Bloggið
Óskynsemi
Ég er svooooooo óskynsöm. Rétt áður en ég fer í flugvél að horfa á fyrsta þáttinn í Lost sem ég vissi að var flugslysamynd (fjallar um fólk sem strandar á eyju eftir flugslys) og að sjálfsögðu er ég búin að horfa á 4 þætti þar sem sumt er endurtekið aftur og aftur (fólk að hugsa til baka og svona). Hversu óskynsamur getur maður verið þegar maður er flughræddur. Ég veit að hræðslan er órökrétt, veit hversu litlar líkur eru á því að eitthvað gerist, veit allt um það, búin með sálfræði og tölfræði og ég veit ekki hvað og hvað þannig að ekki reyna að segja mér að maður þurfi ekkert að vera hræddur í flugvél. Ég veit það. Ég er samt hrædd í flugvél. Ég held að það sé af því að mér finnst þetta svo ónáttúrulegt og óraunverulegt, að vera uppi í þessari hæð. Það heimskulegasta er, að þegar ég er að keyra í flugvélinni, að eða frá flugstöðvarbyggingunni þá líður mér best og þá er einmitt mikil hætta á því að eitthvað komi fyrir vélina. Reyndar þoli ég ekki flugtak og mér er ekkert vel við lendingar heldur. Hata að vera í loftinu líka. Finnst skemmtilegast að horfa á flugvélar bara, á öruggum stað, í góðri fjarlægð.
Á tímabili var ég svo hrædd að ég kallaði Heathrow Deathrow (Deild fyrir dauðadæmda fanga) og svitnaði í lófunum við tilhugsunina um að fara í flugvél. Svo er þetta eins og með alla fælni, maður þarf bara að takast á við hana og pína sig dálítið, taka eitt skref í einu. Ég er ekkert hrædd núna að fljúga nema mér finnst það bara óþægilegt og ónáttúrulegt. Við vorum bara ekki framleidd til þess að vera í stáltúbu upp í 10 kílómetra hæð sko. Svitna samt ekkert í lófunum lengur. Myndi annars verða fyrir miklu vökvatapi þar sem ég flýg 1-2var í mánuði hí hí.
Ég er annars með ákveðið heimatilbúið hræðslukerfi og það er í 4 stigum.
- Stig 1: Smá hristingur í vélinni en allt eðlilegt þ.e. flugfreyjur brosandi og svona og enginn hræddur þó að kaffið slettist pínulítið.
- Stig 2: fólk er beðið um að festa sætisólarnar og fara í sætin sín. Flugfreyjurnar líka (smá sviti í lófum hér) og finnst það alltaf jafn óþægilegt.
- Stig 3: Flugfreyjurnar eru orðnar stressaðar (hef ekki lent í því sjálf en hef heyrt sögur af vinum og kunningjum). Hér væri ég eflaust farin að grenja eða gubba, eða bæði.
- Stig 4:Flugfreyjurnar eru skelfingu lostnar (þær eru mannlegar sko) og súrefnisgrímurnar detta niður. Vélin hrapar (hef heldur ekki lent í og þekki engan heldur sem hefur lent í því).
Ég þarf alltaf að sitja hægra megin í vél og ég þarf að sitja yfir vængnum og helst þannig að ég sjái inn í hreyfilinn (Best ef það eru Rolls Royce hreyflar, treysti þeim). Þá veit ég alla vega hvað er að gerast ef kveiknar í honum, miklu betra að vita allt svona fyrst sko. Svo vil ég sitja framarlega því það er minni hristingur en aftar í vélinni. Ég stíg ekki upp í minni vélar en Boeng 737.
Veit um eina konu sem var svo flughrædd að hún endaði á því að læra að fljúga flugvélum. Fíla það. Væri alveg til í það.
Finn að þetta hefur ekki hjálpað órökrænu hræðslunni minni baun þannig að ég ætla að hætta núna enda lyklaborðið orðið svolítið sleipt.
Muffinski's
30 stig
Sól sól skín á mig
Jæja sólin skín og hitinn er kominn upp í 23 gráður. Í dag er spáð 28 stiga hita og sól. Hitinn var 19 gráður þegar við fórum í ræktina kl 6. í morgun, þægileg gola og veðrið gæti bara ekki verið fullkomnara. Mér er reyndar meinilla við sólina sjálfa og er helst aldrei beint undir sólinni því þá verður mér allt of heitt og ég verð bara pirruð og leiðinleg en 25 gráður í skugga er bara fínt. Ég er svoooooooooo þakklát fyrir að þurfa ekki að vera í lestunum í svitabaði og vondri fýlu. Það versta samt er þegar einhver er að borða fisk og franskar eða hamborgara í lestinni á svona dögum. Já það hefur alveg komið fyrir og manni VERÐUR flökurt.
Ég ætla að fá Jóhannes til að hitta mig í hádeginu í litla garðinum rétt hjá vinnunni, aðeins til að teygja úr mér og njóta góða veðursins. Þó að London sé álitin stór, ljót og grá af mörgum, þá er þetta sú stórborg í öllum heiminum sem hefur hlutfallslega flestu grænu svæðin og garðana. Bara um að gera að nota þá sko!
Það er spáð kólnandi á morgun (reyndar niður í 20 stig) en það er allt í lagi, það er að minnsta kosti yfir frostmarki!
Sumar og sól
Held að sumarið sé komið í London, svei mér þá. Það er 20 stiga hiti í dag og búin að vera um 20 stig og sól alla vikuna. Á morgun er spáð 27 stiga hita og sól! Ég meira að segja fór ekki með trefil í vinnuna í dag, það þýðir að þá er komið sumar. Ekkert svo langt síðan að ég lagði ullargammósíunum og vettlingunum sko. Sá á mbl áðan að það voru 4 stig í Reykjavík hí hí. Ætti reyndar ekkert að hlæja mikið, er að fara þangað í næstu viku! Mér finnst einmitt passlega heitt núna í London, má ekkert vera heitara því þá verður bara mollulegt og viðbjóðslegt loftið.
Fórum í IKEA í gær. Mér er reyndar meinilla við IKEA en maður getur samt gert góð kaup þar og þegar maður er að spara þá er IKEA auðvitað hið besta mál. Þegar maður fer í IKEA hér þá finnur maður hvað maður hefur það svakalega auðvelt á Íslandi. Þar fer maður bara á sínum eiginn bíl og ekkert mál, með bros á vör (nema um helgar) og gerir sín innkaup sem fara beint í bílinn og heim. Hérna þurfum við fyrst að labba á lestarstöð (tekur um 10 mínútur). Svo þurfum við að taka lestina (þurftum að skipta einu sinni á leiðinni) og það tekur um 40 mínútur. Svo þurfum við að bíða eftir strætó í svona 10 mínútur og taka svo strætó 192 EÐA IKEA strætóinn (ljótur sendibíll) sem taka aðrar 10 mínútur. Allt í allt tekur um 1,5 klukkutíma að komast í búðina. Við fórum í IKEA búð í Edmonton (bær í London ekki þessi í Alberta, Canada hí hí). Ok búðin er reyndar rosa fín og það var frábært að fara á miðvikudagskvöldi því það var ENGINN í búðinni. Þessi búð komst í fréttirnar um daginn þar sem var nýbúið að opna hana og lætin voru svo mikil í fólkinu að það þurfti að kalla út lögreglu, sjúkrabíla og einn dó því hann var stunginn í magann. Klikkað lið. En já sem sagt svo keyptum við fullt af drasli (sem okkur er búið að vanta lengi en ekki drullast til að kaupa) og jafnlangt ferðalag tók við heim. Svo er maður ekki svo heppinn að vera á bíl heldur þarf maður að borga undir flutningana á dótinu.
Ég var bara svo fegin í gær að ég er ekki dags daglega að nota neðanjarðarlestarnar, fékk nóg af því fyrir nokkrum árum.URRRRRRRRR. Að standa í 40 stiga hita (ekki minna en það inn í troðfullri lest), í algeru loftleysi, upp í handarkrikanum á einhverri skrifstofublók sem er búin að svitna allan daginn yfir pappírunum (bölva því mjög reglulega að vera ekki stærri en ég er og ná ekki lengra en upp í handarkrika á fólki) og svitinn bogar af manni. Upplifði þetta sem sagt í gær en þarf þess ekki á hverjum degi sem betur fer þar sem ég get labbað í vinnuna.
En núna eigum við fullt af IKEA dóti og þurfum ekki að fara þangað í bráð. Sem betur fer!
U2 miðarnir komnir
Jibbí. U2 miðarnir eru komnir og ég er búin að hengja þá á ísskápinn svo ég geti horft á þá oft á dag þangað til tónleikarnir fara fram. Þeir eru 19. júní þannig að ég get horft á miðana í rúmar 3 vikur frá og með deginum í dag. Það er reyndar skemmtilegra að horfa á U2 spila en samt, ég get látið mig hlakka til alveg þangað til og horft bara á miðana á ísskápnum.
Það verður reyndar varla neitt sem toppar 80 þúsund manna U2 tónleika í Slane Castle á Írlandi 2001 vá vá vá en það verður alveg ÖRUGGLEGA samt frábært og æðislegt á þessum tónleikum, þetta er nú einu sinni U2 sem ER sko auðvitað besta hljómsveit í heimi (það eru margar fleiri góðar en U2 er samt best!). Smári og Anna Stína þið verðið bara að horfa á miðana hér því ykkar koma ekki alveg strax hí hí.
Annars fyrir þá sem ekki vita þá fórum við Jóhannes á U2 tónleika í Slane Castle 2001 (þar sem platan Unforgettable Fire var meðal annars tekin upp) og þeir höfðu ekki haldið tónleika þar í 20 ár. Tónleikarnir okkar voru daginn eftir jarðarför pabba Bono og voru þess vegna mjög tilfinningaþrungnir. Upphitunarhljómsveitir voru meðal annars Red Hot Chilli Peppers (frábærir), Coldplay (finnst þeir góðir en þeir voru alls ekki að virka fyrir framan þennan mannfjölda), Kelis og JJ72. Svo mættu U2 á svæðið og að heyra 80 þúsund manns tryllast er soldið klikkað. Við vorum eiginlega alveg aftast, vinstra megin við kastalann og hljómsveitin var auðvitað bara litlir maurar á sviðinu en það var allt í lagi, það var stór skjár og við heyrðum VEL. Ég verð að segja að hljómsveitin er betri á tónleikum en á diskum (er það hægt?). Svo eftir tónleikana, labbaði ég í leiðslu með Jóhannesi í rútu sem flutti okkur inn til Dublin. Í rútunni voru allir hálf syfjaðir (við vorum alveg að sofna, höfðum ekkert sofið í um sólarhring því við vorum að koma eiginlega beint frá Íslandi). Byrjar ekki einn Íri, að syngja upp úr þurru (við erum að tala um algerlega upp úr þurru). Hann hélt áfram að syngja og fólk var farið að rumska aðeins. Fleiri fóru að raula með og að lokum var kominn gítar, um 15 manns að syngja með og einhver söngkona sem var með mjög flotta rödd tók undir. Þetta var magnað. Þau sungu alla leiðina, í rúman klukkutíma! Þau voru auðvitað öll blindfull og þetta voru mest megnis ógeðfelldar klámvísur en samt skemmtilegt!
Við vorum svo óheyrilega blönk þarna að við áttum varla fyrir mat. Við nurluðum saman fyrir samlokum á tónleikasvæðinu (sem voru viðbjóður) og við áttum ekki peninga fyrir alla ferðina í leigubílnum upp á flugvöll en leigubílstjórinn gaf okkur það sem upp á vantaði. Það var ekki séns að við ættum fyrir hóteli þannig að það var bara kalt og hart gólfið á flugvellinum sem beið. Við steinsofnuðum bæði reyndar. Þið eruð kannski að velta fyrir ykkur hvernig við höfðum efni á því að fara á tónleikana? Jú ég fékk eina bestu og óvæntustu gjöf sem ég hef fengiðá ævinni. Árni Matt sem var að vinna með Jóhannesi á mbl fékk miðana og gaf okkur þá. Ég verð honum ævinlega, ævinlega þakklát. Mun samt ekki skýra börnin í höfuðið á honum þó að hann sé búinn að biðja um það í staðinn. Ef ég eignast hund þá má hann heita Árni Matt :)
Þetta verða sennilega bestu tónleikar ævi minnar en það er ekki þar með sagt að maður eigi ekki að prófa fleiri tónleika. Við höfum verið nokkuð dugleg við að skreppa á tónleika, erum búin að sjá t.d. Lenny Kravitz (mjög flottur en ömurlegt upphitunarband), Tom Waits (þvílík upplifun), Stereophonics (góðir), Moby (mjög góður), Macy Gray (allt í lagi). Sáum Macy fyrir nokkrum árum og ég man ég sagði við Jóhannes að mér fyndist eiginlega upphitunarhljómsveitin hennar betri, þvílíkur kraftur í þeim. Ég lagði nafnið á þeim á minnið og það voru engvir aðrir en Black Eyed Peas sem eru orðin svaka fræg í dag. Svo sáum við Sigurrós í London (algjörlega magnaðir). Man ekki eftir fleiri tónleikum en okkur langar á miklu fleiri, aðallega langar okkur þó að sjá LAMB og Björku. Heyrðum aðeins í LAMB á Moby tónleikunum en svo misstum við tónleikum með þeim því trommarinn þeirra var veikur og tónleikunum í það skiptið aflýst. Svo er Duran Duran á Íslandi í sumar, ohhhhhh mig langar svo að fara, væri geðveikt. Var ekkert SMÁ hrifin af Duran Duran og fannst Roger Taylor sætastur.
Flintstones
Tárið
Kaffitár er um margt sérstakur staður. Ég fer nú oft á Kaffitár (og á Te og Kaffi) þegar ég er á Íslandi, nánast á hverjum degi og þegar maður fær gott kaffi á hvorum staðnum sem er, þá er það GOTT enda eigum við heimsmeistara og ég veit ekki hvað í kaffibarþjónamennsku.
Andrúmsloftið er mjög sérstakt á Kaffitári. Þegar maður kemur þar inn þá sér maður yfirleitt 2-3 andlit sem maður kannast við annað hvort úr Háskólanum, Myndlista- og Handíðaskólanum, vegna vinnunnar, eða svo geta þetta líka verið þjóðþekkt andlit. Oftar en ekki má maður sjá rithöfunda að spjalli við stjórnmálamenn, upprennandi söngkonur að raula laglínur úr nótnabókum, leikara að bera saman bækur sínar fyrir sýningar, menn á viðskiptafundum að skrifa undir samninga og margt fleira skemmtilegt. Einu sinni sat ég við hliðina á Morten Harkett úr AHA. Var reyndar aldrei skotin í honum í gamla daga, hefði annars farið í kleinu.
Ég held að stemmningin á Kaffitári sé einstök, hvort sem það er miðað við Ísland eða útlönd. Til dæmis þegar kaffibarþjónar hafa lokið vakt dagsins og eru að kveðja þá er yfirleitt helmingurinn af viðskiptavinunum sem kveður viðkomandi starfsmann líka! Þó ég sé mjög hrifin af Te og Kaffi líka þá er stemmningin ekki alveg eins og allt virkar óskipulagðara bæði í framreiðslu og afgreiðslu. En mikið getur kaffið verið gott á báðum stöðum (fer algerlega eftir því hver er við kaffivélina það skiptið).
Ég er svooooo glöð yfir því að þau hjá Kaffitári séu búin að skipta út þessum óþolandi járnstólum sem voru að gera mig geðveika. Ískrið í þeim á steingólfinu hélt mér stundum frá staðnum, það skar í gegnum merg og bein og ég þurfti alltaf að drekka eitthvað mjög heitt og vera mikið klædd því ég var með stanslausa gæsahúð. Núna eru komnir fínir tréstólar sem er unun að hlusta á, svona næstum því.
Ég á eftir að sakna Kaffitárs en ég kem aftur eftir 10 daga svo ég hlýt að geta lifað af biðina og farið á Starbucks!
Fyrir þá sem hafa áhuga á kaffi þá getið þið skoðað vefinn hans Jóhannesar www.urbanmania.com/kaffi
Sushileitarvél
Nammi namm. Jóhannes sendi mér þessa slóð í gær. Þetta er svona sushileitarvél það er að segja maður getur leitað að sushistöðum ef mann langar að prófa (reyndar bara í Bandaríkjunum). Jóhannes fór víst á einhvern sushi stað í Boston þar sem var bara gónt á hann og þjónarnir vildu ekkert láta hann fá allan matinn, fannst hann svo mikill og voru þjónarnir afsaplega efins um að hann gæti klárað matinn sem var borinn á borð fyrir hann (og þetta var samt í Bandaríkjunum). Jóhannes greyið reyndi að útskýra fyrir þeim að hann væri svo voðalega svangur og vildi ALVEG fá allan matinn, endilega. Hann fékk loksins allan matinn, og kláraði hann auðvitað og þjónarnir og matreiðslumennirnir glottu bara og hristu hausinn. Greinilegt að hæfileikar og orðspor Jóhannesar í sushiáti er ekki komið út fyrir Bretland og Ísland!
Hér er slóðin á sushileitarvélina fyrir þá sem eru að fara til Bandaríkjanna og langar í Sushi http://sushifinder.com/finderHome.asp
Mig langar alveg í svona sushileitarvél fyrir Bretland!
Lífrænt hótel
Ég sá grein í mogganum í dag og ég varð alveg græn og ekki úr öfund heldur ógeði. Það var verið að tala um hótel í London og hversu „hrein" þau væru. Lýsingarnar voru ekki beint geðslegar og var ekkert hótel sem náði fullri einkunn varðandi hreinlæti. Þetta er alveg í samræmi við hótelið sem við Jóhannes gistum einu sinni á í London. Það hét Green Court og var Ó-G-E-Ð. Við komum inn og það fyrsta sem ég sá voru götótt teppi og götótt sængurföt. Það er ekki svona eins og mörg hótel í London, gömul, slitin og hrein. Ónei. Þetta var gamal, slitið, óhreint og ógeðslegt. Það voru hár út um allt, aðallega krullótt Indverjahár (hef ekkert á móti Indverjum). Það versta var að rúmfötin voru MJÖG óhrein og það voru líka krullótt Indverjahár í rúminu. Ég get þolað margt en EKKI hár í rúmi, af öðrum. Þar set ég mörkin sko. Gardínunar voru gráar af skít (höfðu upphaflega verið hvítar), og allt var brotið og bramlað. Ok þetta var nú hreint miðað við baðherbergið. Eftir baðherbergið tók ég ákvörðun um að gista ekki meira en eina nótt. Ég svaf hálfpartinn sitjandi því ég gat ekki hugsað mér að leggjast.
Ég er ekkert hrikalega sérvitur á gistingu sko, get sofið á vindsæng og með lak ofan á mér, alveg sama um það en það verður að vera hreint, annars fæ ég bara sting í magann og verður bumbult. Ég þarf víst ekki að taka fram að við borðuðum ekki morgunmatinn á þessu hóteli.