Ný uppskrift: Ananas- og kókosís, sættur með Stevia

Ég hef, aldrei, í 10 ára sögu CafeSigrun, þegið greiðslu fyrir neitt sem ég hef gert. Ég hef keypt allt mitt hráefni, allan borðbúnað, myndavélar, linsur, tölvur, bara akkúrat allt með mínum peningum. Og ætti ég að reikna út tapið við að reka svona vef er líklegt að það velti á einhverjum milljónum (já, í fleirtölu). En ég hef aldrei reiknað út tapið því þá væri ég löngu hætt. Þetta hefur verið skemmtilegt (allavega yfirleitt, allavega þegar notendur hrósa manni fyrir það sem maður gerir). Leiðinlegast þykir mér að fá fyrirspurnir sem eru svolítið þurrar og jafnvel frekjulegar og fá aldrei takk til baka. Það finnst mér það allra leiðinlegasta. Eða þegar fólk nöldrar til að nöldra. En það gerist sem betur fer sjaldan.

Um daginn fékk ég fyrirspurn frá VIA-HEALTH, framleiðanda VIA-HEALTH Stevia dropanna sem fást víða á Íslandi. Spurt var hvort ég hefði áhuga á að fjalla um vöruna. Ég hikaði því ég hef aldrei gert það áður þ.e. að fjalla um eitt né neitt. En ég hugsaði líka með mér að þetta væri í raun stórsniðugt fyrir notendur vefjarins því þarna eru þeir að fá að kynnast því sem ég raunverulega nota. Annars hefði ég sagt nei strax eins og við hina um það bil 49 sem hafa beðið mig um að fjalla um eitt og annað í gegnum árin. Ef ég nota ekki hráefnið eða hlutinn mun ég aldrei fjalla um það. Ég hef t.d. engan áhuga á að nota einhverja potta sem eiga að „megra fólk“ eins og stóð í auglýsingu einni. Né hef ég áhuga á að vera í samstarfi við veitingastað sem heldur að hann selji hollan mat, en gerir það ekki.

Eins mun ég aldrei taka greiðslu fyrir nema í formi vöru sem ég er að kynna. Það eina sem ég í raun „græddi“ á stevia dropunum voru droparnir sjálfir en ég kom samt eiginlega út í mínus því ég notaði jú mitt eigið hráefni í bakstur og tilraunir. Svo þið sjáið að ég er heimsins versta viðskiptamanneskja þegar kemur að því að reyna að græða nokkurn skapaðan hlut. Enda hefur það aldrei verið tilgangurinn.

Ég er hrifin af Stevia og hef notað dropana í rúmlega ár. Þeir voru ekki svona fínir í London eða sko það fengust nokkrar tegundir í heilsubúðunum en voru yfirleitt með bitru og undarlegu eftirbragði. Droparnir frá VIA-HEALTH (íslensk framleiðsla!) eru það ekki. Annars hefði ég ekki notað þá í heilt ár og annars væri ég ekki að fjalla um þá núna.

Það sem ég hef notað Stevia mest í eru drykkir (smoothie), ís, smákökur, kökubrauð, muffinsa o.fl. Mér finnst best að nota lágmarkssætu (hrásykur o.fl.) í t.d. muffinsa og bæta svo upp á með Stevia til að áferðin haldist en þannig að lágmarkssæta sé notuð. Þannig hef ég notað vanillustevia í staðinn fyrir vanilludropa, kókosstevia í kókos- og ananaís o.s.frv. Það munar heilmiklu að geta sleppt sætuefni eins og hlynsírópi, hunangi, agavesírópi o.fl. og geta notað nokkra dropa af stevia í staðinn.

Stevia droparnir eru framleiddir úr lífrænum Stevia laufum. Stevian sjálf er jurt sem notuð hefur verið í lækningaskyni í Suður-Ameríku í mörg hundruð ár svo hún er ekki ný af nálinni og ekki framleidd á tilraunastofu, ólíkt gervisætum. Einungis er notað vatn við að vinna laufin sem þýðir að þau eru eins hrein afurð og mögulegt er, nema maður bryðji laufin sjálf (en mæli ekki með því endilega því þau hafa biturt bragð). Stevia droparnir eru 200 sinnum sætari en sykur svo það segir sig sjálft hvers vegna skammtarinn er dropateljari!

Kosturinn við Stevia dropana er að í þeim er enginn sykur og Stevian hækkar ekki blóðsykurinn. Ókosturinn við Stevia (og alla sætu) er að maður er ekki að venjast minna sætubragði eins og takmarkið ætti að vera hjá öllum þ.e. að minnka sætu í því sem maður borðar. Tvíeggja sverð kannski en þar sem t.d. ég er óttalegur kökugrís og ég mun ekki hætta að borða kókossykur, Rapadura hrásykur, döðlur, hunang og þess háttar sætu, þá er Stevian frábær viðbót sem ég mæli með. Hér er uppskrift að kókos- og ananasís sem sættur er einungis með Stevia dropunum frá VIA-HEALTH. Ég notaði kókosdropana en líka hefði verið hægt að nota vanilludropana. Ég hlakka til að nota og prófa hinar tegundirnar líka.

Kókos- og ananasís sættur eingöngu með Stevia dropum frá VIA-HEALTH

Stevia droparnir í alls kyns bragðtegundum

Stevia droparnir frá VIA-HEALTH

Dropateljari með VIA-HEALTH dropunum

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

jenta
03. jan. 2014

Sæl frú Sigrún.
Slík umfjöllun er einmitt það sem gagnast best.
Það er andsk... súrt ef fólk heldur að þú og síðan þín séuð viskubrunnur einn sem upp hefur verið settur til að eltast við að svara fyrirspurnum sem síðan er ekki einu sinni sagt "skamast' ín" fyrir. Eins finnst mér óþolandi að uppskriftirnar séu notaðar annarstaðar á prenti - án tilvitnunar.
Vefurinn er góður og leiðbeiningar skýrar. Takk fyrir mig.
Kveðja, Jenta.

sigrun
03. jan. 2014

Takk fyrir þetta Jenta :) Knús á ykkur Dívu :)

Ella K.
03. jan. 2014

Sæl Sigrún og gleðiegt ár og takk fyrir þennan fróðleik. Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram með stevíuna en ekki notað dropana heldur í duftformi frá Now. Ég er alltaf í vafa hversu mikið ég á að nota af duftinu því í flestum uppskriftum eru notaðir dropar. Getur þú e-ð frætt mig um það?

sigrun
03. jan. 2014

Sæl og gleðilegt ár.

Ég hef ekki notað neitt frá Now svo ég þekki það ekki svona í hreinskilni sagt. Ég hef heldur ekki notað Stevia í duftformi. Ég geri ráð fyrir að það fari eftir uppskriftinni og það fer líka eftir hvort áferðin henti. T.d. myndi duftið eflaust henta vel í drykki en síður alfarið í stað t.d. hrásykurs í muffinsum því þá breytist áferðin svo mikið og verður leiðinleg. Svo ég get í raun bara ráðlagt þér að prufa þig áfram!