Smakkstundin
Öll börn hafa sína sérvisku í tengslum við mat og hvers kyns bragð, áferð og lykt. Mín börn eru þar engin undantekning. EH sem er 7 ára stúlka vill ekki sjá ólífur eða fetaost (ekki kaldan ost yfirhöfuð) eins og pabbi hennar en NS sem er 5 ára drengur elskar capers og parmesan eins og mamman (ég). Ég hef gríðarlegan áhuga á því hvernig börn borða, hvað þau borða, hvers vegna þau borða það sem þau borða og hvernig fjölskyldan borðar yfirleitt. Það eru gríðarlega margir þættir sem spila þarna saman. Mér er mikið í mun að börnin mín borði fjölbreytt og til þess að svo sé, þarf að bjóða þeim upp á fjölbreytni í mat! Maður er nefnilega ótrúlega fljótur að detta í fasta rútínu sem er ekki endilega gott fyrir mann.
Börnin mín eru mjög dugleg að borða ávexti og grænmeti en mér fannst vanta upp á t.d. að vilja smakka osttegundir, ýmis grænmetismauk og eitt og annað sem oft er á boðstólum hér heima. Svo ég skipulagði stóra smakkstund. Litlar smakkstundirnar eru búnar að vera fastur liður frá því börnin voru nánast ómálga, ég gólaði mjög reglulega SMAKKSTUND og þau komu kjagandi á litlu fótunum sínum með skoltinn opinn eins og litlir fuglsungar, tilbúin til að taka á móti því sem kom. Þá var ég kannski að gera tilraunir með pestó eða muhammara (papriku- og valhnetumauk), hummus og fleira í þeim dúr. Eins bauð ég þeim líka að smakka ef ég var að gera tilraunir á kökum og fleiru. Auðvitað þótti þeim það síðarnefnda betra og skemmtilegra að smakka, en það var allt sett undir sama hatt þ.e. ég bauð þeim jafnt að smakka á því eins og öðru sem ég var að útbúa.
En að smakkstundinni. Ég útbjó spjöld með myndum (sem ég fann á netinu) af greipaldin (beiskt), salti (salt), vínberjum (sætt), sítrónu (súrt), chilli (sterkt) og svo eitt spjald með umami (t.d. bragðið sem maður finnur í misosúpum, næringargeri, kjötsoði o.fl.). Það sem var í smakkstundinni var eftirfarandi: Súrdeigsbrauð, sesamkex (nokkuð hlutlaus grunnur til að smakka), epla- og bananamauk, mangó, vínber, rúsínur, gráfíkjusulta (án viðbætts sykurs), grænar ólífur, rófur, blámygluostur, fetaostur, parmesan, camembert (mikið þroskaður), saltað og bakað maískorn, jarðhnetur, furuhnetur, rautt pestó úr krukku, grænt pestó heimatilbúið (basil, ólífuolía, hvítlaukur, parmesan, furuhnetur), misósúpa, noriblöð (blöðin sem fara utan um sushi), greipaldin, sykurhrökkbaunir, eikarlauf, hvítkál, kínakál, ruccola (klettasalat), Lambhagasalat, krydduð síld, svartur pipar og svartur kavíar.
Það voru einungis tvær reglur: Fyrri reglan var sú að ekki mátti segja oj en síðar reglan var sú að það þurfti að smakka heilan bita af því sem smakkað var (þetta voru yfirleitt mjög litlir bitar). Við vorum einungis að dæma bragðupplifun, ekki að dæma hvort að eitthvað væri gott/vont. Eftir hvert smakk, lyfti hver og einn spjaldi/spjöldum og það var gaman að sjá hversu ólíka bragðupplifun við höfðum á hverri afurð. T.d. lyfti ég upp spjaldi fyrir salt, beiskt og umami fyrir camembert á meðan eiginmaðurinn lyfti upp salt en börnin lyftu upp beiskt. Þetta tók langan tíma hjá okkur en var ofsalega skemmtilegt. Það spunnust umræður um ýmislegt tengt matvælum, bragði o.fl., hvað passaði vel saman (t.d. camembert, ruccola og gráfíkjusulta) og hvað passaði illa saman (ólífur og síld).
Það skemmtilega í þessu er að börnin fá þarna rödd við matborðið og þau gefa sitt álit og á þau er hlustað. Þau eru álitsgjafar eins og við fullorðna fólkið. Orðaforði þeirra gagnvart mat og alls kyns afurðum eykst og viljinn til að smakka eitthvað nýtt eykst líka.
Ég mæli með því að prófa svona smakkstundir!
Ummæli
09. feb. 2017
Frábær hugmynd! Ég hef verið alltof löt við að láta drengina mína smakka og er mjög föst í að gera alltaf það sama en við munum örugglega prófa svona á mínu heimili. Strákarnir okkar eru einmitt 7 og 5 ára.
09. feb. 2017
Maður er einmitt svo fljótur að detta í það sama...og það á við um mig líka. Svona smakkstundir opna bragðheiminn fyrir krökkunum, og okkur fullorðna fólkinu líka :)