Aprílgabbið 2012?
Ég ruglaðist á dögum. Ég hélt að frétt á mbl.is í gær varðandi sælgætisát Íslendinga væri gabb. En í gær var 31. mars. Ekki 1. apríl.
Sjokkið þegar ég komst að því að fréttin væri ekki uppspuni, var algjört:
- Ég get ekki trúað því að hvern laugardag sé 8 tonna af sælgætis neytt af nammibörum Íslands (og þetta eru tölur einungis af nammibörum).
- Ég þori ekki að trúa því að við neytum um 800 tonna af sælgætis (á laugardögum) ár hvert.
- Ég vil ekki trúa því að samanlagt neyti Íslendingar 6000 tonna af sælgætis ár hvert. Það er eins og meðal stórt skemmtiferðaskip.
- Ég neita að trúa því að við borðum að meðaltali 19 kg af sælgæti á mann, á ári. Í þessum tölum eru líka börn sem oft eru ekki meira en 19 kg sjálf. Þau borða þá þyngd sína í sælgæti á ári.
- Ég staðfastlega ætla ekki að trúa því að við eyðum um 1.2-1.5 milljörðum á ári í sælgæti. Hvað kostar t.d. að kaupa nýjar græjur á barnadeild spítala? Er einhver að kvarta um kreppu?
Þessar tölur eru einungis mældar út frá nammibörum Íslendinga á laugardögum. Það skiptir ENGU máli þó að hina dagana sé ekki neitt sælgæti borðað...því 19 kg er svívirðilega hátt. Og mig grunar líka að sælgætis sé neytt aðra daga líka. Ekki í öllum tilfellum. En mörgum. Fyrir utan alla aðra óhollustu sem neytt er eins og gosdrykkja, skyndibita o.fl.
Í ár eru 25 ár frá því ég hætti að borða sælgæti og aðra almenna óhollustu (unnar matvörur, bakarískökur o.þ.h., kex, skyndibita o.fl., o.fl.). Ok kannski ekki allir jafn klikkaðir og ég en bara það að minnka sælgætisneyslu um líkamsþyngd barns væri góð byrjun. Hvernig væri t.d. að stefna að því að borða 1.9 kg af sælgæti á ári í staðinn fyrir 19 kg? Ég hugsa að á allri minni ævi hafi ég ekki náð að borða 1.9 kg af sælgæti, svei mér þá. 
En þetta útskýrir svo margt. Svo, svo margt. Foreldrar, við erum fyrirmynd barna okkar hvað heilbrigða líkamsþyngd sem og tannheilsu varðar. Við verðum að grípa inn í og horfa til framtíðar.
Ummæli
01. apr. 2012
Ótrúlegt. Ætli séu ennþá seldir snúðar, sykruð jógúrt og svali í grunnskólum eins og þegar mín börn voru í skóla?
Ég spurði upp á grínið hvort dóttir mín mætti þá ekki koma með coca cola í skólann en enginn skyldi brandarann..
Verst er að fólk heldur oft að það sé að borða hollt af því að í matnum/namminu er eitthvað sem með góðum vilja má tengja við hollustu.
02. apr. 2012
þegar börnin mín skiptu um grunnskóla hættu þau að fá grænmeti og ávexti í morgunkaffi í skólanum og í staðinn koma þau með nesti. sem er gott og blessað frá mínu heimili en þegar flest börnin koma með t.d engjaþykkni, eða skyr dós uppfulla af sykri ALLA daga hætti mér að vera sama - því mínum börnum langar líka í sykur... ég ræddi þetta á mjög rólegum nótum en bæði foreldrar og kennara voru á móti mér þrátt fyrir að ég sýndi þeim að í engjaþykkni sé álíka mikill sykur og í súkkulaðistykki... hvað er málið???? þannig að mín börn mæta með sínar gulrætur, ávexti og myndu japla á þeim sátt ef þau sæju ekki hin borða sælgæti í morgunmat...
en hvað er að foreldrum að leyfa börnunum þetta? af hverju eru foreldrar að kaupa svona inn?
03. apr. 2012
Ég var jafn sjokkeruð og þú Sigrún. Ég átti leið framhjá nammibarnum í Hagkaup á laugardaginn og hryllti þegar ég sá ástandið þar. Fólk var bókstaflega á kafi í dollunum, sælgæti og pokar um allt gólfið, börnin káfandi ofan í boxin með fingrunum þrátt fyrir að foreldrarnir stæðu hjá. Ömurleg sýn.
Fór í nýja matvöruverslun hér á höfuðborgarsvæðinu um daginn og taldi 4 rekka eingöngu með sælgæti. Ætli það hafi ekki verið um 12 rekkar í allt í búðinni.
Ég er líka þessi "leiðinlega" mamma sem sendi börnin eingöngu með grænmeti og ávexti í skólann (nestið kl 10). Fæ að heyra það ansi oft að dóttir mín sé "eina" sem kemur með slíkt. "Af hverju má ég ekki fara með corny eða mjólkurvörur eins og hinir"?
Kennararnir í skólanum senda vinsamlega beiðni til foreldranna öðru hvoru til að minna á grænmetið enda ekki vanþörf á.
05. apr. 2012
Þetta er skelfileg þróun Anna María, Gunnhildur og Alma María....og stefnir í alvarlegar afleiðingar (alvarlegri en þær eru nú þegar)....ég er eiginlega miður mín fyrir hönd barna á Íslandi :(
06. apr. 2012
en hvernig er staðan í öðrum löndum? þegar talað er um mataræði barna kemur upp í hugann hjá mér börnin sem ég passaði í Englandi fyrir nokkrum árum (var au-pair). Þau borðuðu vægast sagt óhollan og unnin mat, einnig nammi alla daga og foreldrarnir kipptu sér ekkert upp við það. Sykrað morgunkorn alla daga og í lunch pakkann var ég látin smyrja Nutella samlokur.
Ég held að þetta sé einmitt tilfellið á Vesturlöndunum í heild ekki bara hér á Íslandi, en það er alveg ljóst að hér færist sykurneysla bara í aukana..og svakalegt að sjá nammisekkina sem krakkar eru með á laugardögum, mér finnst í raun bara heimskulegt að hafa 50% afsl. af nammi á laugard. þar sem það hvetur fólk í að kaupa miklu meira.
06. apr. 2012
Góður punktur. Tannheilsa barna á Íslandi er verri en á Norðurlöndum en ég veit ekki með Bretland. Ég held að íslenskir krakkar borði ekki einungis sælgæti á laugardögum heldur bæti þau laugardagssælgætinu OFAN Á það sem þau borða aðra daga (og sykraðar mjólkurvörur o.fl.). Það er laugardagssælgætið sem munar svo miklu um (held ég, ég gæti haft rangt fyrir mér). Það eru líka þessir sælgætisbarir þar sem krakkar flippa út í sælgætiskasti (í einhvers konar múgsefjun þar sem stressið er mikið) og verslunareigendur gera málið verra með því að hafa þennan bölvaða afslátt.....það þarf að taka á þessu máli frá mörgum hliðum er ég hrædd um.