Bloggið
Tölva á leið á eftirlaun
- Fyrir bílasala að keyra um á ryðguðum Trabant.
- Fyrir atvinnu hestamann að keppa á truntu.
- Fyrir kokk að borða mat upp úr niðursuðudós.
- Fyrir listamann að mála eftir númerum myndflötum.
- Fyrir ljósmyndara að kaupa innrammaða ljósmynd í IKEA.
- Fyrir kaffiræktanda að drekka Nescafe.
Sem sagt…tölvan mín er að gefa upp öndina. Hún er á síðustu metrunum… Ég hef átt hana síðan í desember 2005, eftir innbrotið fræga í London. Hún er búin að fylgja mér í griljón ferðir á milli London og Íslands. Hún er búin að detta í gólfið hundrað sinnum, ég er búin að hella kaffi, djús, vatni, mjólk, smoothie o.fl. yfir hana, ég er búin að missa mat ofan á hana á hverjum degi (ég þríf það jafnóðum auðvitað). Tölvan er búin að fylgja mér á alla fundi vegna vinnunnar og hún er búin að vera mér ómissandi vegna CafeSigrun. Ég reiknaði lauslega að miðað við 4 tíma á dag sem kveikt er á henni að meðaltali (stundum er ég að vinna á tölvunni í vinnunni)…síðustu 5 árin, hefur verið kveikt á henni tæplega 8000 klukkustundir. Rafhlaðan endist enn í a.m.k. 2 tíma, skjárinn er sem nýr og algjörlega brilliant (meira að segja í dag), hátalararnir eru ok, geisladrifið er líka ok. En hún er orðin lúin. Verulega lúin og það er tími til kominn að ég fari að huga að því að hún fari á eftirlaun. Sem dæmi um hversu lúin hún er orðin:
- Ég kveiki á henni þegar ég fer fram úr á morgnana svo hún sé tilbúin þegar ég er búin að borða morgunmat.
- Hún frýs ef ég starta forritum of harkalega.
- Ég get aðeins haft 2-3 forrit opin í einu.
- Vegna vinnu minnar er ég oft með 7-8 forrit opin og að vinna í þeim öllum á sama tíma. Ég þarf því að velja þau forrit sem eru mikilvægust hverju sinni.
- Þegar líða tekur á daginn, hægir svo mikið á tölvunni að ég get aðeins notað eitt forrit.
- YouTube, Facebook, Mbl o.fl. er aðeins hægtað nota samkvæmt samkomulagi.
- Reglulega fæ ég Blue Screen of Death þegar ég slekk á tölvunni (blár skjár með hvítum stöfum sem mann langar aldrei að sjá).
- Oft slökknar ekki á henni yfir höfuð og maður þarf að beita brögðum.
- Til að venja dótturina við væntanlegar flugferðir er gott að setja hana fyrir framan tölvuna…því tölvaner svo hávær. Hún er svo hávær að þegar slökkt er á henni verður ærandi þögn (þrátt fyrir að það sé tónlist í gangi).
- Gott er að setja eitthvað sem á að bráðna (t.d. ost á brauði) við hliðina á viftunni, hann bráðnar á skömmum tíma.
- Að sama skapi er ekki gott að skilja neitt eftir sem ekki má bráðna við hliðina á viftunni (t.d. súkkulaði), því það bráðnar á augabragði.
- Ef manni er kalt er gott að sitja með tölvuna í fanginu því hún heldur á manni hita.
- Stafirnir u-i-k-l-m-v-n eru allir horfnir af lyklaborðinu (prentið máð af - sjá myndir). Það eru holur í sumum hnöppunum á lyklaborðinu.
- Sumir hnapparnir eru lausir og alveg að detta af.
- Hún gengur undir gælunafninu Þyrlan.
[caption id="attachment_1531" align="aligncenter" width="400" caption="Lyklaborð (takið eftir holunum....U-I-K-L-N-V og M vantar)"][/caption]
[caption id="attachment_1532" align="aligncenter" width="400" caption="Önnur mynd af lyklaborði (holur í E-R-T-G- og A)"][/caption]
Fyrir forvitna (nördana) er þetta HP Pavilion zv6000….algjörlega og fullkomlega ódrepandi. Ég þori ekki að lýsa spekkunum (tæknilegu smáatriðunum) því þeir sem þekkja til tölvumála myndi leggjast í gólfið í hláturskasti.
Innantóm hollusta
Ég fór að velta því fyrir mér um daginn hvort hægt væri að lögvernda heitið "hollusta"? Ég er nefnilega orðin endalaust þreytt á auglýsingum um hollustu. Hver einasti matsölustaður sem opnar í dag auglýsir að boðið sé upp á holla og góða rétti. Aldrei kemur fram í hverju hollustan felst og það gerir mig brjálaða. Fyrir fólk sem veit ekki betur er þetta beinlínis hættulegt heilsunni, fyrir okkur sem vitum í hverju hollusta felst svona almennt er þetta óþolandi pirrandi.
Það er líka misjafnt hvað fólk skilgreinir sem hollt. Fyrir þann sem borðar cocoa puffs í morgunmat, drekkur kók yfir daginn og borðar snakk og skyndibita, er rjómaostur "hollur". Rómaostur er samt ekki rass í bala hollur því hann inniheldur mikið af mettaðri fitu. Hann er samt ekki djúpsteiktur Camembert sem þessi tiltekni einstaklingur myndi fá sér sem spari (mjög óhollt). Aftur er rjómaosturinn orðinn "hollur". Hollusta er nefnilega alveg gríðarlega afstæð ef hún er ekki skilgreind og niðurnjörvuð. Þess vegna er óþolandi þegar frjálslega er farið með orðið hollusta og merkingu þess. Þetta er ástæðan fyrir því að margir halda að gulrótarkaka á kaffihúsum sé "hollari" heldur en t.d. einhver önnur kaka því hún inniheldur gulrætur. Venjuleg gulrótarkaka inniheldur líka smjör, olíu, flórsykur, rjómaost, sykur og hvítt hveiti. Sem dæmi. Það er fátt hollt við gulrótarköku því þeim fáu heilsueflandi eiginleikum sem hún hefur (t.d. trefjar og A vítamín) er nánast útrýmt af óhollustunni. Í stríði á milli gulrótar og allrar óhollustunnar, myndi gulrótin sem sé ekki standa uppi sem sigurvegari. Sama má segja um þessa orkuklatta, hafrakökur og hvað þetta allt heitir sem boðið er upp á á kaffihúsum. Púðursykur er ALDREI hollur, aldrei, aldrei. Skoðið innihaldið vel næst. Fremst í upptalningunni er yfirleitt smjör, því næst er oft púðursykur, hveiti o.s.frv.
Vandamálið er líka að fólk veit ekki betur (hversu oft hef ég verið að tala um þetta) og það þarf að gæta þess að leiða það ekki í villu. Alveg eins og rafvirki má ekki auglýsa fagleg vinnubrögð (og svindla svo) má (að mínu mati) ekki auglýsa hollan og góðan mat nema ef hægt er að tryggja að maturinn SÉ hollur. Sem dæmi:
- Kjúklingur er ekki sjálfkrafa hollur þó hann sé ekki rautt kjöt
- Skyrkökur eru ekki sjálfkrafa hollar þó í þeim sé skyr
- Gulrótarkökur eru ekki sjálfkrafa hollar þó í þeim séu gulrætur
- Ostakökur eru ekki sjálfkrafa hollar þó í þeim sé ostur
- JarðarberjaBoozt (skyrþeytingur) er ekki sjálfkrafa hollur þó í honum séu jarðarber
- Veitingastaður verður ekki sjálfkrafa að „hollum og góðum stað þó hann bjóði upp á eina köku í "hollari kantinum"
- Það verður ekki neitt sjálfkrafa hollt þó að það innihaldi púðursykur eða haframjöl.
Ég sá auglýsingu frá nýjum veitingastað sem var að opna og hann auglýsir "hollan og góðan mat". Ég kíkti á matseðilinn. Það var hvergi minnst á í hverju hollustan fælist. Spurningar sem vöknuðu strax hjá mér voru t.d.:
- Er notað spelti í bakstri?
- Er maturinn óvenju trefjaríkur?
- Er notað jógúrt í staðinn fyrir majones í sósur?
- Er notuð kókosolía við steikingu?
- Er maturinn lítið brasaður og ekki djúpsteiktur?
- Er ekki notaður unninn matur (t.d. álegg í samlokur, kex í kökubotna)?
- Er enginn hvítur sykur í kökunum?
- Eru engin E-efni notuð?
- Er ekkert MSG notað?
- Er rjómi ekki notaður í súpur?
- og hundrað aðrar spurningar
Þið sjáið hvert ég er að fara. Það sýður í mér blóðið þegar staðir auglýsa "hollan" mat en segja svo ekki í hverju hollustan felst. Þetta á að standa skýrum stöfum. Mér finnst að það eigi að vera svona hollustulögregla (nei ég hef ekki áhuga á starfinu he he)...frá heilbrigðisyfirvöldum sem færi á alla þessa staði og gæfi þeim hollustueinkunn. Þeir mættu svo einungis auglýsa "hollan mat í flokki D" eða álíka. Það er algjörlega ótækt að fólk fari í góðri trú (það nenna fáir að pæla alvarlega í þessu svo það þarf að auka á leti þeirra sem ekki nenna...sem er allt í lagi) og hlammi í sig vefju með kjúklingi. Í einni svona vefju getur t.d. verið þetta:
- Vefja úr hvítu hveiti og sykri og mettaðri fitu + transfitusýrum (með alls kyns E-efnum til að gera hana mjúka
- Kjúklingur steiktur upp úr ólífuolíu (sem er ekki góð til steikingar og umbreytist í óholla fitu við að hitna)
- Sósa úr 36% sýrðum rjóma og/eða majonesi (mettuð fita og alls kyns E-efni í majonesi)
- Ostur 36% feitur (mettuð fita)
- Krydd með E-efnum
- O.fl....
Hér er eitt heimaverkefni: Næst þegar einhver staður auglýsir hollan og góðan mat, hringið þá í viðkomandi stað og spyrjið þó ekki sé nema 1-2 spurninganna sem ég setti fram hérna að ofan. Ég get lofað ykkur að það verður fátt um svör....eða "við reynum eftir fremsta megni bla bla..." Það er ekki nóg (eða það er skoðun mín).
Mér finnst að setja ætti einhver "hollustulög"....veit að þetta er ekki helsta vandamálið sem stendur fyrir þjóðinni í dag..en þetta fer bara svooooo í taugarnar á mér.
Annáll með meiru
Hvað skal maður segja um árið 2009. Þetta hefur verið ár mikilla breytinga svo ekki sé meira sagt. Ég sagði við Jóhannes í gær að frá og með september 2009 til september 2010 væri hellingur sem væri búinn að gerast og ætti eftir að gerast. Við værum t.d. búin að eignast barn, værum búin að flytja til London (það er eftir), værum búin að fara til Afríku a.m.k. einu sinni (líka eftir), Jóhannes búinn að segja upp í vinnunni sinni hér (næstum því búinn), búinn að finna aðra vinnu (ekki búinn)…OG búið að opna nýjan vef CafeSigrun (ekki búið en er í framkvæmd. Jóhannes ef þú lest þetta þá er smákökubox á borðinu til að halda þér vakandi he he). Er þetta ekki ágætur listi svona fyrir 12 mánuði?
Áramótin lögðust ekki vel í okkur en það er eðlilegt, þau gera það aldrei. Reyndar borðuðum við góðan mat í góðra tengda-ættingja hópi þannig að hvorki gátum við kvartað yfir félagsskap né mat né öðru. Við fórum líka í hesthúsið til tengdó í hádeginu og fengum kaffi og gott að borða enda er alltaf áramótakaffi í litlu kaffistofunni. Þar er alltaf glatt á hjalla og mikið af gömlum kunningjum úr hestunum sem kíkja við. Veðrið var dásamlegt og ég hefði ekkert frekar viljað heldur en að fara á bak. Hér í gamla daga fórum við hver áramót úr Kópavogi (þar sem hestamannafélagið Gustur var og er) og fórum sem leið lá inn á Hlíðarveg. Þar fengum við rjúkandi heitt kaffi og alls kyns bakkelsi. Þá var gaman. Ég hlakkaði alltaf til fyrri part dagsins en svo þegar leið undir kvöld fór ég að fá hnút í magann og ég kveið fyrir kvöldinu því ég vissi að hestunum mínum myndi líða illa. Oftar en ekki var ég hjá þeim í jötunni alla nóttina. Ég veit að ég hef oft talað um hversu illa þeim leið og hversu mikið þeir kunnu að meta nálægðina við mig og aðra þá sem voru staddir þar. Í fyrsta skipti sem ég athugaði með hestana mína (árið sem ég átti hesthús sjálf og þurfti sjálf að athuga með hestana mína), kom ég að öðrum hestinum mínum hálfhengdum í stallinum sínum. Hann hafði orðið vitstola úr hræðslu og var búinn að flækja sig illa. Hann var sveitahestur og afar, afar viðkvæmur en ég vissi ekki hversu viðvæmur fyrr en þetta kvöld. Einn hesturinn hans Jóhannesar aftur á móti vildi gjarnan horfa á flugelda enda taugasterkur með afbrigðum. Þeir eru ólíkir rétt eins og önnur dýr. Ég vissi að eitthvað hafði gengið á því tveir hestanna höfðu flækt sig, minn var eins og áður sagði hálfdauður úr hræðslu og veggirnir voru rakir því þeir höfðu flestir hamast mikið, krafsað í gólfið og svitnað (vegna hræðslunnar). Sumir hestanna höfðu ekki borðað neitt. Ef hestur borðar ekki þá er yfirleitt eitthvað að.
Ég gleymi því ekki þegar ég hleypti hestinum mínum út í gerðið. Það var laust eftir miðnætti og ég vissi sem var að hann myndi þurfa að losa orku sem hafði myndast því hestum er eðlislægt að hlaupa frá hættu, en hvorki verja sig né vera bundnir. Hann var orðinn of æstur til að ég gæti róað hann inni og ég ákvað að athuga hvort honum liði betur úti. Ég hleypti honum einum út. Hann stóð, titrandi og stjarfur. Nasavængirnir voru þandir, eyrun sperrt, augun galopin, hver einast vöðvi var spenntur. Hann byrjaði á því að skjálfa eins og hrísla og svo fnæsti hann (eins og flóðhestur) og því næst tók hann á rás og hljóp fram og til baka í gerðinu en það var sem betur fer mjög stórt.
Ég stóð í miðju gerðinu og horfði á flugeldana sem voru að gera hrossin mín stressuð og hrædd. Ég bölvaði hverri einustu rakettu, hverjum einasta flugeldi, hverri einustu tertu, hverju einasta blysi. Ég var svo reið að mér lá við tárum. Svona um það bil líður mörgum hestamönnum í kringum þennan tíma a.m.k. þeim sem eru með viðkvæma hesta. Eftir um 10 mínútur hægði klárinn á sér og fór að róast. Hann labbaði að mér og staðnæmdist við hliðina á mér. Hann var búinn að róa sig það mikið að ég gat lagt höndina á makkann á honum. Saman horfðum við á flugeldana og bölvuðum þeim í sand og ösku. Það sem skipti mig mestu máli var þó að hann náði að róa sig. Ég leyfði honum að ráða ferðinni og hleypti honum inn þegar hann vildi fara. Ég þorði þó ekki að skilja við hestana og bjó um mig í heyinu í jötunni. Ég spjallaði við hestana alla nóttina, kembdi þeim, rótaði í feldinum, sagði þeim að ekkert væri að óttast, gaf þeim tuggu og rúgbrauð (það besta sem þeir fengu) og eftir nokkra klukkutíma var nánast friður í hesthúsinu. Það er alltaf þægilegur friður sem myndast í hesthúsi. Þegar allir hestar eru saddir, sáttir og værir. Öðru hvoru heyrir maður andvarp, hestur skiptir um fót, aðrir geispa, sumir klára síðustu tugguna og aðrir dotta.
En svo ég komi mér að efninu. Eftir þetta, kumraði (þá hneggja hestarnir lágt og eru glaðir…eins konar tilhlökkunarhnegg) hesturinn minn í hvert skipti ef ég kom ein inn í húsið. Hann gerði það ekki ef fleiri voru með mér, bara ef ég ein var komin á undan hinum. Ég vissi að hann var að þakka fyrir innlitið þetta gamlárskvöld. Hann gerði þetta þangað til hann var felldur mörgum, mörgum árum seinna.
Ég vildi bara óska þess að þetta hefði verið svona auðvelt með 3.5 mánaða kríli sem veit ekki hvað er að gerast þegar öll lætin byrja. Það er eiginlega ekki sanngjarnt að vera innan um svona hávaða og læti og við hefðum átt að reyna betur að fara út fyrir bæinn (og helst af landi brott). Næsta ár verðum við einhvers staðar þar sem er ró, friður og engar sprengjur. Nema að rúgbrauð, tugga og smá hlaup í gerði dugi næsta ár? Kannski að maður yrði litinn hornauga he he.
Uppskriftaannáll 2009
Ég hef alltaf ætlað að gera svona best of samantekt, á ári hverju, samantekt yfir þær uppskriftir sem standa upp úr. Ég gleymi því yfirleitt alltaf eða er upptekin og hef ekki tíma. Ég ákvað að gera það núna og ætla svo að reyna að halda í hefðina.
Ég birti tæpar 50 uppskriftir á síðasta ári. Brot af því besta er auðvitað smekksatriði. Þetta eru allavega þær uppskriftir sem ég var hvað ánægðust með og ég hef allavega ekki fengið bágt fyrir. Ef ég ætti að velja eina uppskrift (uppskrift ársins) þá yrði það að vera Súkkulaðibitakökurnar hennar Lísu Hjalt…en af því það er ekki mín uppskrift þá verð ég að velja aðra uppskrift….Ég hugsa að það myndi vera Hjónabandssælan. Það er gott dæmi um uppskrift sem er í eðli sínu frekar óholl en má með góðu móti gera hollari án þess að það komi niður á bragðgæðum eða áferð.
Hér eru aðeins 16 uppskriftir svo þið sjáið hversu mikið þetta er yfir árið…(ég er aðeins að klappa mér á bakið hérna…það gera það ekki svo margir aðrir he he…ef örfáir (uppáhalds)notendur eru undanskildir. Það er magnað sérstaklega í ljósi þess að um 600-900 manns nota vefinn daglega!!!). Svo ég setji þetta í samhengi þá tekur hver uppskrift um hálfan dag í undirbúningi og framkvæmd (yfirleitt prófa ég hverja uppskrift tvisvar til þrisvar), myndatöku, eftirvinnslu og þá á ég eftir að setja uppskriftina á vefinn, senda út á póstlista, Facebook o.s.frv. Þið getið ímyndað ykkur hráefniskaupin sem fara í tilraunir…ég þori ekki að reikna upphæðir…ég myndi líklega loka vefnum með það sama! Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir gott CafeSigrun ár og þakka ykkur sem skilduð eftir komment eða hrós...mér þykir reglulega vænt um að fá slíkt. Árið 2010 verður mjög spennandi en nýr vefur mun þá líta dagsins ljós (ef ég er dugleg að baka ofan í Jóhannes sem forritar eins og vindurinn).
Lífræn innkaup í Kreppunni
Hér er listi (af vef WebMD) yfir það grænmeti og þá ávexti sem maður ætti að reyna að kaupa lífrænt ræktað (safna meiru af eitri en aðrir ávextir og annað grænmeti) og svo er listi hérna fyrir neðan af því sem ekki skiptir eins miklu máli að sé lífrænt ræktað (þó það sé auðvitað alltaf kostur). Þessar upplýsingar eru birtar án ábyrgðar og það er örugglega eitthvað sem vantar inn í eða ætti ekki að vera eins og er alltaf í svona upptalningum.
Það sem maður ætti að reyna að kaupa lífrænt ræktað:
- Ferskjur
- Epli
- Paprikur (hafið þið ekki fundið plastbragðið af paprikunum sem seldar eru í lágvöruverðsverslunum hér?)
- Sellerí
- Nektarínur
- Jarðarber
- Kirsuber
- Perur
- Vínber
- Spínat
- Blaðsalat (lettuce)
- Kartöflur
- Papaya
- Spergilkál (brokkolí)
- Grænkál
- Bananar
- Kiwi
- Grænar, sætar baunir (sweet peas, frosnar)
- Aspars
- Mango
- Ananas
- Maískorn (frosið)
- Avocado
- Laukur
Með rakettu í rassinum
Í desember var eins og ég væri með rakettu í rassinum. Ég var að vinna eins og brjálæðingur fyrir fyrirtækið í London, vann nokkur smáverkefni fyrir fyrirtækið sem ég vinn hjá hér á Íslandi, undirbjó jólin (mat, smákökur o.fl.), undirbjó 75 manna Þorláksmessuboð (með 12 tegundir af smákökum og konfekti, kökum, 800 sushibitum, jólaglöggi, heitu súkkulaði o.fl., o.fl.,…)… keypti jólagjafir, pakkaði inn jólagjöfum og já svo er ein 3.5 mánaða að dandalast svona með ha ha…..Ég hefði reyndar aldrei klárað neitt af þessu nema með hjálp Jóhannesar. Það er augljóst. Það er þó gott að vera upptekin…það er ekkert leiðinlegra en að hangsa og hafa ekkert fyrir stafni….Ég held að ég hafi síðast upplifað svona hvað á ég að hafa fyrir stafni í dag“ fyrir einhverjum tíu árum síðan…Yfirleitt er hver dagur hjá mér pakkaður til hins ítrasta og ég kem nú ansi miklu í verk…sem er gott. Flest af því er fyrir framan tölvuna. Nú síðast er það nýr vefur CafeSigrun sem mun líta dagsins ljós einhvern tímann (veit ekki alveg hvenær…forritarinn (Jóhannes) er reyndar extra duglegur í smákökuvertíðinni))…Þetta er auðvitað gríðarleg, gríðarleg vinna og ég veit eiginlega ekki hvers vegna maður er svona ruglaður…ekki eins og ég sé á launum við þetta (fæ ekki einu sinni smákökur í laun). Hönnunin er nokkuð langt komin en þá er vefun eftir (að forrita)…þetta er eiginlega brjálæði..óðs manns æði eins og maður segir.
Annars vildi ég óska þess að ég væri í Japan þessi áramótin eins og 2006-2007…það eru bestu áramót sem við höfum upplifað….ekki ein einasta sprengja og enginn flugeldur…heldur dauðaþögn…og dásamlegt sushi…endalaust af því. Á gamlárskvöld fórum við upp á þak hótelsins sem við vorum á og ætluðum að athuga hvort við sæjum eitthvað. Við bjuggumst kannski við flugeldasýningu en það var einn flugeldur í hundrað kílómetra fjarlægð eða álíka…dásamlegt. Það er fátt sem ég hata heitar og innilegar en flugeldasprengingar. Ég sé rautt þegar fólk byrjar að dúndra þessu upp. Ég reyndar þoli vel flugeldasýningar því þær standa yfir í x langan tíma og svo er það búið. Ég skil líka VEL að fólk vilji styðja starfsemi hjálparsveita. Ég skil VEL að hjálparsveitir vilji og þurfi peninga en ég skil EKKI flugelda og ég ÞOLI EKKI mengunina og hávaðann sem af þessu hlýst. En af því maður á aldrei að rífast án þess að koma með hugmyndir í staðinn þá eru hér nokkrar:
- Að ríkið styðji við bakið á björgunarsveitum…frekar en að styðja t.d. allar þessar kirkjur..það hlýtur að vera hægt að sameina einhverjar?
- Að flugelda megi bara sprengja af björgunarsveitum.
- Að aðeins megi sprengja flugelda í einn dag (en ekki heila viku).
- Að þyngri refsingu megi beita á þá sem sprengja flugelda í miðju íbúðarhverfi, um miðja nótt.
- Að þeir sem þarf að bjarga, greiði í sjóð… eða einhvers konar björgunarskatt.
- Að þeir sem sem fara á fjöll t.d. á rjúpu, greiði eins konar tryggingu…bara alveg eins og að greiða tryggingu gegn t.d. húsbruna. Ef þú týnist ekki þá fine….þú borgaðir eitthvað smotterí í tryggingu en ef þú týnist er hægt að grafa í vasa björgunarsveitanna.
- Að þeir sem eiga ekki sjónvarp og eru SAMT látnir greiða nefskatt til ríkisins (svona eins og við...fokking fokk)…megi frekar styðja eitthvað annað…t.d. Háskólann eða björgunarsveitir.
- Að allir landsmenn borgi einhverja smá upphæð í skatt (nóg er nú af asnalegum sköttum, má alveg bæta einum við) á hverju ári og það dreifist jafnt á alla, ekki bara á þá sem t.d. búa á snjóflóðahættusvæði…við getum jú öll þurft á björgunarsveitarmönnum að halda.
- Að fólk sé hvatt til þess að leggja frekar inn á reikning björgunarsveita heldur en að skjóta upp rakettum og menga umhverfið af hávaða, reyk og drasli….grrrrrrr
Þið verðið að afsaka..ég verð alltaf svo brjálæðislega pirruð á þessum árstíma. Ég kvíði áramótunum (vegna hávaðans) og ég er yfirleitt dauðstressuð eins og t.d. hrossin eru…ég ætla að hafa ljósin kveikt, tónlist í gangi og reyna að dreifa huganum…gott ef ég tygg ekki bara hey líka eins og hrossin til að róa mig. Undanfarin ár höfum við stungið af og verið í kofa sem tengdó á í sveitinni....það hefur verið dásamlegt. Við viljum bara ekki fara með litla skrípið í svona langan bíltúr þar sem er allra veðra von og liggja í köldu rýminu (þó að hlýni reyndar fljótt og verði kósí). Það er BARA notalegt að vera þar og við höfum yfirleitt verið sofnuð á miðnætti (er ekki svo góð með að vaka langt fram eftir)….Það er þó mjög freistandi að pakka skrípinu bara þeim mun betur inn…Þetta eru þó örugglega síðustu áramótin sem við verðum hérna á Íslandi í bili því ég tel líklegt að við verðum búin að flýja landsteinana áður en ósköpin dynja yfir ár hvert (ef við verðum hér á Íslandi yfir jólin ár hvert það er að segja...sem er nú reyndar stefnan í grófum dráttum).
Jólavaka
Ég var andvaka í nótt…ekki vegna afkvæmisins (skrípið sefur bara á sínu græna) heldur vegna sársauka í kjálkanum. Það er magnað hvað þarf lítið til að maður gleymi sér. Hnéð minnir rækilega á sig hvern dag (því ég stíg í það) en kjálkinn er annað mál. Hann nefnilega er stresssafnari. Hann safnar stressi á meðan ég tek ekki eftir því. Það er búið að vera svakalega mikið að gera í vinnunni (já já ég veit…ég er í fæðingarorlofi..sem ég reyndar kalla "fæðingar-vinnutörn"). Ég kvarta þó ekki yfir því að hafa nóg að gera því annars myndi ég tapa vitinu. Ég VERÐ að hafa næsta verkefni tilbúið um leið og eitt er búið. Annars þrífst ég ekki. Ég er heppin því ég hef CafeSigrun vefinn og á honum er alltaf langur To Do listi (framkvæmdarlisti). Ég hleyp í hann þegar ég er ekki að vinna í venjulegu vinnunni minni. Ég er heppin líka af því ég get unnið heima á meðan afkvæmið sefur. Jóhannes er svo sem alveg eins og ég og jafnvel verri.
Við höfum verið það upptekin í desember að við erum ekki búin að skreyta. Við hreinlega steingleymdum því fram að þessu. Það var ekki fyrr en í morgun (afkvæmið var í 3ja mánaða skoðun) og mér varð litið upp í íbúðina okkar þegar við vorum að leggja bílnum. Fyrir neðan okkur er par og þar er eins og Crayola hafi opnað ljósabúð. Fyrir ofan (þar sem við búum) er eins og einhver hafi límt svartar krítartöflur í gluggana. Þetta hefur ekkert með nú eigum við barn og höfum bara ekki tíma“ að gera (léleg afsökun þó freistandi sé að nota hana). Við hefðum nægan tíma ef við værum ekki að vinna svona mikið…í fyrra var ekkert barn og við höfðum jafn mikinn/lítinn tíma. Við erum bara svona. En allavega, planið er sem sé að skreyta um helgina svo að við vitum allavega að það séu að koma jól. Það að þau séu í næstu viku er bara ekki að registera í hausnum á mér. Við eigum reyndar ekki mikið jólaskraut. Við eigum sæta jólakarla sem tengdó saumar, jólatrésteppi í stíl (sem hefur ekki verið notað því við höfum aldrei átt jólatré..nema spýtuna frá Zanzibar), aðventuljós (sem hefði átt að fara upp fyrir tveimur vikum síðan) og nokkur önnur skraut“ sem eru ekki í stíl við eitt né neitt. Mér er ekki vel við rauða og græna liti svona almennt í híbýlum (en nokkrir hlutir sleppa því þeir eru fallega rauðir á litinn eða hluturinn sjálfur fallegur). Mér líkar hins vegar vel við falleg, einlit ljós, helst þau sem ég þarf ekki að hengja upp hvert ár (og hanga því uppi allt árið). Ljós eru uppáhaldsskrautið mitt, vetur, sumar, vor og haust.
En já, þetta var smá útúrdúr. Kjálkinn er að plaga mig og var sérlega slæmur í nótt enda sat ég lengi við tölvuna í gær og var að skila af mér verkefni til London. Þegar kjálkinn lætur vita af sér leiðir verkurinn um allt höfuðið, inn í eyru og það er alveg sama hvernig maður liggur, það er allt vont. Ég legg hatur á verkjalyf svo ég reyni að bíta á he he jaxlinn sem gerir reyndar bara illt verra. Það er asnalegt að manni sé svona illt en samt lítur maður út fyrir að vera með fullkomlega heilbrigða kjálka. Það er ekkert ör, enginn marblettur, engar ójöfnur, ekki neitt. Eina vísbendingin er á röntgenmyndum en þar sést slitgigt báðum megin (eftir slys fyrir mörgum árum síðan sem ég hef oft minnst á...hestur...spark...kjálkabrot...meðferð við því...kjálkalæknar...sprautur...meiri meðferðir...allt of löng saga).
Að vera með slitgigt í kjálka og vera stressaður er ekki góð blanda því það fyrsta sem maður gerir í stressi er að bíta saman kjálkunum (eða ég geri það)…sit svoleiðis í nokkra tíma að vinna og gleymi mér. Svo kemur að því að ég ætla að fá mér að borða en get varla opnað munninn. Stundum er meira að segja sárt að borða hrískökur því eftir að vera búin að bíta nokkrum sinnum er sársaukinn of mikill. Ég þarf að borða epli í nokkrum skömmtum og ég er löngu hætt að poppa jafn mikið af poppkorni ef við fáum okkur slíkt, ég gefst upp eftir hálfa skál. Stundum get ég ekki borðað mikið og fólk heldur að mér þyki maturinn vondur eða sé svona matgrönn og spyr hvort ég vilji ekki fá mér meira…það er svona eins og að spyrja slasaðan maraþonhlaupara hvort hann vilji ekki hlaupa aðeins meira (heyrðu vinur ég veit að þú þarft að skríða en þú tekur nú 100 metrana í viðbót er það ekki…?).
Þetta gæti svo sem verið verra….vil ekki vera að kvarta of mikið en ef þið fáið mig í mat í kringum hátíðarnar, og ég borða mjög hægt eða get ekki klárað matinn þá vitið þið hvers vegna. Það eina góða við að liggja svona andvaka er að muna eftir jólaskrautinu sem á eftir að fara upp.
Hver vegur að heiman er vegurinn heim..til London
Við féllum kylliflöt fyrir London í fyrstu ferðinni okkar þangað sem hefur líklega verið í kringum 1997. Við heilluðumst af borginni og ákváðum að fara þangað í framhaldsnám eftir háskólanám hérna heima. Við fluttum fyrst 2001 (rétt áður en hryðjuverkaárásirnar í New York áttu sér stað) og bjuggum þar til 2003. Við fluttum svo til Íslands 2004 og fluttum aftur út til London 2005. Milli 2005-2007 var ég á stöðugu flakki á milli London og Íslands vegna vinnu minnar og fór nánast í hverjum mánuði á milli, viku í senn. Við fluttum svo að lokum hingað til Íslands 9. mars 2007 og höfum því verið hér í tæp 3 ár. Við erum orðin eirðarlaus. Það er kominn tími á okkur eins og farfuglana og við ætlum að fljúga til London snemma á nýju ári.
Við höfum aldrei búið eins lengi á sama stað eins og hér, síðan við byrjuðum að búa saman fyrir um 15 árum síðan. Enda er íbúðin notaleg og okkur líður vel í henni. Við erum þó óttalegar flökkukindur og um leið og við erum búin að vera of lengi á sama stað förum við að ókyrrast. Við erum bæði þannig…finnst óþægilegt að vera í sama farinu lengi. Ég hreinlega dáist að þeim sem finna ró til að búa á sama stað alla ævi. Ég vildi óska að ég væri þannig. Hugmyndir voru uppi hjá okkur um að flytja jafnvel til Japan eða Zanzibar (höfum komið á báða staði) en ákváðum að byrja auðvelt og þar sem við vitum að við kunnum vel við okkur. Það eru kostir og gallar við alla staði, við vitum það mæta vel en eins og er, finnst okkur kostirnir við London vega þyngra en gallarnir, svona miðað við Ísland.
Ég man enn þá þegar við fórum úr íbúðinni í London 2007. Eigendurnir (reglulega indæl hjón) voru á staðnum (þau voru að fara að selja íbúðina og voru að tala við fasteignasalann). Mér fannst svo ótrúlegt að vera að fara. Ástæðan var vinnutengd (ekki það að mig langaði svo hrikalega til Íslands). Ég man enn þá hvað ég var sorgmædd á leiðinni út á völl….ég man enn þá hvað mér leið illa þegar við gengum inn um dyrnar á íbúðinni okkar á Íslandi og ég man enn hversu erfiðar fyrstu vikurnar og mánuðirnir voru. Það tók okkur langan, langan tíma að aðlagast Íslandi aftur og hefur aldrei almennilega tekist. Oft fannst mér ég vera í eins konar sorgarferli og ég stóð mig að því að verða miður mín yfir að finna t.d. gamlan lestarmiða. Ég get ekki horft á fréttir frá London því ég get ekki hugsað mér að sjá "heimili mitt" og ekki vera þar. Það sáu svo sem allir og vissu að í þetta stefndi, eins og alkahólisti sem er búinn að horfa á flöskuna lengi, er alveg við það að falla.
Við höfum alltaf verið með hugann við London, við eigum ekki almennilega heima“ á Íslandi. Ég er alltaf að vinna fyrir fyrirtæki í London öðru hvoru og hef aldrei almennilega slitið mig frá. Jóhannes ekki heldur. Reglulega fáum við sting í magann úr söknuði, sérstaklega í kringum jólin því við vitum bæði hversu dásamleg London er yfir aðventuna.
Okkur finnst reglulega gaman að heimsækja Ísland og okkur finnst gaman að ferðast um landið okkar fallega. En við viljum ekki búa hérna, a.m.k. ekki með aðalheimili okkar hér. Við viljum frekar hlakka til að koma hingað heldur en að líða illa yfir að búa hérna. Við ætlum okkur að vera reglulegir gestir á Íslandi og ætlum okkur í raun að eiga tvö heimili, eitt á Íslandi og annað í London, ef við getum. Við eigum nefnilega góða vini og fjölskyldu sem við viljum ekki að gleymi okkur. Það verður erfitt að skilja við fólkið sitt en að sama skapi enn skemmtilegra að hittast aftur.
Það er svo ótrúlega auðvelt og lítið mál að flytja svona á milli landa (trúið mér við erum orðnir sérfræðingar he he) svo ef okkur myndi nú snúast hugur, væri minnsta mál í heimi að koma aftur. Við hlökkum líka til að fá gesti til okkar en það er alltaf gaman og höfum við hýst ófáan ferðalanginn sem genginn er upp að hnjám eftir verslunarferðir í borginni. Við fengum í raun fleiri heimsóknir þangað en við fengum í a.m.k. 2.5 ár eða þangað til litla skrípið fæddist.
Við erum bara svo lélegt rútínufólk, við þolum ekki að gera það sama dagana út og inn, við verðum að setja okkur áskoranir og aðeins að gera þetta flóknara, annars er ekkert gaman. Að búa á Íslandi getur nefnilega verið óþarflega einfalt (kannski ekki þessa dagana reyndar). Við vitum að margir skilja hvorki upp né niður í okkur en þannig er þetta bara..alveg eins og við viljum ekki búa á Íslandi, er fólk sem vill ekki búa í London.
Lífið má nefnilega ekki verða of auðvelt til að maður gleymi að lifa því.
Ugandíski námsmaðurinn útskrifast
Þá er komið að því….
Ugandíski námsmaðurinn (sem varð landsfrægur á svipstundu hérna fyrir nokkrum mánuðum, þegar þess bloggfærsla fór eins og eldur um sinu um samfélagið og endaði meira að segja í munni Bo Halldórs í Íslandi í dag og í viðtali við söngkonu í Mannlífið eða álíka....) fer senn að útskrifast úr snyrtiskólanum í Entebbe, Uganda. Okkur var boðið að vera við útskriftina sem verður haldin 4ða desember en komumst því miður ekki he he. Fátt er svo með öllu illt því í minn stað fer Elísabet vinkona okkar sem er stödd í Uganda þessa dagana. Hún ætlar að vera viðstödd og meira að segja að taka myndir, brilliant. Ég er búin að segja námsmanninum að síðasta greiðslan hafi verið greiðslan sem hann fékk fyrir útskriftarfötunum sínum. Eða ég held hann hafi verið að meina það (enskan hans er ekki allt of sleip). Allavega…. síðan í febrúar 2008 höfum við styrkt þennan unga mann til náms og hefur það verið afar gefandi. Oft á köflum sprenghlægilegt, eins og þegar við erum að fá misgáfulegan tölvupóst með bænasöng okkur til heiðurs. Okkur þykir vænt um þessa pósta þó við séum trúlaus með öllu því þeir bera einungis góðan hug. Mamma námsmannsins er víst dugleg að liggja á bæn fyrir okkur. Heimilisfaðirinn lést nefnilega í stríðinu og nú verður námsmaðurinn fyrirvinna heimilisins sem er stórt. Þegar ég álpaðist inn til þeirra hérna um árið var einmitt öll stórfjölskyldan saman komin. Mér skilst að námsmaðurinn sé búinn að fá starf þ.e. sem hárgreiðslu- og snyrtifræðingur en á eftir að fá það á hreint. Einnig lágum við í hláturskasti í dágóðan tíma um daginn þegar námsmaðurinn sendi okkur mynd af sér um daginn, að greiða ungri konu. Hann var uppstrílaður í bleikum bol, í hvítum jakka, með greiðu í hönd og hárgreiðslumódelið (kona) var á svipinn eins og hann væri að fara að skera hana á háls (þannig eru þeir sem eru óvanir að láta taka af sér myndir mjög oft á svipinn). Hann sendi okkur þessa mynd til að sýna okkur hversu vel á veg hann væri kominn í lífinu og okkur þótti bara vænt um það. Hann er afar, afar montinn af stöðu sinni og segir okkur reglulega hvað vinir hans öfundi hann (ég vildi að ég gæti hjálpað þeim öllum). Það er stórt stökk að vera atvinnulaus og án menntunar, án vonar í raun þar sem innkoman er engin (og ég meina engin, ekki einu sinni 5 krónur.....þarna er heldur engin Fjölskylduhjálp í boði, eða styrkir, eða atvinnuleysisbætur, eða námslán..a.m.k. þegar maður á ekki neitt til að byrja með). Við skulum ekki gleyma því að hann seldi geiturnar sínar til að eiga fyrir hluta af skólagjöldunum þarna í byrjun. Námsmaðurinn á ekki skilríki, ekki einu sinni vegabréf og er í raun ekki til á pappírum. Ég vona að það breytist þegar hann fær vinnu.
Þetta ævintýri hefur svo sem kostað skildinginn en við höfum ekki séð eftir einni krónu. Þetta var ekki peningur sem við töpuðum á braski, eða í hlutabréfum eða vegna hruns. Þetta var einfaldlega aukapeningur sem við áttum og okkur munaði ekki baun í bala um hann, þannig séð.
Ég hlakka hrikalega til að fá myndir og fréttir frá útskriftinni og ég lofa að láta ykkur vita hvernig gengur. Í útskriftargjöf frá okkur fær námsmaðurinn farsíma (gamlan sem við eigum hérna heima) og nokkrar krónur í vasann svona upp í lífið sem framundan er.