Um gildi þess að hlusta vel....

Ég er mjög gjörn á að koma mér í pínlegar aðstæður, alveg án þess að ætla mér það auðvitað. Eins og til dæmis í gær á hárgreiðslustofunni. Ég sat í stólnum og eins og venjulega var ég að lesa útprentaðar vísindagreinar. Sem þýðir að ég var djúpt niðursokkin. Sem þýðir líka að ég var ekki alveg að heyra allt sem hárgreiðslukonan sagði. Hún talar reyndar ekki mikið en enskan er svo stirð að ég skil ekki allt. Þó ég leggi mig mjög mikið fram. Þó ég stafi nafnið mitt þegar ég panta tíma hjá þeim, fyrir framan þær, skrifa þær það vitlaust. Og ég reyni ekki einu sinni eftirnafnið, bara fyrra nafnið. Það er yfirleitt svona: (ég segi) „It‘s S for Sierra“ (hún skrifar F), „I for India“ (hún skrifar M), „G for Golf“ (hún skrifar K) o.s.frv. Ég kann ekki við að leiðrétta þær, því ég veit að önnur þeirra er búin að vera í enskuskóla allan síðasta vetur. Þrátt fyrir að þær hafi búið hérna síðatliðin 17 ár og séu giftar Bretum.

Allavega, Í gær sat ég hin rólegasta í stólnum, og eins áður sagði var ég niðursokkin. Tania segir svo „heyrðu ég var að kaupa hana, hún var rosa dýr“ og ég leit út um gluggann og horfði á aðstoðarstúlkuna sem stóð krókloppin og var að reykja. Mér fannst þetta skrýtið og óþægilegt. En ég sagði „já er það?“. Og svo sagði Tania líka „finnst þér hún ekki falleg?“ og ég leit út um gluggann og horfði á unga stúlku, ljóshærða, voða sæta. Og ég sagði „jú, voða sæt?“ Og mér fannst þetta voða skrýtið. En svo hélt ég áfram að lesa greinarnar mínar, og gleymdi umræðunni. Nema klukkutíma síðar (ég var að fá strípur í hárið), sagði hún „hún er rosa loðin“. Ég roðnaði og hætti að anda í smástund og stakk mér ofan í pappírana mína...og stamaði vandræðalega: „Nei hvað segirðu? Er það?“ (gúlp). „ Já“ svaraði Tania „og ferlega mjúk líka“. „Hún er líka með ofboðslega blá augu“. Og þarna var ég orðin mjög ringluð því ég tók eftir að aðstoðarstúlkan var með græn augu (augu heilla mig alltaf og það fyrsta sem ég tek eftir í fari fólks, er augnlitur þeirra). Hefði þetta verið á hvaða hárgreiðslustofu sem væri nema þessarri hefði ég orðið hissa en á þessarri, samanber fyrri umfjöllun mína um þessa tilteknu stofu, var ég ekki hissa, heldur skelkuð. Það sem hún sagði svo kom mér úr jafnvægi. „Sko hún er bara svo mjúk að hún er bara þess virði, það er æði að liggja hjá henni“. Ok ég dæmi aldrei fólk en ég ég var bara svo ringluð. Svo það eina sem mér datt í hug að segja var (vandræðalega): „Ég hélt að þið væruð systur?“ (eru mjög líkar)..... og Tania svaraði harkalega „NJET! Systur? Þú rugluð! Af hverju þú halda það“? Og svo sagði hún eitthvað á rússnesku við astoðarstúlkuna sem hló.

Þegar ég var á leiðinni út kom fastakúnni inn og það fyrsta sem Tania gerði var að taka upp gimsteinaskreytta iphone-inn sinn og sýna honum. Mynd af litla, loðna, sæta, bláeygða kettlingnum sem var mjög dýr, en þess virði því það var svo gott að liggja hjá honum.

Þetta var í gær. Í dag setti ég bók í póst en gleymdi að skrifa heimilisfangið utan á.
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

santa
07. apr. 2013

En fyndið :)...og hvað verður þá um bókina?? :)