Paleo pælingar


Myndin er fengin að láni af vef cavementimes.com

Í þau ár sem ég hef verið að borða eins og ég geri...þ.e. engan hvítan sykur, ekkert ger, lítið af mjólkurvörum, ekkert kjöt, takmarkaða fitu (nema úr hnetum, avocado, kókosolíu o.fl.) hef ég þurft að berja af mér alls kyns strauma og stefnur. Stundum finnst mér eins og ég sé með regnhlíf sem fólk lætur rigna á og ég kúri undir án þess að láta rigninguna hafa áhrif á mig (þó ég heyri vel í henni). Til dæmis hefur fólk í gegnum tíðina kynnt mér fyrir South Beach kúrnum, Herbalife kúrnum, Atkins kúrnum, makróbíótíska kúrnum, Scarsdale kúrnum, Weight Watchers kúrnum, safakúrnum, blóðflokkakúrnum, kristilega kúrnum o.fl. Eitthvað með endingunni „kúr“ (nema sófakúr) er ekki til í mínum orðaforða því mitt mataræði myndi flokkast undir dags daglegan lífsstíl. Nú síðast er mikið verið að fjalla um Paleo mataræðið (þar sem fólk borðar eins og steinaldarmennirnir gerðu) og kannski að einhverjir séu að velta fyrir sér hvaða skoðanir ég hafi á því. Ég er búin að lesa töluvert um Paleo, með opnum huga og ætla að reyna að vera eins hlutlaus og ég get.

Í stuttu máli:

Það er margt áhugavert og sniðugt í Paleo (t.d. áhersla á að borða óunna matvöru eins og kostur er, borða engan sykur) en annað finnst mér svolítið hæpið. T.d. getur of þungt kyrrsetufólk varla haft gott af því að borða feitt kjöt né rjóma?....og margir af þeim læknum sem ég þekki myndu líklega taka undir þær vangaveltur í kringum jólahátíðarnar á Íslandi..... (og áður en einhver segir eitthvað um saltmagnið og reykta kjötið þá eru einhverjar glænýjar rannsóknir sem benda til þess að salt sé allra meina bót og að við borðum of lítið af því Er AÐ UNDRA þó fólk sé ringlað á öllum þessum skilaboðum? Reyndar er ekki mælt með saltneyslu í Paleo svo ég er aðeins að snúa út úr.

Erfitt er að halda úti mataræði eins og Paleo og ef fólk er ekki þeim mun strangara, getur það endað með afar vont mataræði því maðurinn er smám saman að missa hæfileikann til að þekkja hungur/seddu tilfinningu. Ég hef ekki rannsóknir sem styðja þessa kenningu mína en miðað við að nánast allar Vestrænar þjóðir glíma við offþyngd, myndi ég halda að fólk almennt þekki ekki sitt magamál.....kannski hef ég rangt fyrir mér. Matur er heldur ekki eitthvað sem allir neyta til að viðhalda orkuþörf (eins og steinaldarmaðurinn) heldur borða sumir þegar þeir er daprir, uppstökkir, í sorg, þegar þeim leiðist o.fl. Það á auðvitað ekki einungis við um Paleo heldur allt mataræði. Að lokum þá finnst mér alltaf dálítið erfitt að lesa upplýsingar á vefsíðum fólks (eða bókum) sem er með nokkurs konar „ofstæki“ hvað mataræði varðar. Það á alveg eins við um Paleo eins og hráfæði og annað. Það truflar mig enn meira þegar fólk er með yfirlýsingar um að ALLT annað en Paleo sé hættulegt heilsu okkar og er í leiðinni að selja aðgang að upplýsingum og fróðleik o.fl. um Paleo á vefsíðu sinni.

Í mun, mun lengra máli:

Paleo er fyrir það fyrsta mataræði en ekki kúr og allt sem ekki er kúr er gott í mínum bókum. Paleo myndi flokkast undir lífsstíl, svipað og t.d. þeir sem tileinka sér hráfæðis- eða vegan lífsstíl en ólíkt t.d. Atkins þar sem það snerist að mörgu leyti um að innbyrða einungis prótein og fitu og sama sem engin kolvetni voru leyfð. Paleo hefur nokkur&; „stig“ eftir því hvað fólk vill vera „hreint“ og einhverjir „svindldagar“ eru leyfðir (að mati sumra, ekki allra fylgjenda). Það er margt í Paleo sem er sniðugt og finnst mér sértaklega þetta afturhvarf til óunninnar matvöru (ásamt áherslu á svefn og minnkaða streitu) gríðarlega mikilvægir punktar og eitthvað sem allir ættu að taka sér til fyrirmyndar. Ég hef sjálf, vegna náms míns mikið skoðað tengsl á milli svefns og offitu og eru þau tengsl ansi áhugaverð og síst öll kurl komin til grafar.&; Það eru afar sterk tengsl á milli of lítils svefns og það hvernig heilinn túlkar hungur og seddu. Nú er búið að sýna fram á (athugið að það er ekki það sama og að sanna eitthvað) að börn um 30 mánaða sem sofa lítið, eru líkleg til að verða of þung um 7 ára og börn um 6 mánaða og svo 2-4 verða of þung um 21 árs aldurinn, þó að hvar þau búi, uppeldisaðferðir og allt annað sé reiknað í burtu. Þarna er hægt að SPÁ fyrir um of þung börn út frá svefni óháð öðrum þáttum! Öll spjót virðast beinast að þessum tengslum en hins vegar eru ekki allir sannfærðir. Ég tel þó að þessi tengsl verði að taka alvarlega því þó að við gætum minnkað ofþyngd barna um einhver prósentustig með betri svefni, væri til mikils að vinna.

En áfram með Paleo. Hér má t.d. lesa um Paleo mataræðið og ég þýddi að gamni þessar 15 „reglur“ þannig að allir viti um hvað málið snýst:

  1. Samkvæmt Paleo á maturinn að innihalda mikla fitu, í meðallagi mikið af dýrapróteini og lítið eða í meðallagi af kolvetnum. Ekki á að telja hitaeiningar og ekki heldur passa upp á skammtastærðir.
  2. Borða skal ótakmarkað magn af mettaðri fitu eins og kókosolíu og smjöri (og ghee). Andafita o.þ.h. er líka talin æskileg og sama má segja um nauta- og lambafitu. Ólífuolía, avocado olía og macadamia olía er æskileg.
  3. Borða skal nokkuð mikið magn af dýrapróteinum, þ.m.t. rautt kjöt, fuglakjöt, egg, innyfli (lifur, nýru, hjörtu), villtan fisk og skelfik. Dýrafitu ætti ekki að sneiða hjá (ekki skera fitu af kjötinu).
  4. Borða skal vel af fersku eða frosnu grænmeti elduðu eða hráu og skal bera grænmetið fram með fitu. Sterkja eins og kartöflur og sætar kartöflur eru góð uppspretta óeitraðra kolvetna.
  5. Borða skal lítið eða miðlungs mikið af ávöxtum og hnetum. Helst skal borða ber (ekki eins sæt og ávextir) og hnetur háar í omega-3, lágar í omega-6 fitusýrum og lágar í fjölómettaðri fitu (eins og macadamia hnetur). Taka skal út alla ávexti og allar hnetur ef einhver meltingarvandamál, ónæmisvandamál eða þyngdarvandarmál eru til staðar.
  6. Taka skal allt kornmeti úr mataræðinu sem og baunir. Þar með talið hveiti, rúg, bygg, hafra, maís, hýðishrísgrjón, soja, hnetur (þ.e. jarðhnetur, sem eru í raun ekki hnetur heldur baunir), nýrnabaunir, pintobaunir, navy baunir og augnbaunir.
  7. Neytið kjöts sem kemur af skepnu sem ekki hefur verið alin á kornmeti. Hafið umhverfsvernd í fyrirrúmi og veljið beint frá bónda og reynið að kaupa ávallt lífrænt ræktað/framleitt hráefni.
  8. Taka skal út allar grænmetisolíur, hertar olíur og olíur hertar að hluta til (partially hydrogenated) þ.m.t. smjörlíki, sojaolíu, maísolíu, crisco, hnetuolíur, canola olíur, safflower (þistil) olíu og sólblómaolíu.
  9. Taka skal út sykur, gosdrykki, allar unnar vörur og safa. Þumalputtareglan er...ef varan er í boxi, skal ekki neyta hennar. Í matvörubúðinni skuluð þið einungis fara í kjöt- og fiskborðið og hrávörudeildina.
  10. Taka skal út allar mjólkurvörur aðrar en smjör og kannski rjóma. Þið þurfið ekki rjóma en ef þið getið ekki lifað án hans getið þið neytt hans í hráu formi og með fullu fitumagni.
  11. Borðið þegar þið eruð svöng og ekki stressa ykkur á því ef þið sleppið úr máltíð eða tveimur. Þið þurfið ekki að borða þrjár máltíðar á dag, borðið eins og ykkur finnst eðlilegt.
  12. Minnkið streitu og sofið eins mikið og þið getið. Reynið að vakna án þess að nota vekjaraklukku og farið að sofa þegar það er dimmt
  13. Ekki hreyfa ykkur of mikið, hreyfið ykkur í stutta stund en af fullri ákefð. Takið ykkur góða pásu frá hreyfingu ef þið eruð þreytt. Takið frekar stutta spretti heldur en langar æfingar.
  14. Íhugið að taka inn D vítamín og „probiotics“. Þið gætuð einnig þurft magnesíum, joð og K2 vítamín. Joð má fá úr þangi. Þið þurfið að öllum líkindum ekki fjölvítamín eða önnur vítamín.
  15. Leikið ykkur í sólinni, hafið gaman af lífinu, brosið, slakið á, uppgötvið, ferðist, lærið og njótið lífsins eins og um sé að ræða ævintýri.

Já og bókin sem þessi ráð eru byggð á er til sölu á vefsíðunni ásamt ýmsum öðru varningi.

Ég veit að grænmetisætur og hráfæðisfólk o.fl. selja ýmislegt á sínum sínum en fólk sem mælir með kjöti og rjóma, ekki of mikill hreyfingu o.fl. verður að vera helv..... sannfærandi og um leið hlutlaust að mínu mati.

Út frá þessum punktum hef ég nokkrar spurningar:

  • Er heilsa fólks línulega betri eftir því sem meira kjöts og meiri fitu er neytt?
  • Borðuðu steinaldarmenn ekki rætur og skordýr? Vantar þá ekki slíkt í mataræði nútímamannsins?
  • Hvað með t.d. kakó og andoxunareiginleika þess? Þó að steinaldarmaðurinn hafi ekki borðað kakó, eigum við þá ekki að borða það? Það er jú selt í pakkningum?
  • Górillur deila um 98% af genamengi mannsins....þær eru að megninu til jurtaætur (ég hef horft á górillu í frumskógi Virungafjalla í Rwanda bryðja sellerí og rymja úr ánægju eins og sumir sem ég þekki myndu rymja við að borða Snickers). Górillur eru að megninu til vöðvar og gætu brotið fótlegg okkar með því að kreista lúkuna....ég hef verið 1 metra frá górillu og trúið mér, hættan er fyrir hendi. Væri betra fyrir þær að borða kjöt? Myndu þær lifa lengur?
  • Lífslíkur manns á Paleolithic tímabilinu (fyrir um 2.6 milljónum ára) voru um 54 ár. Hvernig var hjarta þeirra og heilsa eftir þennan tíma?
  • Asíubúar t.d. Japanar lifa einna lengst en neyta samt byggs og tofus (í misosúpum), sojabauna og hrísgrjóna (með sushi) og hveitis (í sojasósu). Er þetta kannski spurning um magn og hóf (eins og ég er alltaf að segja)?
  • Hvað ef fólk hefði borðað magrar mjólkurvörur á dögum Paleo...væri það talið óhollt í dag? Er þetta einungis spurning um tímaþáttin frekar en hollustuþáttinn þannig séð? Ég velti þessu fyrir mér.

Glútein er oft sett fram sem eitt af því sem er mjög skaðlegt nútíma manninum. Þessi rannsókn á að sýna fram á að glútein sé skaðlegt þeim sem ekki hafa óþol eða ofnæmi fyrir því eða eru ekki með coeliac disease. Þátttakendur voru 6 og að hluta til var rannsóknin kostuð af Coeliac Disease Association of Madrid (Spain). Þessir annmarkar þurfa alls ekki að sýna fram á að tengslin séu ekki til staðar, aðeins að rannsóknin sjálf er kannski ekki skotheld og hana þyrfti að endurtaka af óháðum aðilum með fleiri þátttakendum.

Oft er mataræði Afríkubúa borið saman við Vesturlandabúa og talað um að Afríkubúar séu síður líklegir til að fá alls kyns lífsstílssjúkdóma eins og við á Vesturlöndum. Sannleikurinn er sá að fólk t.d. í Austur-Afríku þar sem ég hef ferðast hvað mest er stanslaust á hreyfingu þ.e. það gengur til og frá vinnu, til að sækja vatn, til að labba í skóla og til að gegna erindum í banka, búð o.fl. Meðfram vegköntunum er fólk að gangi frá kl 5 að morgni og langt fram eftir kvöldi. Oft er talað um að ýmsir ættbálkar borði einungis kjöt og þess vegna séu þeir svona hraustir og hafi svona fá hjartavandamál. Sannleikurinn er þó sá að þessar þjóðir neyta grænmetis og bauna (og reyndar hveitis og maíss) í miklu magni en ekki endilega kjöts. Kjöt er dýrt og fráleitt að allir hafi efni á því. Það er mín reynsla (og þarf ekki að vera algild) að fólk í þessum löndum er almennt í 1sta gír þ.e. allt gerist 10 sinnum hægar en t.d. á Íslandi eða í London. Ekki er óalgengt að ef maður fer út að borða í löndum eins og Uganda, Tanzaniu, Kenya og Rwanda að maturinn sé eldaður frá grunni (og kryddin möluð jafnóðum í mortéli, baunirnar soðnar og allt það)....pole pole (rólega, rólega) er sagt við mann ef maður er að spyrja út í matinn.

Í kringum kvöldmatarleytið hægir fólk verulega á sér því sólin sest almennt í kringum 19. Það er ekkert sjónvarp né internet almennt og fólk dundar sér í rólegheitum, spjallar um daginn og vegin (sem hugsanlega hefur góð áhrif á hjarta og æðakerfið). Ætli þessi rólegheit hafi eitthvað að segja varðandi lífsstílssjúkdóma sem hrjá Vesturlandabúa? Kíkið á British Medical Journal (www.bmj.com) og sláið inn t.d. stress + illness. Það er af nægu að taka. Ég hef auðvitað ekki lesið allar rannsóknirnar en ég hef nokkuð mikið skoðað áhrif streitu á líðan og heilsu fólks og það verður, að mínu mati að skoða þau áhrif á mataræði og þyngd fólks. Ef við sofum lítið, framleiðir líkaminn hormónið cortisol sem hefur beinlínis áhrif á hverja einustu frumu líkamans. Hækkun á cortisoli hefur m.a. áhrif á hvernig fita dreifist á líkamanum. Streita og aukið cortisol magn hefur þau áhrif að fita dreifist frekar á magann heldur en mjaðmirnar. Þessi fita er oft kölluð „eitruð fita“ (toxic fat) því fitusöfnum á magasvæðinu er sterklega tengd t.d. hjartaáföllum og heilablóðfalli. Borðum við of mikið af því við erum stressuð og erum við þess vegna að fá þessa sjúkdóma sem á okkur herja? Borðum við öðruvísi þegar við erum stressuð? Er það kannski ekki heimatilbúna, ristaða, grófkorna brauðið með mögru ostsneiðinni sem er að drepa okkur? Ég er einungis að velta þessu fyrir mér.

Annað sem brennur á mér er þetta: Eftir því sem ég læri meira um næringu, heilsu fólks almennt og hvernig hún er beintengd ekki aðeins mataræði heldur sálarástandi, umhverfi og aðstæðum, hef ég betur og betur komist að því að hvaða mataræði við fylgjum, er kannski minna mikilvægt heldur en magnið sem við borðum sem og í hvaða sniði maturinn er (unninn vs. óunninn). Ég þekki ótalmargar grænmetisætur (bæði sem reykja og ekki reykja) og grænmetisætan sem reykir gæti hugsanlega lifað álíka lengi og grænmetisætan sem ekki reykir af því sú sem ekki reykir er undir gríðarlegu álagi heima fyrir, býr við lélegan húsakost, hefur litla stjórn yfir aðstæðum á vinnu eða á heimili og er undir fjárhagslegum bagga. Ég er svo sannarlega ekki að mæla með reykingum (það er ekki til ógeðfelldari né heimskulegri ósiður að mínu mati), heldur er ég að segja að umhverfi, erfðir og aðstæður eins og streita og svefn hafa svo mikið að segja, kannski meira en komið hefur fram hingað til? Sama á við um fólkið sem borðar kjöt, rjóma, smjör o.s.frv. Sá stressaði sem borðar kjöt og rjóma í litlu magni, gæti allt eins lifað skemur heldur en sá rólegi sem borðar sama magn af kjöti og rjóma og jafnvel lengur en grænmetisætan sem er stressuð en reykir ekki!

Ég held að lausnin sé ekki að mæla með því að borða eins og steinaldarmaðurinn eingöngu því hlutina þarf að skoða í samhengi. Við borðum ALLT of mikið af unninni fæðu, allt of mikið af kolvetni í formi brauðs, morgunkorns, pasta o.fl. Við höfum ekki gott af þessu. Við borðum of mikið af hitaeiningum og við hreyfum okkur of lítið. Við fáum heldur ekki tækifæri til að fá útrás fyrir streitunni (í formi hreyfingar ÞEGAR við erum akkúrat undir álagi....t.d. næstum lent í bílslysi eða ef yfirmaðurinn fær brjálæðiskast) og hún safnast upp og hefur gríðarleg áhrif á hjarta og æðakerfi.

Getur verið að fólkið sem borðar kjöt, rjóma, smjör o.s.frv. og lifir samt til 100 ára sé fólkið sem aldrei var stressað? Er þetta fólk að fara sjaldnar og kaupa sér skyndibita af því það er ekki að flýta sér? Eldar það matinn frá grunni? Velur það hráefnið vel? Hvar falla þessar spurningar inn í allar þessar umræður um Paleo?

Sko. Ég er alltaf skeptísk á lækna eða fræðimenn sem ekki eru einungis að kynna niðurstöður á rannsóknum eða sína eigin sannfæringu heldur líka að selja eitthvað í leiðinni. Þeim mun meiri umræða sem skapast um málefnið, þeim mun betra fyrir auglýsingatekjur vefsíðu, sem dæmi. Ef ég myndi segja á vef mínum að allir þeir sem borðuðu kjöt væru bjánar (og vitna í alls kyns (ekki endilega góðar) rannsóknir), myndu umræður og heimsóknir á vefinn aukast töluvert og ég myndi græða meiri peninga í formi auglýsingatekna (ef ég væri að selja auglýsingar). Þetta á auðvitað ekki við um alla en það má vera ansi sannfærandi um ýmis málefni og vera með stór orð og fullyrðingar, sértaklega ef maður hefur fjárhagslegan ávinning af því.

Svo skal hafa í huga að þær rannsóknir sem gerðar hafa verið varðandi áhrif steinaldarmataræðis hafa oft fáa þátttakendur og þóknunaráhrif geta verið töluverð. Það er að segja að þátttakendur fá oft greitt fyrir þátttöku, vilja gera vel og ef tilgangur rannsóknar er vitaður, er hættan á þessum áhrifum mikil. Sumir segja tengsl milli glúteinneyslu og sjúkdóma eins og einhverfu, geðhvarfasýki og ofvirkni. Það má vel vera en hafa skal í huga að við öll inngrip er hætta á að mataræði og aðrir kvillar lagist sjálfkrafa. Yfirleitt er ekki einungis verið að einangra glúteinneyslu heldur er verið að taka mataræðið í gegn. Ef ekki er reiknað fyrir áhrif inngripsins sem slíks, eykst vandinn á túlkun. Sama á auðvitað við um rannsóknir á þeim sem neyta ekki kjöts eða glúteins en hættan er sú að af því umræðan um þessi mál eru ný af nálinni, að þóknunaráhrifin séu jafnvel meiri? Það er ekki hægt að neita því að fólk sem hættir að borða sykur og brauð MUN léttast (oft mikið) og það er heldur ekki hægt að neita því að um er að ræða AÐHALD og í lang flestum tilvikum mun aðhald leiða til þess að fólk léttist. Langtímaáhrif þessa mataræðis eru ekki þekkt (steinaldarmennirnir dóu jú um 50 ára) og þó að rannsóknir gefi til kynna jákvæðar niðurstöður, þarf að fara varlega í að túlka þær. Ég er ekki endilega að tala MEÐ næringarfræðingum eða á MÓTI þessum eða hinum, ég er einungis að benda á að það er ekki gott að alhæfa út frá rannsóknum þar sem áhrif eru mæld á nokkrum tímapunktum en ekki t.d. til margra ára eða áratuga.&; Hér er t.d. áhugaverð umræða á British Medical Journal:

Persónulega finnst mér vafasamt að mæla með einu mataræði fyrir alla hvað varðar þyngdartap og jafnvel að lýsa yfir að eitt og annað sé eitrað og að við verðum að borða kjöt til að hindra að við fáum sjúkdóma. Manneskja sem komin er yfir sextugt, sem dæmi, kyrrsetumaður sem þykir smjörið gott með feita kjötinu, verður líklega himinlifandi yfir því að geta borðað þessa tegund matar (sbr. félaga minn sem segist fá svimatilfinningu ef hann fær ekki kjöt). Hvernig mun heilsa þessa manns vera eftir 20 ár?&; Ég er forvitin og spennt að vita það.

Svo skal hafa í huga að oft er verið að tala um að grænmetisætur séu svo veiklulegar, líti illa út þegar þær fara að borða grænmeti, hafi enga orku, séu blóðlitlar o.fl. Hafa skal í huga að þeir sem fara á grænmetisfæði einhverra hluta vegna gætu verið veikir FYRIR og farið ÞESS VEGNA á grænmetisfæði, ekki öfugt. Sama með Atkins kúrinn (þó ég sé ekki hrifin af honum), oft var hugmyndasmiði Atkins stefnt fram sem skýru dæmi um að Atkins mataræðið væri banvænt (talsmaður þess fékk hjartáafall um 70 ára). Það sem hins vegar kom ekki fram var að hann hafði verið hjartveikur að einhverju leyti og hafði ÞESS VEGNA þróað Atkins kúrinn (ég endurtek....ég er ekki að mæla með Atkins).

Eins og ég hef svo oft sagt þá er meðalhófið best, hvort sem við borðum rjómasósur, kjöt, smjör, glútein eða hvað. Enginn hefur gott af því að borða of mikið og allra síst brauð, pasta o.þ.h. Hins vegar ætla ég að halda áfram að vera svolítið skeptísk þegar ég les yfirlýsingar, sérstaklega þegar sá hinn sami er að selja weight loss diet eða eitthvað annað slíkt.&; Sumir meira að segja viðurkenna að til þess að trekkja að á vefsíðunni (og fá meiri tekjur), noti þeir orðið „diet“ og „weigth loss“. Við hefðum öll gott af því að borða svolítið eins og steinaldarmenn þ.e. sneiða hjá sykri, unninni matvöru o.þ.h.....því öllu er ég algjörlega sammála....hins vegar er lífið yfirleitt ekki svona svart og hvítt. Lífið er fjölbreytilegt og aðstæður sem við lendum í mismunandi. Það eru sumir viðkvæmir fyrir t.d. glúteini og kornvörum (eða lauk eða mjólk) og aðrir ekki. Svo þess vegna gildir kannski meðalhófið best.....og það að vera ekki of stressaður og sofa vel og hreyfa sig. Svo má hafa í huga að 20-30% af æviskeiði okkar ræðst af erfðum sem við höfum enga stjórn yfir.

Vandamálið við hvernig fólk borðar í dag er að það stoppar ekki til að njóta matarins, það borðar of hratt, borðar skyndibita, drasl, í bílnum, við sjónvarpið, við tölvuna og borðar.allt.of.mikið. Við erum svo til búin að missa þessa tilfinningu sem t.d. ungbörn fæðast með. Að stoppa þegar þau eru södd, missa áhugann og neita meiru. Það er gaman að fylgjast með 1 árs syni mínum að borða (systir hans var eins á þessum aldri). Ég kenndi honum (og henni líka) að leggja hönd að munn ef hann væri saddur og þetta tákn hefur hann notað síðan hann var 11 mánaða og löngu áður en hann var byrjaður að segja annað en baba (fyrir banana). Hann segir algjörlega til með magnið og þannig á það að vera. Þegar maður er saddur, hættir maður að borða. En það er ekki svo einfalt hjá nútímamanninum og það er nú&; eitthvað sem er efni í heila bók.

Ég vona að þessi „greining“ mín hafi ekki móðgað neinn (ekki ætlunin og ég er ekki að stofna til rifrildis enda huuuuuuundleiðist mér slíkt) og vonandi er enginn sofnaður. Mig langaði bara að koma þessum hugsunum frá mér. Ég hvet sem flesta til að kynna sér þessi mál sem best og tala við lækna. Hins vegar legg ég til að þið spyrjið, áður en læknirinn virkar eiturharður í Paleo fræðum, hvort hann hafi fjárhagslegan ávinning af því að mæla með mataræðinu (er hann með vefsíðu sem selur auglýsingar? Búinn að skrifa bók?). Mér finnst að með svona 180°C vendingu á því sem fólk er vant að heyra, að það eigi rétt á því að fá algjörlega hlutlausar skoðanir. Að þessu sögðu, þó ég sé hlutlaus, er alls ekki víst að ég hafi rétt fyrir mér. Þó ég hafi vitnað í rannsóknir er ekki þar með sagt að þær séu fullkomnar eða algildar.

Það eru mörg hundruð bækur (og jafnvel rannsóknir) sem mæla með Paleo....en það eru líka mörg hundruð og jafnvel þúsund bækur (og rannsóknir) sem mæla með því að við borðum meira grænmeti, minna kjöt og sneiðum hjá mikilli fitu. Glænýjar rannsóknir á báða bóga. Hver spyr spurninganna skiptir máli sem og gæði rannsóknarinnar.

Ok...hef ekki meira að segja í bili.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Tóta
05. júl. 2012

Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur á Bugl er með frábæra fyrirlestra um börn og næringu. Hún leggur áherslu á að börn læri inn á eigin seddutilfinningu. Börn stjóri hversu mikið þau borði og hvað þau borði en foreldrar stjórna því hvenær matur er og hvað er í matinn.

Með því læra börn að þau þau borði ekki núna þessi máltið -afþví að þeim líkar hún ekki eða þau eru södd- þá fá þau að borða aftur fljótlega -innan 3-4klst-.

Eins er hún á því að það sé mikilvægt að taka sætindi af stalli og gera þau að einhverjum verðlaunum, heldur miklu frekar hafa þau í réttu magni og af góðum gæðum frekar en að banna þau.

Við reynum að fara eftir þessu og okkkur reynist þetta bara ágætlega. Flott þetta með að kenna börnum að setja hendina fyrir munnin þegar þau eru södd, algert snilldarbragð !

sigrun
06. júl. 2012

Börnin mín (1 og 3ja ára) eru ekki farin að fá sælgæti (og ég mun aldrei kaupa né gefa þeim slíkt), fá alltaf annað hvort ávöxt eða þurrkaða ávexti sem eftirrétt, það er bara jafn fastur liður eins og kvöldmaturinn sjálfur og er ekkert tiltökumál. Sama ef um t.d. köku að ræða, þá fá þau bara án þess að neitt sé gert úr því. Ég nota mat sem sagt aldrei sem verðlaun fyrir neitt :) Þessi nálgun nöfnu minnar er af hinu góða og sjálfsagt að fylgja þeim ef maður er að gefa börnum sælgæti á annað borð, ekki spurning.

Kolbrún Þóra
02. ágú. 2012

Ég veit að þetta er frekar seint svar, en ég rakst á þessa grein út frá dv-bloggi Kristjáns Más Gunnarssonar og langaði að leggja orð í belg :)

Það mikilvægasta sem ég hef lært af því að lesa um paleo og prófa að borða þannig að einhverju leyti er einmitt það að læra að hlusta á líkamann. Að vita hvenær ég er í alvörunni svöng og hvenær mér finnist ég bara eiga að fá mér að borða af því að ég hef alltaf gert það á ákveðnum tíma. Líka að læra að hætta þegar ég er ekki lengur svöng, í staðinn fyrir að borða þangað til ég get ekki meir.

Eins og ég skil það þá er ekki verið að mæla með því að borða bara jafnmikið af beikoni (eða annarri feitri fæðu) í staðinn fyrir það sem maður borðar venjulega, heldur borða frekar minna af "betri" mat.

Svo er það náttúrulega þannig að matur fer mjög misjafnlega í fólk, en mér sýnist á því sem ég hef lesið að það sé töluvert algengt að fólk sem prófar paleo uppgövti að það sé í rauninni með vægt glúten-, hveiti- eða mjólkuróþol.

Eins og þú segir er paleo heldur ekki neinn ákveðinn kúr sem verður að fylgja upp á hár og það borða örugglega allir þeir sem segjast fara eftir paleo á mjög misjafnan hátt. Mér finnst þetta meira spurning um að finna út hvað það er sem lætur mann líða vel og fá fólk til að spá meira í hvað það er sem við látum ofan í okkur.

sigrun
03. ágú. 2012

Jú ég er sammála því að það er gott að vita hvenær maður er saddur og hvenær svangur. Hins vegar þarf ekki Paleo til þess því ég hef lifað samkvæmt því að þekkja líkama minn hvað seddu/hungur varðar í um 20 ár.

Það er mjög gott ef fólk getur borðað minna en jafnframt af betri gæðum, en hins vegar á fólk mjög erfitt með að stilla sig af í magni og þar liggur aðal vandamálið. Fólk fer að umbreyta því hvað Paleo er í raun og veru og missir stjórnina....(borðar bæði brauðmeti og feitt kjöt) ekki síst fólk sem hefur reynt alls kyns kúra áður. Þetta er ekki algilt en allt of algengt.