E sængæti bannaf?

Fyrir þá sem þekkja mig að einhverju leyti vita að ég hef ekki snert sælgæti síðan ég var 12 ára. Síðan eru liðin 26 ár. Mín vegna mætti allt sælgæti hverfa fyrir fullt og allt. Ég myndi ekki einu sinni taka eftir brotthvarfi þess. Mér þykir þó ótrúlega áhugavert að pæla í sælgætismenningu og matarmenningu yfirleitt. Svona eins og draslið sem oft ómálga börnin (og eldri) eru að maula í kerrunum sínum þegar ég mæti þeim á göngu um hverfið. Eða draslið sem fólkið almennt borðar hérna í London (sem er samt einna skárst í Bretlandi hvað þetta varðar). Auðvitað eru undantekningar og ég tek líka eftir fólkinu sem situr á bekkjunum hér í kring sem opnar nestisboxin sín og borðar heimatilbúnar samlokur. Það fólk er í mjög miklum minnihluta. Það á sérstaklega við um börnin sem éta.beinlínis.drasl.

Nú er eldra Afkvæmið orðið 3ja ára......og hefur ekki á sinni stuttu ævi borðað sælgæti og hún veit ekki enn þá hvað það er...en hún er aðeins að farin að fatta að það er eitthvað sem getur skemmt tennur + getur farið illa í magann + maður verður ekki sterkur af að borða. Né getur maður hlaupið hratt af því að borða það. Hún hefur aldrei séð sælgæti inni á heimilinu og hún fær ekki slíkt í leikskólanum (ég hef séð til þess og það hefur verið svolítil barátta). Við erum ekki í kringum ömmur og afa né önnur skyldmenni hérna úti en þau þekkja okkur hvort sem er og virða nógu vel til þess að vita að sælgæti er eitthvað sem á ekki upp á pallborðið.

En svo kom spurningin í fyrradag....sem fékk mig til að stoppa í sporunum.....Með mjóróma barnaröddinni spurði dóttirin...: „Mamma.....e sængæti bannaf?“  (hún getur ekki borið fram r, l og ð)...... Uuuuuuuuuuuu svaraði ég.....uuuuuuuuu....hmmmmmm. Og það tók mig nokkrar mínútur að hugsa. Svarið mitt var „nei....það er ekki bannað, en það er ekki gott fyrir okkur og mamma og pabbi borða ekki sælgæti og heldur ekki bróðir þinn“. Sú stutta var sátt við svarið (hún biður reglulega um spínat og halloumi ost svo hún er ekki alveg eins og jafnaldrar hennar kannski). Hún sagði jafnframt "É bona fa ekki hendu". Þetta var stórt skref fyrir mig því ég vil auðvitað banna allt sælgæti....sérstaklega það sem er markaðsett að börnum. En ég vissi líka að ef maður bannar eitthvað þá verður það spennandi....svo þetta er línudans.

Ég hef aldrei, ekki í eitt skipti sagt að sælgæti væri bannað svo að hún heyri. En hún hefur lagt saman tvo og tvo og fengið út að það er ekki borðað hér. Mikilvægast held ég er að hafa ekki sælgæti á heimilinu en ég held að margir flaski á því. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Ég er samt ekki haldin þeirri blekkingu að börnunum mínum myndi ekki þykja sælgæti gott. Við börnin bökum saman hvern morgun (eða réttara sagt þá aðstoðar eldra Afkvæmið á meðan litli stubburinn veiðir dót upp úr ruslatunnunni, hellir úr speltdúnkinum á gólfið, setur bækur í uppþvottavélina og fleira í þeim dúr). Það er enginn vafi á því að henni þykir gott að sleikja það sem sætt er. Börnin mín myndu glöð lifa á ávöxtum það sem eftir væri ævinnar. Það sem er sætt er KLÁRLEGA í uppáhaldi. Og það er eðli mannsins að vilja sætt frekar en súrt. Börnin mín myndu að sjálfsögðu frekar þiggja döðlu frekar en segjum græna papriku. Hins vegar eru þau bæði glöð með soðnar gulrætur sem sælgæti því þær eru jú sætar.

Hvað mun gerast þegar börnin mín fá köku (svona bakarísköku eða hefðbundna heimatilbúna?). Eða sælgæti? Mér þykir mjög líklegt að þau muni fá sér og svo biðja um meira.....með græðgisglampa í augunum. Það kæmi mér ekkert á óvart. Eða eru þau kannski orðin forrituð fyrir lífstíð? Ég hef séð krakka í Afríku verða gúggilú á því að fá sælgæti. Þau hlaupa á eftir bílum, kasta jafnvel steinum í þá ef þau fá ekki sælgæti frá ferðamönnum. Þau verða algjörlega snar ef þau halda að sælgæti sé á boðstólum (því þau fá slíkt kannski 2var á ári). Verða börnin mín svoleiðis? Eða eru bragðlaukarnir orðnir vanir því sem er minna sætt. Ég get hugsað um þessa hluti endalaust og fæ aldrei svar.....svo sem ekki mikill höfuðverkur miðað við hvað margir foreldrar ganga í gegnum með veikindi og slíkt en ég er forvitin. Mjög forvitin.

Ég ætla að halda áfram að bjóða upp á ávexti hvern dag, halda sælgæti frá heimilinu, tala um kosti og galla þess að borða ávexti og grænmeti vs. sælgæti...og vona djúpt að það skili sér. Og ég tala aldrei um hollan vs. óhollan mat. Ég tala bara um það sem matur gerir fyrir okkur eins og t.d. að blómkál hjálpar okkur við að láta okkur ekki fá kvef, spínat gerir beinin sterk, lýsi og hörfræ hjálpa okkur að telja upp á 10 og valhnetur hjálpa hjartanu þegar við hlaupum rosa hratt. Svona skiptir eldra Afkvæmið mat ekki í dálka heldur lærir hún hvað maturinn gerir fyrir okkur og þarf sjálf að hugsa um hvort að matur sé góður fyrir okkur eða ekki. Ég vil að hún læri muninn sjálf og þurfi svolítið að hugsa. En það er akkúrat núna, hér og nú sem grunnreglur lífsins eru lagðar. Hún veit ekki hvað skyndibiti er, fyrir henni er eðlilegt að maturinn sé eldaður frá grunni, hún þekkir kúrbít frá gúrku og granateplafræ frá graskersfræjum. Við tölum um mat, við handfjötlum hann, finnum áferð, þefum, spáum í hvort að ávextir séu þroskaðir. Þetta tekur ekki langan tíma, bara nokkrar mínútur hvern dag. Og við borðum alltaf ávexti eftir kvöldmatinn og stundum yfir daginn, og það borðar enginn yfir seddumörk (það kenndi ég þeim frá því þau voru ekki byrjuð að tala...að setja hönd upp að munni ef þau voru södd), enginn á að „klára” matinn sem hann langar ekki í og við tölum um matinn sem við erum að borða (svona ef fólk er í stuði sem er nú ekki alltaf þegar maður er 3ja ára). Og ég minni þau á að ef við erum nýbúin að borða en samt pínulítið svöng (meiri nartþörf en svengd) borðum við aftur innan skamms. Og að það sé alltaf matur til (börn sjá illa fram í tímann og eiga erfitt að ímynda sér tilbúinn mat). Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig þetta fer allt saman og hvort að Afkvæmin fara út í sælgætissukk eða gulrætur.....Ég vildi bara að ég ætti tímavél.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Gesturinn
23. nóv. 2012

Thu forritar thau nuna en bornin eru bara til lans. A fullordinsarum munu thau taka eigin akvardanir og madur verdur ad sleppa takinu.
Vonandi halda thau afram ad halda i goda sidi.
Eg a dottur sem fær nammi af og til. Mer finnst lika mikilvægt ad passa ad detta ekki i "servisku" og hafa rosalega bonn a ollu sem heitir sykur/nammi thvi thetta er thratt fyri allt hluti af lifinu/thjodfelaginu...eg er ekki viss um thad se gott fyrir bornin. Mjog mikilvægt ad borda hollt og otharfi og rangt ad troda nammi i born...en adeins eldri born en thin eru lika mjog vidkvæm fyrir thvi ad vera odruvisi en adrir oft.
En thad er bara min skodun :)

sigrun
23. nóv. 2012

Ég er nú ekki svo einföld að halda að börn séu vélmenni eða neitt slíkt :) Og það er heldur ekki á planinu hjá mér að hún verði svoleiðis. Hins vegar mun ég aldrei gefa henni sælgæti þar sem ég borða það ekki sjálf (myndi ekki meika neinn sens). Ég veit að þegar hún verður eldri mun hún borða eitthvað sælgæti og það verður ekkert við því að gera.

Hins vegar vil ég að hún verði stolt af því þó hún sé öðruvísi á einhvern hátt (það eru allir ólíkir og mikilvægt að hún læri það), sömuleiðis vil ég ekki að hún verði eins-manns-fyrirlesari varðandi óhollustu, það myndi ekki enda vel. Ég vil að hún finni jafnvægið sjálf en á meðan hún er svona lítil reyni ég að hafa eins mikil áhrif á mótun hennar og ég get. Svo leiðir tíminn í ljós hvað gerist (eins og ég sagði í færslunni) :)

Jón Örvar
28. nóv. 2012

Mér finnst þetta bara alveg frábært hjá ykkur Sigrún mín, ég vildi óska að fleiri foreldrar tæku þig til fyrirmyndar. Sykur er bara eitur!

sigrun
28. nóv. 2012

Takk Jónsi minn :)