Ottolenghi
Við hjónakornin skruppum út að borða síðastliðinn föstudag (það er ekkert betra en að stinga af út í myrkrið, vita af einhverju spennandi að smakka handan við hornið og vita af börnunum í góðum höndum). Við höfum ætlað okkur að fara lengi en ekki látið verða af því fyrr en núna. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við fórum sem sagt á Ottolenghi (sem þið gætuð kannast við út frá Ottolenghi, Plenty og Jerusalem uppskriftabókunum). Ottolenghi notar mikið grænmeti, allt ferskt, helst ekki aðflutt og almáttugur, maturinn er dásamleg bragðsprengja.
Ottolenghi er dýr en kannski ekki miðað við marga aðra staði. Mælt er með 3 diskum á mann (það eru ekki forréttir og eftirréttir eins og tíðkast, maður fær sér nokkra diska í staðinn) og ég náði að borða 2 en Jóhannes hefði hæglega getað borðað 4 eða fleiri. Þetta er svo sem ekki spurning um að belgja sig út heldur fara þægilega saddur frá borði (eins og alltaf). Mig hefði langað að prufa fleiri rétti en það hefði verið græðgi. Hérna eru nokkrar myndir sem eru svo sem ekki í góðum gæðum en þær eru teknar á símann minn. Athugið að aðalborðið er langborð fyrir miðju staðarins og sést ekki á myndunum. Ég mæli hiklaust með því að prufa staðinn (aðeins hægt að panta borða á Islington staðnum) og þá þarf að panta með góðum fyrirvara (oft nokkurra vikna). Annars má koma við og grípa með sér eða reyna að fá borð fyrir hádegismat.
Ottolenghi séð innan frá
Einnig séð utan frá, krítartaflan fræga sem er framan á Plenty bókinni sést þarna í hægra horni
Sýnishorn af matseðlinum sem breytist daglega
Meiri matseðill....slef
Ég næ engan veginn að festa á filmu fallegt útlit né dásamlega bragðið af matnum
Horft í átt að útidyrunum og eftirréttarborðinu
Nýjasta bók þeirra félaga Yotam Ottolenghi og Sami Tamimi, Jerusalem
Ummæli
01. okt. 2012
ég elska Ottolenghi - hitti hann í London 2008 (í orðsins fyllstu daginn fyrir hrun......) og hann var meira en tilbúinn að koma til Íslands að halda námskeið o.fl - maturinn hans er guðdómlegur, bragðlaukarnir hans og hugmyndaflug er þvílík gjöf sem við hin fáum að njóta - enda hefur hann vaxið og dafnað síðan og orðinn feiki vinsæll út um allan heim”¨*•.¸¸☼
01. okt. 2012
Fyndið, ég var einmitt í London daginn fyrir hrun nánast.....ég hef ætlað að prufa Ottolenghi lengi og ég er viss um að Ottolenghi sjálfur væri frábær á námskeiði. Sammála því að maturinn sé guðdómlegur :) Hann á alla þá velgengni sem hann öðlast skilið, ekki spurning.
01. okt. 2012
þetta lítur svakalega vel út ... voðalega er ég glöð að hafa pantað nýju bókina í dag ;-)
01. okt. 2012
Ég er glöð fyrir þína hönd :)
04. okt. 2012
Væri til í að prófa þennan.. eftirréttaborðið lítur líka ekkert smá vel út :)
Að öðru, mig minnir að ég hafi einhvern tímann lesið hjá þér að þú hafir farið á góðan grænmetisstað í Bath. Nú er ég flutt til Bath og langar endilega að prófa góða grænmetisstaði hér, gætirðu sagt mér hvað staðurinn heitir?
04. okt. 2012
Mæli með Ottolenghi, ekki spurning.
Jú mikið rétt, Demuths heitir staðurinn. Væri svo til í að prófa aftur :)
04. okt. 2012
Flott, takk takk. Hlakka til að prófa :)