Og þá erum við lent.....
...og tilfinningin er skrýtin. Svo skrýtin. Litli stubburinn er bara 2ja ára og skældi voðalega aumur fyrsta kvöldið. Hann vildi nefnilega fara „heim“ (til London). Og við skildum hann svo, svo vel því við skældum aðeins innan í okkur líka. EN við erum ægilega heppin með fólk í kringum okkur. Allir eru boðnir og búnir til að létta undir með okkur. Tengdó sótti okkur út á flugvöll og var búin að kaupa mat í ísskápinn og pönnukökurnar glöddu lítil börn sem áttu aðeins erfitt í hamaganginum. Er einhver sú stund til þar sem pönnukökur gleðja ekki? Pabbi var ekki bara búinn að verkstýra málaravinnu á húsnæðinu í marga daga heldur beið okkar sushi frá foreldrunum í innflutningsgjöf sem börnin borðuðu á gólfinu, alveg sama þó við ættum hvorki borð, né stóla né annað. Fyrir þeim er matur bara matur og svengd bara svengd hvort sem maður er í Kína eða Kúlusúkk. Og pabbi var líka búinn að smíða ramma innan í gluggana með svörtu plasti yfir svo íslenska sumarnóttin væri ekki að þvælast fyrir útlendingunum sem kunna ekki lengur á íslenskar sumarnætur og þurfa að sofa í dimmum herbergjum. Það er ekki sjálfgefið að eiga gott stuðningsnet og við erum þakklát öllu því góða fólki sem létti undir flutningunum.
Það er mikil breyting á högum okkar að fara úr 8 milljón manna borg þar sem ysinn og þysinn er krefjandi en skemmtilegur yfir í að heyra hanagal og fuglatíst. Íslendingar sem ég mæti á götum úti gæti allir verið að fara í jarðarför, fáir brosa, margir bölva veðrinu eða ríkisstjórninni og allir eru dökkklæddir. En við horfum út á sjóinn úr stofuglugganum og börnin eru að fara í frábæran leikskóla þar sem allur matur er eldaður frá grunni. Í dag söng næstum 4ra ára Afkvæmið óumbeðin Twinkle Twinkle Little Star fyrir deildina sína háværum rómi. Þessi mús sem grefur sig í hálsakotið þegar ókunnugir nálgast. Og svo spurði hún pabba sinn hvers vegna hann hefði verið með henni í leikskólanum (fyrsta daginn í nýjum leikskóla). Aðlögunin tók um 30 mínútur og málið dautt. Sá stutti varð glaður að sjá sand og skóflu.
Og ég get núna hætt að fálma eftir Brita vatnsíunni (sem maður notar í London til að gera vatnið drykkjarhæft) og get skrúfað beint frá krananum og fengið kalt, gott vatn beint í glasið. Og svo fannst rabarbari í garðinum og ég hoppaði hæð mína af gleði. Afkvæmi nr 1 vildi hins vegar fara í Natural History Museum daginn, og Disney búðina eftir heimkomu en það reyndist erfitt að verða við þeirri bón. Eðlilega. Aðlögun okkar (fullorðna fólksins) er ekki auðveld (pabbinn grætur kaffitárum yfir að missa bestu kaffihús London úr göngufæri) en enginn sagði að hún myndi verða það. Nú á ég aftur gamlan bakstursofn og ég þori ekki að prófa hann, af hræðslu við að ég þurfi að kaupa nýjan samstundis. En eins og ég hef alltaf sagt þá þarf maður ekki að eiga bestu græjurnar til að baka/elda heima og þess vegna ætla ég að nota hann þangað til ég safna mér fyrir nýjum. Ég brenndi þó grjónagrautinn í dag í fyrsta skipti frá því ég byrjaði að búa til grjónagraut. Það var verulega sárt, því ég hendi aldrei mat. Hellurnar bjóða upp á, sýnist mér, volcano eða iceberg stillingu. Svo ég þarf einhvern veginn að haga seglum eftir vindum. Ég er orðin of góðu vön í gegnum tíðina.
Og svo ætla ég ekki að flytja í bili...ég fann nefnilega kvittun frá því þegar við fluttum heim frá London 2007......og þar keypti ég sömu hlutina og ég keypti í London 2010....þið vitið....hraðsuðuketil, brauðrist.....blandara....æi. Og ég er að bíða eftir dóti sem við keyptum 2010....hraðsuðukatli, brauðrist og blandara.....það er á leið yfir hafið í þessum töluðu orðum, í glimmer- og límmiðaskreyttum kössum. Í geymslu fann ég einmitt...þið giskuðuð rétt....hraðsuðuketil, brauðrist og blandara, frá því við fluttum 2001. Ég er svona raðflytjari (nýyrði) og nenni ekki að flytja aftur...allavega ekki í bili.
Ummæli
21. jún. 2013
Sæl. Góð leið að sjóða grjónagraut þegar maður á börn ;0)
Sjóða grjónin eins og venjulega, hella mjólkinni yfir og láta suðuna koma upp. Fjarlægja pottinn af hellunni og vefja inn í handklæði. Þannig moðsýður grauturinn.
Kv Álfheiður Svana
21. jún. 2013
Takk Álfheiður, þetta hljómar vel :)
22. jún. 2013
Velkomin til Íslands Sigrún :)
23. jún. 2013
Svo er líka bara um að gera þegar maður er að elda grjono með liðið með sér að bara elda hann í ofninum. Þá brennur hann ekkert við, tekur 1,5 klst og hann er alveg eins og sá sem maður hefur hrært í í 1,5 klst við eldavélina... :)
24. jún. 2013
Hæ hó verið velkomin heim að heiman !
Vona að þið stóru aðlagist hratt og vel og guttinn nái hratt áttum ;-) Þetta er ekki bara auðvelt og spennandi.
Bestu kveðjur til allra frá Danmörku, sem by the way elska grjóna.
Hér er helst gert svona:
að morgni: sett aðeins meir en venjulega af vatni,
suðan látin koma upp, pottunum lokað (já, geri soja og venjulegan), hrært í 2-3, morgunmatur og dagurinn græjaður og svo farið úr húsi,
seinnipartinn er bætt mjólk að vild, hitað og borðaður sá allra besti grjóni ... og mun meira af honum þar sem grjónin eru búin að tútna svo út ;-)
Kyss og knús
24. jún. 2013
Já ég held að framvegis noti ég einhverja svipaða aðferð. Ég prófaði að pakka grjónópottinum í handklæði, hitaði einu sinni yfir daginn og pakkaði aftur og hann var frábærlega góður.
25. jún. 2013
haha velkomin heim. ég sýð bara grjónagraut í hrísgrjónapottinum..... þ.e grjónin sjálf svo ég þurfi ekkert að skipta mér af og svo bara dembi ég þeim í pott og rúsínum og vanilludropum og mjólk og volllllaaaaa reddý ! :D vá ég að gefa eldunarráð....... getur ekki lofað góðu :D
Aftur velkomin heim :)