Páskahugmyndir

Þar sem margir eru farnir að huga að páskaeggjainnkaupum þá langar mig að deila með ykkur þessum hugmyndum hér fyrir neðan. Það er nefnilega fátt eins verulega óhollt eins og páskaeggin sem standa keik í stífu plastinu í tonnatali í verslunum landsins þessa dagana. Þau eru voða falleg og verksmiðjuframleidd, það vantar ekki. Skreytt alls kyns plastfígúrum (til að börnin suði meira), með alls kyns sykurblómum og fyllt alls kyns emmmm „góðgæti“.

Elsku fólk (sérstaklega foreldrar). Áður en þið kaupið eggin, lesið þá utan á innihaldslýsingu þeirra. Metið hvort að ykkur finnist þess virði að börnin borði aukaefni, gerviefni, litarefni, bragðefni, hreinan sykur o.s.frv. Eða bara yfir höfuð hvort ykkur finnsit í lagi að borða innihaldið sjálf (þó þið eigið engin börn). Ef svarið er já, hættið þá að lesa hér. Ef svarið er nei, getið þið lesið áfram.

Sko. Það væri allt í lagi ef börnin borðuðu óhollustu EINU SINNI á ári, að leyfa þeim að borða öll þessi efni. En börn borða drasl allan ársins hring, í afmælum, á jólunum, í fjölskylduboðum, í búðinni, á nammidögum, í miðri viku, í skólanum, á leikskólanum. Allan.ársins.hring. Það er sykur í skinku og rotvarnarefni í kjúklingi, aspartam í jógúrti og þúsund og átta ógeðs-efni í sælgæti. Páskaegg eru drasl og eiga ekki að fara inn fyrir varir barna (eða okkar). Punktur. Og það er engin afsökun. Ég á tvö lítil kríli, hef minni en engan tíma og á meðan þau hanga í fótum eða handleggjum, er samt hægt að henda í hollara páskaegg. Tekur svo til enga stund. Og lokafurðin er heimatilbúið góðgæti sem inniheldur hrásykur, dökkt súkkulaði eða carob (mín borða carob eingöngu) og ekkert drasl. Ekkert rusl. Engin skrýtin efni. Ég er ekki að mæla með því að fólk segi nei við börnin um að fá páskaegg....bara ekki DRASL páskegg. Og börn og fullorðnir eru himilifandi með afraksturinn.

Af því að ég ákvað að ekki væri nóg að þrusa yfir ykkur, heldur yrði ég að sýna það í verki líka, henti ég (bókstaflega) saman þessum hérna hugmyndum fyrir neðan á meðan 21 mánaða stubburinn lúrði og sú þriggja ára var lasin heima, ekki nógu lasin til að liggja í sófanum en nógu lasin til að vera hundúrill í skapinu (en að fá að sleikja skeið af carobi getur bjargað miklu). Svo það var ekki einu sinni besta ástandið á heimilinu. Síðasta myndin var tekin um það leyti sem stubburinn var að vakna úr lúrnum (1.5 klst) svo þið sjáið að þetta þarf ekki að taka tíma. Það geta allir fundið 1-2 klst. Galdurinn er að búa ekki til sjálft páskaeggið, sem er þó hægt ef þið nennið (og ég hef oft gert mitt eigið páskaegg líka). Hér er ég búin að kaupa nokkur páskaegg sem voru til skrauts og fylla þau af góðgæti. Athugið að ekki þarf að gera konfekt eða neitt slíkt ef þið viljið ekki, það má hreinlega brjóta nokkra mola niður af góðu súkkulaði og nota þurrkaða ávexti. Upplagt fyrir þá sem eru með t.d. einhvers konar óþol, þá má vandlega stýra því sem fer ofan í eggið. Svo má skrifa persónulegan málshátt og setja með.

Carobið sem ég nota er án alls sykurs, hreint, lífrænt framleitt og er frá Siesta. Ég mæli með að þið kaupið af netinu ef þið viljið prófa það. Súkkulaðið sem ég nota er frá Green & Black's en ég hef líka notað önnur með góðum árangri. Það getur virkað kostnaðarsamt að kaupa inn í framleiðsluna hér fyrir neðan en athugið að allt þetta dót getið þið notað aftur og þarf bara að kaupa einu sinni (nema hráefnið auðvitað en páskaegg keypt út úr búð eru jú fokdýr hvort sem er).

Innkaupalistinn:

  • Carob eða súkkulaði, hvítt, ljóst, dökkt  (magn fer eftir smekk) - lífrænt framleitt og með hrásykri
  • Páskaegg úr pappa eða öðru, eða páskapokar eða eitthvað slíkt sem má finna víða (fengust minnir mig í Tiger eða álíka verslunum)
  • Siliconmót fyrir lítil páskaegg eða konfekt (fást í Hagkaupum held ég)
  • Þurrkaðir ávextir, hnetur, ristuð fræ eða hvað sem ykkur dettur í hug
  • Páskaeggjamót ef þið viljið gera ykkar eigið páskaegg (fengust í Pipar og Salt)
  • Páskaungar, páskaborðar eða annað páskalegt dót
  • Ef til vill málsháttur

 

Páskanammi

Páskakonfekt

Einfaldar súkkulaðiskeljar úr hreinu 70% lífrænt framleiddu súkkulaði með hrásykri

Páskakonfekt

Páskakonfekt í eggi

Heimatilbúið konfekt úr mjólkursúkkulaði, hvítu súkkulaði og 70% súkkulaði (allt lífrænt framleidd, með hrásykri).

Páskakonfekt í páskaeggi

Páskakonfekt heimatilbúið

Páskakonfekt heimatilbúið

Páskanammi í poka skreyttum ungum

Heimatilbúna konfektið í páskapoka.

Páskaegg með hollu sælgæti innan í

Hollasta páskanammið

Hollasta páskaeggið, með þurrkuðum ávöxtum (aprikósum, bönunum, döðlum), cashewhnetum og dökku og ljósu súkkulaði (lífrænt framleitt með hrásykri). Upplagt fyrir þá sem eru með óþol en einnig fínasta páskagjöf fyrir einhvern sem manni þykir vænt um.

Nú er bara að bretta upp ermarnar!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
19. mar. 2013

Snilld. Innilegar þakkir fyrir þetta. Akkúrat það sem ég þurfti til að hvetja mig til dáða! xxx

sigrun
19. mar. 2013

Gaman gaman akkúrat það sem mig langaði til að heyra :)

Anna Magnúsdóttir
20. mar. 2013

Ótrúlega flottar hugmyndir og myndirnar líka!! Gæti ekki verið meira sammála þér :DD

Júlía
24. mar. 2013

Hæ Sigrún, takk fyrir póstinn í morgun, ég sé því miður ekki linkinn inná búðu til þitt eigið páskaegg, en er einmitt búin að búa til eitt páskaegg með form frá pipar og salt og væri til í að sjá uppskriftinna þína líka :)

sigrun
24. mar. 2013

Búin að lagfæra, takk fyrir ábendinguna :)

Kristín petersen
24. mar. 2013

Takk, fyrir.
Vona að sem flestir átti sig á þessu. ; )