Heimatilbúið, sultað engifer (gari) fyrir sushigerð
Ég geri þó nokkuð mikið af sushi. Flestir halda að sushi sé ofboðslega hollt og klárlega getur sushi verið það. Ekki allir vita þó að sushi getur verið gríðarlega óhollt, fullt af sykri, bragðaukandi efnum (MSG), gervisætu (t.d. aspartam), majonesi með alls kyns aukaefnum og jafnvel djúpsteiktu kjöti! Ekkert af þessu á skylt við það frábæra og hreina sushi sem við fengum í ferð okkar til Japan árið 2007. Við borðuðum sushi á hverjum degi í 10 daga og stundum oft á dag. Það var töluvert minna sætt en það sem er á boðstólum á Vesturlöndum og allt hráefni útbúið frá grunni. Svo má aldrei vera steikingarlykt inni á sushistað (en grjónin taka í sig bragð af henni) en það finnur maður allt of oft hér á landi sem og víða annars staðar. Það er ekki að undra þó Japanar lifa fram í háan aldur því hráefnið er gott og maturinn hreinn.
Á einum af þessum sushistöðum sem við prófuðum fylgdist ég með sushimeistaranum útbúa engifer (gari) og uppskriftin mín er fengin þaðan en reyndar með smávegis tilfærslu. Ég nota nefnilega steviadropa en ekki sykur og það er bara stórgott. Allavega vilja mínir sushimatargestir aldrei neitt annað. Og þeir hafa verið ófáir í gegnum tíðina!