Verð á leikskóla í UK (ef einhvern langar að bera saman við Ísland)

Ég hef stundum verið spurð að því hvort að það sé ekki dýrt að vera með barn í leikskóla í UK. Hér fyrir neðan sjáið þið verðið og þið getið dæmt fyrir ykkur sjálf. Áður en þið berið saman getið þið verið viss um að leikskólar hér eru ekki í þeim gæðaflokki sem við erum vön heima á Íslandi og meira að segja langt frá því. Þetta er enginn fínn einkaskóli eða neitt slíkt, bara ósköp venjulegur breskur leikskóli. Starfsfólkið er úr öllum heimsins hornum (sem er auðvitað frábært, gott að fá ólíka menningu og innsýn í menningarheima annarra) en gallinn er sá að ekkert af fólkinu talar góða ensku sem er bagalegt fyrir útlenskt barn sem er að reyna að læra málið. Þar fyrir utan, starfsfólkið sem er fætt hér, talar svo ljóta ensku að mér verður illt í eyrunum (það talar eins og ljóshærða bryðjan í Little Britain og segir Wooo'evaaaaaa'&; en ekki 'Whatever' eða 'Wooo'öööö' í staðinn fyrir 'Water' og 'Innn'iiiit' í staðinn fyrir 'Isn't it' ). Það þarf ekki neina menntun hér til að stýra leikskóla (bara nokkur námskeið, ekki neina sérhæfða menntun) og þó að leikskólarnir fari í gegnum eftirlitsskoðun, eru þeir látnir vita fyrir fram af heimsóknunum. Börnunum er auðvitað ekki misþyrmt eða neitt slíkt en ýmislegt má gagnrýna í sambandi við aðferðir til uppeldis o.fl. (t.d. kann einn starfsmaðurinn lítið annað en 'no' í ensku).

Allt plássið innandyra er álíka stórt og Kaffitár í Bankastræti (tek það sem dæmi því flestir þekkja það rými). Það er engin svefnaðstaða fyrir eldri börnin (bara sameiginlegt rými fyrir framan útidyrahurðina). Sem er ástæðan fyrir því að Afkvæmið fer ekki á leikskólann fyrr en eftir lúrinn sinn. Af því ég vinn og læri heima, gengur það upp. Annars væri ég með barn sem væri svo al-gjör-leg-a örmagna (hún þolir mjög illa að missa úr svefn) og ég er ein af þeim heppnu því ég hef tækifæri til þess að hún fái að sofa heima. Ég sé börn sem eru svo örmagna að þau stara fram fyrir sig, með bauga undir augum og bresta í grát af engu tilefni og svo gráta þau bara...Foreldrarnir koma svo um kl 18 og eiga þá eftir að ferðast í um 30-40 mínútur að meðaltali heim til sín, í lest...eða strætó (sum eru heppin og búa nálægt en margir vinna hér í nágrenninu og hafa þess vegna börnin á leikskóla nálægt vinnu). Úff...vesalings litlu stýrin.

Ef rigning er úti (þá verða börnin auðvitað að vera inni því við vitum öll að bleyta er „stórhættuleg” fyrir börn) og þá sofa yngri börnin ekki heldur því allir eru saman í einum graut inni í þessu litla rými. Það er útisvæði við leikskólann (sem þykir mjög gott í miðborg London) og það er reyndar mjög fallegt (en engin rennibraut eða vegasalt eða svoleiðis).

Íslenskir leikskólakennarar heimsóttu leikskólann fyrr í vetur og fengu hálfgert áfall yfir aðbúnaðinum. Það voru ekki einu sinni stólar fyrir starfsfólkið. Heimsóknin var áætluð í klukkutíma en þau voru farin eftir 20 mínútur og ég náði meira að segja ekki að hitta konurnar því þær flúðu af vettvangi hehe. Sem ég skil vel. Þetta er ekki einsdæmi og þessi leikskóli þykir „góður” eins og hann er metinn af óháðri nefnd (Ofsted). Þetta eru breskir staðlar. Ef að annar leikskóli væri mjög nálægt okkur (við erum jú ekki á bíl), myndum við skipta en þetta er sá eini sem kemur til greina eins og er. Við gætum flutt jú en eftir alla flutningana síðustu 2 árin er það dálítið erfitt (og dýrt) og skólinn minn krefst viðveru líka og gott að vera nálægt honum ef eitthvað kemur upp á (sbr. t.d. ef London fer í lockdown vegna sprengjuhótana o.s.frv.). Við verðum hér ekki að eilífu svo að Afkvæmið verður ekki skemmt fyrir lífstíð hehe. Á misjöfnu þrífast börnin best og allt það.

Mynd sem sýnir leikskólaverð í UK

En já, eins og þið sjáið á myndinni þér í grófum dráttum verðið svona (þið getið margfaldað allar upphæðir með 204):

Mánuður fyrir barn eldra en 2ja ára (frá kl 8-18) kostar: 1,100 pund

Mánuður fyrir barn undir 2ja ára (frá kl 8-18) kostar: 1,287 pund

Afsláttur fyrir systkini er 10% sem þýðir að systkini eru að borga 2,148 pund (tæplega hálfa milljón íslenskra króna). Mér finnst ég vera bara á ágætum launum þegar ég er hérna með þau ein á morgnana....

Þegar barn er orðið 3ja ára, fær það einhverjar 10 klukkustundir á viku ókeypis í dagvistun en það miðast við skólaárið því Afkvæmið sem er fætt í september fær ekki þessa ókeypis klukkustundir fyrr en í janúar á næsta ári. Hefði hún verið fædd í ágúst, hefði hún fengið þessar ókeypis klukkustundir næsta september.

Svona ef þið haldið að laun fólks séu í einhverjum milljóneraklassa þá er hérna fyrir neðan yfirlit yfir meðallaun. Athugið að þetta er fyrir allt Bretland en ekki bara fyrir London þar sem laun eru hærri að meðaltali. Ég tek laun yfir allt landið hér eins og heima á Íslandi (og flestir þeir sem eru með barn á leikskólanum búa fyrir utan London því það er svo dýrt að búa í miðbænum en af því að fólk vinnur í miðbænum þá notar það leikskólann þar eins og áður sagði). En já, það er auðvitað fáránlegt að skipta meðallaunum eftir kyni (svona upp á jafnrétti að gera) en hér eru

Yfirlit yfir meðallaun karla og kvenna í UK 2012:

  • Meðallaun karla í Englandi er um 30,000 pund (um 6 milljónir)
  • Meðallaun kvenna í Englandi er um 24,000 pund (4,8 milljónir)&;

Yfirlit yfir meðallaun karla og kvenna á Íslandi 2011:

  • Meðallaun karla á Íslandi eru um 4,5 milljónir
  • Meðallaun kvenna á Íslandi eru um 3,7 milljónir

Launin eru aðeins hærri í Englandi en hafa ber í huga að húsnæðisverð er eitt það dýrasta í heiminum miðað við fermetrafjölda. Það er umtalsvert dýrara en á Íslandi (sem dæmi er 3ja herbergja 90fm íbúð á um 3100 pund á mánuði (630,000 ISK) og 3ja herbergja 70fm íbúð á um 2100 pund (430,000 ISK). Sama má segja með rafmagn, vatn, hita og annað (ég hef búið á Íslandi og í UK til skiptis í rúmlega 11 ár svo ég er ekki bara að tala út úr rassinum á mér). Þetta er ástæðan fyrir því að mjög margt fólk hefur ekki efni á því að hafa börn í leikskólum hér og er frekar heima með þau (og það lendir jú yfirleitt á móðurinni því hún er með lægri laun…og svo framvegis).

Ég veit að margir á Íslandi eru í sömu sporum, að geta ekki haft börnin sín í dagvistun og ég er ekki að gera lítið úr því (svona ef einhverjum dettur í hug að snúa út úr orðum mínum). Það er hægt að fá alls kyns bætur auðvitað en þær eru dropi í hafið miðað við allan kostnað fyrir venjulegt launafólk.

Svo hér hafið þið það……verð á leikskóla í UK, ykkur til fróðleiks með grófum samanburði við Ísland. Athugið að dagmömmur kosta það sama og leikskólar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
23. maí. 2012

Bara til að setja þetta í enn meira samhengi - ég er með 22.000 pund í árslaun (ég er vel launuð miðað við að ég er nýbyrjuð í mínu fagi) sem eru 1500 pund útborgað eftir skatta.

Nú skil ég af hverju bretar bíða svona lengi með að eignast börn.

sigrun
24. maí. 2012

Jebb...þetta er ein af ástæðunum....

Melkorka
25. maí. 2012

Þetta er ótrúlegt! Hvernig er með barnapíur, hvað taka þær í laun?

sigrun
25. maí. 2012

Þær taka um 8-12 pund á tímann plús skatt (þær sem ekki eru að vinna svart). Barnapíur eru ekki ódýrar í London!