Þeytivinda og eftirköstin

Oft er ég spurð að því hver skilgreining á „góðri heilsu“ sé. Þetta er góð spurning því hver og einn hefur ólíkt svar. Sumir vilja meina að það að vera grannur sé merki um góða heilsu. Það getur verið svo, en er ekki algilt (fólk getur verið haldið alls kyns sjúkdómum þó það sé grannt). Aðrir vilja meina að það að geta hlaupið maraþon sé vísbending um góða heilsu. Það er pottþétt að gott úthald o.fl. þarf í maraþonhlaup. Svo eru sumir sem segja sjósund vera eingöngu fyrir hreystimenni (efast ekki um það í eina mínútu....ég þarf að hita baðherbergið upp áður en ég fer í sturtu....að sumri til).

Mín skilgreining á góðri heilsu er svona: „Að geta sinnt daglegum athöfnum (s.s. þrífa, ganga, versla í matinn o.fl.), að geta sinnt áhugamáli sem krefst hreyfingar (s.s. gönguferðir, klifur, hjólreiðar o.fl.), að geta leikið við börnin/barnabörnin með góðu móti“. Að mínu viti þarf ekki að uppfylla öll þessi atriði, nægilegt er að uppfylla eitt, og maður má ekki liggja farlama í líkamanum daginn eftir vegna hjartavandamála, stirðleika eða annarra krankleika.

Þið sjáið að kílóafjöldi er ekki inn í þessarri skilgreiningu, en er þó innifalinn þ.e. það eru ekki margir sem geta t.d. sinnt áhugamáli sem krefst hreyfingar, ef kílóin eru margfalt umfram það sem hollt gæti talist. Ég vil þó ekki setja neinn ákveðinn kílóafjölda því hver og einn finnur sín takmörk. Það má þvarga fram og til baka um þessa skilgreiningu en við skulum bara hafa hana á bak við eyrað.

Ok. Ég get með góðri samvisku sagt að ég sé við góða heilsu. Ég get sinnt daglegum athöfnum og leikið við börnin, án þess að finna fyrir því né blása úr nös. Ég get reyndar ekki gert neitt sem krefst áreynslu á hné (því vinstra hnéð er ónýtt) en það skiptir ekki máli, ég er almennt við góða heilsu. Í dag hélt ég samt að ég myndi gefa upp öndina....og ég er enn að jafna mig.

Ég fór með eldra eintakið á stóra rólóinn í dag (ég hef hana heima á fimmtudögum til að spara pening....dagvistun í Bretlandi er reiknuð í hundruð þúsundum, ekki tugþúsundum). Stóri rólóinn er Coram‘s Fields, mjög skemmtilegur staður. Þar eru fullt af rólum og rennibrautum o.fl. skemmtilegu. Ég reyni alltaf að taka þátt í því sem dóttirin (að verða þriggja ára) er að gera, hvort sem það er að fara í rennibraut, klifra, hanga í köðlum eða hvað. Þetta er ein af mínum skilgreiningum á góðri heilsu, að geta tekið þátt í leik barnanna. Ég held að það sé afar mikilvægt upp á að hvetja til hreyfingar og að barnið fái gæðastundir sem ekki felast í öðru en að „vera til“. Dóttirin sem sagt sá rólu sem hún var ólm í að prófa. Ég samþykkti enda veit ég ekkert skemmtilegra en að sitja í rólu. Rólan er þannig að hún hangir eins og í grind og svo situr maður í körfu og snýst í hringi. Við lágum í rólunni og snerumst í hringi. Það var ægilega gaman og skríkirnir sem komu upp úr litla búknum staðfestu það. Eftir nokkrar mínútur fór þó að renna á mig tvær grímur. Ég stoppaði róluna, sat á brúninni og var komin að því að kasta upp. Ég stóð upp og þurfti að halda mér í staur á meðan ég íhugaði að láta vaða í hettuna á flíspeysu barnsins. Ég staulaðist áfram og sá stjörnubjartan himinn (þetta var um miðjan dag) svo fuku himnarnir hjá í gráblárri og svo fagurgrænni móðu, ég heyrði hanagal (ok það er reyndar fiðurfénaður á svæðinu) og ég taldi víst að nú væru mínar síðustu mínútur að líða hjá. Á meðan ég hélt í staurinn hljóp litla dýrið af stað, í þráðbeinni línu og hrópaði „mamma, mamma, prófum ÞESSA rólu“.....og ég tautaði með gubbubragðið upp í mér: „ok.....ef ég má hringja á sjúkrabíl“.....Heimferðin var martröð.....mig sundlaði og svimaði og aldrei hafa bílarnir í London keyrt jafn hratt fram hjá mér og aldrei hefur sótthreinsilyktin af gosbrunninum í Russel Square (þeim sem dúfurnar sækja í), verið jafn megn.

Síðan þetta gerðist eru liðnir 5 klukkustundir og ég er ekki enn búin að jafna mig....mér líður eins og innyflin séu enn á hreyfingu, hausinn sömuleiðis. Kannski er þetta aldurinn, kannski losna innyflin? (mér líður þannig...eins og ég hafi verið á 1300 snúningum í þeytivindu).....en mikið svakalega vildi ég, að ég gæti hlaupið í beinni línu eftir að hafa snúist í hringi í 5 mínútur. Það hlýtur að vera merki um góða heilsu....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Ingunn Jónsdóttir
30. ágú. 2012
sigrun
31. ágú. 2012

 Ja sko ég glími ekki við þetta í kyrrstöðu (ég var búin að snúast í hringi í 5 mínútur) svo þessi grein á ekki við mig? Nema ég sé að missa af einhverju?

Ingunn Jónsdóttir
31. ágú. 2012

Jæja það er nú gott. Lýsingar þínar voru bara einhvern veginn þannig að mig datt þetta strax í hug. :)

sigrun
04. sep. 2012

Já ok, skil þig....takk allavega fyrir að hugsa til mín....væri alveg til í að vera ekki svona :)

Smári
03. sep. 2012

JÁ Ég kannast við þetta, AKM hefur verið við það að pissa á sig eftir mínar æfingar á róluvellinum og tölum nú ekki um ef hún segir "Stykkishólmur" þá fyrst fara innyflin á flug!
kv Smári

sigrun
04. sep. 2012

He he kannski við komumst í einhverja meðferð :)