Just in case

Ég er týpan til að (allt sannar sögur):

  • Hella málningu í gólfið ef ég held á málningardós, af því ég lít á úrið.
  • Standa heillengi við gangbraut án þess að fara yfir götuna, þó ég sé búin að ýta á takkann og græni karlinn birtist, (bara gleymi að labba yfir).
  • Senda sms og setja símann við eyrað og bíða heillengi (hissa á að heyrist ekkert dring, dring).
  • Setja headphone-a í eyrun en gleyma að kveikja á ipodinum, í eins og klukkustund (gerist mjög oft samhliða atriði nr. 2).
  • Gleyma að ég er að láta renna í bað (er orðin betri með þetta).
  • Gleyma því að ég sé að sjóða egg, eða pasta, eða hrísgrjón.
  • Standa með bakið í arineld og fatta ekki að kápan mín er að bráðna.
  • Kveikja í matseðlinum (óvart auðvitað) á rómantískum veitingastað.
  • Fara í hraðbanka og gleyma að taka peninginn.

Það er því ekki að undra að sumir hafi áhyggjur af því hvort ég komist örugglega í gegnum daginn heil og óskemmd (miðað við 15 beinbrot m.a. kjálka-, mjaðma-, 3 handleggs-, viðbeins-, fót- og fleiri brot skil ég það enn betur).

Pabbi minn er eldhræddasti maður á þessarri plánetu. Hann myndi líklega ganga í teflonnærbuxum ef þær væru framleiddar. Það er gott að vera eldhræddur og í ljósi þess að það hefur aldrei brunnið hús ofan af pabba mínum, er það nokkuð vel af sér vikið að vera svona forsjáll. Við bjuggum í stóru húsi þegar ég var yngri og ég man enn eftir rauðu brunaslöngunni sem mig minnir að hafi átt að ná góða leið í kringum húsið. Það var líka slökkvitæki, eldvarnarhurð (sem var svo þung að hún var eins og öryggishurð í bankahvelfingu), eldtefjandi gifs í veggjum (pabbi byggði húsið sjálfur enda húsasmíðameistari), eldtefjandi ull eða eitthvað á milli veggja, eldvarnarmálning, eldvarnarsteypa, eldvarnargler, eldvarnarteppi og reykskynjarar eins og við hin setjum upp ljós, á 100 sm fresti eða svo. Eða þannig var það í minningunni. Svo voru nægilega margar útgönguleiðir til að allir gætu örugglega komist út, hvar sem var í húsinu. Það voru a.m.k. 7 dyr á húsinu (að meðtöldum tveimur svalahurðum). Rúmlega ein fyrir alla fjölskyldumeðlimi (meira að segja ein fyrir páfagaukinn sem kunni ekki að fljúga...hann gat bara labbað en það er önnur saga). Ég er að hugsa til baka að í öllum þeim húsum sem hann hefur byggt fyrir fjölskylduna hafa verið óvenju margar útidyr. Í minningunni litu teikningarnar út eins og jóladagatal (svona sem maður opnar fyrir hvern dag). Ég vonaði pínulítið að myndi kvikna smábál einhvers staðar (án þess að skemma eða skaða neinn) svo pabbi gæti tekið brunaslönguna fram og slökkt hetjulega í bálinu og talað um kosti þess að vera með brunavarnir. Bara svona hans vegna því það var enginn annar með 50 metra brunaslöngu inni í miðju húsi (það var heldur enginn annar með silungafiskeldi í kjallaranum en það er önnur saga). Það gerðist þó aldrei að slangan yrði notuð (sem betur fer auðvitað). Ég hélt að allir pabbar væru svona eldhræddir. Þegar ég var mun yngri talaði ég oft um brunaslönguna hans pabba sem náði næstum því utan um allt hús og væri svört. Skildi ekkert í því að það flissuðu sumir krakkarnir og spurðu mig hvort að pabbi minn væri frá Afríku.

Þegar við skötuhjúin fluttum í okkar eigið húsnæði þurftum við auðvitað að prófa alla reykskynjara 100 sinnum og pabbi kom færandi hendi með brunastiga, slökkvitæki og eldvarnarteppi. Svona „just in case“. Við vorum á 2. hæð í pínulitlu húsi og hefðum vel getað klifrað út um gluggann. Það hefði engu máli skipt hvort við hefðum verið í kjallara, pabbi hefði samt komið með brunastiga. Ég fór oft að pæla í því að ef myndi kvikna í (sem gerðist aldrei sem betur fer) væri ég líklega komin út á götu, búin að setja á mig maskarann, brjóta saman þvott og hella upp á kaffi í ferðabrúsanum, á meðan ég væri að bíða eftir slökkviliðinu. Ég myndi svo rétta vöskum slökkviliðsmönnunum brunastiga og eldvarnarteppi ef þeir þyrftu á að halda „just in case“.

Það kviknaði reyndar einu sinni í húsi sem við áttum. Við vorum ekki flutt inn og það kviknaði í, í kjallaraíbúð hinum megin í húsinu. Við höfðum verið eigendur hússins í 3 daga þegar þetta gerðist og vorum miður okkar því það var ekkert slökkvitæki, eldvarnarteppi og enginn brunastigi kominn á staðinn (og auðvitað kviknaði í). Það var skelfileg lykt í gamla timburhúsinu og mann sveið í augun af reyknum. Slökkviliðið mætti á staðinn og húsnæðið var reykræst. Reykræsting er dularfullt hugtak. Rétt upp hönd þið sem vitið hvað felst í að reykræsta? Maður heyrir í fjölmiðlum af slökkviliðinu að „reykræsta“ húsnæði og maður sér fyrir sér menn með Ghostbusters ryksugur á bakinu, í svona geimfarabúningi að soga burt reyk. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum þegar það kom maður frá tryggingafyrirtæki og setti lítið útvarp á gólfið. „Við látum tækið vera hérna þangað til reykjarlyktin er farin“. „Með útvarpi?“ spurði ég eins og auli. Reykrækstingin gerði sitt gagn og lyktin hvarf á einhverjum vikum. Það voru engir innanstokksmunir sem betur fer. Ef við hefðum verið flutt inn hefði ég örugglega dregið fram eldvarnarstigann og hent honum út um gluggann, klifrað niður, vafin inn í eldtefjandi teppi. Þó ég hefði getað labbað niður stigann og út um útidyrnar. Bara af því brunastiginn var undir rúmi, eins og alltaf. Það kviknaði svo í eitt sinn í húsi sem við bjuggum í hérna í London þegar eigandi kjallaraíbúðarinnar gleymdi baunum í pottinum. Það kom svakaleg lykt upp á 4ðu hæð og slökkviliðið mætti á staðinn og braut niður hurðina og bjargaði baununum. Það þurfti engan eldvarnarstiga en ég var að hugsa um að bjóða slökkviliðsmönnunum upp og sýna þeim hvað ég væri vel búin „just in case“.

Þegar við fluttum í varanlegt húsnæði hérna í London fyrir um ári síðan keypti ég auðvitað brunastiga, og eldvarnarteppi, og slökkvitæki. Reykskynjararnir eru tengdir rafmagni og geta ekki orðið hleðslulausir (batteríslausir). Í hvert skipti sem ég flyt í nýtt húsnæði þyl ég upp eldvarnirnar fyrir pabba og hann segir „gott, gott“ og svo talar hann um hvað eldvarnir skipti miklu máli (sem þær gera). Ég hef það líka fyrir vana að skoða alltaf útgönguleiðir hvar sem ég er næturgestur, hvort sem ég er á hóteli eða í heimahúsi. Ég stóð mig að því í fyrra, í 10fm strákofa í Kenya að svipast um eftir útgönguleið...(really Sigrún?). Ég er orðin verri með þetta eftir að við urðum fjölskylda en svo sem eðlilegt. Ég er alltaf að plana, ef kviknar í, hvaða leið við förum út. Ég er með svona „just in case“ skúffu í náttborðinu með öllum vegabréfum (það fyrsta sem var stolið af okkur auðvitað þegar var brotist inn þar sem við áttum einu sinni heima). Það er líka alltaf sími við hendina í svefnherberginu. Það er nefnilega yfirleitt að maður er sofandi þegar maður kemst ekki út og það kviknar í og þá er gott að vera með vegabréf og síma innan seilingar, „just in case“.

Hvers vegna í veröldinni er ég að velta þessu fyrir mér? Því mér finnst að forsjálni pabba míns eigi að skila sér til ykkar líka. Hann hefur nefnilega lagt sig mikið fram við að smíða t.d. glugga sem opnast þannig að allir komist út ef á þarf að halda, og passa upp á útgönguleiðir. Það er gott að vera vitur eftir á og eiginlega mjög erfitt þegar kviknar í. Það gerist allt of oft að fólk lætur lífið í eldsvoða og mér finnst ég alltaf að vera lesa frásagnir af foreldrum hér sem missa börnin sín í eldsvoða. Eld má oft slökkva og eldi er hægt að komast undan, ef rétt er að öllu staðið. Með eld er eiginlega engin afsökun, maður verður að vera undirbúinn. Það eru ekki allir með 50 metra langa brunaslöngu en þegar líf fjölskyldunnar er í húfi er eins gott að maður geri allt rétt, „just in case“.

Setja á to-do listann fyrir vikuna: Skoða útgönguleiðir ef eldur kviknar, hver tekur kaffivélina, börnin, blandarann og&; (þið sem þekkjið Elektru vitið hvers vegna hún er á undan börnunum í listanum) o.s.frv. Athuga reykskynjara, kaupa eldvarnarteppi, slökkvitæki og ef þið eruð eins og pabbi minn, eldvarnarstiga þó svo þið væruð búsett í kjallara...það er alltaf ágætt „just in case“).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Tóta
12. mar. 2012

Haha, skemmtileg færsla. Krúttkarl hann pabbi þinn :)

Harpa V.
12. mar. 2012

æ, en frábær færsla! Ég hló upphátt þegar kom að silungaeldinu í kjallaranum - hlakka til að lesa þá færslu.

Pabbi þinn er frábær karl eftir þennan lestur, og svo sannarlega fær þetta mig til að hugsa mig aðeins um en ég bý einmitt á 2. hæð og útgönguleið við eldhús/stofu þar sem eru mestu líkurnar á að kvikni í. Ég yrði að kasta náttborðinu út um gluggann og síðan dýnunni, svo yrði mjúkt að lenda.
Spurning einmitt að ath. þetta með símann og vegabréfin (haha, ég bý reyndar á Íslandinu).

Hef í alvörunni hugsað stundum (2x á ári eða svo) hvort væri ekki raunverulega góð hugmynd að vera með eldvarið box sem myndi geyma allt það mikilvæga (myndir etc) eða setja afrit af öllu svona hreinlega í bankahólf. Kannski of mikil forsjáhyggja - og þó.

Borgar
13. mar. 2012

Ég man að einu sinni í gaggó áttum við að skrifa hvað væru margar útgönguleiðir í húsum okkar og ég skrifaði 7 eða 8 stykki. Kennurum þótti þetta ekkert fyndið ( sem það var ekki , bara satt).

Fallegt að hafa hurð fyrir páfagaukinn. Hann hét Hrólfur og þoldi mig ekki frekar en aðra. Hann kunni ekki að fljúga ( eða eiginlega að lenda) en svo einn dag hvarf hann og ég bjóst við að finna leifarnar þegar mamma og pabbi flutti en svo varð ekki. Ég reyndi að semja um hann kvæði sem að byrjaði svona : Nú ertu floginn fuglinn minn....í fyrsta sinn! Hrólfur var að sjálfsögðu nefndur eftir Göngu-Hrólfi og var kvenkyns bæ ðe vei. kv borgar

Hrönn Magnúsardóttir
14. mar. 2012

Frábær lesning! Ég fékk einmitt eldvarnarteppi, reykjskynjara og slökkvitæki í innflutningsgjöf frá mínum pabba og var þvílíkt ánægð með það, gott að vera viðbúinn, eins og þú segir :)

Hlakka til að lesa um silungaeldið!

gestur
26. mar. 2012

skemmtileg lesning !
takk fyrir og bestu kveðjur héðan ,

Gunnhildur Gunnarsdottir
26. mar. 2012

frá Gunnhildi - ég hélt að nafnið mitt kæmu