Hitateppi og heimilislausir

Jólin eru að nálgast. Það er skít kalt í London. Ég hef bil á milli skít og kalt svo þið getið sjálf fundið vindinn gnauða og kuldann bíta. Kuldinn í London er öðruvísi en annar kuldi. Hann er blautari, rakari, festist meira í kinnunum og endar inni að beini. Það er bilaður ofn í svefnherberginu og af því að Jóhannes vill sofa við frostmark (helst þannig að snjói á hann) verð ég að gera ráðstafanir. Ég er búin að taka fram hitateppið mitt, er með það á tímastillingu. Það fer í gang kl 20 og slokknar kl 24. Og þegar ég leggst upp í rúm, undir þykku góðu sængina mína er rúmið toasty. Það er ekkert annað orð sem ég finn sem lýsir því betur. Toasty. Mér verður á því augnabliki alltaf hugsað til nágranna okkar sem býr í húsaskoti hérna við hliðina á. Í svefnpoka með pappa undir sér. Hann liggur þar allan daginn og sefur. Eða hugleiðir, veit ekki alveg. Fólk er duglegt við að gefa honum alls konar mat og kaffi og hann er líklega ekki svangur. Vona ekki. Honum getur heldur ekki verið mikið kalt því hann er á stuttermabol við frostmark og liggur eins og lirfa í skotinu. Ég skildi eftir hnetusmjörssmákökur og trönuberja- og macadamiabiscotti (voða jóla) hjá honum í gær. Veit ekki hvort hann fílar trönuber og macadamiahnetur en vonandi. Og vonandi er hann ekki með hnetuofnæmi. Ég er örugglega eini Londonbúinn sem skil eftir heimabakaðar smákökur í hollari kantinum handa heimilislausum. En mig langar reyndar frekar að gefa honum hitateppið mitt en það yrðu vandræði hjá honum að finna rafmagn. Vona að hann hafi húsaskjól á næturna. Mig langar mest að bjóða honum í jólamat en ég held að það yrði ekki eins og í Hollywood myndunum þar sem hann kæmi úr sturtunni allur hreinn og myndarlegur í fötum af heimilisföðurnum með garmana sína undir arminum, borðaði heitann og ilmandi matinn pent og þakkaði svo fyrir sig með ljóði. Kannski samt. Veit ekki.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
09. des. 2012

Helst þannig að það snjói á hann ... þið drepið mig bæði tvö, haha.

Heimabakað handa heimilislausum og það úr fínum hráefnum ... voðalega hljómar það dásamlega. Vona að einhver samtök sjái til þess að hann fá jólasteikina sína.

Anna María Einarsdóttir
11. des. 2012

Mikið er gaman að lesa skrifin þín kæra Sigrún. ;-)
Fallegt af þér að hugsa til þeirra sem minna mega sín.

Ég prófaði jólakonfektið og kókoskúlurnar um daginn og það var meiriháttar gott og það finnst börnunum líka!

Er að prófa mig áfram í hollustunni og hlakka til að gera eitthvað gómsætt á næstu dögum.

Takk fyrir frábæra síðu!