Baráttan við býflugurnar

Þegar við fluttum í húsið okkar hér á Íslandi, leið ekki á löngu þangað til við áttuðum okkur á því að við áttum nágranna. Þegar börnin fóru út á pallinn einn góðviðrisdaginn fóru hundar nágrennisins allt í einu að gelta....allir í einu. Þeir hafa heyrt hátíðnihljóð úr börnunum sem við ekki einu sinni heyrðum. Eldra afkvæmið var bitið af býflugu (já býflugu, ekki geitungi, og ekki vespu) í leikskólanum í London. Síðan þá var hún skelkuð. Ég kenndi henni þó fljótt að svarta flugur gera yfirleitt ekki mein, bara þessar röndóttu, helst þær sem eru mjóar. Fyrir 3ja ára haus meikaði engan sens að mismunandi litir flugna þýddu mismunandi geðsveiflur og skapbresti þeirra. Flugur voru bara flugur og undan þeim bar að skrækja. Sá 2ja ára fylgdi auðvitaði í kjölfarið og þegar hann sá flugu þeyttist hann áfram (svona eins og 2ja ára börn þeytasta áfram) með hárið lárétt í loftinu (hann neitar að láta klippa hárið).

Svo nábýlið við suðandi býflugurnar á pallinum var okkur til ama. Að okkar mati. Þær suðuðu stanslaust og voru afar iðnar. Feitar og pattaralegar, með þykkar rendur, gular og svartar. Börnin voru skelkuð og óhljóðin voru ekki boðleg nágrönnum kl 8 að morgni um helgar. Og af því barnið hafði verið stungið áður, þá hringdi ég á meindýraeyði. Ég sagði börnunum samt ekki af því þar sem fyrsta regla á heimilinu er að það má ALDREI meiða dýr né fólk (nema í sjálfsvörn auðvitað). Ömurlegur tvískinnungsháttur og mér mátti alveg líða ömurlega því það er ekki fallegt auðvitað að drepa eitt né neitt. Meindýraeyðirinn sagði að erfitt væri að koma þeim undan pallinum. Og svo sagði hann að þær væru hvimleiðar. Ég hjó eftir orðinu hvimleiðar því hann sagði ekki banvænar né hættulegar. Heldur hvimleiðar. Svona eins og rigning í vatnsheldum maskara. Eða appelsína föst á milli tannanna. Hvimleiðar. Ekki hættulegar. Og hann setti á sig hræðilega grímu og þykka hanska. Svo hristi hann stóran úðabrúsa sem á voru margar hauskúpur. Það runnu á mig tvær (hræðilegar) grímur. Ég hélt að hann myndi frysta býflugnabú en ekki eitra það. Hann sagði okkur feðginunum að fara inn og loka að okkur. Svo kom býfluga. Og hann úðaði á hana. Hún datt suðandi í jörðina. Og ég var beygð. Og ég tók fyrir augun á barninu. Ég var miður mín. Býflugurnar höfðu ekkert gert okkur. Akkúrat.Ekki.Neitt. Hann hélt áfram að úða og ég gat ekki sagt honum að hætta því það var hellings eitur í loftinu. Ég var miður mín yfir að setja þetta eitur út í andrúmsloftið (og útnöguðu runnarnir fyrir framan húsið bera þess merki að ég er á móti öllu eitri í vistkerfinu). Svo fylgdumst við með hegðun býflugnanna. Þær voru mjög ringlaðar og þær fóru í burtu. Og meindýraeyðirinn sagði að kannski kæmu þær aftur. Og þær gerðu það....eftir langan tíma. Þær.Gáfust.Ekki.Upp. Ég fylltist aðdáun þegar ég sá eina og eina læðast aftur heim. Það var búið að beita efnahernaði á heimili þeirra en þær komu samt aftur. Og ég tók loforð af sjálfri mér að ef þær létu okkur í friði, skyldum við búa saman í sátt og samlyndi.

Nú er mánuður liðinn og börnin eru hætt að setja þjófavarnakerfi bílanna af stað með skrækjunum. Þær skoða býflugurnar því við sögðum þeim að þær ætluðu að eiga heima hjá okkur og að við þyrftum bara að passa að pirra þær ekki (svona eins og má stundum ekki pirra mömmu í tölvunni). Og nú heyrum við gjarnan af pallinum þegar sú 4ra ára segir við þann 2ja ára: „Passavui nú kaddninn minn a pinna ekki býfluuunahrrr“ (Passaðu þig nú kallinn minn að pirra ekki býflugurnar) og sá litli segir „ok“ og heldur áfram að stinga sandi innan á samfelluna. Og þetta er svo ósköp lærdómsríkt fyrir þau bæði. Sú eldri kennir umburðarlyndi og virðingu og sá stutti lærir að hlusta á leiðbeiningar sem og lærir hann virðingu við aðrar verur.

Þegar meindýraeyðirinn var að fara, sagði hann mér að hann gæti fjarlægt köngulóarvefina af gluggum og runnum. Þetta eru bara ósköp venjulegar húsaköngulær, þessar feitu, íslensku sem hanga á gluggunum og fara aldrei inn. Þær trufla mig ekki neitt. Ég var svo miður mín yfir meðferð býflugnanna að ég sagði við hann að ég ætlaði að leyfa þeim að vera. Ég lofaði mér að ég ætlaði ekki að eitra meira fyrir einum né neinum. Og þær hafa launað mér með því að grípa óteljandi flugur sem annars hefðu farið hingað inn. Í gær sá ég hlussugeitung festast í vef köngulóar. Ég horfði á köngulóna stökkva eins og spretthlaupara og vefja geitungahelv.... inn eins og múmíu. Og ég hvatti köngulóna áfram. Það ríkti á milli okkar skilningur og það var jafnvægi á öllu. Mér leið miklu betur og köngulóin fékk kvöldmatinn sinn.

Nú suða býflugurnar í takt við tramp barnanna og við víkjum undan þeim ef þær stefna í átt að okkur. Það er skilningur á milli okkar allra og jafnvægi. 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It