Vegna agavesírópsumræðu
Mér finnst umræðan um agavesíróp alltaf jafn fyndin. Eða um heilsuvörur svona yfirleitt. Í fyrsta lagi er sykur óhollur og óþarfur. Hefur alltaf verið það, mun alltaf vera það. Sæta gerir lífið bara aðeins sætara....svona í smákökunum og svoleiðis og mér finnst gaman að hlakka til þess að fá mér kökusneið með kaffinu, eða heimatilbúinn konfektmola þegar ég er svöng. Ég hef ekki borðað sælgæti síðan ég var 12 ára en ef ég ætti að taka út döðlur, hlynsíróp, agavesíróp, rúsínur, pálmasykur, rapadura hrásykur o.fl. þætti mér lífið litlausara. Það þarf lítið til að gleðja mig.
Sykur í sinni hvítustu mynd er gjörsneyddur næringarefnum, steinefnum sem og vítamínum. Hann hefur líka verið bendlaður við ýmsar tegundir krabbameins og auðvitað sykursýki (langtíma samanburðarrannsóknir á mannfólki, ekki einungis á rottum). Sykur í sinni hvítustu mynd er hreinsaður með beinamulningi dýra (og er ástæða þess að t.d. þeir sem eru jurtaætur ættu ekki að neyta sykraðra gosdrykkja frá risaframleiðundunum). Það gerir hann auðvitað ekki óhollari, heldur gerir hann sykurinn í mínum huga ógeðfelldari. Ég borða hvort sem er ekki hvítan sykur svo það skiptir ekki máli.
Það sem mér svo fyndið er að stundum koma fram vörur eins og agavesíróp og allir, bæði kóngar, prestar og pöpullinn nota agavesíróp. Svo fara einhverjir fræðingar að rannsaka vöruna og með einangruðum tilfellum (yfirleitt á rottum) er hægt að sýna fram á að maður geti, eins og drykkjusvolarnir fengið skorpulifur við að neyta agavesíróps. Þá svitnar pöpullinn og kastar sírópinu eins og brennandi kolamola í ruslið, fussar og sveiar og tekur upp Dansukker, hrærir í bollann sama magni og síðustu 20 árin. Sigri hrósandi mælir pöpullinn og segir að hvort sem er sé öll hollusta af hinu slæma, það sé betra að borða bara hvítan sykur, þetta hafi alltaf verið ljóst. Það sem er reyndar mjög skýrt er að þeir sem neyta ruslfæðis og drekka mest af áfengi, reykja o.fl. lifa skemur en hinir sem borða hollan mat (þ.m.t. agavesíróp), drekka minna áfengi, reykja síður o.fl. Hmmm ætli sé samasemmerki á milli? Það er fyrrnefndi hópurinn sem þyngist á ofurhraða. Fólkið sem borðar ekki agavesírópið og goji berin, lucuma duft og spirulina. Er það vegna þessa heilsuvara sem fólkið lifir skemur? Nei nei, ekkert endilega...það eru alls kyns breytur að hafa þarna áhrif. Punkturinn hér er að orsakatengslin eru óljós. Þó að tengsl séu á milli frostpinnaáts og morða þýðir það ekki að frostpinnarnir orsaki morð...það þýðir að í hita hækki hjartslátturinn og örari hjarsláttur veldur meiri streitu, streita kallar á ofsafengnari viðbrögð. Og svo framvegis. Sem dæmi.
Það er alltaf óhollt að borða of mikið, af öllu. Hvort sem það er agavesíróp eða eitthvað annað. Það er þetta með hófið og það er þetta með að OF-nota ekki hluti. Ég nota agavesíróp en ég nota það ekki eingöngu. Ég nota hrísgrjónasíróp, hlynsíróp, hunang, döðlusíróp, pálmasykur, hrásykur, rapadura hrásykur, muscovado sykur....og svo framvegis. Allt eftir því hvað mér finnst henta í uppskriftina. Ég nota ekki eingöngu agavesíróp eða eingöngu hlynsíróp. Það er eins og að nota alltaf sama garnið, hvort sem maður væri að hekla sæta heimferðarskó af fæðingadeildinni, eða stóra peysu á útivinnandi smið.
Í gegnum árin hef ég séð auglýst á vefsíðum (sem m.a. hafa stolið uppskriftum af vefnum mínum, orðrétt með kynningartexta og öllu) að agavesíróp sé sykurlaust. Mér fallast stundum hendur yfir heimsku fólks. Auðvitað er agavesíróp ekki sykurlaust. Það sem skiptir allra mestu máli með uppskriftirnar mínar er að sykurmagnið er TÖLUVERT minna en í öllum öðrum uppskriftum. Sem dæmi þá ætti eplakaka að innihalda 200 g af sykri en ég myndi nota 80-100 g af rapadura hrásykri og jafnvel nota döðlur með. Ég blanda saman sætu, eftir því hvað hentar. Ég nota líka ávexti og ávaxtamauk sem sætugjafa, og döðlur og rúsínur. Agavesíróp er ekki gott fyrir líkamann ef maður neytir þess í lítratali á degi hverjum. Enginn gerir það hvort sem er. Þetta er alltaf spurning um meðalhófið. Það sem fer mest í taugarnar á mér er að hvergi hefur komið fram rannsóknir á öðru en dýrum (og við vitum öll hvernig tilraunir á dýrum eru)....og hvergi hefur komið fram dose-response effect þ.e. þú þarft að neyta x mikið af agavesírópi áður en áhrifin verða x mikil. Þetta er grundvallaratriði í vísindalegum rannsóknum, að hægt sé að bera saman og meta áhrif. Einnig hefur hvergi komið fram munurinn á hvernig þetta baneitraða agavesíróp er unnið þ.e. það er mikill munur á high-fructose agavesírópi eins og það er oft framleitt í USA (og er að drepa allt og alla) eða agavesírópi beint af plöntunni sem hitað undir 47°C (og er í eðli sínu hráfæði sem þýðir að öll ensími haldast heil). Svo er líka ágætt að vita að helstu styrktaraðilar (dýra)rannsókna á agavesírópi eru sykurframleiðendur. Mér leiðist svona letifréttamennska.
Eigum við að hætta að borða agavesíróp? Hmmmm ekki finnst mér það. Eigum við að hætta að borða sykur? Nei en endilega minnka magnið töluvert (og venja sig á að borða minni sykur t.d. 2 matskeiðar en ekki 200 grömm). Hvaða sykur á maður að nota? Þann sem hentar uppskriftinni og þann sem er minnst unninn. Ef maður ætlar ekki að taka út sykur 100% í mataræðinu (sem er dálítið leiðinlegt og tilgangslaust ef maður má borða sætu á annað borð), á maður að nota skynsemina og það sem manni líður best af að nota.
Ummæli
03. feb. 2012
Heyr heyr, mikið er ég glöð að þú tjáðir þig. Hugsaði einmitt í dag hvað ætli nafna mín hafi um þetta mál að segja.
03. feb. 2012
heyr heyr!!!
03. feb. 2012
Heyr heyr :D
03. feb. 2012
Góð ummæli um alveg bara svona líka fína og flotta vöru :)
Auðvitað eru það sykurframleiðendur sem eru að reyna að sverta agavesírópið. Eru það ekki líka þeir sömu + pólitíkusar sem styrkja "rannsóknir" á aspartame og öllu því drasli og lofa í hástert fyrir að vera svo hollt og gott og ble ble ble?,ég s.s hef ekki trú á þessum gervisykri og engar hitaeningar og kjaftæði.
03. feb. 2012
Eins og talað út úr mínu hjarta :)
03. feb. 2012
Heyr heyr !! þoli ekki hvað þessi umræða er alltaf neikvæð !
03. feb. 2012
Góður pistill hjá þér, held bara að ég sé þér sammála um flest.
Hvítur sykur hefur ekki verið til á mínu heimili í fjölda ára. Langar að spyrja þig hvort þú notir Steaviuna eitthvað? Hef verið að prófa hana ( sykursíki ) í fjölskyldunni en á frekar erfitt með magnið. Hef ekki séð hana í uppskriftum frá þér.
04. feb. 2012
Sæl Svala. Ég hef ekki notað það mikið því ég almennt nota ekki neitt í uppskriftirnar mínar sem ekki fæst í flestum heilsubúðum á Íslandi. Stevia er varhugaverð að því leytinu að oftar en ekki er búið að bæta 'þykk-efnum' við til að gera það sem líkast sykri í áferð og oft er bragðið biturt, eftir framleiðanda. Maður þarf því að gera svolitla rannsóknarvinnu til að lenda ekki í einhverju drasli. Mig minnir að Lyfjaeftirlitið hafi ekki leyft stevia á þeim forsendum að það væri fæðubótarefni (I know).......Stevia er sniðug að mörgu leyti (ef hún er hrein).
04. feb. 2012
Sæl Sigrún,
Takk fyrir gott umlegg í þessa umræðu. Ég er alveg sammála þér. En ég hef verið að prófa mig áfram með steviu og líkar ágætlega, en best finnst mér að skipta henni út fyrir hluta af öðrum sætuefnum, t.d. agave, en ekki nota hana eingöngu. Stevia fæst núna t.d. í Heilsuhúsinu og mammaveitbest.is.
Kv.
Anna
04. feb. 2012
Mikið er ég glöð að lesa þetta mér stóð nú bara ekki á sama í gær þegar ég las hina greinina
Kv. Sigríður
04. feb. 2012
góð lesning!
sem næringarfræðinemi hef ég aldrei skilið þetta annaðhvort eða umræðum um bæði agave-kókosolíu o.s.frv og næringarfræðingar svo sannarlega ekki nægilega duglegir að koma fram og segja sínar skoðanir.
allar rannsóknir á þessum efnum (agave-kókosolíu-aspartam) eru litaðar af þeim sem framleiða vöruna,hafa hagsmuna að gæta og þar fram eftir götunum.
við íslendingar þurfum að læra að nota allt í hófi,ekki taka öllu trúanlegu sem við lesum eftir Jón útí bæ og mynda okkar eigin skoðanir og fylgja þeim :)
hollt,gott og fjölbreytt mataræði er málið, kökusneið hér og þar og súkkulaði stunudm líka ;)
04. feb. 2012
Gaman að sjá þetta, þar sem ég las greinina í gær og var mikið að spá í þetta allt saman. Ég er að reyna að prófa mig áfram með ýmislegt í stað hvíts sykur, en er svo græn að ég veit ekkert hversu mikið magn ég á að nota og hvað mikið ;)einnig er ég mikið farin að spá í hveitið sem ég er að nota...
04. feb. 2012
Takk Sigrún fyrir góða grein :)
Nákvæmlega... nota bara TÖLUVERT minni sykur og kannski minna smjör en splæsa segjum döðlum og banana í kökuna. Svissa hvíta hveitinu út fyrir heilhveitið og pínu haframjöl með, bæta möndlum og bláberjum í deigið... allt eftir því hvað passar hverju sinni og meira segja kannski sleppa smjörkreminu og fá sér bara smá rjómadúllu með :) Kökutilraunir eru skemmtilegustu tilraunir í heimi :)
Mér bara finnst alltaf svo ægilega fyndið (og pínu sorglegt) þegar verið er að baka "hollt" og enn er sykurinn númer eitt í uppskriftinni (ég meina þetta er jú bara þetta holla agavesíróp), svo kemur olían (þessi holla, kókos þið vitið), svo er það speltið (meeegahollt) og súkkulaðið (en sko bara 70%)... Kannski smá krem úr agave og kókosolíu og kakó oná... úlalla, mín bara komin með köku sem má háma í sig og maður verður ægilega slank og hraust af að borða! Ohhh nei hættu nú alveg! Ég meina, fólk heldur þetta í svo mikilli alvöru.
Samstarfskona mín spurði mig t.d. um daginn í fúlustu alvöru "hvað eru eiginlega hitaeiningar?" ... Hún vissi bara að þær væru eitthvað stórhættulegt fyrirbæri sem ætti að forðast eins og heitann eldinn... Fáar kaloríur samasem hollt er það ekki jafnan? úff....
Takk fyrir sí-góðan vef mín kæra... Ég dett ennþá stundum í sykurkarið þrátt fyrir að verða næstum eins og þú af kaffinu af átinu og kemst oft ekki alveg strax uppúr, ég er nú samt ár frá ári að verða aðeins betri í jafnvægislistinni í þeim málunum!
04. feb. 2012
Takk fyrir að taka allt sem ég var að hugsa svona snyrtilega saman í eina grein. Flott :)
04. feb. 2012
Sæl nafna, takk fyrir þetta. Og endalausar þakkir fyrir vefinn þinn og alls ekki loka honum ;)
Ég er ein af þeim sem þoli ekki sykur, er sykurfíkill svo um munar. Ég hef prófað mig áfram með önnur sætuefni, sem þú nefnir, þó ekki hrásykur því hann "triggerar" fíknina hjá mér jafn mikið og hvítur, beinaþveginn sykur ;) Hins vegar get ég leyft mér t.d. agave, hlynsýróp og fl. í hófi og haft það í hófi án þess að "verða" að drekka allan brúsann.
Mín skoðun er, sama hvað á við, að allt sé gott í hófi - ef maður getur haft það í hófi.
Enn og aftur TAKK.
04. feb. 2012
Frábær pistill!
Við fjölskyldan fengum okkur einmitt spelt lummur með agave í hádeginu og það var æðislegt :) enda nammi dagur .
Ég veit að á mínu heimili er þvílíkur munur á mínum 3 börnum eftir að ég skipti út hvíta sykrinum og minnkaði mjölkur magnið. Skapið er svo mun léttara og einfaldara að vera ung mamma þegar öllum líður vel:)
Við munum allavegana halda áfram að fá okkur lummur með agave á laugardögum og tel ég víst að allir séu sammála því að það sé mun betra en að fara með þau á nammibarinn, sjá þau svitna yfir úrvalinu og býða í spenningi eftir að komast heim og háma í sig.
04. feb. 2012
Góð lesning frá þér... takk innilega fyrir frábærann vef..nota hann mjög mikið.
04. feb. 2012
Þú sem ert að spamma vefinn minn með tenglum í rannsóknir á KoolAid, gosdrykkjum o.fl., vinsamlegast hættu því, ég eyði þessum kommentum jafnóðum. Fyrir utan að ég birti ekki svona pósta nafnlausa.
04. feb. 2012
Frábær pistill!
Ég er orðinn hundleið á þessum pólitísku umræðum um hvað má og hvað má ekki í þessu blessaða mataræði - Fæ nóg að hlusta á bullið í liðinu á æðstu stofunin landsins niður á Austurvelli takk fyrir. Tökum ekki þátt í þessari markaðsvæðingarumræðu og verum skynsöm eins og rætt er einmitt hér. Ég þekki fólk sem hefur farið yfir strikið í hollustunni eins og hina áttina og er það ekki betra.
Það er eins gott að engin hafi þau áhrif að þessi vefur loki, hann er algjörlega frábær!
Takk fyrir mig,
Guðrún
04. feb. 2012
Nú er ég að pósta undir nafni, má ég þá koma með rannsóknir á high fructose corn syrup?
04. feb. 2012
Ég bað um í upphafi að ég vildi ekki fá tengla á rannsóknir. Ég hef lesið allar greinarnar en þær svara engu frekar en fyrri daginn, fjöldi greina segir ekki til um gæði. Vefurinn minn er ekki umræðuvettvangur og þess vegna loka ég fyrir komment sem kalla á slíkt. Ef einhver er ósammála mér má ræða það annars staðar eða hreinlega segja: Ég er ósammála. Case closed.
04. feb. 2012
Sæl Sigrún
Vil bara árétta að ef þessi grein þín er viðbrögð við viðtali við Yrsa B. Löve, sérfræðingur í ofnæmislækningum þá held ég að þú sért að misskilja. Það er enginn að segja að neinn sykur sé hollur og best og heilusamlegast væri að sleppa honum öllum. EN ef þú vilt nota sykur þá er sykur alltaf sykur. í hvítum sykri eða hrásykri er glúkósi og frúktósi og það er einfaldelga auðveldara fyrir líkamann að vinna úr honum en sykri sem er eingöngu frúktósi eins og hich fructose corn syrup og agave.
Þetta er vísindalega sannað og ekkert nýtt. Það er hvergi sannað að agavesýróp sé óhollt, en það er ekki hollt frekar en annar sykur eða sýróp.
Annars er oft gaman að uppskriftunum þínum - takk fyrir þær HH
04. feb. 2012
Mér finnst stórmerkilegt ad fólk telji agave betri kost enn hvítann sykur. Thad er alltaf sagt, ad thad fari hægar út í blódid (lægra GI sem sagt) og ad sykursjúkir geti bordad thad. Ég vinn med sykursjúkum og hef mælt blódykur á fjolda fólks eftir inntoku agave, og hann er ekkert odruvisi enn eftir inntoku hvíts sykurs, eda jafnvel hveitis eda spelts ;-) Ég sjálf nota ekki hvítann sykur, enn ég nota heldur ekki agave!
04. feb. 2012
Ég nota einmitt bara Agave fyrir mig og börnin mín og las þessa vísindalegu grein, sem ég man nú ekki núna hvar er, en það fær engin rannsókn mig til þess að hætta að borða Agave-sýróp þegar ég sé sjálf að ég þurfi 1. minna af þvi en hvítum sýkri 2. afþví að ég finn það á eigin kropp að Agave æsir ekki í mér frekari sykur þörf eins og sykur gerir. Punktur!
05. feb. 2012
Sæl.
Góð grein hjá þér :)
Langar bara til að benda þér á góða hreina stevea frá youngliving.com sem famleiðir hágæða lífrænar kjarnaolíur
B.kv.Ingibjörg
05. feb. 2012
Kæra Sigrún. Takk fyrir góða grein. Ég er forvitin með þetta lítið unna Agavesýróp. Ég hef hingað til forðast agave af því að það er svo mikið unnið og mér skilst að það þurfi að vinna agaverótina ansi mikið til þess að fá sýróp úr henni, þannig að þessar upplýsingar koma mér á óvart. Veistu hvar ég get nálgast upplýsingar um vinnsluaðferðina?
Svona út frá lífefnafræðilegum prósessum þá get ég verið alveg sammála þér að ekkert af þessum sykri sé hollur og það sem kannski kemur oft ekki fram er að það er talið að agavesýrópið sé meira fitandi af því að það fer beint í fituframleiðslu í lifrinni, sem gerist ekki eins með vernjulegan sykur. Þannig er það ekkert endilega spurning um meiri hollustu heldur hvert markmiðið sé.
Mér finnst bara snilld að þú skulir getað haldið sykurneyslunni svona í hófi, ekki get ég það, er svona allt eða ekkert manneskja!!!
06. feb. 2012
Hæ Erna
Hér er grein um vinnsluaðferð á agavesírópi (ath ekki fræðigrein en gefur ágætt yfirlit yfir aðferðina): http://www.fromsadtoraw.com/Misc/AgaveNectar.htm. Það er satt að agave fer í lifrina (og er ekki gott í miklu magni, ekkert frekar en áfengi) og eins og ég hef svo oft talað um þá er þetta allt spurning um hóf. T.d. væri betra að borða 1 tsk af hvítum sykri heldur en 2 lítra af agavesírópi (you heard it from me!!). Ég nota yfirleitt ekki meira en nokkrar matskeiðar í uppskriftum en algengt er í þessum hráfæðisheimi að notað sé um 100-200 ml í uppskriftum. Það er ekki gott fyrir neinn, hvort sem maður notar hlynsíróp, hunang, agave eða annað. Best er að minnka sykurmagnið og nota svo það sem hentar líkamanum best. Sumir finna fyrir minni sykurþörf eftir að hafa notað agave, aðrir finna minna fyrir sykurþörf eftir að nota einungis rapadura hrásykur (ég er mjög hrifin af honum). Mjög algengt er að í tilraunum (á rottum) sé notað agavesíróp sem er highly concentrated og mikið unnið og þaðan fær maður verstu niðurstöðurnar.
06. feb. 2012
Þú ert ein af mínum fyrirmyndarhöfundum og listamönnum svo mikið er víst! Takk fyrir allt og það er um að gera að skrifa svona pistla!
María
06. feb. 2012
Flottur pistill og fræðandi - takk! :)
Ég er nýr notandi hér og er á fullu að prófa nýjar og hollar uppskriftir - dásamlegur vefur sem þú heldur úti.
Vildi bara þakka fyrir mig! ;)
Raggý
06. feb. 2012
Aldrei,aldrei hætta með þennan vef,,veit ekki hvað ég gerði án hans :)
Elska þennan vef,,hlusta ekki á einhverja rugl rannsókn um agave.
Takk fyrir alla hjálpina í átt að betra lífi.
Mkv, Ásgerður
06. feb. 2012
Takk Sigrún! Mikið hafði ég ekki hugmynd um þetta! Fínt að fá bara svona lýsingu, það þarf ekkert akademíska grein til að skilja hvernig þessi vinnsla fer fram.
Það er svo sannarlega satt hjá þér að allt sé best í hófi, og mér finnst það einmitt svo frábært við þitt viðhorf. Svo jarðbundið og laust við upphrópanir.
08. feb. 2012
Sæl
Gaman að lesa 'no bullshit' umfjöllun um þessar sykur vörur. Ég einmitt þoli ekki letifréttamensku eins og þú kallar hana né heldur þessa allt eða ekkert nálgun. Agave er bara annaðhvort eitur eða guðsgjöf og þar frameftir götunum.
Ég hef smám saman verið að minnka hjá mér sykurneyslu en er ekki komin voðalega langt í þeim efnum. Helst reyni ég samt að sneyða hjá hvítum sykri og hvítu hveiti þó ég hafi ekki fjarlægt það með öllu úr mataræðinu. Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að hætta að borða mjólkurvörur með bragðefnum og viðbættum sykri. Í staðin bý ég mér til boost í blandaranum mínum úr hreinni ab-mjólk eða hreinu skyri(og blanda undanrennu eða vatni við) og frosnum eða ferskum ávöxtum. Ég vil miklu frekar fá sætuna úr ávöxtum en úr næringarlausum, þvegnum, viðbættum sykri.
Ég skipti líka víða út hvítum sykri fyrir hrásykur en síðan sagði einhver mér að hrásykur væri engu betri og jafnvel verri en sá hvíti. Ég hef ekkert fyrir mér í þessu en langaði að spurja þig út í hrásykurinn og þennan rapadura hrásykur og muscovado sykur. Hver er munurinn á þeim samanborið við þennan hvíta?
08. feb. 2012
Sæl Edda
Í orðalistanum finnur þú ýmsar upplýsingar um sykur þ.m.t. rapadura hrásykurinn. Ég er mjög hrifin af honum persónulega í það sem þarf sykur í föstu förmi, en hann er auðvitað 'sykur' :)
11. feb. 2012
hæ, getur þú bent mér á síðu þar sem farið er nánar í hvernig vinnslu á hvítum sykri er háttað, og þá hvernig hann er hreinsaður með beinamulningi dýra?
11. feb. 2012
Hæ, kíktu hér á blaðsíðu 15: http://www.vrg.org/journal/vj2007issue4/vj2007issue4.pdf Athugaðu að þetta er ekki fræðilegt rit en gefur ágætt yfirlit...
20. feb. 2012
Að allt öðru, er allt í lagi að þínu mati að djúpsteikja upp úr kókosolíu? Hef gert það nokkrum sinnum með sætar kartöflurnog finnst það rosalega gott! Takk annars fyrir frábæra síðu.
21. feb. 2012
Hæ...ég verð að viðurkenna að ég veit lítið um djúpsteiktan mat, ég hef aldrei á ævinni djúpsteikt. Kókosolían hins vegar þolir vel hita án þess að skemmast (hefur 'high smoke point').....eða um 177°C þ.e. óunnin en hreinsuð olía þolir meiri hita eða um 232°C. Við djúpsteikingu þarftu á milli 175 og 190 °C hitastiga þannig að kókosolían á rétt að sleppa (óhreinsuð). Vona að þetta hafi hjálpað...
21. feb. 2012
Flott blogg/grein hjá þér. Er svo hjartanlega sammála þér. Langaði líka bara að hrósa síðunni hjá þér, er oft að baka og elda uppskriftirnar hjá þér og ég dýrka þær. :)
21. feb. 2012
Takk Katrín :)
09. maí. 2012
Sæl Sigrún og takk fyrir frábæra pistla uppskriftir og fræðslu:) Mig langar að forvitnast um hunang og sýróp,er hunang hollara og get ég notað hunang í staðin fyrir sykur? Og get ég notað hnetusmjör í stað smjörs? Takk takk María.
09. maí. 2012
Sæl Sigrún og takk fyrir frábæra pistla uppskriftir og fræðslu:) Mig langar að forvitnast um hunang og sýróp,er hunang hollara og get ég notað hunang í staðin fyrir sykur? Og get ég notað hnetusmjör í stað smjörs? Takk takk María.
10. maí. 2012
Í hunangi og sykri (sýrópi) er álíka mikið af frúktósa svo það er álíka slæmt svo sem. Hins vegar er hunang oft minna unnið (ef það er lífrænt framleitt og raw þ.e. hrátt) svo að því leytinu er það betra en hvítur sykur (sýróp). Það hefur einnig eitthvað af vítamínum og steinefnum svo það er jákvætt. Hvíti sykurinn hins vegar hefur ekki neitt og er yfirleitt bleiktur, hreinsaður með beinamulningi af dýrum og er algjörlega snauður af öllum efnum. Svo er hitt að hunang hefur afgerandi bragð sem stundum passar ekki í allan bakstur og þess vegna nota ég stundum agavesíróp eða hlynsíróp í staðinn, allt eftir því hvað ég er að gera.
Hnetusmjör geturðu notað í staðinn fyrir smjör í ýmislegt (ekki allt) og smákökubakstur er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Þú getur líka notað cashewmauk og möndlumauk (fer eftir uppskriftinni). Vona að þetta hafi hjálpað en ég er að fara að skrifa pistil um mismuninn á ýmsum sykri svo þú getur fylgst með á blogginu mínu. Sendu mér fyrirspurn ef þú ert með fleiri spurningar :)