Bloggið
Það sem bragð er að....
Ég er búin að liggja í flensuógeði í næstum því viku. Ég er búin að vera með hrikalegt kvef, hita, hálsbólgu, hósta, beinverki, höfuðverk og hreinlega bara allan pakkann. Kvefið er þannig að nefið stíflast alveg og það kemst ekkert loft inn eða út og maður þarf að sofa sitjandi með opinn munninn því annars kafnar maður bara (eða manni finnst maður vera að kafna). Svoleiðis er ég búin að vera í 6 daga. Þegar maður kyngir myndast lofttæmi í eyrnagöngunum og manni finnst maður vera að drukkna. Það er ógeðslegt (en ekkert lífshættulegt auðvitað). Það er ekki eins og ég sé langveik eða alvarlega veik, bara með flensu.
Það sem pirrar mig samt einna mest við að fá kvef er að ég missi allt bragðskyn. Ég hef ekki fundið bragð af mat í 6 heila daga. Ég er ekki að meina að ég finni lítið bragð eða skrýtið bragð. Ég finn EKKERT bragð og ekki heldur lykt. Ég finn áferð í munninum og heilinn segir mér t.d. að epli eigi að vera sætt en ég finn ekkert bragð. Ég missi alltaf bragðskynið ef ég fæ kvef en síðast man ég eftir því að ég hafi misst það svona lengi þegar ég var í fyrstu ferðinni minni til Kenya 2005. Mér er það mjög minnisstætt því við vorum eitt kvöldið á veitingahúsi í Nairobi og kokkarnir voru miður sín yfir því að ég gæti nánast ekkert borðað. Ég fann bara ekkert bragð og þegar svo er, verður maturinn ekki lystugur. Þetta er svipað því og að hlusta á tónlist án heyrnar eða skoða málverk án sjónar. Það er hægt að njóta bassatónanna af tónlistinni og þreifa eftir áferð í málverki en það vantar mikið í upplifunina.
Það er stórfurðuleg tilfinning að vera í algeru bragðleysi. Matur missir allan tilgang að öðru leyti en því að hann er næring. Fyrir manneskju sem lifir fyrir að búa til mat, gera tilraunir, smakka til og stússa í eldhúsinu er þetta ferlegt. Fyrir mig að vera bragðlaus er eins og fyrir flugmann eða listmálara að missa sjónina í viku, eða fyrir söngvara að missa röddina í viku, eða útvarpsmann að missa heyrnina í viku. Ég get ekki einu sinni sagt að maturinn bragðist eins og pappi því pappi hefur fullt af bragði svona miðað við bragð-leysið sem ég upplifi.
Það eina jákvæða við að missa bragðskynið 100% er að þegar það kemur loksins, kemur það til baka eins og sprengja og maður kann virkilega vel að meta þetta skynfæri sem maður gleymir svo oft. Maður finnur bragð af kryddum sem maður mundi ekki eftir og maður kann að meta matinn sinn enn betur. Appelsínur verða eins og dísætt sælgæti og ostar afhjúpa leynda og djúpa hnetutóna. Það er eins og maður losni við hellu úr eyranu og allt í einu uppgötvar maður að á hverjum einasta degi lætur maður eitthvað ofan í sig án þess að spá í bragðið sem slíkt.
Við fæðumst með mörg þúsund bragðlauka og stór hluti þeirra deyr smátt og smátt með aldrinum því við eyðileggjum bragðlaukana með hita, sterkum kryddum (reykingum auðvitað ef fólk reykir) o.fl. Lítil börn fúlsa oft við kryddum og grænmeti eins og t.d. spergilkáli en það er líklegt að þau finni bragð sem við finnum ekki, því þau hafa fleiri bragðlauka en við. Ég hef þetta alltaf hugfast ef Afkvæmið grettir sig yfir einhverju (gerist reyndar sjaldan því hún er matargat). Ef hún vill ekki eitthvað er MJÖG líklegt að henni finnist það raunverulega vont (þó okkur finnist það gott).
Mér finnst að við eigum að halda dag bragðlaukanna hátíðlegan, þeir eiga það skilið.
Jóhannes prílar á fjöll í Uganda og safnar áheitum fyrir górillur í leiðinni
Ubumwe - Silfurbakur í Amohoro hópnum
Nú er Jóhannes að fara á fjöll og í þetta skipti ætlar hann að príla á Rwenzori fjallgarðinn sem liggur við landamæri Congo, Rwanda og Uganda. Brjálæðislega spennandi ganga en í þetta skipti ætla ég að vera heima og hugsa um barn og bú. Ég ætlaði að fara til Kenya og vera hjá vinkonu okkar á meðan Jóhannes væri í fjallastússi en ákvað að vera heima því við erum búin að brölta mjög mikið eiginlega síðan við komum frá Kenya í mars 2010. Við höfum varla stoppað frá þeim tíma og ég nennti ekki að vera að pakka ofan í töskur eina ferðina enn, þó að mig hafi langað til Kenya til að hitta vini og fara kannski í safarí eða tvö. Það bíður bara betri tíma.
En Jóhannes ætlar að nýta tímann til góðs og safna áheitum fyrir fjallagórillurnar sem við sáum á ferð okkar í fjöllum Rwanda í febrúar 2008. Það var svo gjörsamlega ógleymanleg upplifun og algjörlega stórkostlegt að fylgjast með hópnum/fjölskyldunni athafna sig, horfa á silfurbakin borða sellerí og rymja (ekki mjög karlmannlegt að borða sellerí en górillur eru samt mjög stæltar), mæðurnar að annast ungviðið, litlu krílin að hoppa um, vera óþekk og stríða foreldrum og systkinum sínum. Við vorum í regnskóginum í Virunga fjöllunum í Rwanda, umlukin dýrahljóðum og stórbrotinni náttúru, mistri og dulúð, laufum og trjágreinum. Ekki má gleyma heldur erfiðri sögu landsins sem gerir upplifunina ekki síst áhrifameiri. Lyktin var fersk eftir rigningar en mettuð gróðri og við óðum í gegnum frumskóginn þar sem hermenn (úr rwandíska hernum) og leiðsögumenn hjuggu leið í átt að górillunum. Fylgst er nákvæmlega með ferðum górillanna, ekki síst öryggis þeirra vegna.
Sumum finnst górillur auðvitað ekki merkilegar en það er eitthvað við að fá tækifæri til að upplifa brot úr degi þeirra 17 einstaklinga af þeim 800 villtu fjallagórillum sem eftir eru í heiminum. Það er bara ansi stórt hlutfall. Pælið í því ef það væru bara 800 einstaklingar eftir í heiminum og þið fengjuð að skoða 17 þeirra. Ykkur myndi finnast það dálítið merkileg líka. Ef þið hafið einhvern tímann tækifæri til að fara og skoða górillur, mæli ég með því að þið gerið það. Til að stuðla að því að þið getið átt möguleika á því (þ.e. styrkja þessa frábæru starfsemi) mæli ég með því að þið skoðið áheitasíðuna hans Jóhannesar.
Myndina hérna fyrir ofan tók ég af silfurbaknum í Amohoro hópnum sem við sáum í febrúar 2008. Silfurbakurinn heitir Ubumwe og er auðþekktur af því að búið er að bíta aðeins af vinstra eyra hans (eftir slagsmál). Til gamans má geta að yfirleitt má þekkja górillur í sundur af mynstri nefs þeirra sem er eins og fingraför okkar, hver einstaklingur með sitt auðkennandi mynstur.
Gamlar myndir endurbættar og nýjum bætt við
Mig langaði dálítið að hafa síðustu færslu opna út árið 2011 en það þýðir víst lítið. Ég þarf bara að vinna einhver önnur verðlaun til að geta grobbað meira.
Með tilliti til þess að CafeSigrun vann verðlaun fyrir m.a. „besta myndefni” er svolítið fyndið að hugsa til þess að það er enn eitthvað af ljótum myndum á vefnum mínum (enginn er fullkominn). Það eru myndir sem ég tók um það bil árið 2005. Það eru fáar myndir sem ég tók fram að þeim tíma því vefurinn var jú ætlaður fyrir mig eina. Myndirnar sem ég tók eftir árið 2005 voru teknar á imbavél og ég var EKKERT að pæla í útliti myndanna því þær voru einungis fyrir mig til að muna svona um það bil hvernig uppskriftin leit út. Ég roðna hins vegar niður í tær þegar ég sé sumar myndirnar í dag og þær eru eins og tannskemmd í ágætlega hirtum tanngarði. Ég brosi líka þegar ég sé þær (um leið og ég roðna) því þær minna mig á ýmis tímabil á ævi minni. Ég man nákvæmlega hverja einustu mynd og aðstæður í kringum myndina, allt út frá umhverfinu, hlutunum sem ég nota á myndinni o.fl. Vefurinn minn er jú eins konar minningarbók.
Ég er í því þessa dagana að skoða gamlar uppskriftir með ljótum myndum og gamlar uppskriftir með engum myndum. Mér finnst gaman að glæða gamla uppskrift nýju lífi með betri mynd og fyrir vikið verða sumar uppskriftir eiginlega eins og bragðbetri. Ég er sannfærð um að uppskriftir bragðast betur ef það fylgir falleg mynd með. Texti fær mann sjaldan til að slefa úr áfergju en falleg mynd getur gert það. Mér finnst uppskriftabækur án mynda fullkomlega tilgangslausar (eins og landakort án kennileita). Ég verð hálf reið ef ég fletti bók með girnilegri mynd framan á og kemst svo að því að það er engin mynd inni í bókinni. Ég skelli svoleiðis bókum aftur og set umsvifalaust í hilluna aftur. Mér dettur ekki í hug að kaupa slíkar bækur og ég fussa alltaf. Eina undantekningin er bækur/ljósritið hefti sem ég kaupi á ferðalögum í Afríku, ég fyrirgef konunum í þorpunum þó þær séu ekki að standa í myndatökum he he. Ég veit líka að allar uppskriftirnar sem eru í svoleiðis heftum eru útbúnar frá hjartanu og ekki einungis til uppfyllingar.
En hér fyrir neðan eru nokkrar gamlar uppskriftir í nýjum búningi. Ég mun vinna að því smátt og smátt að uppfæra allar myndir (og bæta nýjum við). Ef það er einhver sérstök uppskrift sem þið mynduð vilja sjá mynd af, væri gaman að heyra frá ykkur. Ég lofa ekki að þær birtist fljótt en þær fara efst á listann yfir uppskriftir sem ég tek fyrir næst :)
CafeSigrun - Besti vefurinn í flokkinum: Besta blogg/myndefni/efnistök 2010
Ég var að horfa á upptöku af verðlaunaafhendingu íslensku vefverðlaunanna áðan (kærar þakkir Einar Þór ef þú lest þetta). Það var magnað að sjá vefinn sinn á þessum risastóra skjá (ég er jú vön að sjá hann bara á tölvunni minni) og það var magnað að heyra umsögn dómnefndar líka. Mér þótti reglulega vænt um umsögnina. Það sem mér þótti samt skemmtilegast af öllu var að heyra dynjandi lófatakið þegar úrslitin voru kunngjörð. Þá roðnaði ég pínulítið en það var allt í lagi því enginn sá til. Mér finnst líka svo skrýtið að fólk klappi því ég verð alltaf jafn hissa þegar einhver þekkir vefinn minn. Ég hefði alveg getað ímyndað mér að úrslitin hefðu verið lesin upp og svo hefði ekkert heyrst í salnum nema hóst og ræskingar, svona hrikalega neyðarlegt dæmi og ég að deyja í sætinu mínu. Ég hefði aldrei búist við dúndrandi lófaklappi. Ég fæ líka verðlaunagrip sem getur verið stofustáss (svona næstum því eins og Óskarinn). Verst að við eigum enga arinhillu því allir sem vinna verðlaun og eru frægir geyma verðlaunagripina sína á arinhillu. Ég verð bara að hafa minn fyrir ofan eldhúsvaskinn, svona sem hvatningu.
Síðast vann ég verðlaun í Gæðingakeppni Gusts árið 1990 held ég (á hestbaki sem sagt fyrir þá sem ekki þekkja til). Ég varð í öðru sæti á góðum hesti sem ég fékk lánaðan. Það munaði litlu að ég ynni þá og auðvitað er miklu skemmtilegra að lenda í fyrsta sæti. Mér leiðist samt að keppa í einhverju nema ég eigi séns á að vinna. Mér leiðist að keppa einungis „til að taka þátt og hafa gaman” og dáist að fólki sem getur slíkt.
Ég hef unnið verðlaun í ljóðakeppni, smásögukeppni, myndlist, fótbolta, fimleikum og slatta í hestunum. Ég var í marki í fótbolta, hundleiddist og náði að verja eitt glæsilegt mark með því að setjast óvart á boltann og þar með vann liðið sem ég var að keppa með. Fimleikaverðlaunin voru „besti maður fimleikaskóla” eitt sumarið og ég var hrikalega stolt því ég lagði mikið á mig. Líklega hefur þó mesta vinnan farið í að vinna nýjustu verðlaunin þ.e. „Besta blogg/myndefni/efnistök 2010” því það er svo ótrúlega mikil vinna sem felst í því að halda úti svona vef, sérstaklega með fjölskyldu og í vinnu. Þetta er því góð hvatning fyrir okkur til að halda áfram. Ég segi okkur því án Jóhannesar væri auðvitað enginn vefur til (hann er jú sá sem límir allt saman með forritun). Bestu verðlaunin mín í gegnum árin eru samt fallegu ummælin sem fólk skilur eftir eða hrós-tölvupóstarnir sem ég fæ frá ókunnugu fólki. Það eru lang bestu og verðmætustu verðlaunin og þau sem mér þykir vænst um og eru mesta hvatningin.
Nýr vefur CafeSigrun í úrslitum
SVEF (Samtök vefiðnaðarins) hefur birt lista af þeim vefjum sem komust í úrslit fyrir íslensku vefverðlaunin 2010.
Nýr vefur CafeSigrun er ásamt 4 öðrum vefjum í úrslitum í flokkinum Besta blogg/efnistök/myndefni. Vei, vei, vei!!!!!!
Village People (þorpsbúarnir)
Við erum komin í þorpið á hæðinni. Hér má stundum sjá hesta á götunni og maður mætir mjólkurbílnum í mistrinu á morgnana. Þegar rignir eru fínar frúr í fínum stigvélum sem labba um með rennislétt hárið (þó að það sé rigning og rok). Þessi bær er eiginlega bara mini-London og auðvitað aðeins minni um sig heldur en það sem við eigum að venjast en hér er þó allt til alls. Hér er t.d. Starbucks með útigarð og barnastóla og börnin eru öll stillt og prúð. Þau eru almennt ekki í frekjukasti með hor í nefinu og eins gott að vera með snýtibréf á lofti. Það eru engir pabbar í íþróttabuxum og hvítum hlýrabol með lítinn, ljótan bardagahund í bandi. Það eru heldur engar mömmur með bert á milli svo skín í naflann heldur eru mömmurnar allar með axlapeysur og slegið hár og þær eru blettafríar eins og allar fínar mömmur. Þær eru heldur ekki með 3-4 mislit börn í eftirdragi. Pabbarnir eru líka allir hávaxnir með krullur og í Babour reiðjökkum. Hér er líka organic hárgreiðslustofa sem ég hlakka til að prófa (kannski fær maður rosa fínt og slétt hár þó að sé rok og rigning?) og það má einnig finna organic efnalaugar (sem kannski ná öllum matarblettunum úr fötum foreldranna?). Hér má líka finna heilsubúðir, bakarí og litlar sætar matvörubúðir.
Jóhannes kom mér heldur betur á óvart þegar við fluttum inn því hann gaf mér Vitamix blandara sem er eins og Unimog (ofurtrukkur) blandaranna, forljótur en óstöðvandi og kemst allt. Mig er lengi búið að langa í svona blandara en hef haldið mig við Kitchenaid hingað til. Þegar við fluttum út (tæplega ár síðan) skildi ég Kitchenaid blandarann eftir heima með tárin í augunum en ætlaði að fjárfesta í nýjum, sem ég var ekki búin að láta verða af. Jóhannes setti sig svo í sambandi við Lísu vinkonu sem gat fengið upp úr mér (með lymskum ráðum) hvaða blandara mig langaði mest í. Mig grunaði ekki blandaða baun. Jóhannes sagði að sem ritari fyrirtækisins (við erum með fyrirtæki hérna úti sem rukkar inn verktakalaun fyrir mig (og Jóhannes þegar þess þarf) þyrfti ég svona græju. En ekki hvað. Það var reyndar við litla hrifningu mína sem ég var skráð ritari því Jóhannes er Director (stjórnandi) fyrirtækisins og fær póst merktan þessum merkistitli reglulega inn um lúguna. Ég verð pirruð í hvert skipti. Mig minnir að ég hafi hótað kökulausu ári þegar ég komst að þessu fyrir mörgum árum síðan. Þetta eru svo sem bara formsatriði mig minnir að stofnhlutafé fyrirtækisins hafi verið 1 pund ha ha svo þið sjáið nú umsvifin. Jóhannes hefði alveg eins getað verið ritarinn en svona var þetta skjalfest af lögfræðingi. Ég ætla að líta á blandarann sem blygðunarálag fyrir að vera blandaralaus ritari í þetta langan tíma. Að vera ég og vera blandaralaus er eitthvað sem á bara ekki að geta gerst. Það er eins og að fyrir garðyrkjumann að búa á Sprengisandi. Vitamixinn er algjört ofurtæki og það tekur um 3 sekúndur að gera smoothie sem er svo mjúkur að það er eins og maður sé að drekka silkiloft. Algjörlega brilliant. Hann getur maukað allt. Ef mig vantar möl í blómapott mauka ég bara gangstéttarhellur. Eða svo gott sem. Ég hlakka til að gera tilraunir með hann.
Flutningar: úr W1W yfir í SW19
Við erum að flytja okkur um set hér í London. Við ætlum að flytja aðeins út fyrir miðbæinn og munum búa á stað sem heitir Wimbledon Village og er voða sætur bær með litlum sætum búðum og stórum, fallegum almenningsgörðum. Hann tilheyrir London og það er auðvelt að komast inn í miðbæinn. Ef Afkvæmið fer í skóla í Wimbledon hefur Jóhannes mikinn áhuga á að koma henni í Wimbledon School for Girls sem er sami skóli og Lara Croft var í...við sjáum til með það he he.
Við ákváðum að breyta til og okkur langar að prófa að búa aðeins fjær West End/Soho svæðinu sem hefur hingað til verið okkar svæði. Okkur þykir auðvitað ákaflega vænt um „okkar svæði“ en við erum líka til í meira pláss, garð, stærra eldhús o.fl. sem er ágætt að hafa þegar maður er orðinn fleiri en 2 í heimili. Þetta er komið ágætt af flutningum síðan 1. maí 2010 (eða eiginlega síðan í mars/apríl þegar við fórum til Afríku því við fluttum út skömmu eftir ferðalagið)...Við erum reyndar búin að búa hér í 6 mánuði en vorum á dálitlu flakki fram að því. Ég hlakka mikið til að sleppa við að fara með Afkvæmið í kerru upp á 3ju hæð + innkaup (sæmilegir upphandleggsvöðvar get ég sagt ykkur) 2var á dag. Ég hlakka líka til að búa í húsi en ekki í fjölbýli, það verður góð tilbreyting því þá er maður ekki með hjartað í buxunum þegar Afkvæmið startar hljóðbókinni sinni með öllum dýrahljóðum heimsins eða ákveður að kl 7 að morgni sé tíminn til að lemja dúkkuhaus í gólfið svona eittþúsundogáttasinnum. Ekki það að nágrannarnir hafi kvartað, sumir þeirra vissu ekki einu sinni af Litla skrípinu fyrr en mörgum mánuðum eftir að við fluttum inn enda reynum við að hafa bara mjúk leikföng uppi við fyrir kl 9 og háttatími er yfirleitt um kl 18 svo ekki er verið að halda nágrönnum vakandi á kvöldin. Það er hins vegar hundleiðinlegt að vera alltaf að pæla í þessum hlutum. Það verður þægilegt að vera alveg sama þó dúkkuhausinn fari í gólfið eittþúsundogáttasinnum, oft á dag.
Þó ég sakni ekki stigans (hnéð er ekki alveg í hamingjukasti yfir stiganum) þá mun ég sakna þess að geta ekki labbað á Tottenham Court Road, í John Lewis o.fl. staði sem ég var vön að rölta á en í staðinn er ég stutta lestarferð frá stærstu matvörubúð Evrópu sem er jú líka í leiðinni stærsta heilsubúð Evrópu, Whole Foods Market. Það eru ekki leiðinleg skipti!
Við erum annars nýkomin úr góðu fríi frá Íslandi, endurnærð á sál og líkama. Ég fór meira að segja á hestbak (tengdó lánaði okkur hross) og þó ég gæti ekki rétt úr hnénu í 3 daga á eftir og þó það hafi verið bólgið og þó mér hafi verið illt alveg upp í mjöðm og þó reiðtúrinn hafi bara verið 10 mínútna hringur á feti þá var það samt ákveðinn sigur því ég fór síðast á hestbak fyrir mörgum árum, áður en ég lenti í þessum þremur aðgerðum á hnénu. Það kom mér ekkert á óvart að mér hefði verið illt en ég gat gengið eftir reiðtúrinn og það var bara gott. Afkvæmið fór heldur betur á hestbak og grenjaði rosalega þegar tími var kominn til að stíga af baki. Eins var skemmtilegast í heimi að róta sagi, borða hrosskít og fleira sem börn gera í hesthúsum. Við vorum í afskaplega góðu yfirlæti á meðan á dvöl okkar stóð því við gistum í húsi við Elliðavatnið, inn á milli grenitrjáa og vöknuðum við hanagal á morgnana. Afar, afar ljúft og við gætum alveg vanist því að búa svona afsíðis og er svo sem ágæt æfing svona áður en við flytjum til Wimbledon sem er öllu rólegri en blessunin London!
Léttar uppskriftir fyrir maga og buddu í upphafi árs
Ég tók hér saman 10 uppskriftir sem allar eru léttar fyrir buddu og maga. Mér finnst svo gott að byrja nýja árið á léttmeti (ekki það að ég borði þungan mat yfir árið en þið vitið hvað ég meina). Ég er ekki mikið fyrir að detoxa enda er það mín skoðun að við eigum ekki að þurfa að hreinsa líkamann, hann á alltaf að vera hreinn og fínn að innan! Hins vegar ef einhver vill prófa detox uppskriftir þá er ég búin að opna detox flokkinn.
Gleðilegt nýtt ár!!!
Ég var að velta fyrir mér hvað ég hefði gert sniðugt árið 2010 og fannst það eitthvað lítið. Við nánari upprifjun komst ég að því að það var heill hellingur en það sem kannski hæst stóð upp úr var:
- Við fórum til Afríku (Kenya) í nokkrar vikur í smá fjölskylduferðalag.
- Við fluttum til London.
- Við fórum til Budapest og vorum þar í næstum 3 vikur.
- Við heimsóttum Ísland a.m.k. tvisvar.
- Við opnuðum nýja vefsíðu CafeSigrun eftir langa og stranga fæðingu.
- Við upplifuðum mörg „fyrstu” hjá Afkvæminu; fyrstu flugferðina, fyrsta orðið, fyrsta „uppistandið” (stóð upp í fyrsta skipti), fyrstu skrefin, fyrsta frekjukastið og margt fleira skemmtilegt.
Þetta eru svo sem ekki nein ósköp en ég held að við séum bara sátt við að skilja 2010 eftir og byrja 2011. Við förum heilbrigð inn í nýja árið, með þak yfir höfuðið og mat í maganum og það er eiginlega það eina sem skiptir máli.
Já og ósk mín fyrir 2011 er sú að flugeldar verði bannaðir að eilífu og að þáttur björgunarsveita verði skattlagður (er ekki skattur hvort sem er á öllu?) og að þeir sem þurfa aðstoð björgunarsveita verði að greiða auka. Hvernig nokkrum manni dettur í hug að brenna peningana sína á þennan hátt með tilheyrandi hljóðmengun og alls konar mengun, er ljósárum út fyrir minn skilning.
Gleðilegt nýtt ár kæru notendur og lesendur og kærar þakkir fyrir góð viðbrögð við nýja vefnum, falleg ummæli (mér leiðist aldrei að fá falleg ummæli) og klapp á bakið...Keep 'em coming!
Laugavegurinn: Hugmyndafræðileg ringulreið
Ég veit ekki alveg með Laugaveginn. Hann gerir mig ringlaða. Það er ekki vegna „mannfjöldans” eða vegna „aragrúa verslana” (því hvergi svimar mann jafn mikið af umferð og fólki eins og í London). Hann gerir mig ringlaða því í hvert skipti sem maður labbar hann hefur kaffihús/veitingahús eða ný verslun opnað og önnur lokað. Fyrir um 2 árum síðan labbaði ég stutta leið hvern dag frá heimili okkar í vinnuna og stundum kom það fyrir að verslun náði ekki að lifa af mánuðinn. Margar af þessum verslanir voru „concept verslanir” (sem ég hef aldrei skilið alveg þar sem allar verslanir hafa eitthvert (oft misgáfulegt) concept). Laugavegurinn er eins og æviskeið þjóðar; á meðan einn deyr, fæðist annar. Ég sagði fyrir mörgum árum síðan að Laugavegurinn væri eins og einn stór gjörningur, verslanir opna í nokkra mánuði í senn og loka svo eins og listaverki sem er ætlað að vera lifandi en aðeins til að njóta í skamms tíma. Hversu margir draumar ætli hafi brostið á Laugaveginum, hversu mörg bankalán ætli hafi verið fengin til að opna nýja verslun, hversu margar vinnustundir ætli hafi farið í að gera upp húsnæði? Hversu mikil streita ætli liggi að baki hverri einasti lokun og hverri einustu opnun? Mér hrýs hugur við tilhugsunina. Ég sagði einnig fyrir nokkrum árum síðan að það að opna verslun á Laugaveginum væri heimsins mesta bjartsýni. Í dag finnst mér það ekki flokkast undir bjartsýni heldur einhvers konar geðveiki.
Það er búið að gera margt gott fyrir Laugaveginn og m.a. búið að gera upp einhver hús þannig að þau eru nú eins og gulltennur í ljótum tanngarði en ég taldi a.m.k. 8 verslanir og 3 kaffihús sem hafa hætt/byrjað síðan í október. Það er akkúrat það sem gerir mig ringlaða. Ég sagði við Jóhannes þegar við vorum hérna í október…Hey mig langar svolítið að prófa þetta kaffihús, gerum það í desember! Nú er það farið. Ég sagði líka við hann í október… Hey manstu veitingastaðinn sem er hérna á næsta götuhorni og við aldrei búin að prófa en höfum alltaf ætla að gera? Förum á hann í desember. Nú er hann farinn. Ég veit ekki hvort mér á að líða eins og ég hafi verið svikin, eða eins og ég hafi verið göbbuð (því báðir staðirnir lofuðu æðislegum mat/æðislegu kaffi o.s.frv.). Ef ég hefði prófað staðina hefði mér líka liðið asnalega, sérstaklega ef þeir hefðu verið góðir og ég talað um þá við alla sem ég þekki. Það er svolítið eins og að lýsa fyrir útlendingum frámunalega fallegum Norðurljósunum og svo koma þeir og sjá engin tindrandi ljós á himni. Mjög mikið svindl.
Laugavegurinn gerir mig hugmyndafræðilega ringlaða og af því ég er ein af þeim sem þarf að sjá þráðbeinar ljósaseríur (annars líður mér illa) þá höndla ég hann ekki alveg. Ég veit aldrei hvar ég hef hann. Ég verð óörugg og veit ekki hvað er handan hornsins. Laugavegurinn er listaspíran í bekknum sem horfir út um gluggann og aldrei lærir heima. Hann er ættinginn sem alltaf er að skilja og kvænast aftur. Hann er vinurinn sem er alltaf að skipta um vinnu. Hann er pabbinn sem er aldrei heima. Hann er leikarinn sem alltaf er alveg að fara að meika það. Hann er bílasalinn sem er með díl aldarinnar (druslu) bara fyrir þig. Ég treysti Laugaveginum ekki og mér finnst ég þurfa einhvers konar meðferð eftir að hafa gengið hann. Held samt að fáum líði svona eins og mér…eða ég veit ekki um neinn annan.
P.s. Er búin að heyra nokkrum sinnum í útvarpi þegar ég er stödd í verslunum að útvarpsmenn segja “LaugaRvegurinn”…..meira að segja í auglýsingu…..really?