Dómur um CafeSigrún bókina! Fimm stjörnur!
Í dag (12. desember 2015) birtist ritdómur um bókina mína í Morgunblaðinu. Bókin hlaut 5 stjörnur af 5 mögulegum, eða fullt hús. Ég er auðvitað í skýjunum yfir viðtökunum, ritdóminum og öllum hlýju óskunum. Þær fóru langt fram úr því sem ég hafði þorað að vona:
„Fræðandi og skemmtileg
Café Sigrún: Hollustan hefst heima *****
Eftir Sigrúnu Þorsteinsdóttur.
Texti og myndir eftir Sigrúnu.
Vaka-Helgafell gefur út. 303 bls. innb. í stóru broti.
Café Sigrún hefur nafn sitt af vefsetri sem Sigrún Þorsteinsdóttir hefur haldið úti býsna lengi; ætli hún sé ekki einn af „elstu“ matarbloggurum Íslands og um leið einn sá þekktasti. Í inngangi að bókinni rekur Sigrún hvernig það kom til að hún fór að fást við matargerð sem skilaði sér í vefstetrinu cafesigrun.com og síðar í þessari bók. Þar kemur og fram að hún fór snemma að velta því fyrir sér hvernig það sem við innbyrðum er ekki bara orkugjafi, heldur getur það skipt verulegu máli um vellíðan og velferð. Sú hugsun einkennir þesssa bók og er hvarvetna vel útfærð, hvort sem það er í inngangstexta að hverri uppskrift, í leiðbeiningum eða merkingum, en við hverja uppskrift er hægt að sjá hvort hún sé glútenlaus, eggjalaus, hnetulaus, mjólkurlaus, vegan eða án fræja eða hvort einfalt sé að breyta henni í þá átt. Þetta er náttúrlega ekki neitt sem alætur þurfa að hafa áhyggjur af, en getur skipt verulegu máli ef eldað er fyrir einhvern sem þjáist af óþoli eða ofnæmi og er því einkar gagnlegt. Gríðarmikið er af fróðleik í bókinni, sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa spreytt sig á framandlegri matreiðslu, en ekkert hráefni rakst ég á í bókinni sem ekki er fáanlegt hér á landi – þökk sé fjölmenningu. Þetta er þó ekki beinlínis ævintýrabók, uppskriftirnar eru einfaldar í sjálfu sér, eða réttara sagt blátt áfram og kalla ekki á margra daga undirbúning og eldhúsfimleika. Leiðbeiningarnar eru líka greinargóðar og myndirnar mjög lýsandi. Frágangur á bókinni er til mikillar fyrirmyndar, uppsetning einkar góð og myndir í henni, sem Sigrún tekur sjálf, eru hreint afbragð. Þegar hefur verið getið um uppskriftirnar sjálfar, en inngangur að uppskriftunum og eins að hverjum kafla fyrir sig er fræðandi og skemmtilegur, svo skemmtilegur reyndar að þegar ég tók bókina upp í fyrsta sinn gleymdi ég mér í textanum – fletti yfir uppskriftirnar til að skyggnast í líf Sigrúnar og fjölskyldu hennar. Um 200 uppskriftir eru í bókinni.” (Árni Matthíasson)