Pride uppskriftin 2014

Litagleðin í fyrirrúmi

Við frumsýnum Pride uppskriftina 2014 - regnbogaís!

Á hverju ári núna í nokkur ár höfum við gefið út Pride uppskrift í tengslum við Hinsegin daga. Með þessu viljum við sýna stuðning okkar við réttindabaráttu samkynhneigðra og aðra þá sem þurfa stuðninginn. Á sama tíma gleðjumst við yfir hversu langt við erum komin hér á landi í þessum málefnum. Húrra fyrir Pride 2014!

Uppskriftin er mjólkurlaus, glúteinlaus og vegan ef þið notið ekki hunang. Ég nota náttúrulega matarliti frá Indian Tree og Waitrose (sem ég keypti í London). Kíkið í heilsubúð og spyrjist fyrir um náttúrulega matarliti.

Maukuð jarðarber eða rifsber geta gefið rauðan lit.
Maukað mango getur gefið appelsínugulan lit.
Smá klípa turmeric getur gefið gulan lit.
Spírulína getur gefið grænan lit.
Blái liturinn er erfiðastur og í náttúrunni finnast fáar afurðir sem maður getur notað fyrir bláan lit. Bláber gefa nefnilega fjólubláan lit.
Rauðrófusafi og bláberjasafi geta gefið fjólubláan lit.
Ef þið notið keypta, náttúrulega matarliti gætuð þið þurft að blanda litina sjálf fyrir appelsínugulan og fjólubláan lit. Athugið að fyrir appelsínugulan lit gætuð þið þurft að blanda sjálf rauðum og gulum saman en fyrir fjólubláan gætuð þið þurft að blanda saman bláum og rauðum.

Innihald:

  • 325 cashew hnetur lagðar í bleyti yfir nótt
  • 330 ml möndlumjólk eða önnur mjólk
  • 130 ml kókosolía
  • 120 ml hlynsíróp eða hunang
  • Nokkrir dropar náttúrulegir matarlitir (rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár, fjólublár)

Aðferð:

  1. Leggið cashew hneturnar í bleyti yfir nótt og hellið svo vatninu vel af (gott að setja í sigti).
  2. Setjið í matvinnsluvél eða góðan blandara ásamt möndlumjólk, kókosolíu og hlynsírópi (eða hunangi). Blandið í um 5 mínútur og skafið hliðar matvinnsluvélarinnar nokkrum sinnum. Því meira sem þið náið að blanda því skemmtilegri áferð verður á ísnum. Ef þið eigið Vitamix mæli ég með honum í þetta verkefni.
  3. Skiptið blöndunni í 6 jafnstóra skammta og bætið nokkrum dropum (eða meira eftir smekk) af lit út í hvern skammt.
  4. Takið til eins lítra ísform og hellið fyrsta skammtinum (rauðum eða fjólubláum) ofan í formið. Frystið í nokkrar klukkustundir og endurtakið svo í réttri röð: Rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár og fjólublár.
  5. Frystið í nokkrar klukkustundir (án þess að hræra) og takið svo út til að láta þiðna aðeins. Eftir um 30 mínútur má losa allan ísinn úr forminu og setja á disk en annars má skera varlega ofan í formið til að fá sneiðar.

Pride uppskriftin 2014

Rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár og fjólublár

Börnin beinlínis hoppuðu hæð sína úr gleði þegar þau fengu sneið af ískökunni.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Laufey Br.
18. ágú. 2014

híhí, "án þess að hræra" ;) Flottur ís!