Bloggið

Miklum vetrarkulda spáð í Bretlandi

Þetta var ein af fyrirsögnunum á mbl í dag. Ennfremur:

Lækkun meðalhita um eina gráðu að vetri til getur orðið til þess að 8.000 manns láti lífið í Bretlandi einu saman, samkvæmt Sky.

Mér er ekkert skemmt sko. Ég er nú þegar búin að draga fram rafmagnshitapokann, trefla, vettlinga, þykkar peysur, teppi, hlýja sokka og ég veit ekki hvað. Það er samt bara íslenskur sumarhiti núna eða um 11-15 gráður. Það verður samt ótrúlega kalt í húsunum í Bretlandi. Þar sem við bjuggum áður var þetta verra en þar sem við búum núna. Þar var alltaf rakt og kalt og stærri íbúð líka og erfiðara að kynda. Íbúðin okkar er fljót að ná hita í sig þegar maður kveikir á ofnunum.

Ég fer sem sagt úr öskunni í eldinn í hverjum mánuði þegar ég fer til Íslands eða úr frostinu í alkulið :(

Annars er Jóhannes lentur loksins frá Boston með 200.000 lög á einhverjum hörðum diskum. Það eru ansi mörg lög sko. Vona að hann þurfi ekki að fara til Leeds á morgun, nenni ekki að vera ein heima :( Það er ágætt öðru hvoru, náði t.d. núna að vinna upp helling í vinnunni svo ég gæti verið í fríi kannski um helgina en samt, skemmtilegra að hafa Jóhannes heima.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Meiri lætin

Iss, það mætti halda að Jóhannes væri að vinna við að bjarga lífi fólks, nægur er asinn á fólkinu þarna í Boston. Það var hringt í hann og hann þurfti að koma NÚNA til Boston, hann hafði 30 mínútur til að pakka niður fötum í tösku og hlaupa út. Voða mikið emördjensí eitthvað. Held að aumingja Jóhannes hafi ekki einu sinni náð að fá sér pönnuköku sem var afgangs síðan í gær :( Maður hefði haldið að hann væri að flytja hjarta eða nýru en það var víst einhver diskur sem þurfti nauðsynlega að komast frá A-B eða eitthvað, ég náði því ekki alveg. Heyri betur í honum í kvöld vonandi. Veit ekki einu sinni hvenær hann kemur aftur :(

Svona er maður bara skilinn eftir í rykinu sko.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Amazonklúður

Ég var ekki búin að skrifa um hversu brjáluð ég er út í Amazon þessa dagana.

Áður en við fórum til Afríku pantaði ég bók handa Jóhannesi í afmælisgjöf. Ég pantaði hana með góðum fyrirvara svo hún væri örugglega komin þegar við kæmum frá Afríku. Þegar við komum svo heim, eftir afmælið hans er bókin ekki komin. Smá seinkun, allt í lagi þó svekkjandi, en ok bara eitthvað til að hlakka til fyrir Jóhannes. Eftir mánuð sendi ég bréf, alveg brjáluð á Amazon og ég hefði alveg eins getað talað við vegg. Svo ég vitni í Friends: "Your call is important to us bla bla". Ég fékk sem sagt svona "við biðjumst velvirðingar á þessari töf ......" og bókinni seinkaði sem sagt um annan mánuð. Eftir 3 mánuði fékk ég loksins staðfestinu á því að bókin fengist ekki og að þeir ætluðu ekki að leita meira að henni. ÉG.VAR.BRJÁLUÐ. Aumingja Jóhannes fékk loksins afmælisgjöf þó, eftir 3 mánaða bið (keypti bol í Dead búðinni heima) en mig langaði svo að gefa honum þessa bók sem var um "Home Roasting" þ.e. kaffibrennslu heimafyrir. Kannski ágætt að hún var ekki til, það er svo sem vitað hvernig Jóhannes er með tækjadellurnar sínar, hefðum endað uppi með kaffibrennslu í stofunni.

En já ég er sem sagt frekar pisst út í Amazon þessa dagana.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ramsgate (Rassgate)

Já við heimsóttum Svan bróður og fjölskyldu hans síðustu helgi. Það var rosa fínt og gott að komast aðeins út úr bænum, maður gerir allt of lítið af því. Við tókum rútuna og mér finnst það alltaf voða fínt, að geta glápt út um gluggann. Svanur sem sagt býr í Ramsgate (eða í Cliftonville sem er nálægt Ramsgate) og er bærinn sem sagt á Suður-Englandi, eiginlega í Rassgati (Ramsgate=Rassgate). Ramsgate er fyndinn, gamall bær sem lifir á fornri frægð og hvergi held ég að sé eins mikið af hjónum í samstæðum krumpugöllum, bingói, hárspreyi og "með sítt að aftan" klippingar. Bærinn sjálfur er fallegur og stendur við eina fallegastu höfn í Englandi. Höfnin sjálf er eina konunglega höfnin í Englandi og var sérlega mikilvæg í stríðinu. Það var æðislegt að sjá sjóinn, ég gæti keyrt í marga klukkutíma bara til að sjá sjó.

Mynd af höfninni í Ramsgate
(Ég tók reyndar ekki myndina sjálf, smá svindl).

Já það er nauðsynlegt að heimsækja fjölskylduna og það voru allir hressir og strákarnir Þorsteinn (2ja ára) og Óðinn (að verða 5 ára), í fullu fjöri. Þeir eru voða skemmtilegir strákar. Við höfðum ekki séð Þorstein áður sem er auðvitað fáránlegt þar sem við búum jú í sama landi. Svona er þetta, alltaf allt á fullu. Jóhannes sagði við mig á leiðinni heim í rútunni: "Við höfum ekki komið nálægt tölvuskjá í sólarhring". Þetta lýsir okkur best held ég :( sem er auðvitað sorglegt. Batnandi manni er þó best að lifa.

Við fengum ægilega gott að borða hjá Svani, hann grillaði íslenskan humar sem að rann ljúflega niður og svo gerði Lucy besta grænmetisrétt sem ég hef smakkað mjög lengi. Hann heitir Kitheri og þar sem Lucy er frá Kenya þá átti hún ekki langt að sækja hæfileikann til að búa til þennan rétt sem ég smakkaði fyrst í Afríku. Nammi namm. Ég man þá að ég yrði að fá uppskriftina að þessum rétti en það varð einhvern veginn aldrei úr því. Nú er ég búin að bæta úr því og uppskriftin verður birt fljótlega á CafeSigrun að sjálfsögðu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kaffihár

Ég er með kaffi í hárinu mínu. Ég er ein af þeim sem tekst að hella niður á mig á ólíklegustu staði við ólíklegustu tækifæri og fá á mig matarslettur án þess að vera einu sinni í nálægð við mat eða drykk. Þetta er rosa mikill hæfileiki. Ég náði sem sagt einhvern veginn að dýfa hárinu mínu ofan í espresso bollann hans Jóhannesar í morgun (bollinn er mjög lítill sko) og ég náði líka í framhaldinu að sletta á mig. Jóhannes segir að þetta sé rosa góð hárnæring, er ekki viss, hárið er grjóthart.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Læknavaktin

Jæja þá kom að því að ég fór í þetta blessaða viðtal við lækninn. Það gekk nú stórslysalaust fyrir sig, fyrir utan biðina sem var glötuð. Æi get nú svo sem ekki kvartað, ágætt að fá tíma fyrir hugsanir sína og svoleiðis. Já ég mætti, og var send niður og beint í röntgen þar sem ég fór að hugsa um, eina ferðina enn AFHVERJU er ekki tónlist eða sjónvarp á svona stöðum, afhverju gera þessar stofnanir þetta þannig að maður þarf að hlusta á hvert hóst, hvert fótatak, hverja manneskju sem kemur inn og talar við afgreiðsluna, það er SVO glatað að pína fólk til að vera í þögn. Og svona óþægilegri þögn líka eins og er á svona stöðum. Þetta er glænýr spítali, það vantar ekki en svo stofnanaleg að það hálfa væri nóg. Til dæmis stendur á öllum herbergjum til að skipta um föt í "cubicle" í staðinn fyrir "changing room". Hefði nú verið aðeins hlýlegra. Annað dæmi var að konan í afgreiðslunni sagði við mann í hjólastól "Já fáðu þér bara sæti og bíddu eftir að röðin komi að þér". Hann sagði "Ég SIT þakka þér fyrir og hef gert síðustu 20 árin". Konan varð eins og kleina í framan.

Já þarna beið ég í klukkutíma, var svo kölluð upp ásamt 3 öðrum og við vorum teymd (frekar glatað sko að vera leidd í hóp eitthvert, dáldið niðurlægjandi svo ekki sé meira sagt) og þar beið ég í 15 mínútur. Því næst vorum við leidd í annað herbergi þar sem við biðum í aðrar 10 mínútur. Loksins var svo komið að mér og hnéð var myndað í bak og fyrir. Hvernig er það, á maður ekki að hafa blýsvuntur á sér og svona? Ég hef nú farið í svona 8 þúsund röntgenmyndatökur á síðustu árum. Hmm allavega var ekkert svoleiðis í gangi.

Ég fór því næst upp aftur og beið í aðrar 10 mínútur og loksins var komið að mér. Þar tók á móti mér ungur læknir með "grúví" hár sem er ekki beint traustvekjandi. Hann sleppti því að bera fram eftirnafnið mitt eins og allir aðrir hér í Breltandi en það er ekkert traustvekjandi þegar læknir gera það. Sleppti hann því að læra öll læknisheitin kannski líka fyrst hann gafst upp á þessu? En já hann meiddi mig helling fram og til baka, sneri upp á fótinn, lamdi í hann, beyglaði hann o.s.frv. Honum þótti mikið til geisladisksins með MRI myndunum koma sem og þýðingunni sem ég var með á niðurstöðunum sem Ragnar kunningi okkar (læknir) reddaði mér. Nema ég þurfti að hjálpa honum að opna myndirnar á tölvunni því hann kunni ekki alveg á þetta allt saman. Aftur ekkert mjög traustvekjandi.

En já niðurstaðan var sem sagt sú að ég þarf þessa blessuð aðgerð víst, það þarf að svæfa mig, bora í hnéð á 2 stöðum og reyna að laga rifuna sem er í liðþófanum. Þar sem rifan er flókin og er á versta stað víst (bak við hné), það þarf kannski að fjarlægja helling af honum. Svo á eftir að koma í ljós hvort að eru fleiri skemmdir. Þetta verður sem sagt gert á næstu 6 vikum víst þannig að ég verð eitthvað haltrandi um jólin. Það versta er samt að það er ekki líklegt að ég verði nokkurn tímann góð í hnénu þar sem rifan er slæm og erfitt að laga hana. Það gæti batnað töluvert samt en lagast sennilega aldrei og ég mun alltaf finna til sagði læknababyið. EEEEEEEEEEENNNNNN ég ætla ekki að kvarta yfir því, aldeilis ekki, þetta gæti verið svo miklu, miklu, miklu verra. Þetta er ekkert sem ekki er hægt að lifa með, ég hef báðar fæturna, allar tærnar og aðra útlimi svo ég er þakklát fyrir það. Engan aumingjaskap. Hef svo sem kjálka-, 3 x handleggs-, mjaðma-, fót-, putta-, tá-, viðbeinsbrotnað svo ég er alveg ágætlega búin undir sársauka. Bara "give it to me sko" :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Tif í klukkum

Ég er óttalega næm á umhverfishljóð. Svo næm reyndar að ég nem hátíðni í t.d. keðjum og smápeningum sem ég á ekki einu sinni að nema. Einu sinni var ég í heyrnarmælingum í gagnfræðiskóla og hjúkrunarkonan þurfti að kalla til lækni því ég "heyrði of vel" og hún hélt að tækin væru biluð. Þau margprófuðu mig og niðurstaðan var sú að ég er með of næma heyrn. Já annar gagnslaus hæfileiki sem sagt (svona eins og að gleyma aldrei andlitum). Sama á við um sjón, ég er með svokallaða PV sjón (Perfect Vision), vottaða af augnlækni og sé fleiri liti en aðrir t.d. (ástæðan fyrir margs konar rökræðum við Jóhannes varðandi hvort eitthvað sé blátt, sæblátt, kóngablátt, grænblátt, gráblátt, með hlýjum appelsínugulum tón í, köldum gráum, svörtum undirtónum o.s.frv.). Jóhannes kallar allt blátt, blátt. Hann er svo sem strákur, honum fyrirgefst það.

Já en sem sagt, ég er svona dáldið einhverf þegar kemur að umhverfishljóðum (og mörgu öðru reyndar líka). Man að þegar ég var í barnasálfræðikúrsunum og öðrum kúrsum, þegar við vorum að fara yfir einhverfu og Aspergers heilkenni að ég hugsaði "já einmitt, svona er ég, akkúrat þetta á við mig líka" en það sem sat mest í mér voru þessi umhverfishljóð. Ég get verið að ærast yfir bremsum í breskum leigubíl eða strætó á meðan aðrir heyra þau ekki einu sinni. Ég fæ illt í eyrun og það sker í gegnum hausinn þangað til það verkjar eins og hausverkur.

Allavega, my point, það er búið að setja klukkur fyrir aftan mig í vinnunni hérna úti, 4 klukkur sem sýna tímann í þeim heimsálfum sem fyrirtækið er með skrifstofur í (fyndið að hugsa til þess að við vorum bara 5 starfsmenn þegar ég byrjaði fyrir 2 árum). Þeir sem þekkja mig vita að ég hata tif í klukkum, ég get ekki haft klukkur á náttborði og er þess vegna með símann minn bara. Þó að það sé engin hátíðni þá er það samt svo mikill hávaði. Skil vel að Andrés Önd hafi skilað Flottaláknum hér í den því það "heyrðist of hátt í klukkunni" eða var það Jóakim aðalönd. Já svo finnst mér óþarfi að minna mig á, á sekúndu fresti (með 4 klukkum svo það þýðir 4 tif fyrir hverja sekúndu) hvað lífið hleypur hratt fram hjá á meðan ég sit fyrir framan tölvuna.

Anyway, ég ætla að halda áfram að hlusta á ipodinn minn svo ég þurfi ekki að "hlusta á hvað ég verð gömul í dag".

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ctrl + nörd

Ég eyði of miklum tíma fyrir framan tölvuskjá, held að það sé á hreinu. Eruð þið aldrei þannig að þegar þið hellið úr glasi í gólfið (sem gerist nú ekki sjaldan hjá mér) að þið ætlið að gera "ctrl+ z" (fyrir þá sem ekki vita þá getur maður notað þessa 2 hnappa á lyklaborðinu samtímis til að breyta því sem maður gerði vitlaust), eða "undo"?

Eða ef einhver segir ykkur t.d. símanúmer að ykkur langi að gera "ctrl + s" (vista) svona í huganum. Hugsið þið aldrei þegar þið eruð t.d. í búð að skoða segjum bara eitthvað blað að ykkur langar að gera "ctrl + c" (afrita)?

Það sem ég er samt mest pirruð yfir að geta ekki þó er að geta ekki gert "ctrl + f" (leita) þegar ég týni lyklum í íbúðinni eða einhverju öðru.

Er ég ein um þetta eða eru fleiri svona? Kannski að ég þurfi hjálp :(

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Misheppnaða froðan

Já ég er sem sagt komin í hlýjuna aftur, í London. Við vorum á röltinu í gær í 20 stiga hita (það var 0 stiga hiti þegar ég fór frá Íslandi á laugardagsmorgun).

Pabbi keyrði mig á flugvöllinn (Takk fyrir farið pabbi) og það er hiti í sætunum á jeppanum þeirra, mmmmm. Ég skil ekkert í því að hanna bíla sem hafa EKKI hita í sætum. Það er bara fáránlegt. Allavega það var hellingsröð á flugvellinum og ég fer aldrei aftur í morgunflug, það er allt of mikið af fólki alls staðar. Miklu þægilegra að fljúga á kvöldin sko. Ég tékkaði mig inn og allt í góðu, hafði tíma fyrir kaffibolla á Kaffitár. Ég veit að ég er rosa hrifin af Kaffitári og er óspör við að hrósa þeim en almáttugur Kaffitár á Flugstöð Leifs Eiríkssonar þarf að fara í endurskoðun. Ég flýg í hverjum mánuði og fæ því ansi góðan samanburð milli Bankastrætis og Leifs og samanburðurinn er ansi slappur. Eins frábær og bollinn getur verið í Bankastræti eða í Kringlunni þá getur hann verið afleitur í flugstöðinni. Ég pantaði mér einn mildan koffeinlausan Da vinci (latte) með 1/2 skammti af Irish Cream. Samtalið við stúlkuna var svona

"Einn mildir koffeinlaus Da Vinci með Irish Cream gjörðu svo vel" -Já takk heyrðu geturðu bætt við smá froðu ofan á kaffið (það var ENGIN FROÐA) Snúðugt svaraði stúlkan "það gæti nú verið erfitt svona eftir á" -Já en það á nú reyndar að vera froða á latteinu "Nei það á ekki að vera á latte" -Öööö jú það á nú reyndar að vera froða "Nei okkur er kennt sérstaklega að eigi ekki að vera froða" -Hvernig er þá "latte art" búið til í latteið? "Latte hvað?"

(Hér var ég orðin nett pirruð og athugið að ég rífst ALDREI í afgreiðslufólki, hef sjálf unnið við afgreiðslu í búð og þoli ekki leiðinlega viðskiptavini og hvað þá besservissa) -Það þarf að flóa mjólkina rétt svo úr verði "microfroða" og loftbólurnar gera þér kleift að búa til mynstur í froðunni, t.d. hjörtu "Okkur er sérstaklega kennt að gera það ekki" (hér var hún reyndar farin að tauta eitthvað óskiljanlegt)

Ég var MJÖÖÖÖG pirruð.

En jæja ég hitti engan sem fékk hálsríg eftir mig í þetta skiptið. Ég gleymdi meira að segja að fá einhverja bók að lesa hjá Smára og Önnu Stínu og það eina sem ég hafði mér til dundurs var að pota í kartöflurnar í grænmetisréttinum í flugvélinni (held þetta hafi verið kartafla er samt ekki viss) og horfa á olíuna úr henni spýtast í allar áttir.

Tíðindalaust sem sagt

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Shri Thai

Fórum í gær á frábæran thaílenskan stað í gær. Hann heitir Shri Thai og er á Old Compton Street í Soho í London. Mæli eindregið með honum. Hann er margverðlaunaður, mjög huggulegur og ekki svona leiðinlegur túristastaður (með bréfdúkum,. "hreyfifossamynd" og hvítum baststólum og bleikum blómum á borðinu). Þetta er alvöru Thailenskur staður (við höfum prófað þó nokkuð marga) og maturinn var frábær, ekki dýr og þjónustan var góð. Farið endilega á hann ef þið eruð í London og ef þið eruð hrifin af thailenskum mat. Eigandi staðarins er æði. Það er klæð-/kynskiptingur (karl yfir í konu) sem er með brjóst og rass og í háhæluðum skóm og pilsi, með sítt, svart hár og perlufesti (dáldið svona eins og þið gætuð ímyndað ykkur thailenska útgáfu af Hillary Clinton). Nema þegar hann/hún kom að taka diskana okkar þá drundi þessi dimma rödd yfir og ég sá framan í hann/hana og þetta var aldeilis ekki kona. Það var reyndar bráðfyndið að horfa á hann/hana labba á háu hælununum sínum því það var dálítið eins og að ímynda sér Arnold Swarsenegger kannski á háum hælum, dáldið klaufskur og grófur.

Mæli eindregið með þessum stað

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It