérvitur, þó sérvitur sé. Ég væri það kannski ef ég ætti svona marga peninga, he he.


Brauð með sólblóma- og sesamfræjum

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Brauð með sólblóma- og sesamfræjum

Gerir 1 brauð

Innihald

  • 375 g spelti
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 20 g hveitiklíð
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 200-300 ml sojamjólk (gæti þurft meira eða minna)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 55 g sólblómafræ (má setja annað t.d. haframjöl, hörfræ, hnetur)
  • 20 g sesamfræ

Aðferð

  1. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti, salti og hveiklíð saman í skál.
  2. Blandið saman í lítill skál, 50 ml sojamjólk og sítrónusafanum, látið standa við stofuhita í 10 mínútur eða þangað til mjólkin fer að mynda kekki.
  3. Hrærið sojamjólkinni út í stóru skálina. Þið gætið þurft meira eða minna af mjólkinni. Deigið á að vera frekar blautt en ekki þannig að dropi af sleif (en of blautt til að sé hægt að hnoða það).
  4. Bætið sólblóma- og sesamfræjunum út í skálina og veltið deiginu aðeins til (án þess að hræra).
  5. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu út í). 
  6. Bakið við 190-200°C í 50-60 mínútur eða þar til brauðið losnar aðeins frá hliðunum.
  7. Ef þið viljið harða skorpu allan hringinn þá er gott að taka brauðið úr forminu síðustu 10 mínúturnar og setja á hvolf í ofninn.

Gott að hafa í huga

  • Til að athuga hvort brauðið er tilbúið getið þið stungið hnífi í miðju þess. Ef hnífurinn kemur nánast hreinn út er brauðið tilbúið. Ef ekki má baka það í 10 mínútur í viðbót (og endurtaka þá leikinn).
  • Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
  • Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.
  • Í staðinn fyrir sólblóma- og sesamfræ má nota önnur fræ t.d. graskersfræ, hörfræ, sinnepsfræ og jafnvel hirsi eða quinoa.

Ummæli um uppskriftina

Edda Holmberg
04. maí. 2011

Þetta brauð er svoooo gott og ótrúlega einfalt að baka það :)) ég baka orðið nokkur í einu og frysti.

sigrun
04. maí. 2011

Gaman að heyra Edda (og um að gera að vera hagsýn) :)

Anna Jóna
23. des. 2015

Hæhæ.
Var að prófa þetta brauð en það var hrátt í miðjunni þrátt fyrir að ég hafi baka það í yfir 90mín við 190 gráður. Ég sleppti reyndar hveitiklíð (er með óþol fyrir því) en bætti spelti við í staðinn. Ég notaði líka möndlumjólk í staðinn fyrir soja. Einhverjar ráðleggingar?

sigrun
24. des. 2015

Sæl. Það er margt sem getur haft áhrif. Hveitiklíð dregur t.d. í sig mikinn raka, spelti þarf mismikinn vökva eftir aldri. Möndlumjólkina þekki ég ekki nógu vel. Mig grunar þó að ofninn þinn hafi verið of heitur? Sjá nánar um brauðbakstur