Sjoppustopp nei takk

Nú eru margir á leið í sumarfrí þegar þetta er ritað, í sumarfríi eða að telja niður sekúndurnar í sumarfrí. Svo eru aðrir eins og við, sem eyðum sumafríinu í að flytja á milli landa. En nóg um það.

Ég fæ oft fyrirspurnir varðandi hvað maður getur haft með sér í nesti þegar farið er í ferðalög. Og þetta er góð spurning því draslið sem selt er í vegasjoppum landsins er til skammar. Og það er engin afsökun að „það hafi ekkert verið til í sjoppunni nema óhollt“. Best er að keyra fram hjá þeim alfarið. Börnin biðja ekki um sjoppustopp nema ef þau vita hvað það er. Þau vita ekki hvað það er, nema ef foreldrarnir (eða aðrir sem þau umgangast mikið) stoppa þar sjálfir. Svo regla númer eitt, tvö og þrjú ef ekki á að borða óhollustu í fríinu, ekkert sjoppustopp!
    
En eitthvað þarf að borða og þá kemur gott skipulag og nestisbox inn í spilið. Það má keyra hvert á land sem er, með gott nesti innanborðs. Það er að segja, þó keyrt sé til Akureyrar eða Egilstaða í einni lotu, er hægt að pakka nesti í kælibox og borða á leiðinni. Jafnvel má gera úr því lautarferð en kannski svo lengi sem metrar á sekúndu eru undir tveggja stafa tölunni. Börn (og fullorðnir) nefnilega elska lautarferðir. Í versta falli má borða nesti í bílnum (gott að taka handklæði með til að setja þannig að ekki fari matur í sætin og svo má dusta handklæðin að matmálstíma loknum). Hér eru nokkrar hugmyndir að nesti:

 • Hummus með niðurskornu grænmeti (hægt að hafa vegan, glúteinlaust og mjólkurlaust)
 • Hnetusmjör (heimatilbúið eða úr heilsubúð) með hrískexi/maískexi (vegan, glutenlaust og mjólkurlaust). Einnig má nota möndlusmjör eða cashewmauk
 • Hrökkbrauð með pestó
 • Samlokur eða vefjur með bókstaflega öllu milli himins og jarðar (við reyndar erum ekki mikið fyrir brauðmeti)
 • Súpur, hægt að setja á drykkjarfanta, taka með sér glös og hádegismatur leystur!
 • Kalt, niðurskorið álegg úr hreinu kjöti (fyrir þá sem borða kjöt)
 • Salöt t.d. kjúklingasalat eða salat með reyktum laxi svo lengi sem það er geymt í kæliboxi
 • Kalt pastasalat (við borðum reyndar ekki mikið pasta)
 • Þurrkaðir ávextir og hnetur (t.d. nemandanasl)
 • Hnetukonfekt
 • Kartöfluflögur úr heilsubúð (ósykraðar, án bragðefna, aukaefna eða transfitusýra)
 • Orkuhnullungar
 • Soðin egg til að narta í
 • Bananar
 • Ferskir ávextir skornir niður í hentugar stærðir, vínber eru líka sérstaklega hentug sem og kirsuberjatómatar (já tómatar eru ávextir) :)
 • Vatn á brúsum með t.d. frosnum jarðarberjum eða ferskjum út í
 • Gott er að frysta vatnsbrúsa nóttina áður en farið er í ferð (skiljið smá pláss eftir í flöskunni fyrir vatnið til að þenjast út) og taka svo með sér, þá má súpa af því alla leiðina og það helst vel kalt. Gott er að frysta piparmyntublöð ef litla sítrónubáta í vatninu


Það sem ætti að forðast á ferðalögum:

 • Sjoppufæði (hamborga, pylsur, heitt nachos o.fl.)
 • Jógúrtdrykki (þeir eru annað hvort sykraðir eða innihalda aspartam + litar- og/eða bragðefni)
 • Skyrdrykki (sama með skyrdrykkina)
 • Sælgæti
 • Ís/frostpinna með litar- og/eða bragðefnum
 • Gosdrykki  (alla gosdrykki, með/án koffeins og með/án sykurs)
 • Kartöfluflögur (með transfitusýrum, bragð- og/eða litarefnum og/eða sykri)
 • Kex (allt kex, bókstaflega)
 • Orkustangir og próteinbita hvers kyns
 • Orkudrykki hvers kyns
   
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It