Hrósið

Maður er alltaf að uppgötva leynda hæfileika (eins og t.d. að teikna, elda mat o.fl.). Í fyrradag varð eg mjög impressed varðandi það hversu hratt ég hugsa. Á leifturhraða má segja. Ég fékk mér nefnilega kaffi á „staðnum sem ekki má nefna á nafn“. Það misskilja mig allir og halda að ég fíli Starbucks af því mér þyki kaffið þar gott. Ástæðan fyrir því að ég fer á Starbucks er einmitt af því það er ekkert kaffibragð. Jóhannes vill ekki (eða þykist ekki vilja) skilja það. Og fussar og sveiar. Ég fæ mér mjólkurdrykk með kaffibragði...frekar en kaffi. Og það er minnsta kaffibragðið á Starbucks. Þar hafið þið það.

Mér finnst alltaf jafn gaman að koma sem „fastakúnni“ á þessa staði hér í kring því í 8 milljón manna borg er ekkert sjálfgefið að afgreiðslufólkið þekki mann og heilsi kumpánlega. Allir staðirnir hér í kílómetra radíus eru svona staðir þar sem við erum fastagestir. Af þessum sökum finnst mér ég ekki búa í útlöndum....nema um daginn þegar ég var lokuð inni í 5 daga frá morgni til kvölds með tvö lítil og veik börn sem voru gagngert að reyna að myrða hvort annað....og komst ekki einu sinni út með kúkableiurnar......það var ekki hápunktur lífsins verð ég að segja. Á 6. degi fór ég út og fannst ég vera í útlöndum. Meira að segja var heimilislausi nágranni okkar (þessi í svefnpokanum) fluttur.

En já, ég var að kaupa mér kaffi. Þetta var einmitt stuttu eftir að ég gat loksins losnað út (með aðstoð Sigríðar barnapíu)....börnin voru ekki búin að sjá hana í 2 mánuði en föðmuðu hana (dauðfegin að sjá annað andlit en mitt) og ég hljóp út, 30 mínútum síðar. Fyrsta stopp var kaffi, alein. Ég stóð fyrir framan afgreiðsluborðið og litli brúnhærði Ítalinn með grænu augun og eyrnalokkinn horfði á mig. Hann sagði brosandi, flagaralega og orðrétt.....“Vá, þú lítur út eins og grísk gyðja í dag“. Eftirfarandi fór í gegnum kollinn á mér á 0,6 sekúndum: „Já, vá, hárið er nú ekki allt í heysátu, OG ég setti á mig eye-liner, OG ég er með maskara, OG ég er ekki í neinum blettóttum fötum í dag, ég er reyndar með sólgleraugun svo hann sér ekki eye-linerinn og maskarann en það skiptir engu máli, vá frábært að honum finnst þetta því það er svo gaman að heyra svona hól, æ hvað hann er sætur í sér og ég verð að vera duglegri að taka hrósi" (sem ég held alltaf að sé leynt háð)......áður en ég sagði „Takk fyrir! Og brosti hringinn“. Núll-komma-einni sekúndu síðar sá ég að afgreiðslumaðurinn varð vandræðalegur og svo stamaði hann...„öhhhhh.....já...uuuuuhhhh ég var að meina sko......eða....þú lítur vel út í dag líka“..... Og ég kíkti aftur fyrir mig. Þar stóð kona sem var eins og grísk gyðja. Og það var mun eðlilegra að hann teldi hana grísk gyðja heldur en mig. Það var greinilegt. En ég ákvað að vera jákvæð. Og dást að því hversu fljót ég var að hugsa um allt þetta sem ég var að hugsa áður en ég þakkaði fyrir hólið. Ég var kannski ekki eins og grísk gyðja og það voru kannski allir að flissa í röðinni.....En ég komst að því hversu fljót ég er að hugsa um eitthvað.....eins og elding eða blettatígur.......er það ekki eitthvað?

P.s. Í gær fór ég aftur og var að kaupa mér vatn og þá sagði þessi sami starfsmaður....„Vá aldeilis fallegur klútur sem þú ert með í dag (og ég leit aftur fyrir mig...enginn þar)”....„uuuujá takk, sagði ég...”...„ég gleymi andlitinu þínu alveg örugglega, en ekki klútnum”. Og hann meinti þetta í einlægni, honum fannst klúturinn það mikið fallegur. Ég er núna á því að hann þurfi kannski að fara á samskiptanámskeið.
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Signý Aðalsteinsdóttir
27. feb. 2013

Yndisleg saga!! :)

Lísa Hjalt
07. mar. 2013

er í kasti

það á að birta mynd með svona færslum, af afgreiðslumanninum, að sjálfsögðu!