Bloggið

Jólakveðja

Ég vil óska notendum CafeSigrun gleðilegra jóla. Vonandi eigið þið reglulega góð og notaleg (og holl) jól!!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jólamaturinn

Í gær gerði ég piparkökukarla. Ég átti ekki bökunarsóda svo þeir urðu svolítið fjölfatlaðir og það hefði verið hægt að skera með þeim gler. Það var þó allt í lagi því þeir brögðuðust vel. Við borðuðum þá bara eins og brjóstsykur. Ég er heldur ekki með blástursofn (langt síðan það gerðist síðast) en það er bara gaman að díla við svoleiðis ofna því þeir geta verið dyntóttir. Við erum sem sagt komin til Íslands fyrir nokkru síðan (og að deyja úr gleði yfir að vera ekki föst á Heathrow). Við erum í húsi við Elliðavatn og það fer vel um okkur (því íbúðin okkar er jú í útleigu). Við vöknum við hanagal og erum búin að setja upp jólaljós sem við fengum að láni hjá tengdó. Meira þurfum við ekki. Við ætlum kannski að klippa nokkrar greinar til að setja í vasa til að hafa sem jólatré. Á meðan Afkvæmið fattar ekki þetta með „jólatré“ þá skiptir það engu máli hvort að það sé aumingjaleg grein eða grenitré. Í framtíðinni verðum við líklega að koma okkur upp einhverju tréi til að geta skreytt það enda ómögulegt að Afkvæmið verði eina barnið sem þarf að dansa í kringum greinar á aðfangadag. Það er ekki hægt.

Ég er í óða önn að undirbúa jólamatseðilinn (margir hafa spurt mig hvernig jólamaturinn heima hjá okkur sé) en á honum verður m.a. Asparssúpan, Karrýhnetusteikin, Sætar kartöflur bakaðar með pecanhnetum og hlynsírópi, eitthvað mega gott salat, einhver sósa sem ég malla og svo auðvitað í eftirmat piparkökur (eða aðrar smákökur), ís (líklega Græni ísinn) og svo Óáfenga jólaglöggið svona þegar við förum í pakkaopnun. Það ætti að duga okkur he he. Reyndar sofnar Afkvæmið (15 mánaða) yfirleitt fyrir kl 18 svo við ætlum að halda eins konar „litlu jól“ í kringum þann tíma sem hún er vön að borða kvöldmatinn (um kl 16 leytið) og þá opnar hún kannski nokkra pakka svona til að fá smá stemmningu. Annars eru borðar, slaufur og pappír auðvitað aðalmálið. Innihaldið skiptir minna máli.

Ég er búin að skila því sem ég þarf í vinnunni, pakka inn öllum gjöfum og skrifa öll jólakortin svo nú mega jólin eiginlega koma (a.m.k. þegar ég er búin að gera Karrýhnetusteikina). Á bara eftir að versla í matinn og setja á mig svuntuna!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný uppskrift: Rauðrófusalat - tvær útgáfur (sæt og krydduð)

Rauðrófusalat, litríkt og hollt

Ég var að setja inn nýja uppskrift á vefinn. Mér fannst tilvalið að setja uppskrift að rauðrófusalati inn svona rétt fyrir jólin enda eru margir sem bera fram þetta sígilda meðlæti með jólamatnum (og þá yfirleitt í óhollari útgáfu). Reyndar er um að ræða tvær útgáfur af salatinu, önnur er krydduð og hin er sæt. Mér finnst nefnilega rauðrófusalöt sem eru sæt, ekki passa með öllum mat og eins finnst mér kryddað rauðrófusalat ekki passa með öllum mat. Mér finnst alveg fara eftir tilefninu og aðalréttinum sem og öðru meðlæti hvort salatið passar með. Uppskriftin sjálf er einföld og hana má gera með smá fyrirvara (t.d. 1-2 dögum áður en maður ætlar að framreiða meðlætið). Salatið er ákaflega fallegt á litinn (sérstaklega ef það fær að standa yfir nótt) og auðvitað súper hollt því rauðrófur eru pakkfullar af andoxunarefnum. Það er einnig nánast fitulaust (þ.e. ef maður notar fitulitla jógúrt).

Athugið að salatið er ekki eins og salat með niðursoðnum rauðrófum (mér líkar ekki svo vel við edikbragð) en segja má að þetta salat sé ferskara og auðvitað hollara (enda er niðursoðnum mat á Íslandi yfirleitt drekkt í sykri).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hugleiðingar um matarvenjur yfir jólin

Jólin reynast mörgum erfið í matarmálum. Það eru milljón ástæður fyrir því og kannski ekki síst framboðið af mat nánast allan desembermánuð, alls staðar. Ég hef lesið frásagnir matarfíkla sem upplifa jólin eins og þeir ímynda sér áfengissjúkling í vínbúð (nema kannski heldur verra þar sem löglegt er að auglýsa mat og það er örugglega nóg gert af því um jólaleytið). Ég skal ekki dæma um það enda ekki í þessum sporum sjálf. Framboð af mat er í sjálfu sér ekki vandamálið því skorturinn víðast hvar í heiminum er öllu stærra vandamál. Við búum hins vegar ekki í þeim löndum þar sem framboð á mat er lítið (sem betur fer) og ég ætla því ekki að einblína á það að þessu sinni. Reyndar sá ég nýlega í fréttum að framboðið virðist vera allt of mikið þar sem við erum í hópi þeirra þjóða í heiminum sem eru hvað þyngstar. Ekki gott.

Fyrir þann sem er í aðhaldi eða vill ekki bæta á sig í kringum jólaleytið (eða bara yfirleitt) getur desember verið afar erfiður. Það eru smákökur alls staðar, allir að baka og gefa smakk (dónalegt að segja nei?), kynningar í verslunum, piparkökur á borðum vinnustaðarins, jólaglögg, kakó á Laugaveginum, konfekt í tonnavís undir jólatrénu og bíður eftir að verða étið yfir sjónvarpinu, jólahlaðborð, jólaboð o.fl. Hluti af vandanum er sá að erfitt er að segja nei við freistingum, hluti er illa skipulagður tími í jólaösinni (hver, fyrir utan mig tekur með sér nesti t.d. í Kringluna?), mikill erill á fjölskyldufólki (jólaböll, litlu jólin, föndurkvöld, hittingar, boð, alls kyns matarklúbbar) og oft er hungrið farið að segja til sín einmitt þegar kona í matvörubúðinni klædd fjólubláum, glansandi kjól réttir fram bakka af litríku konfekti. Jólahlaðborð eru sérstaklega hættuleg því fólk missir hreinlega alla glóru. Það treður á diskinn hjá sér síld, rúgbrauði, purusteik, baunasalati, súrum gúrkum, hangikjöti, rauðrófusalati og hreindýrakjöti....á SAMA diskinn. Eitthvað sem fólk myndi ALDREI gera heima hjá sér. Mér finnst reyndar gaman að fara á jólahlaðborð en skemmtilegast finnst mér eiginlega að fylgjast með því hvað fólk á næstu borðum lætur á diskinn sinn og ofan í sig. Það er ævintýri líkast.

Ég veit að ég hjálpa kannski engum og pirra kannski einhvern þegar ég segi að yfirleitt léttist ég í kringum jólaleytið. Ég bæti allavega ekki á mig. Ég hef ekki átt vigt í 20 ár og eini mælikvarðinn á þyngdina er fötin mín. Ef þau eru farin að þrengja að, er ég búin að borða of mikið og hreyfa mig of lítið. Svo einfalt er það. Ég er ekki matarfíkill (og þetta eru því einfaldir hlutir í mínum huga en ég veit að þeir eru það ekki fyrir sumum), þó ég sé fíkill á allt sem viðkemur uppskriftum og uppskriftabókum og öllum eldhúsgræjum, sérstaklega nestisboxum og silíkon muffinsformum. Ég fæ hins vegar margar fyrirspurnir frá fólki sem á í mikilli baráttu við sjálft sig í kringum þennan tíma. Ég hef tekið saman nokkra punkta hér sem kannski hjálpa einhverjum. Þeir eru þó ekki heilagur sannleikur og duga eflaust ekki þeim sem heyja alvarlega baráttu við fitupúkann. Enda á maður þá að leita sér alvöru hjálpar. Þessir punktar eru meira fyrir þá sem gleyma að hugsa í desember og svo allt í einu er kominn janúar og buxurnar orðnar of þröngar. Það er líka ágætt að hafa í huga að líkleg ástæða fyrir því að ég þyngist ekki yfir jólin er að ég er jú grænmetisæta (og jólasteikurnar eru því ekki í myndinni) og ég hreyfi mig. Ég borða mig auðvitað sadda á jólunum en aldrei meira en venjulega og aldrei þannig að mér líði illa (eða afar, afar sjaldan og þá helst ef tengdó býður í humarsúpu!). Maður á að sjálfsögðu að gera vel við sig, ekki síst á sjálfan aðfangadag en sumir reyna að teygja „sparidagana“ þegar kemur að mat og stundum fara þeir að nálgast tvær vikur ef ekki er farið varlega

Mér finnst aðalgaldurinn í kringum jólaleytið að maður neiti sér ekki um neitt sem manni finnst gott (hvort sem það er hnetusteik, kalkúnn, Hamborgarhryggur, nautalundir) en halda skammtastærð þeirri sömu og maður gerir út árið. Þannig helst blóðsykurinn jafn og stöðugur. Sveiflurnar geta nefnilega orsakað það að fólk dregst að konfekt-smakkinu eins og mý að mykjuskán og leggst í jólaölsdrykkju og smákökuát undir miðnætti.

Nokkur hollráð:

  • Útbúið hollt konfekt til að hafa á borðum í staðinn fyrir súkkulaði-sykur blönduna sem ALLIR borða yfir hátíðarnar.
  • Sleppið konfektinu í fallegu kössunum. Umbúðirnar eru hollari en innihaldið í mörgum tilfellum.
  • Gerið hollan ís í eftirrétt og bjóðið upp á hollt konfekt/holla köku.
  • Haldið skammtastærð hóflegri. Borðið ekki á ykkur gat (sem orsakar aftur sveiflur í blóðsykri).
  • Neitið ykkur ekki um það sem ykkur finnst gott en takmarkið magnið (t.d. 1 konfekt með kaffi á kvöldin...ekki 10). Ákveðið magnið fyrir fram.
  • Hafið ávallt mandarínur og aðra ávexti á borðum í staðinn fyrir smákökur og konfekt.
  • Smákökur eiga ekki að vera sýnilegar nema „með kaffinu“ eða á þeim tímum sem þær eru framreiddar. Að öðru leyti á að pakka smákökum í box svo að þær séu ekki uppi við.
  • Kaupið inni hæfilegt magn af mat, ekki gera ráð fyrir að verða hungurmorða á Jóladag.
  • Einskorðið kjötið aðeins við „sparidagana“, sérstaklega salt kjöt.
  • Gerið góðar bakaðar kartöflur í ofni og sleppið sykurhúðuninni. Pensla má kartöflurnar með svolitlu agavesírópi til að fá sæta keiminn.
  • Bjóðið upp á góð salöt með öllum mat og leggið alúð við að útbúa það. Hafið fyrir reglu að allir fjölskyldumeðlimir verði að fá sér salat á a.m.k. fjórðung disksins.
  • Notið magrar mjólkurvörur (t.d. matreiðslurjóma í súpur og sósur. Einnig má nota hafrarjóma, hann lækkar vonda kólesterólið í blóðinu!).
  • Drekkið vatn með matnum, ekki jólaöl (nema kannski á aðfangadag). Hitaeininga- og sykurmagnið í einu glasi er aaaaaaaaaansi hátt.
  • Borðið fiskmeti og grænmeti þá daga sem eru ekki „sparidagar“.
  • Ef afgangar eru af kjöti má frysta þá og nota síðar, ekki troða magann út af kjöti yfir allar hátíðarnar „bara til að klára“.
  • Bakið speltbrauð sjálf í staðinn fyrir að kaupa hvítu, mjúku brauðbollurnar.
  • Takið alltaf með ykkur hollt konfekt, banana eða orkubita þegar farið er að versla og farið auðvitað aldrei svöng í búðina. Það er auðveldara að segja nei við óhollu konfekti þegar maður er nýbúinn að stinga upp í sig mola af hollu konfekti.

Svo má alltaf hugsa „pfffft skítt með þetta, ég hleyp þetta af mér eftir jól“ sem er gott og vel. Ef svo er má ignora þennan „pistil“. En fyrir einhverja vona ég að hann gagnist.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kuldaboli

Það er friggin’ kalt í London þessa dagana. Svo kalt að beinin frjósa og blóðið myndar köggla (aaaalveg satt). Það er kannski ekki alveg að marka þegar ég segi að sé kalt en þegar Jóhannes fer í þykka peysu og jakka í vinnuna, þá er K.A.L.T. Það hefur verið frost og svolítil föl yfir öllu og auðvitað mjög rakt. Sem betur fer búum við í húsnæði sem er vel heitt og heldur vel hita. Það er bara svo fyndið þegar snjóar í London, því það fer allt í svakalegan hnút og vitleysu. Lestarnar hætta að aka (því það er jú ekki hægt að keyra lestarnar í snjófölinni), maður heyrir ekkert annað en sírenur því það eru slys út um allt (fólk að hrynja í götuna, fólk að detta á hjólum, bílar að lenda á staurum og öðrum bílum o.fl.), kaffihúsin yfirfyllast af fólki í leit að einhverju heitu í magann því fólk er við það að hrökkva upp af í frostinu. Upplifunin er eins og þegar maður setur eitthvað í veginn sem truflar línu iðinna maura. Það er bara ekki gert ráð fyrir snjó í London og Bretar kunna ekki á þetta hvíta fyrirbæri sem er farið að birtast árlega yfir vetrartímann. Á sunnudagsmorgni var búið að kafsalta allar gangstéttar því það var spáð snjókomu á mánudegi. Það var hins vegar mun meira af sýnilegu salti en snjó, á mánudeginum.

Árið 2004 man ég fyrst eftir því að hafi snjóað í London (þ.e. þann tíma sem við höfum verið búsett í borginni). Við vorum aðeins út fyrir London reyndar og það snjóaði nokkuð hressilega. Ekkert reyndar sem maður hefði kippt sér upp við á Íslandi. Maður hefði bara skafið snjóinn af bílrúðunum, bölvað hressilega (eða ég bölva kuldanum alltaf) og keyrt af stað. Bretar kunna ekki enn þá á nagladekk og klóra sér í hausnum yfir því hvernig þeir eigi að komast frá A-B á bílunum sínum. Þeir bíða svo bara eftir því að einhver komi og salti eða skafi göturnar og vona svo að þeir keyri ekki á staur eða bíl eða fólk. Svo hringja þeir í AA (sem aðstoða fólk í neyð á götum úti) og óska eftir hjálp. Ég man að Jóhannes var um 4 klukkustundir að komast heim en var svo heppinn að geta fengið leigubíl frá Disney. Elva vinkona var hins vegar föst í miðri London, engar lestar og allt í rugli. Hún komst heim á miðnætti þetta kvöld eftir að hafa verið að reyna að komast heim allan daginn (við bjuggum hlið við hlið). Ég vorkenndi henni svooooo mikið.

Ég var að vinna heima þennan dag en frétti síðar að fólkið á skrifstofunni hefði sumt ákveðið að hér eftir myndi það geyma nærbuxur og tannbursta í skúffunni sinni, svona ef það þyrfti að sofa þar.

Ár eftir ár er það sama sagan og Bretar verða alltaf jafn hissa á að sjá hvítu flyksurnar á leið niður. Blöðin eru uppfull af snjósögum, hrakfaraspám, veðurspám, fréttum af dauðsföllum o.fl. Það verður fróðlegt að sjá hvort þeim tekst að læra lexíu fyrir næstu ár?

Það er þó pínlegt að vera svona mikið klædd, blá á nefinu, skjálfandi með frosin bein og kögglað blóð (vegna kuldans) og þurfa aðspurð að stynja upp úr sér með skjálfandi tennur að maður sé frá Íslandi…. „já svo þú finnur ekkert fyrir kuldanum er það?”. „Uuuuu nei ekkert svo….”

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Popparinn

Það voru þrír hlutir sem fóru síðastir ofan í kassana á Íslandi sem fóru svo í geymslu:

  1. Kitchenaid blandarinn
  2. Popparinn
  3. Brauðristin

Reyndar var eitt Martini glas uppi við sem við drukkum lengi vel úr, bæði smoothie (úr blandaranum), vatn o.fl. Ég hafði nefnilega safnað að mér hálfu tonni af bláberjum (svona hér um bil) svo þegar við vorum í því að pakka gerðum við bláberjasmoothie hvern morgun til að nota birgðarnar. Ég hendi aldrei, aldrei mat. Við vorum með bláar varir alla okkar heimsókn á Íslandi. Það er samt skondið að við áttum Martini glas því hvorugt okkar drekkur áfengi. Það var líka skondið að gefa Afkvæminu vatn að drekka úr Martini glasi, sérstaklega þegar voru gestir. Hefði átt að stinga grænni ólífu ofan í glasið. Ástæðan fyrir því að ég átti Martini glas er sú að ég nota það stundum í myndatökur fyrir vefinn og það er erfitt að pakka Martini glasi sem er ástæðan fyrir því að það var ekki komið ofan í kassa. En bláberin kláruðust og við fylltum á andoxunar- og járntankinn fyrir lífstíð.

Poppari

Popparinn okkar var eitt af því fyrsta sem við keyptum þegar við fluttum fyrst til London árið 2001. Við erum búin að nota hann í svona 30,000 skipti. Hann er asnalegur í laginu (eins og önd) og forljótur en hefur gert sitt gagn. Hann pakkast illa og því ákváðum við að taka hann ekki með þegar við fluttum í þetta skiptið. Við vissum sem væri að við myndum kaupa aðra græju þegar til London væri komið. Þegar við fórum að leita sáum við að hann fæst ekki lengur nema á Ebay og fyrir 140 pund. Við keyptum okkar á 10 pund hér um árið. Svona popparar eru ekki bara sniðugir af því þeir eru fljótir að poppa poppkorn og með engri fyrirhöfn, þeir sprengja nefnilega maískornið með heitu lofti og maður þarf því ekki olíu eða neitt slíkt. Afskaplega létt og ljúft.

Popp getur nefnilega verið ógeðs-óhollt (bíópopp sem og kafsaltað transfitupopp sem fæst í pokum) eða fáránlega hollt og hitaeiningasnautt (léttsaltað og létt olíu-úðað poppkorn, poppað með heitu lofti). Af því við borðum svo oft poppkorn er ekkert vit í öðru en að nota svona græju. Popp í potti má fá sér spari. Þar sem popparinn okkar fékkst nú bara á uppsprengdu verði voru góð ráð dýr og við leituðum eftir annarri svipaðri græju. Við rákumst á þennan í Heal’s og féllum alveg fyrir honum. Hann er ekki bara flottur svona eldrauður og retro heldur þægilegur í notkun líka og kostaði bara 20 pund. Hann býr til úrvals poppkorn. Við eigum því orðið nýjan poppara.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný uppskrift: Ískonfekt

Ískonfekt

Ég var að setja inn nýja uppskrift á vefinn, uppskrift að ískonfekti.

Ég er ferlega skotin í henni því mér finnst svo gaman að borða bæði ís og konfekt í einu. Það er líka gaman að gefa gestum svona konfekt og segja þeim ekki að það sé ís inn í. Það má ekki standa lengi á borðinu auðvitað svo að ísinn bráðni ekki en ef þið bjóðið þeim beint úr frystinum er ekki sjaldan sem kemur skrýtinn svipur á gestina en svo lofa ég brosi og ánægjusmjatti.

Ísuppskriftin sjálf er mjólkurlaus og eggjalaus sem og vegan (fyrir jurtaætur) en svo fer eftir því hvernig súkkulaði þið kaupið hvort það innihaldi mjólk. Það má nota hvítt súkkulaði eða carob ef þið viljið frekar.

P.s. takk fyrir allt hrósið varðandi nýja vefinn, mér þótti reglulega vænt um það

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Nýi vefurinn í hnotskurn

Nýi vefurinn er kominn í loftið og ég trúi því varla! Hann er búinn að taka svo langan tíma í smíðum (er eiginlega jafn gamall og Afkvæmið, 14 mánaða) og hann hefði auðvitað ALDREI orðið til nema af því Jóhannes (eiginmaðurinn og forritarinn, þessi sem fær greitt í smákökum) er svo óhugnalega duglegur. Ef þið sjáið hann úti á götu er skylda að knúsa hann fyrir vinnuna sem hann er búinn að leggja í vefinn. Hann er búinn að eyða kvöldi, eftir kvöldi, eftir kvöldi, eftir kvöldi eftir helgar eftir helgar eftir helgar eftir helgar í að forrita, lagfæra og snurfusa. Góð ráð og aðstoð (andlega og listræna) fékk ég einnig frá Lísu Hjalt vinkonu minni og fleirum sem nenntu að skoða, gagnrýna og hrósa. Innilegar þakkir öll fyrir hjálpina. Fyrir ykkur kæru notendur er ég búin að taka saman það helsta sem skiptir máli varðandi nýja vefinn. Munið að hann er í grundvallaratriðum eins og sá gamli.

Og já, ef eitthvað er ekki eins og það á að vera, endilega sendið mér línu. Við reyndum eins og við gátum að prufkeyra alla virkni og möguleika en eins og alltaf, er eitthvað sem maður tekur ekki eftir.

Óbreytt:

  • Allir flokkarnir eru á sínum stað vinstra megin.
  • Allar uppskriftirnar eru til staðar en kannski ekki á sama stað og áður.
  • Leitin er á sínum stað efst í hægra horni.
  • Vefurinn er eftir sem áður aðgengilegur fötluðum notendum t.d. blindum notendum sem þurfa skjálesara, lesblindum notendum sem og sjónskertum (stillingar efst í hægra horni vefjarins) og fleirum.
  • Bloggið er á sínum stað.
  • Hægt er að senda og prenta uppskriftir eins og áður

Nýtt/Breytt:

Forsíðan:

  • Á forsíðunni verður uppskrift dagsins eins og áður ásamt þeim uppskriftum sem eru Vinsælustu uppskriftirnar þann daginn.
  • Á forsíðunni verður einnig opinn sá flokkur sem á við þáverandi árstíð. Til dæmis eru jólauppskriftir nú í gangi og þá birtast átta nýjustu uppskriftirnar undir Jólaflokkinum ásamt tengdum uppskriftum.
  • Undir hverri uppskrift má sjá tengdar uppskriftir.
  • Undir hverri uppskrift er Gott að hafa í huga en þar er að finna ýmsar leiðbeiningar og punkta varðandi þá uppskrift sem gott er að...hafa í huga!
  • Búið er að bæta Vissir þú efst í hægra horni forsíðunnar til fróðleiks og skemmtunar.

Flokkar:

  • Láréttu flokkarnir undir myndinni í haus vefjarins eru nýir eða réttara sagt staðsetning þeirra en þar hef ég safnað saman flokkum sem eru mikið notaðir en eiga ekki heima undir uppskriftir (t.d. Um CafeSigrun, Fræðsla, Ummæli, Spurt og Svarað).
  • Komment heitir nú Ummæli.
  • Skipting flokkanna er sú sama en undir hverjum flokki má finna undirflokka. Þannig má finna t.d. Heil brauð og Brauðbollur undir yfirflokkinum Brauð.
  • Búið er að bæta við flokkinum Drykkir (færa hann úr Hitt og þetta).
  • Flokkurinn Fræðsla er nýr og þar má finna alla þá fræðslu sem ég hef tekið saman í gegnum árin og má finna þar margt um hollt mataræði, um nesti, ódýran en hollan mat, ungbarnamat, mat og úvitist o.fl.
  • Búið er að bæta við Spurt og Svarað fyrir algengustu spurningarnar sem koma inn á borð til mín. Þar má fletta upp í safni af spurningum.
  • Neðst á síðunni má finna ýmislegt eins og gagnlega tengla sem og ef þið viljið senda upplýsingar um síðuna á Twitter og Facebook.

Annað:

  • Hægt er að safna uppáhaldsuppskriftum af vefnum í Uppskriftaboxið. Notendur þurfa að skrá sig inn og geta þá merkt við uppskriftir sem þeir vilja safna. Þar verða þær geymdar og má eyða þeim út hvenær sem er.
  • Senda má uppskriftir á Facebook og Twitter með því að smella á þar til gerða hnappa.
  • Hægt er að leita eftir uppskriftum eftir óþoli/ofnæmi t.d. glúteinóþoli, mjólkuróþoli og hnetuofnæmi. Ef þeir möguleikar eru valdir birtast eingöngu uppskriftir sem innihalda ekkert af því innihaldi sem merkt var við óþol/ofnæmi. Auðvelt er að breyta til baka og fá allar uppskriftir birtar.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Afsakið hlé - flutningar standa yfir!

Kæru notendur.

Næstu daga gæti vefurinn verið óþekkur við ykkur þ.e. ekki víst að hann virki almennilega og gæti legið niðri um tíma. Ástæðan er flutningar efnis yfir á nýja vefinn (Jebb!!!!!!). Nýi vefurinn er sem sagt að fara að fæðast (það eru hríðir í gangi og stutt á milli!!!)

Ég afsaka óþægindin en við reynum að gera þetta eins snögglega og við getum.

Ég vona líka innilega að ykkur líki nýi vefurinn og að hann verði ykkur að skapi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jógúrtís í hollustudulargervi?

Ég er sjúklega hrifin af jógúrtísstöðunum sem spretta upp eins og gorkúlur um alla London. Svo hrifin að það jaðrar við áráttu. Ég læt mig meira að segja hafa það að sitja skjálfandi úr kulda, blá í framan með jógúrtís í höndunum í staðinn fyrir að kaupa mér flóaða mjólk eða latte. Fyrst var það Muffinski‘s í Covent Garden. Pínulítill staður sem selur muffinsa og jógúrtís. Jógúrtísinn er ekki með neinni sætu og einungis maukaðir ávextir gefa ísnum bragð. Ísinn er ekkert sérstakur, mætti vera 1 mtsk af agave til að draga fram sæta bragðið í ávöxtunum og þá væri hann mjög góður. Þetta var nýjung þegar við bjuggum hérna fyrst og við sóttum staðinn oft bara fyrir jógúrtísinn. Á síðustu þremur árum hafa svo opnað Snog, Yog og Yu-foria ásamt fleirum. Snog er besti staðurinn að mínu mati. Fór einmitt þangað í dag og borðaði æðislegan jógúrtís með agavesírópi og bláberjum. Hreinn unaður.

Á Íslandi um daginn sá ég í blöðunum að jógúrtstaður hefði verið opnaður. Ég fagnaði því mjög því það má gera hrikalega holla ísa með jógúrti, eitthvað sem ég hef leikið mér að á undanförnum árum með alveg ágætis árangri (birti uppskriftir síðar). Ég sá líka að staðurinn auglýsti „hollan og góðan jógúrtís“ og ég fagnaði enn þá meira. Ég var að lesa nánar um fyrirbærið í dag og sá að þeir nota bragðefni í ísana sína. Bragðefni eins og Pina Coladabragð, vatnsmelónubragð, tyggjóbragð, sykurpúðabragð (marshmellow), karamellubragð, lakkrísbragð o.fl, o.fl. Allt í allt yfir 50 bragðtegundir. Svo getur fólk raðað ávöxtum og sælgæti ofan á ísana (það væri gaman að gera könnun á hversu margir velja ávextina ofan á). Flestir munu líklega fá sér jógúrtís með bragðefni, því þetta er jú svo „hollt og gott“. Mér þykir líklegt að um sé að ræða síróp með litarefnum, bragðefnum og auðvitað sykri. Fólk á eftir að borða heilu baðkörin af þessum ís „vegna hollustunnar“. Ég vil ekki vera leiðinlega týpan (ég er alltaf eitthvað að nöldra) því ég fagna svo innilega að fólk geti haft val um hvort það fái sér jógúrtís eða venjulegan ís. Það er hins vegar afskaplega slæmt ef ísinn er auglýstur sem „hollur og góður” ef sírópið sem notað er í hann er rusl. Ég myndi gjarnan vilja sjá ítarlega innihaldslýsingu á sírópunum, á vefsíðunni þeirra. Það ætti ekki að vera flókið verk.

Mikið vildi ég að framfylgja þyrfti reglum áður en yfirlýsingar eru gefnar út varðandi hollustu matvöru á Íslandi. Þetta fer ólýsanlega mikið í taugarnar á mér og því fer fjarri að þetta sé eina dæmið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It