Alltaf fjör í London

Þetta var svolítið scary dagur í gær hér í London. Hann byrjaði ósköp venjulega hér heima og Afkvæmi 1 var að lúra á meðan ég var að stússa með Afkvæmi nr. 2. Upp úr 12.30 heyri ég mikil sírenulæti. Ekki óalgengt í 8 milljón manna borg að heyra læti, sérstaklega af því við búum við Tottenham Court Road (TCR), nálægt University College Hospital með tilheyrandi sjúkrabílum o.fl. sem þangað þurfa að streyma.

Stuttu síðar hringir Jóhannes og spyr hvort að sé örugglega í lagi með okkur. Ég hváði við, það var allt í lagi með okkur. Hann sagði mér að á TCR væri umsátur og að það væru mikil læti. Í því augnabliki heyri ég í þyrlunum og kíki út um gluggann og þar er allt stopp. Íbúðin okkar er með tvöföldu gleri svo niður af götunni heyrist ekki mikið en þegar ég opnaði gluggann og kíkti út, blasti við mér það sem sést á efstu myndinni. Mannmergðin var sem sagt á götuhorninu okkar.

Af götuhorninu okkar

Ég vissi ekkert nema að einhver gæi hafði tekið gísla, hefði hótað að sprengja upp byggingar og fólk og í kringum hann væri mikið umsátur. Jóhannes hélt fyrst að umsátrið væri í bankanum sem er bara 20 metrum frá okkur en hann hélt það þar sem fyrstu myndirnar á Sky og fleiri miðlum voru af því svæði. Eðlilega var hann áhyggjufullur. Ég var ekki of stressuð þar sem ekki var um hryðjuverk að ræða (sem eru yfirleitt af skipulagðari og útbreiddari toga) en var auðvitað ekki rótt heldur þar sem þetta var beinlínis í götunni okkar. Sem dæmi voru allar byggingar fyrir framan okkar hús rýmdar og öll TCR gatan lokuð umferð. Ég ákvað að skoða ástandið og meta þá hvort að ég ætti að fara á leikskólann með Afkvæmi 1. Við héldum af stað út en alls staðar voru lögreglubílar, sjúkrabílar, sérsveitarmenn, sprengjuleitarmenn og hundar. Einnig voru fréttamenn í viðtölum út um allt en sírenur og þyrluhljóð- kæfðu allan hávaða í mannmergðinni úti en um hundrað byggingar voru rýmdar og þar sem fólk komst ekki í lestar né strætóa (allt stopp) þurfti það því að bíða úti. Ekki var þverfótað fyrir lögreglumönnum.

Lögregla á Tottenham Court Road

Við komumst loksins á leikskólann og það tók um 20 mínútur (tekur annars um 5 mínútur) (en þar sem hann var ekki lokaður og lögreglan sem ég talaði við taldi ekki ástæðu til að loka honum), skilaði ég henni af mér í góðri trú. Mér var reyndar ekki alveg rótt því leikskólinn er í um 50 (fimmtíu) metra fjarlægð frá húsinu þar sem gæinn var (nánast fyrir ofan Starbucks-inn sem við förum reglulega á). Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað bara átt að halda mig heima, til öryggis.

Ég rölti svo heim en um 15 mínútum síðar fékk ég símhringingu um að leikskólanum yrði lokað og ég þyrfti að ná í Afkvæmið. Sem var hið besta mál, mér var enda rórra við að hafa hana hér.

Það var skrýtin tilfinning að sjá fréttaflutning af Sky og heyra í þyrlunum fyrir ofan húsið í beinni útsendingu. Mér leið ekki sérstaklega vel þegar ég heyrði að leyniskyttur væru komnar á þökin hérna víða (sjá mynd hér að neðan). Það var því gott að komast heim og í öruggt skjól.

Leyniskyttur á Tottenham Court Road

Þetta endaði allt vel og maðurinn var handtekinn (hann var orðinn leiður á lífinu og meira til). Ég áttaði mig á því hvað maður er heppinn að þurfa ekki að búa við svona ástand (og þúsundum sinnum verra) hverja mínútu og hvern dag. Torrington Place gatan (þar sem Planet Organic heilsubúðin er staðsett) var auðvitað lokuð (næsta gata við umsátrið, sjá mynd hér fyrir neðan) og um 8 brynvarðir lögreglubílar af stærstu gerð í götunni. Ég var hrikalega pirruð að komast ekki í heilsubúðina til að kaupa lífrænt framleitt súkkulaði en einni sekúndu síðar skammaðist ég mín fyrir að hugsa svona. Þetta flokkast víst undir lúxusvandamál.

Fyrir utan heilsubúðina

Þó að London sé tiltölulega örugg borg (allavega þar sem við búum), getur maður ekki annað en horft yfir öxlina á sér. Það þarf bara einn einstakling í ójafnvægi til að skapa mikinn glundroða og taka mannslíf en sem betur fer fór ekki illa í gær.

Myndirnar eru allar af vef SKY

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Tóta
30. apr. 2012

Úff, ekki skemmtilegasta lífsreynslan. Langar ykkur ekki að búa heima á Íslandi þegar það eru svona læti í kringum ykkur. Við bjuggum erlendis þegar okkar drengir voru litlir og ég hugsaði alltaf þegar það voru svona læti að þetta myndi ég aldrei upplifa á Íslandi. En auðvitað eru bara aðrar hættur hérna.

sigrun
30. apr. 2012

Þetta er góð spurning Tóta. Þegar við fluttum út 2001 (barnlaus og óvön stórborgum) þá vorum við nýflutt áður en að hryðjuverkaárásirnar brustu á í NY. Það fyrsta sem ég hugsaði var 'mig langar heim NÚNA'. Síðan þá höfum við upplifað hryðjuverkaárásir í London (enn barnlaus reyndar) og eiginlega bara akkúrat þar sem við höfum búið, sem og óeirðir og svo svona gæa sem hóta að sprengja allt í loft upp. Þetta eru yfirleitt einangruð tilfelli. Hafandi ferðast um Kenya og fleiri lönd Afríku lærir maður að mesta lífshættan er af umferðinni (frekar en t.d. ljónum) og það sama hér, eins og þú bendir á. Mestu líkurnar eru á að maður lendi í umferðarslysi en ólíklegt (reyndar miðað við hvar maður býr) að maður verði fyrir einhvers konar árás. Við búum á mjög öruggum stað og okkur líður vel, ásamt börnunum tveimur. En ég veit sko alveg hvað þú meinar, ég fæ stundum svona tilfinningu að þetta myndi aldrei gerast heima....en þá er einmitt hættan á að verða fyrir bíl bara þeim mun meiri heima því maður keyrir jú svo mikið. Það eru víst hættur alls staðar. Ég veit þó að ef eitthvað mjög alvarlegt myndi koma upp á (t.d. ef börnin yrðu alvarlega veik, eða við, eða ef væri yfirvofandi hryðjuverkaógn, myndi ég vilja fara í öruggt skjól).

Melkorka
30. apr. 2012

jiminn, gott að þetta fór allt saman vel. Greinilega öflug sérsveit í borginni.

Sara Björg
04. maí. 2012

Einhvern veginn hefur þetta allveg farið framhjá mér, þó ég búi í London líka! En úff!!