Pakkað ofan í kassa....með aðstoð.....

Að verða galin á því að pakka ofan í kassa

Að pakka í kassa með 2ja og 4ra ára sér við hlið er mesta skemmtun. Sagði enginn. Aldrei. Ég er heima með grislingana hálfan daginn og síðustu daga höfum við verið að pakka í kassa til flutninga. Eða ég hef reynt að pakka á meðan grislingarnir „aðstoða“.

Þetta er í 6. skipti sem ég flyt á milli landa. Ísland-London x 3 og svo núna í þriðja skiptið London-Ísland. Vinnufélagi Jóhannesar sagði að það væri líklega bara þægilegast fyrir okkur að hafa allt dótið okkar í geymslum hér úti þangað til við kæmum næst. Sem er alveg góður punktur. Svona miðað við söguna.

Ég er orðinn sérfræðingur í að pakka þannig að allt komist heilt til skila. Nema einu sinni brotnaði vatnsglas í stórsjó til Íslands 2007. Og einu sinni kom rúm brotið (og flutningsfyrirtækið reyndi að sannfæra mig um að það væri mér að kenna...en ég benti þeim á gaffallyftaraförin á rúmstokknum ásamt því að gaffallyftarinn hafði farið í gegnum kassa með glósum þannig að gat var í gegn).

Að pakka með 2ja og 4ra ára óvita, fyrir þá sem þekkja ekki til gengur cirka svona fyrir sig:

Ég: Eigum við að pakka þessum bolla inn í eitthvað mjúkt og setja í kassann?

4ra ára: Nei.

Ég: Hvers vegna ekki?

4ra ára: Það er ekki flott.

Ég: Hvers vegna?

4ra ára: Má ég fá gúrku?

Ég: En hvers vegna er það ekki flott?

4ra ára: Bara af því (samkvæmt 4ra ára barni er málið útkljáð).

Ég: En við þurfum samt að pakka inn dótinu okkar.

4ra ára: Nei.

Ég: Hvers vegna?

4ra ára: Má ég setja [þann tveggja ára] ofan í kassann?

Ég (öskrandi, á þann 2ja ára): EKKI HELLA GLIMMERINU OFAN Í KASSANN

2ja ára: Mamma? Gimme, boddni (glimmer á bollanum).

Ég: (hvæsandi, milli samanbitinna vara): ÉG VEIT.

Ég (2 klukkustundum síðar): Nú skulum við loka kassanum.

4ra ára: Nei.

Ég: Jú.

4ra ára: Nei.

2ja ára (gólandi): NEI.

Ég: Jæja nú tek ég límbandið og set á kassann (ssjjuuuuuutzzzzz).

Ég (orðin hás): KOMIÐ AFTUR MEÐ LÍMBANDIÐ, ÞAÐ Á AÐ VERA Á KASSANUM

4ra ára og 2ja ára grenjandi í kór: MAMMMMAAAAA........ lím í hárinu.

Ég (búin að senda 1. aðvörunar sms á eiginmanninn um að ég ætli að pakka börnunum ofan í kassa og senda á undan okkur): Jæja núna er kassinn lokaður.

4ra ára: NEIIIIIIII.

4ra ára (snöktandi): Bangsinn minn var í kassanum....

Ég: Hvaða [helv., djöf......] bangsi? (bölvið var ekki upphátt)

4ra ára: Mjúúúúúki baangsinn miiiiiiiinnnnnnn.

Þið fattið hvað ég er að fara. Það tók mig 10 klukkustundir samanlagt að pakka ofan í 3 kassa. Þeir eru allir skreyttir með glimmeri (glimmerlími og svo er bara svo mikið glimmer á gólfinu að það sogast á pappakassana). Svo þetta verða líklega fagurlegustu skreyttu kassar sem farið hafa á milli London og Íslands. Þeir eru líka allir merktir með nöfnum barnanna (sem reyndar enginn skilur nema við og þau). Ég er núna búin með 20 kassa. Við illan leik. Ég er búin á sál og líkama og ég á allavega 20 kassa eftir. Allavega. Ef ekki meira. Ég veit að eftir 20 ár á ég eftir að horfa til baka með blik í augum en ég er bara ekki á þeim stað núna :)

Myndin er fengin að láni af vef clipartof.com

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

JóhannaSH
02. jún. 2013

Hahahaha... gott að hafa svona góða aðstoðarmenn ;) Gangi þér vel að pakka restinni :-) P.S. Það væri gaman að sjá mynd af glimmer-kössunum :-)

Signý Aðalsteinsdóttir
04. jún. 2013

Dásamleg lýsing! :)

Hrundski1
05. jún. 2013

vá gangi þér vel :D man þegar við fengum gáminn mátti hann bara vera held ég í 1-2 tíma fyrir utan....og við bjuggum útí rassgati miðað við ykkur.... þurfið örugglega að skófla inní hann á mettíma :D Lætur krakkana bara hjálpa til og sendið svo gáminn allan útklíndan í glimmer til Íslands :D

Anna Stína
05. jún. 2013

Hahaha been there done that ... ó hvílíkt (ekki) fjör !!

En svo endar maður á að sópa restum ofan í kassa og hlaupa út, líklega á síðustu stundu. Það var svo svakalega vel pakkað í gáminn okkar síðast að ryksugubarkinn og moppuskaptið fóru út í skottinu á bílnum, komust í alvöru hvergi á milli rétt þegar var verið að loka ... meður endar á að þrífa ;-)

En mikið verður gott þegar þetta er allt búið, fyrir alla. Það er töluvert skemmtilegra að koma sér fyrir og taka upp úr kössum ... krökkunum þykir það almennt líka æði og hjálpa VEL til. Væri til í að verða vitni að því ;-)

Knús og kossar á alla frá Danmörku - ætlum allra helst ekki að pakka í kassa í náinni framtíð hehe

Sirrý H
09. jún. 2013

Haha alveg frábær lesning, gangi ykkur vel :)