Frozen kakan

Það er ekki lítil pressa sem sett er á mann þegar 4ra að verða 5 ára skotta biður mann með brúnu augunum sínum að útbúa FROZEN köku. Í fyrsta lagi að ég neita að bjóða upp á keyptar kökur, í öðru lagi af því ég nota ekki hefðbundna matarliti og í þriðja lagi af því sykurmagn hefðbundinna kaka með einhverju sem á að virka í barnaafmælum hleypur á 4ra stafa tölum í grömmum. Svo höfuðið var lagt í bleyti eins og oft áður. Ég hef notað cashew krem en þau eru ekki nægilega stíf fyrir köku eins og ég vildi gera, né verður kremið eins hvítt og ég myndi vilja. Svo ég hugsaði með mér að í kökuna myndi ég hreinlega nota rjómaost þó ég noti hann aldri í neitt annað. Hann er þó hrein afurð. Næsta skref var að minnka sykurmagnið en ég notaði erythritol frá VIA-Health í þeim tilgangi (flórsykurinn). Þriðja skrefið var svo að nota matarlit sem ekki er búinn til í efnafræðistofu og hann fann ég í London (natural food colouring) en ég hef verið hrifin af litunum frá India Tree og Waitrose. Indian Tree má kaupa á netinu.

Uppskriftin af kreminu fyrir frekar netta 2ja hæða köku er: 400 g hreinn rjómaostur, 600 g erythritol flórsykur, smá salt og 1 msk vanilludropar (má bæta við af flórsykri eða nota stevia fyrir meiri sætu). Ég notaði svo bláa, náttúrulega matarlitinn til að lita svolítið af erythritol sykri (grófum) til að útbúa fallegan bláan sykur.

Í hefðbundinni köku af þessari stærð væru um 900 g af hvítum sykri en í staðinn er aðeins hrásykur í botnunum sem verður að teljast vel sloppið! Skvísurnar voru lukkulegar með kökuna. Afganginn af kökunni (þ.e. það sem ekki var borðað eða fór í nestisbox), notaði ég í eins konar cookie dough vanilluís......það kom hreint ekki illa út :)

Hér má sjá afraksturinn en í botnana notaði ég frönsku súkkulaðikökuna hennar Lísu.

 

 

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It