Þá er komið að því...aftur....

Það er komið að leiðarlokum í London. Aftur. Og alltaf er það jafn skrýtið og erfitt.

Við erum að flytja til Íslands í þriðja skiptið. Sjöttu flutningarnir okkar á milli landa síðan 2001. Þriðja tilraun til að búa á Íslandi. Einu sinni tolldum við í einungis 9 mánuði og við gáfumst upp og fluttum til London aftur. En við vorum laus og liðug þá og engin börn og það var jafn auðvelt eins og að stökkva í strætó því við eigum bankareikninga hér og kunnum á allt. Við vitum t.d. að það þýðir ekkert að reyna að panta tíma hjá lækni nema fara fyrst og panta tíma í skoðun hjá hjúkrunarkonu og skila þvagprufu. Það þýðir heldur ekkert að sækja um eitt né neitt nema ef maður er búinn að búa í heimilisfanginu sínu í um 3 mánuði því þá fær maður staðfest á blaði (í formi reikninga) að maður sé í raun og veru búsettur þar sem maður er. Það er engin kennitala, bara reikningar sem virka hér sem auðkenni.

En núna sem sagt, eftir samtals um 10 ára búsetu í London þá ætlum við að gera eina tilraun enn til að búa á Íslandi. Þrátt fyrir að margir séu á því að þar sé best að vera, þá er lífið aldrei svo einfalt. Það eru margir stórir gallar við Ísland. En það eru líka margir kostir. Sama á við um Bretland. Það getur enginn sagt að best sé að búa á Íslandi (eða annars staðar) fyrr en viðkomandi hefur prófað að búa erlendis í allavega ár. Eða það er mín skoðun.  

Árið 2001 fluttum við fyrst út, blaut á bak við eyrun og við stunduðum nám og vinnu. Jóhannes var að vinna hjá Walt Disney með MS náminu sínu og ég var í MS námi. Við bjuggum í úthverfi London og vorum svo blönk fyrst um sinn að við spöruðum lengi fyrir lestarferð til að komast inn til London. Inni í miðborg London áttum við einungis pening fyrir pizzasneið sem kostaði 1 pund. Á þessum tíma fannst mér fullkomlega eðlilegt að bjóða fólki upp á kjúkling úr dós. Hann var í kormasósu (ég vissi ekki einu sinni hvað það var). Þetta var í þá daga sem við sátum á Starbucks á Shaftesbury Avenue (sem nú er búið að breyta í samlokustað) og við létum okkur dreyma um að búa í miðborg London. „Hugsaðu þér Jóhannes, ef við byggjum í miðri London, þá værum við búin að meika það“! 10 árum síðar búum við í miðri London, 5 mín frá Oxford Street, og erum alveg alls ekki búin að meika það. En það var svo sem ekki tilgangurinn.

Dvöl okkar byrjaði ekki vel hér árið 2001 því töskunni minni var stolið úr strætó með öllu í henni, vegabréfum, greiðslukortum, reiðufé, fínum sólgleraugum (í eina skiptið sem ég hef átt dýr sólgleraugu, lífið er of stutt fyrir dýr sólgleraugu) og farsímum o.fl. Allar okkar efnislegu eignir þá, voru í töskunni. Við vorum heldur beygð þegar við hringdum heim úr tíkallasíma, daginn sem við komum til London.... En þann dag lærði ég hvaða raunverulegu merkingu „cup of tea“ þýðir í Bretlandi. Konan á hótelinu bauð okkur, með umhyggju í röddinni upp á „cuppa“. Heitur bolli af tei með mjólk gerir kraftaverk. Hann er mjöður sem læknar öll mein. Á þessum tímapunkti lærði ég að það er ekkert í heiminum betra, þegar illa stendur á, heldur en heitur tebolli. Svoleiðis var það líka þegar brotist var inn hjá okkur 2007, upp á þriðju hæð og öllu okkar dóti stolið (tjónið var upp á tæpa milljón og við vorum ekki tryggð...hver fer upp á 3ju hæð og brýst inn um miðjan dag?). Nágranni okkar bauð upp á „cuppa“ og bollinn bjargaði lífi okkar. Eftir heitan tebolla áttar maður sig á því að lífið heldur áfram og þetta er ekki það versta sem kemur fyrir mann.

Undanfarnar vikur höfum við verið að reyna að upplifa London eins og túristar því manni hættir til, eftir langa dvöl að líta á London sem heimabæinn sinn og maður hættir að sjá allt sem hún hefur upp á að bjóða. Það er ekki fræðilegur séns að ég geti álitið London útlönd því hér höfum við átt lengi heima, átt eitt stykki barn sem er nú orðið 2ja ára, alið upp annað í 3 ár hér o.s.frv. Börnin hafa búið lengur í Bretlandi heldur en á Íslandi. Dóttirin getur ekki borið fram „Nickers” almennilega og segir „Nxxxxxs“ með „gg” í staðinn fyrir „ck” sem er alveg skelfilegt, sérstaklega af því á leikskólanum eru nánast allir dökkir á hörund. Og hún hefur ekki hugmynd um hvað orðið þýðir, svo ég taki það fram. Það er því eins gott að flytja bara! Eins er líka skelfilegt þegar börnin eru að segja „sex“ (tölustafinn 6) en allir Bretar mistúlka auðvitað og halda að börnin séu að tala um eitthvað sem þau eiga alls ekki að vera tala um! Og gefa manni skrýtið augntillit.

Eins og áður sagði þá eru ótal margir kostir við Bretland. Eins og til dæmis sjálfsafgreiðslukassarnir í verslunum þar sem maður getur tekið sinn tíma til að versla og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að maður fái taugaáfall (sbr. Bónus) þegar starfsfólkið þeytir vörunum (þó enginn annar sé að bíða) út í endann og skoðar svo neglurnar á meðan maður hendir lafmóður og sveittur í pokana. Ég mun fella tár við að komast ekki lengur í Waitrose (dýrðar matvöruverslun þar sem allir eru kurteisir og spjalla og hafa tíma ef mann vantar eitthvað) eða Boots (apótekið þar sem allt sniðugt fæst á góðu verði). Ég á eftir að sakna strætóanna sem maður hoppar upp í og kemst allt (maður þarf ekki að bíða lengur en 7 mínútur eftir næsta strætó hér innanbæjar). Ég á eftir að sakna kurteisa fólksins sem segir „afsakaðu mig” þegar ÉG rekst í það. Ég á eftir að sakna matarmarkaðanna, bændamarkaðanna, ávaxtasalans sem ég kaupi af á hverjum degi, kaffihúsanna þar sem ég sit og les greinar fyrir skólann, á hverjum degi. Og fjölbreytileika fólksins. Ég á eftir að sakna þess að börnin mín blikki ekki auga við að maður með grænan hanakamb og keðjur sitji við hliðina á okkur í strætó, eða að karlmaður með skegg, í kjól og með varalit labbi fram hjá. Eða fólk af öllum stærðum, gerðum, litum o.fl. sé hluti af þeirra daglega lífi. Fjölbreytileikinn.er.svo.ótrúlegur. Það er líka glatað að börnin geti ekki lengur sagt „mér er svo mál að kúúúúúúúúka...!!!!!“ (á íslensku) án þess að maður roðni. Síðast en ekki síst á ég eftir að sakna vorsins langa og haustsins sem er endalaust, þar sem maður getur verið léttklæddur frá apríl fram í október. Með djúpum trega kveð ég Whole Foods Market, þar sem ég dey úr hamingju við að koma inn og lifna við aftur og kem margefld út (með feitan mínus á debetkortinu). Að geta ekki labbað í eina bestu heilsubúð bæjarins, Planet Organic (sem tekur mig 5 mínútur að labba í), verður erfitt. Mjög erfitt. Veitingahúsin elskulegu sem við erum 10 mínútur að labba á, hvar sem þau eru (við erum svo miðsvæðis) með mat allt frá Ástralíu til Scandinaviu..... Ebay og Amazon.....ég kveð ykkur að eilífu, með trega. Amen.

Það sem ég á ekki eftir að sakna frá London er mengunin (sem hefur samt minnkað töluvert á þessum 13 árum sem við höfum haft náin kynni af London), að vera sífellt hrædd um að einhver kippi börnunum af götunni (veit að það er harla ólíklegt en augu mín víkja ekki í eitt sekúndubrot af börnunum, til öryggis). Ég á ekki eftir að sakna þess að ekki sé hægt að finna almennilega klósettbursta sem ekki eru fancy. Hverjum dettur í hug að framleiða klósettbursta sem eiga að endast meira en bara í 6 mánuði eða svo? Honestly? Ég á ekki eftir að sakna þess að búa í íbúð sem er með teppum á....verandi með 2 börn hér heima hálfan daginn (ok ekki teppi í eldhúsinu, en eldhús og stofa liggja saman og börnin eru SÉRLEGA slungin við að grýta mat langar vegalengdir). Ég mun gleðjast mikið yfir að þurfa ekki að greiða 200 þúsund fyrir hálfan daginn fyrir eitt barn á leikskóla. Ég mun gleðjast álíka mikið yfir því að þurfa ekki að ná í eldra Afkvæmið alltaf áður en börnin borða því alltaf er boðið upp á drasl (t.d. Tesco kökur sem hafa geymsluþol upp á 2 ár). Það verður líka mikið gott að geta drukkið gott og hreint vatn úr krana. Það er meira í ætt við lúxus myndi ég segja. Klárlega er líka lúxus að komast í berjamó og geta fyllt frystinn af bláberjum (ekki reyndar bestu bláberjum í heimi en bláberjum engu að síður).

En meira er þetta röfl og raul í mér. Ég veit af reynslu að það tekur langan tíma að venjast því að búa á Íslandi. Það tók okkur 3 ár síðast, akkúrat þegar við vorum búin að koma okkur fyrir, með barn, þá datt okkur í hug að flytja út. Því við getum ekki verið kyrr í langan tíma. Kannski tekur það okkur skemmri tíma núna að venjast öllu, vonandi. En það þýðir ekki að væla of mikið, bara best að gera það skársta úr stöðunni og vera feginn því að flytja á stað þar sem lífsgæðin eru einna mest (ef miðað er við OECD ríkin allavega). Ekki eins og við séum að flytja í eða úr stríðshrjáðu ríki. En Ebay og Amazon? Ég hlýt að eiga rétt á einhvers konar bótum......Skaðabótum? Miskabótum? Sárabótum. Anyone? 
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

ókunn
20. maí. 2013

Ég hef fylgst með blogginu þínu í mörg ár og það er alltaf gaman að lesa það og prófa frábæru uppskriftirnar þínar Sigrún. Vertu velkomin heim með fjölskylduna!

sigrun
21. maí. 2013

Takk fyrir :)

Hallakol
20. maí. 2013

Verið velkomin heim, en vá hvað ég skil þig.

sigrun
21. maí. 2013

Takk, gott að einhver skilur :)

Þóra G
21. maí. 2013

Velkomin aftur heim, þú getur verslað í Fjarðarkaup ef þú vilt fá framúrskarandi þjónustu, þar er líka fínt lífrænt horn inní búðinni sem heitir Fræið :)

sigrun
21. maí. 2013

Já...takk fyrir hughreystinguna....en þó að Farðarkaup sé ágætis verslun, þá er hún ekki samanburðarhæf við verslanirnar sem ég nota hérna úti (sbr. Waitrose og Whole Foods Market) :(

Sjöfn Kristjánsdóttir
21. maí. 2013

Hef búið í Englandi. Fyrir óralöngu. Mengun var ekki tiltakanlegt vandamál og börnin gátu leikið sér úti en vatnið var ódrykkjarhæft af kalki, flutt þaðan með miklum trega. Flyt núna til Íslands eftir rúmlega tveggja ára búsetu í Kaupmannahöfn og sárkvíði fyrir. Barnabörnin á Íslandi. Leika sér úti þau yngri. Hélt ég hefði losnað við slæmt ástand en býst við verra.

sigrun
21. maí. 2013

Við notum síu fyrir vatnið sem síar kalkið frá.....það á víst að vera mjög gott að drekka það...beinanna vegna, en vont er það.

Hrundski1
21. maí. 2013

Komið fagnandi :)
Jú þú þarft áfallahjálp þegar þú ferð fyrrst inní Bónus en ég mæli sko með Fjarðarkaupum og svo að skella sér í bíltúr og kíkja á lífrænu ræktunarstöðvarnar og Sólheima og kaupa beint frá þeim. Smíða sér svo gróðurhús og ræktunarkassa úti í garði.
Ef þið kíkið í heimsókn til mín hringdu þá í mig 10 mín áður svo ég geti fjarlægt alla óhollustu úr sjónlínu haha.
Gangi ykkur vel og mundu að taka með þér kasjúhnetur í gáminn. Mæli með Wing Yip til að kaupa þetta í risa sekkjum og allskonar sushi aukahluti http://www.wingyip.com/ :D
Við gerðum það áður en við komum heim :)

sigrun
21. maí. 2013

Fjarðarkaup vs. Whole Foods....ég þarf áfallahjálp :(

Búin að kaupa 10 kg af cashewhnetum, 10 kg af möndlum, 80 kg af sushigrjónum o.s.frv......er að birgja mig upp :)

Tóta
02. jún. 2013

Verið velkomin heim. Það er æðislegt að búa á Íslandi, stutt í allt, frábærar sundlaugar og fólkið manns hjá manni. Auðvitað er margt alveg glatað, eins og engar alvöru útsölur, dýrt að kaupa hreinan mat og kunningjasamfélagsklíkudæmið getur drepið mig.
Við skoðuðum mörg hverfi áður en við fluttum en við voru mjög pikkí á skóla og skólamat. Við enduðum með okkar börn í Hjallastefnunni þar sem allur matur er eldaður á staðnum og börnin fá frábært mataruppeldi.
Gangi ykkur vel í pökkuninni.