Hvað gerir okkur of þung? Er hitaeining bara hitaeining?
Ég hitti að máli prófessorinn minn um daginn (hún er sérfræðingur í cortisol rannsóknum, kem nánar að cortisol hér fyrir neðan) og ég var að barma mér yfir því að því meira sem ég læsi um það sem ég ætlaði að skrifa í lokaverkefninu mínu (skrifa um það síðar), þeim mun minna vissi ég. Svarið hennar var: „Loksins, nemandi sem segir eitthvað af viti. Þetta er í hnotskurn það sem ég hef glímt við síðustu 40 ár í starfi mínu“.
Ég hef mikið fylgst með umræðu um hvað gerir okkur of þung. Í mínum huga er góð heilsa ekki spurning um hvort að maður er með 5 eða 15 kg aukakíló heldur hvort að maður geti gert allt sem mann langar til (farið í göngutúra, leikið við börnin/barnabörnin), hvort að maður sé sáttur í eigin líkama og hvort að allt kerfið virki vel samkvæmt lækninum. Ég veit hins vegar að margir notendur vefjarins eru í baráttu við of mörg kíló (skert lífsgæði bæði andlega og líkamlega) og ég veit að umræðan um hvað gerir mann of þungan, er ruglingsleg.
Stefnan síðustu ár á meðal næringarfræðinga og lýðheilsusérfræðinga er að hæsta hlutfall fæðu eigi að vera kolvetni en að minnka eigi fitu, salt og sykur. Hlutfall kolvetna í mataræði fyrir fullorðna á að vera 50-60%, fitu 25-35% og próteins 10-20%1, það sem svo eftir stendur af kökuritinu er hörð fita og sætindi. Til að gefa ykkur hugmynd þá væri manneskja sem borðar sykrað morgunkorn í morgunmat (t.d. Kellog‘s Special K), sjoppusamloku í hádeginu, stóra pastaskál að kvöldi og sælgæti inn á milli, að borða nánast einungis kolvetni...og unnin kolvetni í þokkabót. Við þekkjum öll fólk sem borðar svona. Sumir eru stressaðir í ofanálag, og/eða sumir reykja og blandan er banvæn. Svo kemur alls konar átak hjá fólki inn í myndina; Atkins, Soutbeach kúrinn, blóðflokkakúrinn, Paleo, Herbalife o.fl., o.fl. Sumir þyngjast, aðrir léttast og margir fara í hring, missa x mörg kíló við að borða eins og Steinaldarmaður eða drekka tilbúna efnafræðidjúsa og bæta þeim aftur við og meira til þegar mataræðið hverfur á braut ásamt sjálfstrausti. Sumir halda mataræðinu til streitu í langan tíma en það eru fáir. Sérstaklega eru hlutirnir flóknir og erfiðir fyrir fólk sem er þegar orðið allt of þungt og á í virkilegri baráttu hvern einasta dag. Freistingarnar eru á hverja einasta horni og oft er litlum skilningi mætt þegar fólk er að reyna að taka sig á („hva má ekki leyfa sér einn bita?“ eða „þetta er nú bara ein sneið?“ o.s.frv. Í hnotskurn eru leiðirnar til að léttast oft flóknar og árangurinn æði misjafn.
Um mitt síðasta ár kom út grein Daniel S. Ludwig og kollega,2 en Ludwig er barnalæknir og sérfræðingur í rannsóknum á ofþyngd, næringu, sykursýki o.fl við Harvard háskóla3. Greinin umturnaði þeirri sýn sem margir höfðu haft á næringarfræði og þeim boðskap sem manneldisráð víða um heim höfðu sett þegnum sínum. Mig langar að kafa aðeins í gegnum þessa grein og segja ykkur frá henni því þið munið heyra meira af henni (gott og slæmt). Hafið í huga að ég er hlutlaus aðili. Ég er ekki að selja weight-loss diet, ég er ekki að selja bók eða prógram um hvernig á að létta sig (og mun aldrei gera), ég er ekki næringarfræðingur og ég er ekki í afgerandi enda kolvetnis né fitu umræðunnar. Ég er einhvers staðar mitt á milli. Ég nota hellings fitu (hnetur, avocado, kókosolíu o.fl.) en er minna fyrir brauðmeti (og hef verið í langan, langan tíma). Ef mér finnst buxurnar mínar vera þröngar, borða ég ekki mikið kolvetni (og sérstaklega ekki brauð) í nokkra daga. Ég læt buxnamálið stýra mataræðinu því baðvog hef ég ekki átt í 20 ár. Ég nota magran ost því ég vil borða meira af pizzasneiðinni eða bökuðu kartöflunni (ef ég nota feitan ost verð ég södd allt of snemma). Ég nota almennt ekki mikið af mjólkurvörum ef ég kemst hjá því og ég elska grænmeti en borða aldrei kjöt. Mér líkar illa rjómi í mat nema í pönnukökur. Ég elska kökur (ekki síst hráfæðis) og borða þær á hverjum degi (en í litlu magni). Þetta er sem sagt mitt persónulega mataræði.
Af því ég kafa djúpt í vísindagreinar í námi mínu, langaði mig að kafa aðeins í þessa og leyfa ykkur hinum í leiðinni að vega og meta þetta mál. Mér finnst afar nauðsynlegt að skoða vel alla umræðu og reyna að finna sannleikann (tekst auðvitað aldrei, maður verður bara meira ringlaður). Í stuttu máli get ég VEL skilið að niðurstöður Ludwig hafi kveikt eld hjá næringarfræðingum, læknum og almenningi en við skulum skoða málið aðeins betur:
Ludwig og félagar birtu grein sína í The Journal of the American Medical Association (Ameríska læknafélagið) sem hefur journal impact factor (áhrifastuðull tímarits) upp á rúmlega 30 fyrir árið 2011. Það er reglulega flott (journal impact factor er byggt á ákveðinni reikniformúlu varðandi það hversu oft er vitnað í blaðið miðað við hversu oft blaðið er gefið út). Það eykur trúverðugleika blaðsins að hafa háan impact factor og til að gefa ykkur hugmynd birtir blaðið einungis 9% af þeim 6000 greinum sem því er sent til birtingar. Það er enn fremur mjög eftirsóknarvert að birta greinar sem eru umdeildar (og þess má geta að greinin er opin sem er ekki algengt fyrir glænýjar greinar, en þær kosta annars um 35 dollara (4000 krónur)). Það er vitnað meira í umdeildar greinar og þær hækka birtingarstuðulinn svo um nemur. Greinin Effects of Dietary Composition on Energy Expenditure During Weight-Loss Maintenance (lausleg þýðing: Áhrif mismunandi mataræðis á brennslu í viðhaldi þyngdartaps) er vægast sagt umdeild4
Ástæðan fyrir ofþyngd hefur verið þrætuepli í meira en öld. Þangað til 1960-og-eitthvað var aðalmálið að forðast kolvetni. Svo breyttist það yfir í að allir ættu að borða kolvetni og litla fitu (low-fat). Síðustu áratugina hefur fólk beinlínis verið að borða sig til dauða (fleiri deyja vegna ofþyngdar en hungurs), ofþyngd hefur tvöfaldast síðan 19805 og aukningin á sykursýki og hjartatengdum sjúkdómum er gríðarleg5. EN fólk hreyfir sig líka minna en það gerði og vinnur síður erfiðisvinnu. Yfirleitt er talað um að við borðum fleiri hitaeiningar en við þurfum (oft kallað „gamla hugsunin“). Nú er margir á því að offita sé hormónavandamál og að hormónið sem örvi fitusöfnun og fitufrumur sé insúlín (hormón) og að við seytum insúlíni þegar við innbyrðum kolvetni í mataræði okkar (stundum kallað „nýja hugsunin“). Kolvetni (ekki síst óunnið) hefur áhrif á insúlínmagn svo málið virðist ekki sérstaklega flókið6. Þannig má segja að tvær andstæðar kenningar séu í gangi. Ein kenningin kennir um græðgi og hin segir að þeir sem séu of þungir séu með hormónavandamál sem er tilkomið vegna of mikilla kolvetna í fæðunni og hormónaviðbrögð líkamans við þeim. Þessi kenning er studd af Ludwig2,3 sem og fleirum6.
Um hvað fjallar greinin?
Greinin fjallar um að það að hvað við borðum skiptir miklu máli fyrir það hvernig við léttumst. Að hitaeining sé ekki það sama og hitaeining og að hitaeiningar séu ekki jafnar að gæðum. Þrenns konar mataræði, mjög ólíkt innbyrðis hvað varðar næringarefni og áhrif á blóðsykur (glycemic load) var rannsakað í tengslum við þyngdartap hjá fólki með a.m.k. BMI (Body Massi Index - þyngdarstuðull) yfir 27. Svona rannsókn var ný af nálinni og fólst í þessu: Ólík samsetning mataræðis í stýrðu umhverfi og áhrif þess á það hvernig fólk brenndi hitaeiningum og hvernig því gekk að sporna gegn þyngdaraukningu. Þátttakendur voru hálf-sveltir þ.e. dregið var úr hitaeiningamagni og kolvetnum um 40% í 3 mánuði áður en mataræðið var prófað. Þátttakendur þurftu að missa 10-15% þyngd sinnar. Eftir það voru þeir settir á þrenns konar mataræði sem átti að viðhalda nýju þyngdinni (allir þátttakendur prófuðu öll þrjú mataræðin í 4 vikur í senn og valið var af handahófi hver byrjaði í hverju mataræði). Svo á næsta stigi var þátttakendum gefið akkúrat jafn margar hitaeiningar og þeir voru að tapa.
Eftirfarandi mataræði var prófað:
- Mataræði 1: Fituskert (low-fat diet): 60% kolvetni, 20% fita, 20 prótein – mikil áhrif á blóðsykur
- Mataræði 2: Minni áhrif á blóðsykur (low glycemic index): 40% kolvetni, 40% fita, 20 prótein – miðlungs áhrif á blóðsykur
- Mataræði 3: Mikið kolvetnaskert (Very low carbohydrate): 10% kolvetni, 60% fita, 30% prótein – lítil áhrif á blóðsykur
Fyrri kenningin („gamla hugsunin“) segir að við mataræði 1 (60% kolvetni, 20% fita) muni fólk halda jafnri þyngd (en ekki tapa meiri). Það var akkúrat það sem kom út hjá Ludwig. Svo í raun þarf fólk að berjast gegn hungrinu til að viðhalda þyngdinni. En þegar fólk skipti yfir í mataræði 3 (10% kolvetni), eyddi það fleiri hitaeiningum þ.e. þó að fólk innbyrti jafn margar hitaeiningar og það eyddi, jókst eyðslan á móti svo það léttist. Svo ef hægt er að hugsa um þátttakendurna sem fólk í for-ofþyngd þ.e. fólk sem kemur til með að verða of þungt (eins og flestir) segir þetta okkur að þeim mun meiri kolvetni sem er í mataræðinu, þeim mun erfiðara er að viðhalda þyngdartapi samkvæmt Ludwig. Tekið var fram að mataræðið var ekki hannað með langtíma hagsýni (practicality) í huga (þ.e. mataræði var ýkt).
Niðurstöðurnar
Niðurstöðurnar sem sagt voru á þá leið að hitaeining er ekki bara hitaeining. Þeir sem fengu 10% kolvetni í mataræðinu léttustu marktækt (tölfræðilega) meira heldur en þeir sem fengu meira kolvetni (60% vs 40%). Hefðbundið mataræði (60% kolvetni) getur því að mati Ludwig haft áhrif á brennslu sem og neikvæðar afleiðingar á þróun sykursýki. Mataræði 1 (60% kolvetni) ýtir enn fremur undir breytingar á brennslu og aukningu á hormóninu serum leptin sem ýtir undir þyngdaraukningu. Aftur á móti hafði mataræði 3 (10% kolvetni) jákvæðustu áhrifn á brennslu sem og á ýmsa þætti hvað varðar það að draga úr þróun sykursýki. EN (og þetta er mjög mikilvægt) einnig hafði mataræði 3 þau áhrif á fólk að seyting á cortisol (sem er oft kallað streituhormón) jókst til muna.
Cortisol hefur hlutverki að gegna hvað varðar nánast alla líkamlega starfsemi....hefur áhrif á vöðva, frumur, bein, meltingu, hormónastarfsemi, nýru, svefn.....beinlínis allt7. Cortisol og streitu er oft líkt við eld. Adrenalín er eins og eldspýta, kviknar strax og logar stutt. Cortisol aftur á móti er eins og að nudda saman spýtum, lengi af stað en logar lengi. Ef við erum há í cortisoli þegar við eigum ekki að vera há, getur það haft alvarlegar afleiðingar (chronic inflammation) til lengri tíma, líkamlegar og andlegar. Sífellt er að koma í ljós hvað cortisol er mikilvægt hormón og cortisol ójafnvægi er ekki endilega góðar fréttir. Cortisol á sinn þátt að spila í t.d. hjartasjúkdómum, krabbameini og........ofþyngd og sykursýki!!!!! (akkúrat það sem rannsakendur vilja meina að of mikið kolvetni leiði til!). Sömuleiðis var hækkun á CPR (C-reactive protein) sem hefur svipuð áhrif í líkamanum þ.e. getur stuðlað að hjartasjúkdómum, krabbameini og athugið....sykursýki! Mataræði 2 (40% kolvetni) er einhvers staðar mitt á milli (en Ludwig fer ekki nánar út í það nema að segja að það sé kannski besti kosturinn því það hafi ekki eins slæm áhrif hvað cortisol og CPR myndun varðar. Þetta, mér til mikillar gleði er í rauninni CafeSigrun mataræðið þ.e. það sem ég og fjölskyldan reynum að borða. Einnig var skoðað hvort að fólki fyndist það vera minna svangt í mataræði 1, 2 eða 3 en enginn tölfræðilega marktækur munur kom fram. Seddutilfinning var sú sama.
Ok og hvað svo?
Nú viðurkenni ég að Ludwig er afar virtur á sínu sviði og að tímaritið er einnig afar virt. Svo það er erfitt fyrir mig að pota í svona greinar og þykjast vera eitthvað gáfuleg (sem ég er ekki, því ég er ekki sérfræðingur á neinn hátt bara áhugamanneskja-um-mat-og-heilsu-að-nöldra svo þið takið þessu blaðri mínu með fyrirvara). Það sem ég set spurningar við er eftirfarandi (athugið að þetta eru spurningar sem maður setur við allar rannsóknir, góðar eða slæmar og ég er ekki að segja að þessi rannsókn sé sérstaklega slæm. Marga af þessum vanköntum t.d. of fáir þátttakendur, of stuttur tími, ýkt mataræði o.fl. er talað um í greininni):
-
Hvað fékk fólkið nákvæmlega að borða? Ludwig viðurkennir að mataræðið hafi EKKI verið sambærilegt því sem fólk myndi borða úti í hinum raunverulega heimi (því var stýrt af rannsakendum) og að sérstaklega hafi mataræði 3 (10% kolvetni/60% fita) ekki verið sambærilegt því sem fólk myndi borða í raunverulegum aðstæðum). Kolvetni er ekki það sama og kolvetni. Mun meiri sveiflur á blóðsykri nást við að gefa hvítt fransbrauð heldur en gróft hrökkbrauð. Ég er ekki að segja að hann hafi gefið fólkinu sem allra mest unnið kolvetni sem hægt var að fá (og hann segist hafa gefið því grófmeti líka en með hverju.....sultu?). Sömuleiðis langar mig að vita hvernig ávaxta, fitu og grænmetis þátttakendur neyttu. Allt skiptir þetta máli. Af því umræðuefnið og aðalsökudólgurinn er kolvetni, hefði ég GJARNAN viljað vita hvers kyns kolvetni þátttakendur voru fóðraðir á. Ludwig tilgreinir að hann hafi gefið gróft korn, ávexti, baunir og grænmeti og að mataræði 1 (60% kolvetni) og að einhverju leyti 2 (40% kolvetni) hafi verið hefðbundið mataræði (miðað við manneldismarkmið o.fl.). Í því mataræði fellur eitthvað af sykri undir svo ég hefði viljað vita nákvæmlega hvað fólkinu var gefið og hvaða áhrif hafði hver eining á blóðsykur o.fl. Hummus og sulta inniheldur ekki sama kolvetnismagn en er hvoru tveggja kolvetni. Þið sjáið hvert ég er að fara.
-
Fólk fór beint úr einu mataræði yfir í annað og hætta er á cross-over effect (þegar aðstæður A hafa áhrif á aðstæður B og rugla niðurstöður).
-
Þátttakendur voru ekki valdir með slembiúrtaki (þó að raðað hafi verið þannig í hópana). Auglýst var eftir þátttakendum í dagblöðum og með auglýsingum í háskólum og víðar. Voru þessir þátttakendur frábrugðnir öðru fólki sem ekki sá auglýsinguna eða ekki vildi taka þátt? Alltaf höfuðverkur í rannsóknum.
-
Um 680 þátttakendur fóru í gegnum forval, 134 fóru áfram, 32 fóru í gegnum þyngdartapið, en aðeins 21 þátttakandi tók þátt/mátti taka þátt í gegnum allt ferlið. Ellefu sem sagt hættu/voru látnir hætta miðja vegu. Voru þeir frábrugðnir hinum þátttakendunum í einhverju sem skipti máli? Sérstaklega gæti sálfræðilegi þátturinn skipt máli.
-
Þátttakendur voru ekki ómeðvitaðir um hvaða meðferð þeir voru á fá (ekki blinded to treatment). Þeir sem létu fólk fá matinn og þeir sem voru að rannsaka þátttakendur vissu í hvaða mataræði þátttakendur voru. Alltaf er hætta fyrir hendi að þátttakendur vilji gera rannsakendum til geðs. Sem dæmi: Borðaði fólkið sem var í mataræði 3 (10% kolvetni t.d. ekki allt brauðið sitt eða grjónin af því það vissi tilgang rannsóknarinnar?).
-
Þátttakendur voru að meirihluta karlmenn. Ekki svo óalgengt í svona rannsóknum en kynjahlutfall hefði þurft að vera jafnt.
-
Þátttakendur fengu greitt fyrir ómakið, $2500 eða um 320.000. Það er hellings peningur.
- Rannsakendur fengu styrki m.a. frá National Institute of Diabetes and Digestive and Kidney Diseases (Rannsóknarstofnun um sykursýki, meltingar- og nýrnasjúkdóma). Var einhver í stjórn sérstaklega áhugasamur um að þessar ákveðnu niðurstöður kæmu fram? Hættan er alltaf fyrir hendi þó að flestir sinni svona rannsóknum af einurð og heilindum.
Lokaorð (eilíft nöldur í kerlingunni).....
Það er mikið hatur þessa dagana á fituskertu (low-fat) mataræði og síðustu áratugina hafa rannsóknir mest megnis beinst að fituskertum matvörum sem innihalda mikið af gerviefnum og aukaefnum. Það er mjög mikilvægt að skilgreina hvaða mat er verið að fjalla um. Til dæmis nota ég mikið af fitu almennt en í uppskriftum eins og muffins finnst mér nóg að nota eina mtsk af kókosolíu (um 1 g af fitu á hvern). Ef ég borða 1 muffins er ég að borða um 100 g minna af fitu en ef það væru 8 mtsk í uppskriftinni og það er óþarfi fyrir mig þar sem ég er ekki íþróttakona eða í fjallgöngum. Ég borða muffinsinn hvort sem er svo ég er sátt við að geta borðað t.d. hrökkbrauð með hnetusmjöri (sem inniheldur hellings fitu) til viðbótar og náð samt upp í fitumagnið yfir daginn (ég vil ekki klára fitumagnið í muffins EÐA hnetusmjöri…ég vil bæði!). Svo þetta gefur mér tækifæri til að borða það sem ég vil án þess að þyngjast (nema ég borði of mikið auðvitað). Í mínu tilviki myndi ekkert gera fyrir mig að bæta meiri fitu við muffinsana og eins myndi það ekkert gera fyrir mig að borða meira hnetusmjör. Sama á við um pottrétti, eggjahrærur o.fl. Ég nota þá fitu sem uppskriftin nauðsynlega þarf en ekki umfram það. Sama á við um fólk sem borðar t.d. rjóma eða smjör. Það getur borðað það í litlu magni (eða miklu) og það fer eftir milljón öðrum þáttum hvort það bætir á sig eða ekki. Svo það er ekki einungis HVAÐ fólk borðar heldur líka HVERNIG það borðar sem skiptir máli. Ég þekki fullt af fólki sem borðar smjör og rjóma og er í fínum málum. Svo þekki ég líka fullt af fólki sem borðar smjör og rjóma og er í ofþyngd. Það sem skiptir meira máli er allt hitt sem fólkið borðar…vínarbrauð og snúða/heimabakaðar kökur, brauðmeti í öll mál/brauð stundum, kex í kaffitímanum/ávexti og svo framvegis.
Eitt er víst að ekki hefur fundist feitir einstaklingar í þrælkunarbúðum, þrátt fyrir að þeir lifi/hafi lifað nánast algjörlega á maís eða brauði. Sama átti við um útrýmingarbúðir fyrir nokkrum áratugum. Ítalar borða nokkuð drjúgt af pasta en eru aldrei á topp 5 lista yfir þyngstu þjóðir heims, komast ekki einu sinni á top 10. Langhlauparar lifa margir hverjir á kolvetni. Japanar lifa manna lengst en borða hvít hrísgrjón (kolvetni) upp á hvern dag. Flestir Afríkubúar borða kolvetni í formi bauna, maíss og hveitis upp á hvern dag. Ég hef bara einu sinni á ævinni séð Masaaia (sem borða yfirleitt maísstöppur + bljóðmjólk en kjöt spari) í yfirþyngd og það er óalgeng sjón (yfirleitt með grennstu og hávöxnustu þjóðflokkum Afríku). Hann var bjórþambari (löng saga).
Getur verið að við séum að einblína á einn afmarkaðan hóp og að ráðleggingar þeirra sem segja „ekkert kolvetni – meiri fita“ henti aðeins einni (eða fleiri) tegund fólks – þeim sem eru komnir með sykursýki og eru of þungir eða á einhvern hátt viðkvæmir fyrir áhrifum kolvetnis á insúlín? Tíminn á eftir að leiða það í ljós en þangað til, er voðalega erfitt að alhæfa um að eitt mataræði henti akkúrat öllum. Getur verið að það séu mótttakarar í heilum sumra sem kveikna hreinlega við að fólk borði kolvetni (sérstaklega mikið unnið) og kalli á endalaust meira? Ég hef ítrekað rekist á fólk sem segist vera sykurfíklar/kolvetnafíklar (ég á nokkrar svoleiðis vinkonur)...getur verið að þetta sé fólkið sem mataræði 3 hentar sérlega vel (10% kolvetni) en mataræði 1 (60% kolvetni) eða 2 (40% kolvetni) henti kannski fólki eins og mér betur sem vill borða litlar en margar máltíðar yfir daginn? Ég veit ekki. Hvað með alla ávextina? Eigum við að sleppa þeim? Og döðlum og rúsínum?
Trúi ég því að við verðum öll of þung og/eða fáum sykursýki af því að borða brauð? Nei. Trúi ég því að mataræði hátt í fitu og lágt í kolvetnum henti öllum? Nei. Er líklegt að þetta mataræði henti ákveðnum hluta fólks í ákveðinn tíma? Já, mjög líklega. Ég hef oft sagt að ég sé hlynt því að fólk taki ákveðið mataræði í x langan tíma til að ná sér niður í kjörþyngd og viðhalda þyngdinni svo með venjulegu mataræði. Gallinn er hins vegar sá að margir eru haldnir átfíkn og þann hóp þarf að meðhöndla sérstaklega, oft með sálfræðilegu/læknisfræðilegu inngripi/meðferð. Svo ein lausn hentar ekki öllum. Við megum ekki gleyma því að hjá öllu fólki skiptir streita, svefn, uppeldi, umhverfi og erfðir gríðarlegu máli.
Það sem ég er að gera, er að setja varnagla við að fólk selji eitt mataræði umfram annað og telji að það henti öllum og auglýsi sem slíkt. Um leið og fólk er farið að selja mataræði x sem leið til léttings, hringja viðvörunarbjöllur í höfðinu á mér því það má ALLTAF finna rannsóknargreinar sem styðja það sem maður sjálfur VILL finna! Svo einfalt er það. Það eina sem þarf að gera er að finna réttu leitarorðin í gagnagrunnum vísindatímarita og búmm, það er alltaf einhver að hugsa og rannsaka það sama og þú. Sértu hlutlaus aðili gegnir það öðru máli.
Loka LOKA orð (lofa)
Ég held að það sé hollt fyrir okkur að hrista upp í viðteknum gildum og skoðunum. Sífellt eru að koma inn rannsóknir og aðferðir til að mæla árangur á hinum ýmsum sviðum. EN ég hef áhyggjur af því að þessar niðurstöður (sem birtast oftar en ekki mjög illa þýddar í glanstímaritum) verði túlkaðar á þann hátt að fólk eigi að borða sem mesta fitu, og sem mest kjöt og að fólk MUNI léttast EN eftir einhvern tíma dettur það út úr þessu mataræði OG bætir við brauði, sykri, kartöfluflögum, skyndibita og öllu því sem er að drepa fólk í dag. Þess vegna er ég að rýna í þessa grein og segja ykkur frá henni. Takið öllu með fyrirvara, gagnrýnið og metið. Fræðsla er alltaf besta vopnið, líka í baráttunni fyrir betri heilsu.
Heimildir
- Landlæknir (2006). Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11479/version10/mataraedi-lowres.pdf
- Ebbeling, C.B., Swain, J.F., Feldman, H.A., Wong, W.W., Hachey, D.L., Garcia-Lago, E. & Ludwig, D.S. (2012). Effects of Dietary Composition on Energy Expenditure During Weight-Loss Maintenance. The Journal of the American Medical Association, 307(24), 2627-2634.
- Ludwig, D.S. (2002). The glycemic index: physiological mechanisms relating to obesity, diabetes, and cardiovascular disease.The Journal of the American Medical Association, 287, 2414-2423.
- NY Times (2012). Debate Revived: Low-Carb Or Low-Fat Diet? http://www.nytimes.com/2012/07/01/opinion/sunday/what-really-makes-us-fat.html?_r=0
- World Health Organization: http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs311/en/
- Taubes, G. (2012). Why We Get Fat: And What to Do About It. New York, USA: Alfred A. Knopf
-
Fries, E., Dettenborn, L. & Kirschbaum, C. (2009). The cortisol awakening response (CAR): Facts and future directions. International Journal of Psychophysiology, 72(1), 67-73.
Ummæli
13. jan. 2013
Mjög athyglisverður pistill hjá þér!
Er niðustaða rannsóknarinnar sú að hitaeiningar eru ekki það sama og hitaeiningar ?
13. jan. 2013
Í mjög stuttu máli þá já....Þær eru ekki jafnar að gæðum. Hitaeining af kolvetni hjálpar okkur að viðhalda þyngd en sama hitaeining af fitu hjálpar okkur að tapa þyngd.... En eins og ég kem inn á þá skiptir allt hitt máli líka, ekki bara hitaeiningin ein og sér.
16. jan. 2013
Þetta er mál málanna, hvað látum við í líkamann okkar. Mjög athyglisverð pæling.
Svo er það sýnileg fita og fitan sem sest inní innyflin s.s. lifur, ristil. Hvað segir þú um að kolvetnið sé sökudólgurinn þegar kemur að hjartasjúkdómum? Að kolvetnið setjist í lifrina og geri hana illa starfhæfa með tímanum og þá fari ýmislegt út í blóðið sem hefur áhrif á það sem hleðst upp í æðaveggjunum?
Takk fyrir áhugavert efni,
Kveðja,
Anna.
16. jan. 2013
Ég held að mikilvægt sé að skilgreina fyrst hvaða kolvetni er verið að láta í sig. T.d. eru baunir og kartöflur ekki eins slæmt og t.d. hvítur sykur þó að allt þetta sé kolvetni. Eins er mikilvægt að skoða hlutina í samhengi. T.d. hefur streita gríðarleg áhrif á æðaveggina en oft borðar fólk meira kolvetni (t.d. skyndibita og sykur) þegar það er undir álagi. Svo það er ekki alltaf gott að einangra orsakavaldinn. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi. Hins vegar er deginum ljósara að óunnið kolvetni (hvítt brauð og drasl) er afar slæmt fyrir allan líkamann bæði pípulagnirnar og allt sem utan á okkur er!
22. jan. 2013
Fróðlegar og þarfar pælingar :) Held einmitt að hormónakerfið okkar eigi eftir að aðlagast því að streita dagsins í dag tengist ekki því að við sjáum ljón út á sléttunni heldur frekar að við sjáum stöðuna í heimabankanum, hlutabréfamarkaðnum og þess háttar fight and flight viðbrögð.
Ég set líka alltaf spurningarmerki við rannsóknarniðurstöður þar sem ekki var notast við tvíblinda rannsóknaraðferð eða placeboa í svona tilgangi.
Hlakka til að fylgjast með þegar þú deilir lokaverkefnispælingum með okkur lesendum.
22. jan. 2013
Sæl Þóra og takk fyrir kommentið. Það borgar sig alltaf að setja spurningarmerki við allar rannsóknir en það má reyndar hafa í huga að stundum er ekki hægt að nota tvíblindar aðferðir eða placebo því rannsóknin er hreinlega þess eðlis. Þær geta samt verið mjög góðar að gæðum. Svo maður þarf að skoða aðra hluti líka eins og hvort að viðkomandi hafi einhvern fjárhagslegan ávinning af rannsóknarniðurstöðum (eins og ein rannsókn sem ég gagnrýndi sem fjallaði um skaðsemi glúteins og var fjármögnuð af samtökum fólks með glúteinóþol) :)
25. jan. 2013
Fróðleg grein - einn punktur sem ég fór að hugsa um þegar talað er um matarræði 1,2 og 3 og að á einum matseðlinum hefði fólk LÉST mest... en var það að léttast af því það var að missa vöðvamassa eða var það virkilega að missa fitu? það að léttast er ekkert endilega gott eins og þú eflaust veist...
Einnig finnst mér alltaf gott að sjá gagnrýni á greinar en ekki kaupa þær bara hikstalaust eins og sumir gera ;)
Kv. Gunnhildur
26. jan. 2013
Góður punktur Gunnhildur. Ég pældi ekkert í því og auðvitað hefði það átt að koma fram en gerði ekki. Ég sá það sem sagt hvergi í greininni því ég hefði annars minnst á það!