Næstu skref.....dúddídúmmmm

Jæja. Allt of langt síðan síðast. Það er allt of mikið að gera en sem betur fer er þetta tímabundið. Ég er nýbúin að fá einkunn fyrir mastersritgerðina (Distinction) í Heilsusálfræði við University of Westminster. Þessir síðustu metrar voru gríðarlega erfiðir og sérstaklega af því við vorum að flytja á milli landa með fjölskylduna. Einn og hálfur mánuður í svoleiðis vesen er ekki að flýta fyrir manni!

Lengi vel, áður en ég byrjaði í náminu hugsaði ég með mér hvað ég ætlaði að nota gráðuna mína í. Það gefur auga leið að vera með MSc í Heilsusálfræði er gott upp á credibility fyrir vefinn minn. Ég er þá ekki alveg að tala út úr rassinum á mér ef ég segi t.d. að það að vera of þungur er oft (ekki alltaf) áhættuþáttur fyrir verri heilsu eiginlega alveg sama hvenær á lífsleiðinni. En núna get ég sagt að ég er búin að sitja kúrsa um efnið, lesa alls kyns greinar, vera í umræðutímum, taka próf, flytja fyrirlestra o.fl., o.fl. Svo ég er ekki eingöngu áhugamanneskja um heilsu og bætta líðan. Námið var einstaklega skemmtilegt og gefandi. Krefjandi og flókið og áhugavert allt í senn. Ég er ánægð með námið, lesefnið (mest megnis nýútgefnar vísindagreinar) og skólann. Síðustu misserin hef ég einbeitt mér að svefnvandamálum barna sem og ofþyngd (þ.m.t. fæðuval barna eins og ruslfæði) því þessir þættir tengjast óneitanlega. Of lítill svefn (og allt of mikill svefn) hefur tengsl við, og getur spáð fyrir um, ofþyngd síðar meir á ævinni. Börn sem sofa of lítið í kringum 3ja ára, eru oft of þung um 7 ára. Sem dæmi (en aðrir þættir spila að sjálfsögðu inn í líka). Hrikalega spennandi. Um þetta snerist MSc verkefnið mitt. Svo eru aðrir þættir sem tengjast inn í eins og t.d. ofvirkni en ofvirkni með athyglisbresti hefur ekki ólík einkenni uppsafnaðrar þreytu hjá börnum. Þess vegna ættu sjónvörp eða leikjatölvur eða yfir höfuð önnur tæki ALDREI að vera inn í svefnherbergjum barna.

En nóg um það.

Ég var eitthvað að sjá fyrir mér að börnin spyrji mig í framtíðinni hvað ég starfi við. Þau vita að pabbi vinnur við tölvur. Þau vita ekki almennilega hvað mamma gerir. Nema hún tekur myndir af mat og svo vinnur hún fullt í tölvunni. Ég sé fyrir mér samtalið þegar ég útskýri fyrir alvöru hvað mitt alvöru starf er (sem er sérfræðingur í aðgengismálum fatlaðra á netinu, eitthvað sem ENGINN veit hvað er...sem er óskaplega þreytandi í matarboðum og svoleiðis). Sem kemur að því sem ég ætla að gubba út úr mér. Ég hef nú hafið nám í klínískri barnasálfræði. Ég ætla að nota alla þekkinguna sem ég hef safnað að mér í öll þessi ár, alla menntun mína, um heilbrigði, óheilbrigði, ofþyngd, mataræði, svefn, um börnin mín, um börn annarra, allt sem þið lesendur góðir hafið kennt mér og ég ætla að setja þetta allt í einn pakka. Hvernig ég kem til með að nota menntunina kemur í ljós en ég veit að þetta nám mun nýtast mér á margan hátt. Og kannski einhvern tímann ykkur? Ef þið heyrið lítið frá fram að jólum þá vitið þið hvers vegna :) Ég verð samt ekki búin að gleyma ykkur og ég vona að þið gleymið mér heldur ekki. Þetta er tímabundið og svo fer ég á fullt að gera eitthvað spennandi sem tengir þetta allt saman og verður ykkur í hag frekar en óhag...stay tuned!

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Margrét Halldórsdóttir
21. okt. 2013

Og gangi þér vel.