Að baka með börnum er.......

......svo gefandi, börnin standa sitt hvoru megin við mann í svuntum og hræra í deiginu rjóð í kinnum og með krullur í hárinu, skríkjandi þegar mamma setur pínu deigklessu á nefið á þeim (heyrist í plötu ískra á fóninum)......

Ég á 19 mánaða og rúmlega þriggja ára. Ég segi það hreint út. Að baka með börnunum er erfitt. Mjög erfitt. Ég vissi ekki að börn væru með einbeittan brotavilja þegar kemur að spelti og sleifum. Eða að tilraunir yrðu gerðar á því hversu mikið af kókosolíunni kemst (í dropatali) í eggjabakka. Eða að börnum á þessum aldri myndi finnast fyndið að tromma í takt við Twinkle, Twinkle Little Star á hári hvers annars, með sleifum, með deigi á. Eða að ótrúlega spennandi sé að uppgötva hversu mikið af sesamfræjum kemst innan í samfelluna (og þar með talið ofan í bleiuna). Eða að baksturslögmál barna er að hella niður. Öllu. Þau eru sérfræðingar í aðdráttarafli jarðar. Þau prófa það við hvert tækifæri sem þau fá.

Nú er ég alin upp á þeim tíma sem Tommi og Jenni þóttu ekkert voðalegir og Lína Langsokkur þótti bara ansi sjálfstæð og sniðug stelpa. Eldhúsið var ekki staður fyrir krakka svona almennt og það sem fram fór í eldhúsinu, hefði alveg eins getað verið heilaskurðlækningar. Sem er kannski ástæðan fyrir því að ég kunni ekki að sjóða egg fyrr en um 25 ára. Og ég þurfti að kaupa mér sérstakan eggjasuðumæli til að setja í pottinn. Nú eru breyttir tímar og maður getur víst skaðað sjálfsmyndina og eitthvað meira ef maður lætur börnin ekki taka þátt í öllu í eldhúsinu. Svo þegar sonurinn varð 18 mánaða hætti ég að humma fram af mér hið óumflýjanlega þegar hann fór að draga stólinn að hlið stól systur sinnar, mjög ákveðinn í því að „hjappa, hjappa“ (hjálpa). Ég gat ekki lengur sagt honum að mamma væri bara að „skræla kartöflur“ þegar hann sá, augljóslega að stóra systir var með gómsætt carobdeig út að eyrum (og aftan á hnakka). Hann var ekki kátur (sjá mynd til útskýringar, hann er þessi vansæli í kjólnum).

Sonurinn ekki kátur með að fá ekki að baka

Aftur og aftur segi ég við sjálfa mig (þegar frústrasjón levelið er komið í hæstu hæðir) að börnin sjá heiminn öðruvísi en við. Þeirra EINA verkefni í heiminum er að rannsaka hann. Og læra um hann. Og gera tilraunir. Maður lærir t.d. ekkert um egg nema ef maður fær að handfjatla þau, brjóta þau og klína þeim í systkini eða foreldri (eða svo tel ég sjálfri mér trú um). Allt í þágu menntunar.  

Ég vil að það sé á hreinu að ég elska börnin mín alveg heilan helling. Myndi henda mér fyrir strætó og flóðhest (þeir eru hættulegri en ljón) án þess að hika sekúndubrot. En að baka með þeim? Það reynir á. Það reynir mikið á. Nú er ég búin að baka með þeim helling og hér eru nokkur ráð til að fækka gráu hárunum aðeins:

Ef barnið er bara eitt, er þetta ekki mikið mál þannig séð, það er eitt á móti einu foreldri (eða fleirum). Ef þið eruð með 2 börn eða fleiri yngri en 4ra ára og þið, mömmurnar eða pabbarnir eruð ein heima og í baksturshugleiðingum......? Við skulum bara segja að það eru til betri hugmyndir.

Yfirleitt byrjar það þó svona, voða pent (sjá mynd):

Allt byrjar þetta voða pent

 

En það endar yfirleitt svona:

Allt á rúi og stúi

Ef þið eruð nægilega kjörkuð til að ráðist í verkefnið:

Verið búin að undirbúa allt hráefni ÁÐUR EN þið farið að baka. Ekki hlaupa til að ná í kókosolíuna í miðjum bakstri....það er akkúrat þá, þegar þið snúið ykkur við, sem að börnin ákveða að búa til „snjókomu“ í eldhúsinu. Og EKKI saxa súkkulaði/hnetur o.s.frv. með 30 fingur sem ÆTLA að borða það sem saxað er. Þeim er slétt sama um að missa fingur, skammtímagróðinn er carob eða rúsínur og þau hafa enga þolinmæði til að bíða.

Hafið hráefnið ALLT úr seilingarfjarlægð. Á meðan þið hafið til vanilludropana (svæði A), þurfið þið að passa svæði B, C og D (munið að þið eruð að díla við 4 hendur og 20 fingur. Fótboltaleikur telur cirka 22 fótboltamenn/konur er það ekki? Hafið hugfast að þið eruð á miðjum vellinum).

Börn (sérstaklega þau sem eru nær 18 mánaða) hafa athyglisbrest á háu stigi. Þau hafa um 2ja mínútna úthald. Ekki reyna neitt eins og „hrærðu nú elskan í um 3 mínútur þangað til deigið nær að blandast saman“. Það eina sem 3ja ára barn heyrir er „hræra“ og á einhvern ótrúlegan hátt heyrir það líka „út um allt“ og „út á gólf“. Það yngra kýs auðvitað að sía allt annað út en „út á gólf“.

Setjið á þau litlar svuntur. Þær halda fötum hreinum og eru gott handfang þegar maður þarf að kippa börnunum frá t.d. logandi heitri bökunarplötu og sveifla þeim eins og ferðatöskum á færibandi í burtu frá hættunni.

EKKI og ég endurtek EKKI setja neitt á eldavélarhellurnar þegar þið bakið með börnum. Aldrei eru takkar meira spennandi (og t.d. skerbretti og skálar úr plasti í meiri hættu) en þegar 18 mánaða gamalt barn missir þolinmæðina yfir að hræra „fallega“ í speltinu (7.6 sekúndur). Ég tala af reynslu (gott að eiga súkkulaðibita upp í skáp fyrir svona móment-fyrir andlega heilsu foreldris).

Börn, sérstaklega þessi yngri hafa ekki vit á bakstri. Þau eru alveg jafn ánægð með að sulla svolítið (ég vísa aftur í þráhyggju gagnvart aðdráttaraflinu). Fyllið vanilludropaflösku af vatni og leyfið barninu að hella í stóra og stöðuga skál. Réttið því svo skeið (ég get nokkurn veginn lofað 2ja mínútna friði). Ef barnið er nær þriggja ára, segið þeim þá að þetta sé mjög mikilvægt fyrir það sem bakað er. Það er gulltryggt að skálin veltur en það er þó betra en að hún velti með rándýra kókosolíu.

Stúderið takta markmanna....sömu vöðvar og hreyfingar eru notaðir við að halda börnum, standandi upp á stólum, frá slysum.

Umfram allt, smakkið af sleifunum í lokin, finnið dásamlegu lyktina sem kemur við baksturinn, talið um allt sem þið eruð að gera (þó að yngra barnið sé meira upptekið af því að troða valhnetum í eyrun og/eða nefið á sér) og smakkið auðvitað í lokin og lýsið lofi yfir stórkostlegum árangri (þó meirihluti muffinsanna sé ekki ofan í holunum). Stoltið á ekki eftir að leyna sér í svip barnanna og það gerir allt ofantalið þess virði að reyna.

Með sigti á höfðinu

Sonurinn að baka

Dóttirin að hræra í speltinu
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigridur barnfóstra
27. jan. 2013

Dásamlegt!!
Ég sé að þið þurfið að fá einhvern mathák (mig) í heimsókn bráðum! Þessi plastbox tæma sig ekki sjálf :D

sigrun
27. jan. 2013

Sigríður you have no idea.....við söknum þín.... (sástu duldu "auglýsinguna" af ljósakrónunni)?

Laufey Br.
27. jan. 2013

Þetta var dáldið krúttaður pistill ;) Hlakka til að sulla og baka í eldhúsinu með mínum ponsum næstu árin... Sá tveggja ára fær að hjálpa til og fylgjast með og sú litla (5 mánaða) er mjög áhugasöm ;)

sigrun
27. jan. 2013

Mér sýnist á öllu að ævintýrin séu framundan í eldhúsinu þínu :)

Ása Berglind
27. jan. 2013

Frábær pistill! Þetta er eitt af því skemmtilegra sem við mæðgurnar gerum, að stússast saman í eldhúsinu og oftar en ekki er eldhúsið orðið eins og égveitekkihvað þegar yfir lýkur, en það er oftast þannig þegar ég er ein að verki svo mér er nokk sama. Tek bara góða stund í að sjæna allt til þegar við erum búnar.

Ég held að þetta hafi tvímælalaust þroskandi áhrif og alveg örugglega stundir sem að rifaðar verða upp þegar börnin verða fullorðin. Sú þriggja ára er farin að brjóta egg sjálf og sú tíu ára er farin að sjá um að elda kvöldmatinn eitt kvöld í viku. Ég er mjög stolt af þeim;)

sigrun
27. jan. 2013

Eldhúsið verður eins og eftir loftárás....og börnum er sléttsama um ástandið. Ég er stundum að reyna þá leið...að vera sléttsama....en gengur ekki alltaf. Mín þriggja ára er einmitt líka farin að brjóta egg (eggjameistarinn á heimilinu)...hlakka til þegar þau verða orðin eldri og farin að teka þátt í meiri "eldamennsku" eins og sú 10 ára hjá þér... :)

Alma María Rögnvaldsdóttir
27. jan. 2013

Ég brosti breytt yfir þessum pistli Sigrún. Í dag er það þannig hjá mér að stundum þegar ég kem heim tekur á móti mér dýrindis bökunarlykt þegar börnin mín eru búin að baka dásamlega holla köku. Eldhúsuppeldið tókst vel. Þessar erfiðu bökunarstundir eru allar eftir að skila sér síðar.

sigrun
27. jan. 2013

Alma María......ég ætla að ramma þetta komment inn og hafa fyrir framan mig í hvert skipti sem ég baka/matreiði með börnunum.......:)

Sigrún Kristín
27. jan. 2013

Frábær pistill og alveg copy paste úr mínum huga.. á eina ansi framkvæmdarglaða 2 ára snúllu sem vill hjálpa mömmu sinni með ALLT, Yndislegt:) En það væri ágætt ef maður hefði þjónustu stúlku/dreng til að þrífa messið upp :)

sigrun
27. jan. 2013

Væri svo til í þrifþjónustu eftir ósköpin :) Alveg sammála :)

Halldóra Jónsdóttir
27. jan. 2013

Alveg er þetta dásamlega krúttlegt og pistillinn mjög skemmtilegur :)

sigrun
27. jan. 2013

Takk Halldóra :)

Melkorka
27. jan. 2013

Frábær lesning!

sigrun
28. jan. 2013

Takk Melkorka, og ég get ímyndað mér að svipað sé ástatt á þínu heimili :)

Signý Aðalsteinsdóttir
28. jan. 2013

Yndislegur pistill, Sigrún! Ég hló upphátt! Og eigum við að ræða eitthvað krúttin á myndunum...of sæt sko! :) En já, ég veit núna hvað bíður mín...;)

sigrun
28. jan. 2013

Ég er að sjá frænkur þínar fyrir mér í eldhúsinu hjá systur þinni...hún hefur nú eflaust sögur að segja :)