Blómkálssúpa
18. ágúst, 2008
Uppskrift þessi er afar einföld og um leið létt og ódýr og eiginlega það ódýr að kalla mætti súpuna Kreppusúpu. Hún er fín með haustinu þegar blómkálið og kartöflurnar láta sjá sig en buddurnar aftur á móti fara að léttast (sérstaklega hjá námsmönnunum). Hún er holl í þokkabót og seðjandi. Súpan hentar þeim sem hafa mjólkuróþol, glúteinóþol sem og þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan).
Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.
Blómkálssúpa, upplögð með haustinu
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Blómkálssúpa
Fyrir 3-4
Innihald
- 1 blómkálshaus (um 600 g fyrir snyrtingu)
- 1 laukur, afhýddur og saxaður gróft
- 2 sellerístilkar, saxaðir gróft (má sleppa)
- 1 stór blaðlaukur, snyrtur og saxaður gróft
- 1 msk kókosolía
- 110 g kartöflur, skrældar og saxaðar gróft
- 2 lárviðarlauf
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- 1,5 lítrar af vatni
- Svartur pipar
- Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Brjótið blómkálið í sprota.
- Afhýðið lauk og saxið gróft.
- Saxið sellerí og blaðlauk gróft.
- Hitið kókosolíu í stórum potti.
- Steikið lauk, sellerí og blaðlauk og bætið vatni við ef þarf.
- Snyrtið blómkálið og brjótið í sprota.
- Setjið 1,5 lítra af vatni í pottinn ásamt lárviðarlaufum og grænmetisteningum.
- Setjið kartöflur og blómkál út í pottinn og sjóðið í 5-7 mínútur.
- Látið malla þangað til allt grænmeti er orðið mjúkt.
- Kælið súpuna og blandið hana í smá skömmtum í blandara eða matvinnsluvél.
- Mér finnst mikilvægt að blanda súpuna afar, afar vel sérstaklega þegar ég nota sellerí. Áferðin á að vera mjúk en ekki gróf með þráðum úr selleríinu.
Gott að hafa í huga
- Gott er að blanda út í súpuna um 200 ml af kókosmjólk og minnka þá vatnsmagnið sem því nemur.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
22. ágú. 2011
eldaði þessa súpu áðan og hún er svakalega góð....Takk kærlega fyrir allar þessar frábæru uppskriftir á þessari síðu:)
22. ágú. 2011
Gaman að heyra og takk fyrir hrósið :)
06. sep. 2011
Frábær súpa. Bætti reyndar í hana stórum chilli pipar :)
06. sep. 2011
Sniðug að setja chilli í súpuna, hann á örugglega vel við blómkálið...takk fyrir að deila :)
03. okt. 2012
Þú ert svo mikill snillingur kona ! hef aldrei sagt þér það, en ég hef oft kíkt hér inn og allar uppskriftirnar þínar eru góðar ! Alltaf ! og hollar og spennandi og framandi og æðislegar, ættir að gefa út bók!
04. okt. 2012
Takk Sesselja, það skiptir mig máli að heyra frá notendum, og auðvitað skemmtilegt ef þeir eru ánægðir :) Það er aldrei að vita nema maður hendi í bók...... ;)