Samantekt á niðurstöðum MSc rannsóknarinnar

Spáð fyrir um offitu 3-12 ára íslenskra barna: Tengsl við BMI, svefn, mataræði og notkun á afþreyingartækjum.

Kæru þátttakendur. Þá hef ég skilað MSc ritgerð minni í heilsusálfræði (e. Health Psychology): Predictors of Obesity in 3-12 Year Old Icelandic Children: Relationships with Body Mass Index, Sleep, Diet and Technology. Ég þakka ykkur kærlega fyrir þátttökuna, hún skipti öllu máli fyrir mig!

Eins og ég lofaði ykkur, þá eru hér helstu niðurstöður ritgerðarinnar. Ég get ekki sent ykkur ritgerðina sjálfa fyrr en í fyrsta lagi eftir 6 mánuði (því við erum að reyna að fá hana birta í ritrýndu, erlendu tímariti) en ég tók saman helstu atriðin úr rannsókninni. Athugið þó að ritgerðin sjálf er 20 bls í meginmáli (80 með öllum viðaukum og slíku) og því er aðeins tæpt á allra helstu niðurstöðunum.

Bakgrunnur

Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli tækjanotkunar, svefns og þyngdar þannig að aukinn fjöldi tækjanotkunar í svefnherbergi stytti svefn og auki þyngd barns. Á því eru taldar vera margs konar skýringar eins og; aukið slen vegna minni hreyfingar, að hormónið melatonin losni síður úr læðingi við áhrif birtu af skjám rétt fyrir háttatíma og aukin tækifæri til neyslu hitaeininga en ef barnið færi fyrr að sofa. Einnig eru kenningar um að ójafnvægi á hormónabúskap við lítinn svefn leiði til þess að röskun verði á svengdartilfinningu og hungurtilfinningu. Íslendingar neyta árlega samtals 800 tonna af sælgæti á laugardögum (nammidögum) fyrir samtals 1 milljarð króna. Þá er ekki meðtalið annað sælgæti eða gosdrykkir. Íslendingar eru 4ða þyngsta þjóðin innan OECD ríkjanna1 og þyngsta þjóð Norðurlanda.2

Tilgátur rannsóknarinnar voru eftirfarandi:

 • Því var spáð að hærra CSHQ gildi3 (svefnraskanir), styttri svefnlengd, minni hreyfing, notkun á afþreyingartækjum í svefnherbergjum barna, notkun á næturljósi, neysla á sætindum og gosdrykkjum virka daga sem og ráðgjöf frá sérfræðingum vegna hegðunar- og tilfinningavandamála myndu leiða til hærra BMI">4 (z-score5) hjá 3-12 ára börnum.
 • Því var spáð að þessar breytur myndu hafa mest áhrif á BMI í hópi elstu barnanna (11-12 ára).
 • Einnig var því spáð að aukin neysla á sætindum og gosdrykkjum á nammidögum myndi leiða til hærra BMI hjá öllum börnunum óháð aldri.

Niðurstöður:

Að meðaltali voru 38,4% barna með 1-3 tæki í svefnherberginu og að meðaltali voru 14,2% með ótakmarkaðan aðgang að þeim eftir háttatíma. Tæplega 40% áttu sérstakan nammidag en 76,2% neytti 1-10 sælgætisbita á virkum dögum. Af þeim börnum sem borðuðu sælgæti virka daga, var um helmingur þeirra sem borðaði sama magn eða meira á nammidögum. Tæplega 20% barna voru í yfirþyngd eða áttu við offitu að stríða. Samanlögð yfirþyngd/offita foreldra var 55,5% (33,5% voru í yfirþyngd (e. overweight ≥ 25 BMI) og 22,3% áttu við offitu að stríða (e. obesity ≥ 30 BMI)). Meðal BMI foreldra var 26, 76. Það má geta þess að mæður/kvenkyns umsjónaraðilar barna svöruðu í 95% tilfella. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stór hluti barnanna, eða 57,2% glímir við svefnröskun af einhverjum toga. Svefnröskun var, sem fyrr segir metin með CSHQ spurningalistanum en greiningarviðmið fyrir svefnröskun er 41 stig. Það vakti athygli að yngstu börnin sváfu að jafnaði minna en meðaltal fyrir þeirra aldursflokk gerði ráð fyrir en 6-10 ára og 11-12 ára krakkarnir sváfu lengur en meðaltal gerði ráð fyrir. Nánari upplýsingar um börnin má finna í töflu 1 hér að neðan.

Tafla 1. Lýsandi tölfræði - Börn:
Nokkrar af þeim breytum sem skoðaðar voru Allir 3-5 ára (N = 485) 6-10 ára (N = 475) 11-12 ára (N = 136)
Yfirþyngd (e. overweight) 12,0% 7,7% 14,8% 17,4%
Offita (e. obese) 7,6% 7,6% 6,4% 12,2%
Samanlögð yfirþyngd og offita (overweight/obese) 19,6% 15,3% 21,2% 29,6%
Hefur hitt sérfræðing vegna hegðunar- eða tilfinningavandamála 20,1% 9,3% 27,6% 33,1%
Hefur hitt sérfræðing vegna svefnvandamála 19,4% 22,1% 17,5% 16,9%
Hefur 1-3 tæki í svefnherberginu - 22,1% 43,8% 49,3%
Hefur 4-6 tæki í svefnherberginu - 0,2% 7,4% 27,9%
Hefur a.m.k. sjónvarp í herberginu - 12,8% 27,8% 45,6%
Má nota afþreyingartækin ótakmarkað eftir háttatíma - 6,1% 13,2% 23,3%
Drekkur 1-3 gosdrykki í miðri viku - 10,7% 22,3% 32,6%
Drekkur sama magn af gosdrykkjum eða meira á nammidögum - 7,6% 22,5% 26,3%
Borðar 1-10 sætindi í miðri viku - 74,9% 76,4% 77,5%
Borðar 11-20 sætindi í miðri viku - 5,1% 8,0% 12,5%
Borðar sama magn af sælgæti eða meira á nammidögum - 48,9% 61,7% 51,5%
Meðalsvefn vikudaga - 11,28 klst 10,34 klst 9,35 klst
Meðalsvefn helgar - 11,23 klst 10,35 klst 10,21 klst
Meðalsvefn vikudaga og helgar (z-gildi7) - -0,80 0,11 0,87
CSHQ gildi (svefnröskun)* - 44,0 43,5 44,4

Aðhvarfsgreining (e. Multiple Regression Analysis)

Menntun foreldra, BMI foreldra, almenn heilsa barna og kyn barna eru allt breytur sem geta haft áhrif á BMI barna. Þessum breytum var því haldið „stöðugum“ þannig að niðurstöðurnar hér á eftir eru óháðar þeim.

 • Hjá 3-5 ára leiddi aðhvarfsgreining í ljós að allar breyturnar (nema svefn) sem notaðar voru til að spá fyrir um BMI voru marktækar. Þær breytur sem spáðu best fyrir um BMI voru neysla á koffeindrykkjum virka daga og neysla koffeindrykkja nammidaga (því fleiri koffeindrykki sem börnin drukku virka daga því þyngri voru þau og því fleiri koffeindrykki sem börn drukku á nammidögum, því þyngri voru þau). Einnig spáði tækjanotkun í herbergi fyrir um BMI (því fleiri tæki sem börn höfðu í svefnherberginu, því þyngri voru þau). Saman skýrðu breyturnar þó aðeins 14,2% af dreifingu BMI 3-5 ára barna (sem þýðir að aðrar breytur sem ekki eru mældar hér, eru einnig að hafa áhrif á BMI).
 • Í hópi 6-10 ára barna spáði styttri svefn fyrir um hærra BMI (eftir því sem svefninn var styttri, voru börnin þyngri). Einnig hafði neysla koffeindrykkja virka daga áhrif á BMI þannig að því fleiri gosdrykki sem börnin drukku virka daga, því hærra BMI höfðu þau. Saman skýrðu þessar breytur 16,3% af BMI 6-10 ára barna.
 • Í hópi 11-12 ára barna spáði styttri svefn ásamt notkun á sjónvarpi/DVD/leikjatölvu fyrir um BMI (börn með hærra BMI sváfu skemur og notuðu eitt af efirfarandi tækjum: sjónvarp/DVD/leikjatölvu). Fjöldi tækja hafði hins vegar ekki áhrif (fleiri tæki í svefnherberginu spáðu ekki fyrir um BMI hjá 11-12 ára, einungis tegund tækja). Saman skýrðu þessar breytur 37,1% af dreifingu BMI.
 • Neysla á sætindum og gosdrykkjum á nammidögum (jafnmikil eða meiri neysla en virka daga) spáði fyrir um hærra BMI 3-5 ára barna en hafði ekki áhrif í öðrum aldursflokkum ólíkt því sem spáð hafði verið.
 • Í tveimur yngstu aldurshópum komu fram tengsl milli svefns og BMI. Eftir því sem börnin sváfu skemur því hærra BMI höfðu þau.

Takmarkanir:

 • Töluvert er um óútskýrða dreifingu í BMI barna en það þýðir að fleiri þættir en þeir sem mældir voru, hafa áhrif á BMI. Til dæmis var neysla almennrar fæðu heima fyrir, fæða á leikskólum/skóla, notkun á vasapeningum í sælgætiskaup, áhrif jafningja á mataræði o.fl. ekki skoðuð.
 • Einnig var svefn barna ásamt hæð og þyngd mæld af foreldrum og alltaf eru líkur á skekkju í mælingum.
 • Hafa verður í huga að út frá þessum niðurstöðum að ekki er unnt að álykta neitt um orsakasamband milli breytanna og BMI. Hér erum við í raun aðeins að tala um tölfræðilega fylgni milli breytanna þó unnt sé að nota fylgnina í forspá.

Að lokum:

Á grunni niðurstaðna má álykta að mismunandi breytur hafi mismikið forspárgildi á BMI barna eftir aldri. Það eru sjálfsögð sannindi en þó má taka fram að framtíðarhegðun barna mótast mjög snemma og ætti því að taka tillit til þess varðandi tækjanotkun eftir háttatíma, sælgætis- og koffeindrykkjaneyslu. Einnig ætti að huga að því að börnin fái góðan svefn. Þetta á sérstaklega við um yngstu börnin.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Gunnhildur
02. sep. 2013

Takk fyrir samantektina. Margt áhugavert kemur þarna fram, ýmislegt sem maður átti von á, til dæmis nammiát á laugardegi, en hins vegar átti ég ekki von á svona miklu á virkum dögum. Einnig finnst mér heimsóknir til sérfræðinga mjög áhugaverðar og alveg tilefni í aðra rannsókn. Nú man ég ekki allar spurningarnar en var líðan barna eitthvað tekin inn í þessa rannsókn?
Ég er að fara gera bs lokaverkefni sem ég held að þér muni finnast áhugaverð, læt þig vita hvernig niðurstöðurnar verða :)

Til hamingju með að árangurinn !

sigrun
03. sep. 2013

Takk fyrir Gunnhildur. Hlakka til að heyra um BS verkefnið þitt :)

gestur
03. sep. 2013

Áhgaverð lesning, takk

Stína
04. sep. 2013

Til hamingju með áfangann, þetta er aldeilis flott og gaman að lesa. Takk fyrir að deila vinnunni þinni með okkur, ég hlakka til að sjá ritgerðina alla.