Leikskólapælingar
Þetta er búið að vera skrýtinn tími fyrir okkur. Það er að segja að venjast því að búa á Íslandi aftur. Við getum ekki yfir neinu kvartað. Við búum á fallegum og friðsælum stað. Við höfum í okkur og á, þak yfir höfuðið og meira að segja garð með rabarbara. Sem börnin hlaupa í á hverjum degi. Þau hlaupa í lok dags, eftir leikskóla, beint í rabarbarabeðið og læsa tönnunum í einn stilk hvort (svona eins og þau séu GLORsoltin, sem þau eru ekki). Og svo tyggja þau, kafdrullug og grettin, með hor niður á gúmmístigvélin, rauð í kinnum og með úfið hár undan húfunum. Svona eins og íslensk börn í hnotskurn. Oft, í London, kom starfsmaður leikskóla að máli við mig í lok dags og baðst afsökunar á því að barnið væri í skítugum fötum. Ég sagði henni að það gleddi mig mikið að barnið væri skítugt, enda veit það fátt skemmtilegra en að liggja í mold og helst borða hana. Sem starfsmaðurinn skildi ekki alveg því flestar stelpurnar voru í tjullpilsum og nælonsokkabuxum, þrátt fyrir kuldann og strákarnir yfirleitt í spariskóm og þunnum jökkum. Nú skil ég tal vinkvennanna sem búsettar eru hér á landi um að það passaði að þvo eina vél eftir leikskóla hvern dag af 2 börnum. Í London voru leikskólafötin notuð 2 daga í röð, léttilega. Pollagallar og útigallar eru óþekkt fyrirbæri með öllu.
Ég sé hvernig íslenski andinn hefur þróast og mótast, bara af því að horfa á börnin á leikskólasvæðinu. Þau taka áhættur, þeim er leyft að gera mistök, þau standa upp aftur, reyna aftur, gera tilraunir, styrkja vöðvana, garga ef einhver tekur af þeim, eru frek, ákveðin og opinská. Þau eru einstaklingar í húð og hár. Þau éta sand og vita að það er í lagi. Kannski á það bara við um þennan leikskóla en í London var klifur ekki leyft, né rólur, né rennibraut (nema þessi sem var 50 sm há úr plasti og með dýnu undir). Sandurinn var sérstaklega innfluttur (ljós og fínn eins og hveiti) því „börnin þoldu illa grófan sand”. Ég skil ekki alveg hvernig börn eiga að taka út þroska ef þau mega ekki reka sig á, detta, hrufla sig og finna hversu gott það er að reyna upp á nýtt og takast það. Í London var alltaf 1 starfsmaður á 5 börn, sem þýddi að ef börnin voru í sandkassanum, var starfsmaður þar líka. Ef þau voru að sulla með höndunum í sérhönnuðu keri, var starfsmaður þar líka. Aðallega að passa að þau yrðu ekki skítug né blaut. Augun aldrei tekin af þeim og alltaf í bóluplasti. Svo gott sem. Engar slysagildrur. Sem þýðir að leikskólinn gat andað léttar yfir því að verða ekki fyrir barðinu á lögsóknum frá foreldrum.
Athafnafrelsið hefur sína kosti og galla. Kannski eru börnin sem vaða fram úr öðrum í rennibrautunum, þau sem seinna meir taka fram úr manni á beinni línu, þrátt fyrir að maður sé á aðeins yfir löglegum hraða. Kannski er þetta fólkið sem tekur stóru lánin síðar meir og heldur að hlutirnir reddist af sjálfu sér. Kannski borðuðu útrásarvíkingarnir mesta sandinn og rifu mestan kjaft við hina krakkana á róló. Það er allavega sérstakt að bera þessi tvö lönd saman og sjá hvernig börnin eru að mótast frá grunni. Mjög áhugaverð pæling.