Mastersgráða og Skype jól

Ég er orðin ¼ sálfræðingur. Nú eru afstaðnar 216 kennslustundir, 10 próf, 6 skýrslur/skilagreinar, 11 ritgerðir og önnur verkefni og 2 nemendafyrirlestrar og fyrir utan um 640 stundir (ekki minna en það en veitti ekki af) í lærdóm fyrir þessa önn. Allt þetta á þremur mánuðum. Það er alveg hægt að segja að ég hafi verið í meira lagi upptekin að undanförnu. En núna á ég einungis tvö verkefni eftir og svo ætla ég að demba mér í jólaundirbúning og bakstur og gera eitthvað skemmtilegt með börnunum sem halda að tölvan sé gróin föst við andlitið á mér. Sérstök heiðurs- og þolinmæðisverðlaun fara til Jóhannesar sem hefur verið í öllum hlutverkum heimilisins og staðið sig með sóma (en ég hef reyndar komist að því að salatgerð er ekki hans sterkasta hlið í matargerð. Okkur greinir verulega á um hvernig salat þurfi að vera til að vera gott). Ég hefði ekki einu sinni reynt þetta án hans. Og samnemendur mínir gera námið líka skemmtilegt, allt saman góðir krakkar. Þau láta mig allavega ekki finna fyrir því að ég sé risaeðlan í hópnum.

Og já svo útskrifaðist ég úr MSc í heilsusálfræði fyrir um viku síðan. En ég steingleymdi því, var bara að læra eins og venjulega og svo allt í einu poppaði upp áminning í tölvunni um að útskriftin væri eftir klukkutíma. Og það var pínulítið sorgleg stund….að gleyma útskriftinni sinni. En ekki mikið við því að gera þar sem ég var jú á Íslandi en útskriftin í London. Ég var hrikalega ánægð með að fá distinction fyrir MSc gráðuna. Við vorum tvær í bekknum sem fengum distinction og sú sem líka fékk hana er bresk í húð og hár. Það hefði verið gaman að vera í athöfninni með asnalegan hatt og skikkjuklædd eins og Harry Potter (bara til að geta hallæris-instagramað myndina). Mér þótti reglulega vænt um það að allt sem ég lagði á mig og okkur hefði skilað sér. Og aftur hefði ég ekki reynt þetta án Jóhannesar, né án Sigríðar (leigubílsstjóra og tréútskurðarmeistara) sem var hjónabandsbjargarinn okkar (hún passaði yngra eintakið þegar ég var í skólanum og hann ekki á leikskóla og sá til þess að ég missti ekki vitið. Og var einstaklega skemmtilegur félagsskapur líka). Ég er svo heppin að þekkja gott fólk, vera umvafin góðu fólki alla daga og endalaust heppin með að fjölskyldan styður mig í því sem ég er að gera.  

En núna er skafrenningur og myrkur og þegar mesta stressið er búið í skólanum (þegar ég hætti að greiða mér með tannburstanum og farin að muna hvað börnin mín heita. Það kom í alvörunni fyrir að ég gleymdi því eitt skiptið í leikskólanum) fer ég að hugsa til London og hversu mikið ég sakna jóla-London. Það fór hrikalega vel um okkur síðustu jólin þar. Það borgar sig ekki að hugsa of mikið um það samt heldu einbeita sér að því sem er gott við Ísland (ekki hafa eftir mér „að leita að nál í heystakki”). Og þetta verða undarleg jól. Einn bróðir búsettur í Kenya ásamt megninu af fjölskyldunni, annar bróðir búsettur í Danmörku ásamt fjölskyldunni og einn bróðir búsettur í Belgíu (eða Saudi Ariabiu) og börnin og hinn hluti fjölskyldunnar (fyrrverandi eiginkona og drengir) í Englandi. Þetta verða líklega Skype jólin miklu 2013!

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
15. des. 2013

Til hamingju með þetta allt saman, þú ert ofurkona! Og Jóhannes á skilið klapp á bakið, það er nokkuð ljóst.

Þú kemur bara í heimsókn í einhverjum desembermánuði þegar þú ert ekki á kafi í prófum; við erum ekki lengi með lest til London og þú getur sýnt mér 'hverfið þitt' og uppáhalds staðina.

Döðlur komnar í bleyti og búin að rista heslihnetur. Súkkulaðibitakökubakstur næst á dagskrá og svo sesamtopparnir ... kannski kemst ég í jólaskap!