Árið 2013 kvatt
Árið 2014 er að ganga í garð og í fljótu bragði fannst mér ekki eins og ég hefði gert neitt af viti.....en fór svo að hugsa aðeins. Í grófum dráttum gerði ég (og fjölskyldan) þetta:
- Fórum til Disneyland (ég er algjör sökker fyrir Disneyland.....Ég veit, ég veit). Hef farið þangað 3var og 2var án barna þegar Jóhannes var með 35% afslátt af öllu m.a. hótelum og varningi af því hann var að vinna hjá Disney....Það var reglulega gaman að fara með fjölskyldunni (auk mágkonu og tengdamömmu).
- Við héldum jólin í fyrsta skipti í London frá árinu 2001. Það var bæði skrýtið og dásamlegt í senn. Það var skrýtið að vera svona langt frá öllu og öllum en á sama tíma dásamlegt að geta bara verið í náttfötunum meira og minna um öll jólin og farið á þau milljón frábæru kaffihús sem voru í nágrenni við okkur.
- Fjölskyldan flutti til Íslands frá London eftir um það bil 10 ára veru (ekki samfellda). Þriðja skiptið sem við flytjum út og til Íslands aftur. Það tekur yfirleitt um 2 ár (fjárhagslega og andlega) að jafna sig á flutningum til Íslands. Ég græt pínulítið inni í mér á hverjum degi en reyni að vera bjartsýn og jákvæð barnanna vegna. Þau eru að elska Ísland og leikskólann sinn og það skiptir öllu. Veðrið er hins vegar að ganga frá mér og skammdegið. Ekki vegna einhvers óyndis, heldur vegna þess að ég get engar fjandans myndir tekið af mat. Það er myrkur fram til hádegis og svo er smá ljósglæta til klukkan 14, rétt svo að maður sjái út um gluggann...en svo kemur myrkrið bara 5 mínútum síðar. Fáránlegt. Ég sakna líka langa haustsins og langa vorsins í London. Á Íslandi er bara langt haust og svo vetur.
- Ég lauk Mastersgráðu í heilsusálfræði við University of Westminster....og get með góðri samvisku sagt að ég hafi lokið henni með stæl.
- Ég fékk inngöngu í klínísku sálfræðina við Háskóla Íslands. Sem aftur þýðir að ég er ekki eins dugleg og ég vildi hvað CafeSigrun varðar en verð þeim mun duglegri í sumar með meiri birtu og meiri tíma.
- Ég eignaðist Vitamix og Magimix 5200XL. Er mjög ánægð með Vitamix-inn en síður ánægð með Magimix-inn...eða við skulum frekar segja að vélin og hnífurinn sé í úrvalsflokki en skálarnar D.R.A.S.L. Nánar um það síðar.
- Gerði uppskrift að súkkulaðiköku sem er hrá og þannig að fólk fær aðsvif úr hamingju við að borða hana. Hún verður opinberuð síðar við gott tækifæri.
- Eignaðist Excalibur þurrkofn fyrir hráfæði og er að byrja að nota hann núna með meira plássi. Hafði notað hann bara pínulítið í London sökum plássleysis en núna þurrka ég allt. Það má meira að segja þurrka tómatsúpu og jógúrt...(ok kannski tilgangslaust en möguleikinn er fyrir hendi).
- Fór milljón sinnum út að borða í London...og borðaði líbanskan (nánar tiltekið beirútskan) mat, thailenskan, japanskan (fuuuullllt af sushi), ítalskan og fullt af hráfæði og öðru góðgæti. Staðirnir sem stóðu upp úr voru ROKA og Ottolenghi.
- Var í fullt af viðtölum í einhverjum blöðum hér og þar og missti töluna um miðbik ársins....
- Bakaði og eldaði alveg heilan helling með börnunum á árinu. Eiginlega á hverjum degi þegar ég var í London og var aðeins með dagvistun hálfan daginn. Það verður minna þannig að mig langi að stinga mér ofan í blandarann og kveikja og meira þannig að þetta sé eitthvað sem mig langar til að halda áfram að gera. Svo þið sem eruð með svona ung börn (2ja og 4ra)....ekki gefast upp og skipuleggið baksturinn vel (hafið allt tilbúið, hver með sitt verkefni o.s.frv). Reyndar er ekkert mál að baka með einu barni, sérstaklega yfir 3ja ára (svona að öllu jöfnu) en 2ja og 4ra ára saman (og bæði með sama einbeitta brotaviljann)....guð.minn.góður).
Árið 2014 verður spennandi og vonandi með meiri ferðalögum. Jóhannes er reyndar að byrja árið með því að leiða ferðahóp upp á Kilimanjaro í annað skiptið. Við fyrsta tækifæri munum við ferðast meira saman. Hef grun um að ljóta eldhúsinnréttingin verði þangað til við verðum elliær því ferðalög munu líklega alltaf hafa forgang. En ég gæti hugsað mér verri notkun á peningum.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir 2103!!!
Ummæli
30. des. 2013
Hljómar vel :)