Litla gersemin Pollock's Toy Museum í London

Það eru margir staðir í London í uppáhaldi. Til dæmis heilsubúðirnar og öll þessi frábæru kaffihús í kringum okkur (aðallega rekin af Áströlum eða Ný Sjálendingum því Bretar kunna bara að reka Starbucks, Costa og Nero‘s og svoleiðis keðjur) þar sem allir eru farnir að þekkja okkur og heilsa (enda fastagestir). Garðana grænu og British Museum (ásamt National Gallery, National Portrait Gallery o.fl., ofl.) elska ég líka. Einn staður á þó sérstakan stað í hjarta mínu en það er Pollock‘s Toy Museum. Algjörlega týndur staður og ekki í alfaraleið túrista. Ég labba fram hjá honum á hverjum degi þegar ég fer með eldra Afkvæmið á leikskólann og þó að hann sé svona týndur er fólk sem kemur alls staðar að úr heiminum til að skoða hann. Einn hópur kom sérstaklega frá Bandaríkjunum einungis til að skoða þetta pínulitla safn í húsi sem er skakkt og bogið. Ég hef leitt hópa af ítölskum skólakrökkum þangað (því ég er týpan sem er alltaf spurð til vegar...veit ekki hvers vegna), og í fyrradag var það fjölskylda frá Frakklandi sem var áttavillt og var að reyna að finna Pollock‘s Toy Museum. Að innan er staðurinn jafnvel sætari en að utan. Hann er svo þröngur að maður þarf að smokra sér fram hjá varninginum. Það er hvergi Disney að sjá, né Mattel, né Fischer Price, ekkert Barbie og ekkert BabyBorn. Einungis vörur frá litlum framleiðendum, oft handgerðar eru í boði og einungis alvöru leikföng, trébílar, xylophone-ar, dót sem snýst í vindi (litlar myllur eins og maður átti í gamla daga), alls kyns dót til að setja saman sjálfur, trépúsl, handgerðar dúkkur o.fl., o.fl. Varningurinn er alls ekki dýr heldur sem er með ólíkindum miðað við hversu lítill lagerinn er.

Á efri hæðinni er leikfangasafn og það kostar ekki nema 5 eða 6 pund inn. Fyrir fólk sem hefur gaman af sögu eða leikföngum, eða brúðuleikhúsum þá er þetta staðurinn sem þið ættuð að heimsækja. Ef þið finnið Habitat á Tottenham Court Road eruð þið ekki langt undan en Pollock‘s Toy Museum er bara í 1 mínútu göngufjarlægð. Svo þegar þið eruð búin að fara í leikfangabúðina sætu (sem fékk Brighter London Award árið 1973 eins og sést á verðlaunaplaggi fyrir utan búðina og er ótrúlega sætt að sjá þó að 40 ár séu liðin frá verðlaununum) þá getið þið annað hvort fengið ykkur te á Yuumcha kaffihúsinu eða farið í Planet Organic heilsubúðina og fengið ykkur að borða eða smoothie eða kaffi eða eitthvað annað gott. Þetta horn hefur verið á leið minni á mínum daglega göngutúr í langan tíma og ég brosi alltaf þegar ég labba fram hjá. Frábær staður fyrir fólk með börn (mínus plássleysið en geyma má kerrur fyrir utan) eða bara fólk sem langar að vera barn í sér í smá stund.

Hér eru nokkrar myndir af húsinu (reyndar bara teknar á iphone-inn).

Pollock's Toy Museum að utan

Pollock's Toy Museum að utan

Pollock's Toy Museum, gluggi

Mynd af glugga Pollock's Toy Museum

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elísabet D. Sveinsdóttir
29. apr. 2013

Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt.

En mín kæra. Innilega til hamingju með þið á fimmtudaginn.

Ég gleymdi þér ekki. ég lofa. það er bara þannig þegar maður er í facebook pásu og ba ritgerðarskrifum og á leiðinni í þrjú 10 eininga próf að dagarnir renna í eitt og maður týnir sjálfum sér á leiðinni.

En vona að dagurinn hafi verið þér yndislegur.

Kærleikskveðja Elísabet

sigrun
30. apr. 2013

Takk fyrir afmæliskveðjuna elsku Elísabet :) Dugnaðarforkurinn sem þú ert :)

Elísabet D. Sveinsdóttir
30. apr. 2013

:* kossbroskall