Saga úr búðinni

Þar sem við búum er „kaupmaðurinn á horninu“ á jarðhæð hússins. Þar getur maður keypt ýmsar nauðsynjavörur eins og salernispappír og mjólk. Þetta er reyndar Co-operative verslun sem þýðir að verslunin er hluti af risa keðju. Engu að síður er starfsfólkið indælt og flest farið að þekkja okkur. Það heilsar og spyr um daginn og veginn, hvernig börnin hafi það o.s.frv. Í dag fór ég niður og gerði vikuinnkaupin sem ég geri yfirleitt ekki í þessari búð því þeir eru ekki með lífrænt ræktað grænmeti/ávexti. Ég er búin að vera lasin alla helgina og hafði enga orku í að labba í kuldanum út í Tesco sem er mun stærri verslun. Var reyndar ferlega svekkt því þeir eru með hrikalega góðar melónur um þessar mundir. Líka svekkt yfir því að þurfa að gefa yngra Afkvæminu gufusoðið og maukað epli sem ekki var lífrænt ræktað. En ojæja það svelta börn í heiminum hugsa ég alltaf með mér ef svona stendur á....

Anyway, ég fór um búðina og tók hitt og þetta og setti í körfuna. Inn koma tvær mjög ógáfulegar konur. Þær voru líklega að koma beint af djamminu (í kringum 11 að morgni) og voru rammskakkar. Þær voru reyndar mjög lifaðar, skakkar í framan, með beyglaðan munn, þrútin augu, önnur í allt of þröngum hlébarðaleggings en hin með þykka, bleika frotteteygju til að halda strekktu, hárúðahúðuðu (fyndið orð er það ekki ha ha) hárinu í tagl. Ég tók eftir þeim því þær voru stórfurðulegar og eins og drukknar án þess að það væri áfengislykt af þeim. Sem segir mann bara eitt...þær voru rammskakkar af einhverju þurru. Ég tók líka eftir þeim af því þær voru með 5 glænýja Co-op poka (sem eru eiturgrænir með bláum stöfum) í höndunum. Ég pældi svo ekkert meira í því. Nema á leið minni um búðina (hún er mjög lítil) tók ég eftir því að pokarnir voru að bólgna út. Ég sá þær svo stöðva fyrir framan snyrtideildina, þar sem Valentínusarbaðsölt voru á tilboði. Ég sá nokkur svoleiðis enda í pokanum. Á þessum tímapunkti kom á móti mér sendibílstjóri og hann horfði beint í augun á mér og svo á konurnar tvær. Hann virtist vera að gefa þeim illt auga. Ég pældi ekkert meira í því. Svo var ég búin að versla, fór með vörurnar að afgreiðsluborðinu og í því segir önnur konan við hina „heyrðu já svo eiga þeir áfengi líka, vantar okkur ekki svoleiðis“ og hún grípur stóra flösku af Vodka og setur undir höndina. Svo labba þær út. Með 5 troðfulla Co-op innkaupapoka. Ég gapti. Sendibílstjórinn gapti. Starfsfólkið tók ekki eftir neinu. Ég benti afgreiðslukonunni á að konurnar tvær sem voru að trítla yfir götuna hefðu stolið öllu því sem þær héldu á. „Ha!!!???“ sagði afgreiðslukonan. Sendibílstjórinn tók undir með mér. Nema í því kemur önnur konan til baka á meðan hin labbar áfram. Hún var að skila tímariti fyrir ungar stúlkur (æi einhverju með galdranornum og plast-skartgripum). Hún lét starfsmanninn fá tímaritið og labbar svo til baka. Starfmaðurinn gapti. „Það var þessi kona“ sagði ég (í ertu FÁVITI tón) við starfsmanninn. Hann vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga. Hann var með 2 konur á móti sér (og duftið sem þær fengu sér í morgunmat var örugglega ekki próteinduft svo óvíst hvernig þær hefðu brugðist við) og hann gat ekki haldið þeim á meðan hann hringdi á lögreglu. Hann kom til baka, inn í búðina með sælgætispoka í höndunum. Afgreiðslukonan horfði á hann stóreyg „skiluðu þær sælgætispokanum?“. „Já þær fíluðu ekki svona gúmmíbangsa og hlaupkarla“.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet D. Sveinsd
18. feb. 2012

Hahaha yndisleg frásögn. Og greinilega starfmaður með bein í nefinu.... úffff en samt: hvað á maður að gera?