Bloggið

Flóran

Við vorum að tala um í vinnunni hversu einsleitir Íslendingar hljóti að vera þar sem við séum svona fá og afskekkt (fólk fattar ekki að það séu 4-6 flug á dag milli London og Íslands). Mestar áhyggjur hefur þó fólk af því að við séum skyldleikaræktuð og að við eigum bara eina "allsherjar Íslandsmóður" og einn "allsherjar Íslandspabba". Flestir sem ég þekki hér telja að það hljóti bara að vera eitthvað svoleiðis í gangi og að allir hljóti að líkjast öllum. Þeim finnst ekki meika sens að Eiður Smári og Björk skuli vera frá sama landinu. Það er annars aldeilis flóra af fólki sem vinnur með mér: Ég er að vinna með Bretum, Indverja, Kínverja (Singapore), Suður-Afríkubúum, Ameríkana, Brasilíubúa, Frökkum, Ísraelum og svo er ég auðvitað íslensk. Þetta er því orðinn ansi mikill suðupottur og soldið svona eins og að vera í Benetton auglýsingu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Lukka smukka

Er dáldið fúl, hef ekki orðið vör við neina sérstaka lukku síðustu daga. Hef ekki unnið í lottói eða happdrætti (ok ekki tekið þátt heldur, svo það er pínu mér að kenna). Hef heldur ekki fengið tilkynningu um að mín bíði milljónir sem einhver ótrúlega fjarskyldur ættingi skildi eftir sig. Reyndar er ég skyld Bill Gates í einhverjum ættlið svo það má alltaf vona sko. Ég hef ekki þorað að henda lukkupeningnum úr vasanum, sérstaklega ekki í dag. Í dag er nefnilega föstudagurinn þrettándi!!! Er ekki hjátrúarfull, trúi ekki á neitt svoleiðis. Það var bara eitthvað við svipinn í stráknum, hvernig hann horfði beint í augun á mér (Bretar gera það yfirleitt ekki) og hvernig hann tók í höndina á mér. Sagði hann kannski "æ lov jú" og ég misskildi það ha ha :) nei held ekki.

Fór reyndar að spá í að kannski er ég búin að vera rosa heppin án þess að taka eftir því. Kannski var ég næstum orðin fyrir bíl án þess að taka eftir því. Kannski var einhver hlutur næstum því dottinn ofan á mig án þess að ég vissi það. Kannski ætlaði einhver að ræna mig en hætti við án þess að ég tæki eftir því. Ég er heppin að hafa heilsuna, eiga góða að, góða vini! Kannski er lukkupeningurinn minn bara til að tryggja að það verði svoleiðis áfram!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Lukkupeningurinn

Ég var sko í búðinni í hádeginu, í Tesco. Ég var að setja smápening í veskið mitt þegar 1 penní (ein króna) datt í gólfið. Af því að ég er svo "rík" (eða aðallega af því það er vont að beygja hnéð) þá ákvað ég (sparsamasta manneskja í heimi svona yfirleitt allavega) að taka ekki peninginn upp (ég gef alltaf brúnu peningina (krónurnar) hvort eð er til þeirra sem þurfa meira á honum að halda en ég). Þegar ég var að labba út þá kemur ungur, myndarlegur maður hlaupandi á eftir mér og tekur í hægri lófann á mér. Hann horfði beint í augun á mér og sagði: "Þetta er lukkupeningurinn þinn.....þú VERÐUR að passa hann því hann á eftir að færa þér mikla lukku". Hmmmmmm. Ég labbaði á Starbucks, keypti mér kaffi og labbaði svo í vinnuna. Varð ekki vör við neina sérstaka lukku sko. Fékk reyndar kaffiprufu á Starbucks og fann þroskaða banana í sjoppunni sem mig vantaði en tel það enga mjög sérstaka lukku :(Vogaði mér ekki að taka peninginn úr vasanum svo hann er þar enn þá, bíður bara eftir að geta fært mér rosalega lukku. Ég verð brjáluð ef strákurinn hefur verið að ljúga að mér. Hefði samt verið áhrifameira ef þetta hefði verði gömul, hrukkót, kínversk kona með pírð augu :( Æi geymi hann í nokkra daga allavega. Hefði annars mátt koma gerast FYRIR innbrotið sko, hefði verið allt í lagi.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Íssamkeppni

Ísinn flotti sem Jónsi gerði

Já gleymdi að segja ykkur að ég er komin í rosa samkeppni í ísgerð og eldun á hollum mat :) Þannig er mál með vexti að Jónsi og Auðun vinir okkar Jóhannesar eru á fullu í að búa til góðan og hollan mat þessa dagana og m.a. fjárfestu þeir í ísvél og fengu uppskrift af hollum ís. Til að gera langa sögu stutta þá er Jónsi búinn að vera sveittur í eldhúsinu og m.a. sprengja ofninn hjá sér (brann yfir á gulrótarkökunni...sko ofninn....ekki Jónsi) en ísinn heppnaðist víst rosalega vel. Hér er mynd af ísnum fyrir svanga og slóð á ísuppskriftina. Ísinn fíni sem Jónsi gerði og tók mynd af

Hann er rosa góður og nú langar mig í ísvél svo ég geti búið til svona fínar ískúlur :( Er rosa abbó.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Langt um liðið

Uss uss hvað er langt síðan ég bloggaði.

Það hefur nú ekki mikið markvert gerst svo sem í rigningunni. Það er búið að rigna á hverjum degi síðan við komum. Hmmm ætli sé ekki beint samband við 30% jeppaumferð um Laugaveginn (sko Laugaveginn í Reykjavík). Held það nú, þetta eru bara gróðurhúsáhrifin sko.

Ég er búin að vera svo utan við mig síðustu daga að það hálfa væri nóg. Ég er búin að vera að dæla í mig verkjalyfjum (sem ég geri annars sjaldan) út af hnénu (sem er annars allt í lagi nema stundum er það vont). Í fyrsta lagi þá var ég að hjálpa Sigrúnu vinkonu minni við að skrifa á borðkort (miða til að setja á borð) með nöfnum brúðargestanna. Ég skrifaði 22 vitlaus nöfn! (Áttaði mig reyndar á því áður en ég var búin að skila af mér), annars hefði sætaskipan orðið ansi fyndin held ég, allir að giska á sitt nafn.

Svo vorum við í sumarbústað með Borgari bróður og Elínu og þar gat ég ekki munað lengur en 2 mínútur hvað trompið var í spilinu sem við vorum að spila. Það lak allt út úr hausnum á mér og ég skíttapaði auðvitað. Ég þoli ekki að tapa.

Í gær var ég á fundi úti í bæ og var að labba með samstarfskonu minni út í bíl eftir fundinn. Mér sýndist hún taka upp lyklana að bílnum til að opna hann og í sömu mund blikkuðu ljós á bíl rétt hjá okkur. Ég labbaði að bílnum, opnaði hurðina og settist inn. Mundi samt ekkert eftir brauðpokanum sem var í framsætinu, var eiginlega viss um að hann hefði ekkert verið þarna áður. Þegar ég var í þessum pælingum (tók nú ekki nema 2 sekúndur) þá heyri ég "Hvaaa, hhvuuu, hveeer ERT ÞÚ??????????" Þetta var einhver eldgömul kona sem var ekkert lík samstarfskonunni minni! Ég var eins og asni og sagði "Ég heiti Sigrún" áður en ég rauk út úr bílnum, eldrauð í framan. Samstarfskona mín var þá komin að sínum bíl og fannst skrýtið að ég hefði týnst á ekki lengri leið. Svona er ég utan við mig he he.

Við erum annars búin að hafa það rosalega gott á Íslandi. Íbúðin sem við vorum í á Skólavörðustíg er frábær, kaffið sem við fengum á hverjum morgni í Kaffitár hefur verið brilliant. Ragga yfirleitt við stjórntækin þar. Við trítluðum á hverjum morgni af Skólavörðustíg með stírurnar í augunum, beint inn á Kaffitár þar sem ég fékk mér latte og Jóhannes espresso. Jóhannes var meira en sáttur við espressoinn sem hefur verið að koma úr vélunum þeirra enda afar góðir bollar frá Röggu.

Svo erum við búin að fá marga góða gesti í heimsókn, vorum með kökuboð í gær þar sem Jónsi og Auðun vinir okkar mættu og við borðuðum á okkur gat og höfðum það gott. Svo erum við búin að fá Sigrúnu (tengdó) og Þorvald, mömmu og pabba, Auðun, Elvu og Óla og fleiri. Voða fínt. Það er svo mikill munur að geta verið út af fyrir sig en ekki inni á öðrum í jólafríinu. Þó að fari vel um mann hjá öðrum þá getur maður kannski ekki boðið fólki í kaffi svona þegar manni sýnist. Eini gallinn við íbúðina er að hún er ekki nettengd en ég kemst þó alltaf í Netið í vinnunni sem er stutt frá. Svo er kannski ágætt að ég sé ekki að vinna heima á kvöldin, svona einu sinni (þýðir reyndar að ég verð lengur í vinnunni í staðinn :)

Það er nauðsynlegt að geta eldað mat og svoleiðis, verð crazy ef ég get ekki gert það í langan tíma. Við erum búin að elda fullt, þó að ofninn sé nú ekki til að hrópa húrra yfir. Á aðfangadag vorum við með aspassúpu og marineraðar nautalundir í forrétt. Í aðalrétt vorum við með hnetusteik, reyktan kalkún og meðlæti eins og sósu (úr soðinu), sætar kartöflur í ofni, kartöflumús með sólþurrkuðum tómötum, salat o.fl. Í eftirrétt vorum við með heimatilbúinn ís og konfekt (allt hollt að sjálfssögðu).

Af okkur er það annars að frétta að Jóhannes er að fara á Mt. Kenya í ferð með Elínu mágkonu (Mt.Kenya ferðin á www.afrika.is)

Ég fer víst lítið á fjöll núna en það er gott fyrir Jóhannes að skella sér, hann hefur gott af því strákurinn. Svo erum við að fara til Mombasa í Apríl og verðum þar í rúma viku. Það verður nóg að gera hjá okkur sem sagt.

Jæja það er best að byrja daginn. Við förum svo út til London á morgun svo það er síðasti séns fyrir kaffi ef einhver hefur áhuga á að hitta mig/okkur :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gleðileg Jól

Halló allir. Gleðilega hátíð og takk fyrir allar góðu kveðjurnar til CafeSigrun á árinu. Já takk fyrir öll kommentin líka. Það er alltaf gaman að fá jákvæð viðbrögð og allar ábendingar eru alltaf vel þegnar. Haldið áfram að senda þær inn!!!

Það sem er væntanlegt fyrir árið 2006 er að ég stefni að því að setja inn fleiri myndir á vefinn, þegar ég er búin að kaupa nýja myndavél :( og auðvitað gera fleiri hollar uppskriftir. Svo ætlum við að reyna að gera einhvers konar leitarvirkni fyrir vefinn svo auðveldara sé að leita eftir ákveðnu innihaldi, löndum o.fl. Það kostar þó allt tíma og peninga og við erum alltaf svo upptekin að ég veit hreinlega ekki hvenær við munum hafa tíma. Við ætlum samt að reyna! Væri gaman að heyra hvort ykkur finnist vanta einhverja virkni, hvort eitthvað megi missa sín, hvað má gera betur, hvað er ekki nógu gott o.s.frv.

Erum annars bara búin að borða á okkur gat (af hollum mat að sjálfsögðu). Ég reiknaði lauslega að í jólamatnum sem samanstóð af 2 forréttum, 3 aðalréttum, 6 tegundum af alls konar meðlæti og 2 eftirréttum þá sparaði ég 4500 hitaeiningar og 300 grömm af fitu með því að gera hollari útgáfur af alls kyns mat!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Snjóleysi

Jæja langt síðan ég bloggaði síðast. Ekki mikið að frétta svo sem. Erum sem sagt komin á klakann sem ber nú aldeilis ekki nafn með rentu þessa dagana. Hvar er snjórinn eiginlega? Afhverju er rigning? Ætla rétt að vona að snjói allavega á Þorláksmessu.

Verðum með opið hús á Skólavörðustíg þar sem við bjóðum upp á óáfengt jólaglögg, smákökur, (heilsukökur og hinsegin líka), heitt súkkulaði, kaffi, te o.s.frv. Endilega kíkið og hlýið ykkur :) Það er gengið inn bakdyramegin. Sendið mér póst ef hringið í mig ef þið viljið nánari leiðbeiningar.

Við erum búin að kaupa jólamatinn, búin að pakka inn nánast öllum jólagjöfunum þannig að jólin mega fara að koma bara :) Erum reyndar að vinna eins og psychopatar en það er allt í lagi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Supergirl

Samkvæmt þessu prófi þá er ég 83% Supergirl og 83% Wonderwoman. Áhyggjuefnið er samt að ég er 80% Hulk en Jóhannes var bara 70% Hulk. Kannski eru þetta áhrifin úr æsku þ.e. áhorf á Hulk og Wonderwoman sjónvarpsþætti sem spila inn í. Ég átti WonderWoman búning þegar ég var lítil.
Your results:You are SupergirlSupergirl 83%Wonder Woman 83%Hulk 80%Superman 75%Green Lantern 75%Catwoman 75%Spider-Man 65%The Flash 65%Robin 60%Batman 45%Iron Man 45%Lean, muscular and feminine. Honest and a defender of the innocent.Supergirl ofurhetjaClick here to take the "Which Superhero are you?" quiz...  
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Nr. 100

Veiiii eitt hundraðisti notandinn skráði sig á póstlistann minn í gær, vei vei vei. Til hamingju. Vildi að ég gæti boðið upp á ókeypis ferð til New York, svona gúrmet ferð en ég býð upp á hana í huganum með öllu tilheyrandi, fyrir 2, ímyndað 5 stjörnu hótel, ímyndaðan kvöldverð á einhverju æðislegu veitingahúsi og 100 þúsund fyrir hvorn til að eyða. Það vill svo til að ég veit hver notandinn er, í þessu tilviki Jónsi vinur hans Jóhannesar (það eru samt ekki bara vinir og kunningjar sem skrá sig sko, ekki halda það) :)

Þegar 10 þúsundasti notandinn skráir sig þá get ég sennilega boðið upp á alvöru ferð.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Balletsmiður og mígreni

Já dagarnir hafa verið svolítið viðburðarríkir síðustu vikuna, ekki hægt að segja annað. Ég er óðum að jafna mig eftir aðgerðina og hnéð bara pínu bólgið og ég get ekki alveg rétt úr því en ekkert til að grenja yfir. Get farið að labba um fljótlega. Ég ætlaði heldur betur að slappa af hérna á sunnudeginum, liggja upp í sófa og láta dekra við mig. Það varð aldeilis ekki svo. Reyndar dekraði Jóhannes við mig eins og hann gerir nú alltaf en ég man óljóst eftir því þar sem ég fékk versta mígreni sem ég hef á ævinni fengið. Ég hef ekki fengið mígreni í 10 ár en þau söfnuðust öll saman í þessu einu. Eftir að ég var búin að liggja rænulaus upp í sófa í nokkra klukkutíma, ákvað Jóhannes að hringja á lækni og hann sagði okkur að eitt verkjalyfið sem ég væri að taka inn (eitthvað rosa sterkt kodein) gæti framkallað mígreni hjá fólki sem hefði fengið mígreni áður. Díses kræst. Hef oft fengið þau slæm köstin hér í den, legið í á hesthúsgólfi, í hlöðum og á klósettum hér og þar út í bæ en aldrei, aldrei hef ég fengið svona slæmt mígreni eins og síðasta sunnudag. Ég kastaði upp þegar ég hafði rænu og svo lá ég bara þess á milli án þess að geta hreyft mig. Ég fékk sem sagt seinna einhverjar ógleðitöflur og svo lyf við mígreninu og það lagaðist að lokum seint um kvöldið. Mígreni fyrir þá sem ekki þekkja er allt, allt annað en hausverkur eða venjulegur verkur. Ég hef verið mjaðmabrotin og ég hef kjálka- og viðbeinsbrotnað (í einu) og brotnað á mörgum fleiri stöðum ásamt því að togna og rífa liðþófa og ýmislegt fleira og það er leikur einn miðað við mígreni. Það hjálpaði heldur ekki að á sunnudaginn var verið að setja inn nýja hurð og það var verið að fræsa, negla, saga, hefla o.s.frv. EKKI það besta þegar maður er með mígreni. Aumingja smiðurinn hefur haldið að ég væri eitthvað mikið veik þegar ég skakklappaðist náföl, skjálfandi, með lokuð augun og ruddi öllu dótinu hans frá til að komast í klósettskálina til að gubba. Hann reyndar vissi um hvað málið snérist. Held honum hafi samt ekki litist á blikuna.

Hann er annars fyndinn smiður. Hann er fyrrverandi balletdansari sem hefur átt kærustur í hverri höfn, m.a. norska, danska, ítalska og japanska (núverandi). Hann talar stanslaust og er með skoðanir á öllu, samt ekki svona eins og venjulegir iðnaðarmenn hér sem maður skilur ekki vegna lélegrar ensku (eru latir við að bera fram orð) en þessi talar voða fína ensku, svona eins og Kalli Bretaprins. Var að spá í að biðja hann og Jóhannes um að taka númer fyrir mig á meðan ég lá upp í sófa, svona mér til skemmtunar.

Ég er komin með nýja fartölvu, alveg eins og þá sem ég átti (maður þorir varla að segja frá því ef einhver er að fylgjast með manni, maður treystir engu né engum) þannig að ég get a.m.k. skoðað póst og unnið pínulítið. Er bara glatað að vera ein heima, sérstaklega af því eins og áðan þá kom maður að lesa af rafmagninu og hann hefur haldið að ég væri með geðklofaeinkenni. Ég rétt opnaði rifu (með keðjuna fyrir) og bað hann um að sýna mér skilríkin og pappíra. Það lá við að ég hefði beðið hann um að berhátta sig fyrir utan hurðina til að sýna fram á hver hann væri og svoleiðis. Er dáldið paranoid sko.

Já er búin að fá fullt af jólalögum inn á tölvuna mína. Það er eitt að vera brotist inn til, vera nýbúin í aðgerð og svona en að eiga engin jólalög er bara skandall. Takk Hrund fyrir að redda okkur með jólalögin.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It