Sorglega brjóstagjöfin
Á fimmtudagseftirmiðdögum er eldra Afkvæmið ekki í leikskóla (til að spara pening) og í staðinn förum við á Stay & Play sem bæjarfélagið (Westminster) rekur. Ég tilheyri reyndar Camden (bý í Bloomsbury, þar sem Vanda og fjölskylda úr Pétri Pan áttu heima!) en ég má samt koma (hef sótt þennan stað í mörg ár). Þar mæta mæður (stundum feður, en afar sjaldan) með börnin sín og í öruggu og snyrtilegu umhverfi leika börnin sér. Plássið er ekki stórt en þessi vettvangur er gríðarlega mikilvægur fyrir foreldra (sérstaklega mæður) í hverfinu. Sumar af þessum konum eru mikið einangraðar og fara ekki endilega mikið út úr húsi, oft eru þær af erlendu bergi brotnar. Konurnar indversku sem reka staðinn fyrir bæjarfélagið eru englar og þekkja hvert einasta barn með nafni. Þær eiga í öllum börnunum pínulítið. Sumar af þessum foreldrum hafa ekki efni á leikskóla (enda fokdýr) og þetta er því griðastaður fyrir marga sem vilja spjalla með heitan tebolla.
Síðasta miðvikudag sat ég með börnin mín tvö og var svo til úti í einu horninu þar sem þeim finnst best að leika. Í hinu horninu, beint á móti mér sat bresk kona og var að vandræðast með barn sitt sem var 4ra mánaða. Barnið vildi ekki pelann og var ansi pirrað. Ein konan (vinkona) sagði „en að gefa því brjóst?“. Móðirin eldroðna og sussaði á hina. Það bættist önnur vinkona í hópinn og þær skeggræddu þetta í langan tíma á meðan barnið grét. Að lokum gafst móðirin upp, og faldi sig í horninu. Hinar konurnar tvær drógu upp teppi þannig að það huldi alveg móður og barn, ég sá ekki einu sinni hár móðurinnar. Konurnar tvær þurftu að sannfæra rennsveitta og eldrauða móðurina trekk í trekk um að enginn sæi neitt. Barnið sofnaði svo værum svefni.
Þarna voru einungis konur, allt saman mæður, hún var úti í horni, það var enginn að skipta sér af, barnið var sársvangt og pirrað. Mikið ofboðslega þótti mér þetta sorglegt. Nú er ég ekki að dæma foreldra sem gefa börnum sínum pela (ég veit manna best að fyrir því geta verið ástæður), heldur þessi feluleikur, þessi skömm, þessi vanlíðan. Móðurinni leið greinilega mjög illa yfir þessu og það er synd og ég skammast mín fyrir að búa í landi þar sem mæðrum þarf að líða svona. Ég er ekki að segja að búbbur úti á túni séu heillandi heldur (það er alveg millivegur). En ef barnið drekkur vært og sátt þessa mikilvægu næringu, hvernig í ósköpunum er hægt að líða illa yfir því? Er það krafa samfélagsins að þessi „verknaður“ eigi að fara fram úti í horni, á bak við tjöld, með skömmustusvip?
Ég fór að hugsa til baka þessi 2 ár sem ég hef mætt þarna.....ég man eftir einu skipti þar sem barni var gefið brjóst. Einu. Þarna mæta um 20 börn á hverjum fimmtudegi, ekki alltaf þau sömu og þar af tæplega helmingur innan við 12 mánaða. Það er auðvitað til í dæminu að móðurmjólkin sé sett á pela, en miðað við að í Bretlandi sé ein lægsta tíðni brjóstagjafar í heiminum, yrði ég hissa á því.
Ég tek skýrt fram að ég er ekki að dæma konur sem ekki geta gefið börnunum móðurmjólk af einhverri ástæðu (veit að það getur margt komið í veg fyrir það). Ég er einungis að setja út á að konunni eins og svo mörgum konum í Bretlandi hafi liðið svona illa yfir þessu og það í þessu umhverfi þar sem meira að segja er skilti um að þessi „verknaður” sé í góðu lagi (því þið vitið...það þarf skilti).
Ummæli
06. nóv. 2012
Vá er sammála öllu sem þú segir.
Ég var úti í NYC um daginn og vinir mínir sem eru Bandaríkjamenn (karlmenn) sögðust finnast það mjög óvenjulegt að sjá konu gefa brjóst. Þeir væru vandræðalegir ef þeir sæju konu gera það á kaffihúsi og það þætti ókurteisi að vera með brjóstin úti. Einn þeirra á tvær bróðurdætur og hann hefur aldrei séð þær fá mjólk úr brjósti, móðir þeirra fór varla út úr húsi fyrsta árið með þær og gaf ekki á brjóst ef hún fékk heimsóknir.
Ég var svo hneyksluð á þessum skoðunum og verð enn hneykslaðari ef ég heyri þær hér á Íslandi. Ég veit samt hvað þú meinar með þessum millivegi, brjóst eru ekki bara mötuneyti ef þú skilur. Og ekki ætti að dæma móður sem getur ekki haft barnið sitt á brjósti. En að þær sem kjósa það geta ekki fengið að vera í friði með sinn líkama og sitt barn er fáránlegt. Einnig virðist sem að allir eru með rétta svarið um hvað á að gera og hvað ekki, en þetta ætti að vera uppá móður og barn komið. Eitt hentar einum.
09. nóv. 2012
Vá hvað mig langar að fara til Englands og sita á almannafæri og gefa syni mínum, sem er 13 mánaða, brjóst. Bara til að tjékka viðbrögðin :O
10. nóv. 2012
Mmmmm en hvad thetta er ahugaverdur lestur ! Eg by lika i Bretlandi og hef buid i 10 ar og alltaf finnst mer thetta jafn sorglegt hvad brjostagjof er mikid tabu her :(
Eg a 3 born og hef gefid theim ollum brjost og lika a almannafaeri her i englandi, og er nokk sama um hvad folki finnst um thad.... veit alveg til daemi thar sem folk hefur verid "skammad" fyrir ad vera ad gefa brjost a almannafaeri :(
Svo er lika alltaf thessi debate herna, breast vs bottle thar sem folk akvedur adur en barnid faedist hvad thvi verdur gefid... ad minu mati gefur madur bara brjost thangad til thad gengur ekki af eh astaedu og tha er allt i lagi ad skoda adra moguleika, en thvi midur veit eg um margar konur her sem akveda adur en barnid faedist ad thad fari bara beint a pela :(
17. nóv. 2012
Það var einmitt verið að ræða þetta í útvarpinu hér í Danmörku fyrir nokkrum vikum síðan.
Heyrði af konu sem sat á bekk fyrir framan verslunarmiðstöð og gaf barni sínu brjóst. Af starfsmönnum verslunarmiðstöðvarinnar var hún beðin að vera ekki að gefa brjóst þar. Það þótti ekki við hæfi. Það kaldhæðnislegasta við þetta var, að stórt plakat hékk utan á byggingunni með nánast naktri konu = Undirfataauglýsing!
En sem betur fer er þetta mikið opnara hér í Danmörku en víða annarsstaðar og ég gaf syni mínum brjóst þar sem mér hentaði og þegar mér hentaði - eða svona næstum því ;-)