Bloggið
Klipping, jólaskreyting, kerrupokar og nýr vefur
Jólaskreytingin er komin á Carnaby Street. Hún er mjög speisuð í ár...það hanga geimfarar og stjörnur og plánetur yfir götunni og allt blikkar og tindrar. Óskaplega fallegt. Mér fannst samt jólapakkarnir held ég fallegastir eða jólakúlurnar sem voru einu sinni.
Það er farið að kólna í London og Afkvæmið komið í kerrupoka eins og öll börn í London sem eru þó með afbrigðum illa klædd. Ég horfi skjálfandi á börn í kerrum sem eru ekki einu sinni með húfu og ég sé í bert skinnið á milli sokka og buxna. Ég skil það bara ekki. Afkvæmið er í ull upp úr og niður úr, í úlpu, þykkum buxum, með þykka húfu, vettlinga, í ullarsokkum og ofan í kerrupoka. Hún er íslensk og ég þori ekki að viðurkenna það fyrir neinum því við búum jú í snjóhúsum á meðal ísbjarna. Mamman er eins mínus kerrupokinn (sem ég öfunda Afkvæmið ekki LÍTIÐ af). Þessa dagana í London myndi teljast sumarhiti á Íslandi eða rétt tæplega 10 stig á daginn og ég er samt skjálfandi úr kulda. Ég er ekki byggð til að þola kulda.
Nýi vefur CafeSigrun er að verða tilbúin. Trúi því varla að ég sé að skrifa þetta, búið að taka meira en ár í að koma honum saman (með mikilli vinnu okkar beggja, ekki síst Jóhannesar og svo auðvitað erum við búin að vera upptekin í að koma Afkvæminu á legg, að flytja á milli landa, sinna störfum okkar o.fl.). Það er allt hægt ef maður á ekki sjónvarp, ég segi það enn og aftur!
Jólin koma, jólin koma
En já, jólin. Það er afskaplega gaman að upplifa jólastemmninguna í London vikurnar fyrir hátíðarnar og ég hef saknað hennar síðustu 3 árin. London er dubbuð upp í sitt fínasta púss og eftirvæntingin eftir jólaskreytingunum á Carnaby Street er alltaf mikil hjá mér og Jóhannesi (og fleirum). Nú þegar eru að potast upp jólaljós á Regent Street og Oxford Street. Starbucks býður upp á jóladrykkina sína, á Leicester Square er reist lítið tívolí og alls staðar eru fallegar jólaskreytingar, fólk með jólapoka og börnin rjóð í kinnum. Kosturinn við jólastemmninguna hér er að ekki einni einustu verslun dettur í hug að spila jólalög og þó að sum íslensku jólalaganna séu ágæt þá er yfirleitt sami jóladiskurinn í gangi í öllum verslunum svo að maður verður ágætlega heilaþveginn að syngja Jólahjól fram undir nýja árið. Kenny Rogers og Dolly Parton, Michael Jackson, Ivan Rebroff, KK og Ellen og nokkrir fleiri góðir kunningjar eru þeir einu sem eru leyfðir til spilunar á okkar heimili og það á fyrirfram ákveðnum tímum (hjálpar mjög ef smákökuilmur er í loftinu).
Bæklingaveikin
Myndirnar hér að ofan eru af vef Early Learning Centre.
Í morgunmat með Mikka mús og félögum
Það var fáránlega erfitt að pakka eldhúsinu niður. Svo erfitt að ég sá á eftir öllu ofan í kassa með trega….og ég handlék hvern hlut og þakkaði fyrir góða þjónustu í gegnum árin. Eldhúsið mitt, þó ekki væri stórt var vel skipulagt (þó í 100 ára gömlu húsi væri) og þægilegt að vinna í. Það var algjörlega fullbúið eftir margra ára söfnun og tækjakaup… Í raun er ég að byrja upp á nýtt því ég tók ekkert með mér þegar við fluttum. Ekki einu sinni sleif. Ísskápurinn og frystirinn í íbúðinni í London er samanlagt jafn stórt og frystihólfið á ísskápnum mínum hérna. Og það er erfitt fyrir manneskju sem eldar jafn mikið og ég geri. Við stefnum að því að færa okkur um set í janúar á næsta ári og þá verður stærri ísskápur forgangsatriði. Skítt með að ég þurfi að burðast með 17 kg upp á 3ju hæð nokkrum sinnum á dag (barn + kerru + innkaup) og það með ónýtt vinstra hné!
Það síðasta sem fór ofan í kassa var blandarinn minn en af því ég átti svo mikið af bláberjum ákvað ég að nýta þau og útbúa góða bláberjadrykki á meðan við vorum að pakka niður. Það gaf okkur góða orku, þó svo að maður virki alltaf dálítið kaldur og hjartveikur eftir á (með bláar varirnar). En ég er svo sem alltaf blá í framan úr kulda svo það er ekkert nýtt þar. Ég ætla að kaupa mér annan blandara þegar við eignumst pening og hann verður jafnvel kraftmeiri en Kitchenaid-inn minn sem er samt frábær. Eldhúsið mitt er á við lítið mötuneyti þegar ég fer af stað og það veitir ekki af iðnaðartækjum. En ekki það að maður þurfi svoleiðis græju í venjulegt eldhús. Ég gerði t.d. 400 uppskriftir á vefnum mínum með 2000 króna matvinnsluvél og jafn ódýrum blandara. Maður er bara svo fljótur að fara í gegnum svoleiðis tæki ef maður er að jaska þeim út eins og ég geri með mitt dót.
Það er annars búið að vera fínt að kíkja í heimsókn þó að ég sé að drepast úr kulda eins og alltaf. Ég er bara enn þá að venjast því að ökumenn svíni fyrir mig á aðreinum (þó það sé bara til að fara út af á næstu afrein), að fólk segi ekki afsakið við mig þó að það sé að rekast utan í mig með innkaupakerru eða barnavagn, að fólk standi í vegi mínum án þess að færa sig þó ég biðji um það…(kerlingar í slúðurkasti eru sérstaklega skæðar með þetta) og auðvitað háa verðlaginu sem er alltaf jafn mikið sjokk (sá kaffigræju sem kostar 24 pund í London en kostar 10 þúsund krónur hér, sem dæmi). Ég fór í heilsubúð í gær og fékk algjört hláturskast….svona taugaveiklunarhláturskast. Ég hef ferskan verðsamanburð og hann er h.r.i.k.a.l.e.g.u.r. Ég skil ekki hvernig nokkur vara selst yfir höfuð….kem því engan veginn í kollinn á mér. Það er reglulega dapurt.
Jóhannes kemur til Íslands aftur á laugardaginn og svo er það London á mánudaginn…Ég frétti af honum í morgunmat með Pluto, Mikka, Andrési, Lísu í Undralandi, Baloo og fleirum…er ansi hrædd um honum muni þykja morgunrútínan okkar óspennandi þegar hann kemur til baka; hafragrautur, lýsi, Cheerios, úfið hár og morgunpirra (í mér aðallega). Ég ætla allavega ekki að klæða mig í búning….no way!
Ef aðeins hann væri hér....
Jóhannes hefur að mínu mati erft svo marga eiginleika pabba síns (hægur yfir sér, veltir hlutunum fyrir sér áður en hann svarar, ígrundar málin vel á alla kanta). Þeir voru bestu vinir. Mér þykir reglulega leiðinlegt að hann hafi ekki kynnst barnabarni sínu (og barnabörnum sínum því þau eru fleiri en okkar Afkvæmi auðvitað) en það er á hreinu að minningin um hann mun lifa með okkur. Það verða sagðar margar sögur af honum í framtíðinni og Afkvæmið mun vonandi aldrei þreytast á að heyra um afa Erling.
Ég vildi svo innilega óska þess að hann væri hérna í dag. Það er svo oft sem mig langar að bera eitthvað undir hann og ég heyri enn þá hrossahláturinn í huganum (hann sagði stundum sama brandarann nokkrum sinnum í röð og hló alltaf jafn mikið enda var það alltaf jafn fyndið).
Nýtt og endurbætt!!!
En stundum er bara nauðsynlegt að bæta og breyta. Eins og í þessu tilfelli hér, uppskriftinni af fyrsta kexinu. Ég þróaði þessa uppskrift fyrir löngu síðan og hún heppnaðist líka svona ljómandi vel…og meira að segja mörgum sinnum eftir það. EN, þetta er EINA uppskriftin á vef CafeSigrun sem að notendur hafa ítrekað spurt mig út í…„Á kexið að vera hart?“, „Á það að vera fljótandi?“, „Hvers vegna lak kexið niður á næstu hæð í ofninum?“, „Á kexið að vera bragðlaust?“ o.s.frv, o.s.frv. Auðvitað hlusta ég á notendur og ég lagðist þess vegna í tilraunir og þær eru búnar að taka mig um hálft ár (þið getið rétt ímyndað ykkur hvað Afkvæmið er búið að innbyrða mikið af heimatilbúnu kexi ha ha). Þetta kex er algjört uppáhald hjá dótturinni og er ferlega gott þegar tennurnar eru farnar að láta á sér kræla. Er fínt í nestisboxið og á milli mála. Það inniheldur 1,5 mts af agavesírópi (og svo eplasafa með) á móti tæplega 100 gr af spelti svo það er alls ekki of sætt en mátulega til að það sé bragðgott.
Lesið innihaldslýsinguna í uppskriftinni fyrir nánari upplýsingar. Þetta kex er milljón sinnum hollara en ferköntuðu, þykku kexin sem gjarnan er troðið ofan í íslensk börn.
Ég vona að þessi útgáfa heppnist svona vel hjá ykkur líka!
Hárfínt
Hárgreiðslustofan er búin að vera hérna frá því við fluttum í burtu og ég man ég hugsaði fyrst þegar hún kom hingað, „ein af þessum stofum sem fara eftir mánuðinn. En hún tollir enn, líklega vegna mafíupeninga. Ég var dálítið kvíðin því í fyrsta skipti að fara undir hendur rússnesks hárgreiðslufólks, svona miðað við snjóþvegnu buxurnar og aflitaða, túperaða hárið. En ég er að reyna að vera alltaf með opinn huga og settist í stólinn hjá Anastasiu. Ég hef aldrei verið jafn ánægð með litina í hárinu og klippingin var mjög fín líka. Fyrir þá sem þekkja mig vita að þetta er ekki svo lítið mál. Hárið mitt er sítt og ég hef bara einu sinni á mínum fullorðinsárum klippt það í axlasídd og var í kjölfarið í 6 mánaða „hárþunglyndi á meðan það óx aftur. Þó ég hafi á mínum námsárum verið svo blönk að ég borðaði bara pasta í margar vikur, sparaði ég alltaf fyrir klippingu og strípum á 6 vikna fresti. Þetta er mitt dóp og það er ekkert sem getur komið í veg fyrir að ég fari.
Í gær lenti ég hjá eldri konu sem ég hef ekki séð áður. Hún var eins og afdala dragdrottning nýkomin af diskóteki, með sígarettu í munnvikinu, tagl í hárinu, málningin svolítið máð og rámari en flóðhestur á fengitíma. Hún var voðalega indæl, það vantaði ekki. En. Hún var í ÞRJÁR KLUKKUSTUNDIR að setja strípur í hárið. Og ekki í allt hárið heldur einungis hluta hársins. Hér getur maður nefnilega valið um að að fá strípur í allt hárið, hálft hárið, T-rönd (rótina) og maður getur yfirleitt, á stærri stofum, valið um að vera hjá International stylist director, senior stylist director, senior stylist, junior stylist, trainee stylist o.fl. Verðið er svo mismunandi eftir því hjá hverjum maður er. Ferlið er flóknara en umsókn á Tryggingastofnun. Á rússnesku stofunni hins vegar eru það bara Anastatia og Natasha sem eru við stjórnvölin og það er ekkert prjál í gangi. Þær eru ekki í háhæluðum skóm að klippa/lita hárið og ekki í þröngum ballkjól. Ég hef heldur aldrei skilið hvernig það hjálpar að meiða sig í fótunum við að klippa hár fólks. Þær gera bara það sem þær gera og gera það vel. Ekkert flókið. Vörurnar þeirra eru líka góðar. Þessi eldri kona hins vegar var eins og af öðrum heimi. Hún tók hvert hár og litaði það samviskusamlega. Eftir tvær klukkustundir, þegar strípurnar voru LOKSINS tilbúnar blés hún hárið. Það var að líða yfir mig úr hungri og ég sá stjörnur í speglinum. Hún rúllaði hárinu utan um rúlluburstann, hélt við, kveikti á hárblásaranum og blés. Slökkti á blásaranum, lagði hann frá sér og endurtók leikinn. Svona eins og 5 ára barn í „hársluleik“. Hún var svo lengi að á meðan hún blés helming hársins, var hinn helmingurinn nánast þornaður. Ég sat í 3 klukkustundir í stólnum. Það er akkúrat tíminn sem það tekur að fljúga til Íslands. Ég var djúpt hugsi og þegar ég rankaði við mér (hafði ekki einu sinni orku í að fletta blaði því ég var svo svöng og máttlaus) þá var ég komin með Pamelu Ewing hár (blásnir vængir til hliðanna með stórum krullum sem beygðust inn og toppurinn upp og til hliðanna). Ég táraðist úr gleði við að koma út í rigninguna.
Öfundssýkin uppmáluð
Öfundsýkin stafar af öðrum grunni….matarlegum. Jóhannes verður í California og ætlar að fara á ALLA þá RAW (hráfæðis-) staði sem eru í boði. Þeir eru ekki fáir, og hvergi í heiminu er jafn mikið úrval af svona stöðum eins og þarna. Þeir eru hver öðrum girnilegri og ég gæti farið að grenja yfir því að missa af kræsingunum. Það er eins gott að hann leigi kælifrakt heim sem er með sýnishorni af öllum matnum. Það er of dýrt fyrir mig að fljúga með (við skoðuðum það) og ekki gaman fyrir Afkvæmið að vera í margra klukkutíma flugi fyrir þennan tímamismun og fyrir einungis 5 daga. Ef hún væri aðeins eldri væri það ekki spurning (hversu kúl væri ekki að hitta Mikka og Andrés í vinnunni hjá pabba?). En hún er of vitlaus enn þá. Þegar hún hættir að borða sand og eða hættir að festa sig inni í uppþvottavélinni má kannski skoða það.
Nú árið er liðið.......
Það hefur komið mér á óvart hvað börn eru mikill gleðigjafi, út á við (og inn á við auðvitað). Ítrekað mæti ég t.d. fílefldum karlmönnum með hörkulegan svip (eins og úr Guy Ritchie eða James Bond mynd) sem verða eins og deig við að horfa framan í Afkvæmið. Flestir sem maður mætir brosa út í annað munnvikið þó þeir segi ekki neitt. Í Ungverjalandi og Kenya tók ég sérstaklega eftir því hvað fólk var barngott..það hreinlega sleppti ekki Afkvæminu. Ef ég hugsa til baka og tel, hversu mörg bros Litla dýrið hefur framleitt myndu þau líklega skipta þúsundum. En það á örugglega við um öll börn. Ég ota henni aldrei framan í aðra (t.d. á kaffihúsi)…og er yfirleitt bara að sinna mínum erindum svo það er ekki eins og ég sé að leita eftir þessu aðstæðum. Þetta er bara eitthvað sem maður tekur eftir og er gaman. Börn gefa greinilega jákvæða orku út í heiminn (a.m.k. þau sem liggja ekki í gólfinu og orga).
Eitt það skemmtilegast í þessu öllu saman er að gefa sínu eiginn barni heimatilbúinn mat. Börn eru harðir dómarar og skyrpa mat út úr sér ef þeim líkar hann ekki. Ólíkt fullorðna fólkinu sem kyngir ýmsu sem því þykir ekki gott, upp á kurteisissakir. Þetta hefur verið ár tilrauna. Dóttirin hefur ekki ofnæmi fyrir neinu (sem betur fer) og borðar allt (baunaspírur, kjöt, egg, hnetur, fisk, brauð, ávexti, hrátt grænmeti), allt NEMA kaldan ost. Hún er eins og pabbinn að því leytinu. Ég hef fylgst með henni í laumi, þar sem ég rétti henni bita, hún stingur honum upp í sig (eins og öllu öðru) en það kemur voðalegur svipur og osturinn er fljótur út. Hún hefur aldrei fengið sykur og hefur ekki hugmynd um hvað sælgæti, ís eða önnur óhollusta er. Hún reyndar veit heldur ekki hvað sjónvarp er (á maður að hafa áhyggjur?). Hún er fullkomlega heilbrigð að öllu leyti og við erum svo mikið þakklát fyrir það.
Elsku dóttir, til hamingju með afmælið þitt og við hlökkum til næstu ára.
Illt í efni...
Forritarinn er ekki öfundsverður. Hann kemur heim eftir langan vinnudag og um leið og hann sest niður heyrist í verkkaupanda (mér) t.d.: „Það er asnaleg lína þarna“ eða „Ég væri til í flottara box“ eða „Þetta er hallærislegur bleikur, ég vil fá dýpri og hlýrri lit“. Verkkaupandi (ég) veit að það þýðir ekki að segja svona við forritarann en segir það samt (í óþolinmæðiskasti). Forritarinn þekkir nefnilega bara einn bláan lit, einn bleikan, einn rauðan o.s.frv. Hann gerir engan greinarmun á því hvort að það er hlýr undirtónn í bleika litnum og ef maður biður hann um að setja aðeins meira rautt í bleika litinn og jafnvel gera hann aðeins kaldari samt (ekki of hlýjan rauðan) kemur uppgjafa- og vonbrigðissvipur á forritarann og verkkaupandi (ég) verður umsvifalaust að lofa muffinsbakstri. En þá er komið að vandamálinu. Ég hef svo lítinn tíma til að stússa í eldhúsinu…vegna vinnu. Það er brjálað að gera en þó að sé mikið að gera hjá mér (bæði að vinna og sinna afkvæminu) þá er 1000 sinnum meira að gera hjá forritaranum því ekki aðeins er hann í 100% vinnu hjá Disney, þá er hann líka með aukavinnu á kvöldin (nokkra vefi) OG CafeSigrun vefinn. Bara svo að það sé á hreinu, þá væri vefurinn ekki til nema fyrir forritarann. Ég gleymi því stundum þegar ég skipa honum fyrir. Þegar ég gleymi mér aðeins of mikið, heyri ég hótanir um verkföll og hann gæti í alvörunni lokað vefnum…á 1 sekúndu, og neitað að opna hann aftur.
Hann á inni (lauslega reiknað) um 38,000 smákökur, 14,000 muffinsa, 9,300 brauðbollur, 6,000 burritos, 12,000 fylltar paprikur eða annað að eigin vali. Gjaldmiðillinn er nefnilega matur og mér mun ekki endast ævin öll til að greiða til baka það sem ég skulda forritaranum. Ég ætla hér með að klappa á bakið á honum og segja takk. Hann á það skilið 1,000,000,000 falt. Ég vona bara að hann fari ekki í verkfall áður en nýi vefurinn opnar…….