...og þess vegna, gott fólk, drekk ég ekki kaffi
Ég hef ekki drukkið kaffi í mörg, mörg ár. Mig minnir að síðasti kaffibollinn minn með alvöru kaffi hafi endað þannig að ég þurfti, að fara hlaupandi frá Kaffitári Kringlunni, á salernið. Kaffið frá Kaffitári fannst mér alltaf svolítið sterkt í grunninn og ég lenti allavega í óvart-detoxi í hvert skipti. Ég byrjaði í tvöföldum latte, fór svo yfir í einfaldan latte, svo yfir í koffeinlausan, svo yfir í einfaldan koffeinlausan (fyrirgefðu Elsku Jóhannes *roðn*). Þess vegna er ég hrifin af Starbucks kaffinu því það er ekkert kaffibragð af því hahahhaa allavega ekki eins og ég panta það. Mér finnst best ef mjólkurdrykkurinn (eins og Jóhannes kallar kaffipöntunina mína) er með litlu kaffibragði en þeim meira af mjólkurbragði því mér líður ekki vel ef ég finn kaffibragð (er orðin svo skilyrt he he).
Ég byrjaði að drekka kaffi 11 ára og drakk mikið af því. Svo mikið, að stundum fór ég með lítra yfir daginn. Sem er ekki hollt fyrir 12 ára ungling. Mér var bara alltaf kalt og stundum var þetta það eina sem var í boði í hesthúsinu (fyrir utan gamalt Melroses te og Swiss Miss en hvorugt drakk ég). Svo byrjaði ég í framhaldsskóla og háskóla o.fl. og eftir hvern einasta kaffibolla hugsaði ég, æi, blóðsykurinn að hrapa, andskotinn, verð að hætta að drekka kaffi. En ég hætti ekki og þó mér þætti það ekkert sérstaklega gott, drakk ég það samt, af vana. Það fyndna við stöðuna þá er að Jóhannes drakk ekki kaffi, fyrr en eftir tvítugt (þegar ég var búin að drekka kaffi næstum því í 10 ár). Það var ekki fyrr en með fyrsta (pínulitla) Kaffitári í Kringlunni (Sonja var við vélina) sem hann smakkaði fyrsta espressoinn sinn (án mjólkur því hann hatar mjólk í kaffi) og eftir það var ekki aftur snúið. Rest is history eins og sagt er.
Skapið mitt verður (hóst) frekar stirt ef blóðsykurinn fellur og það veit Jóhannes best af öllum en hann neitaði í mörg ár að fara með mig út fyrir hússins dyr nema ef hann gáði í töskuna mína fyrst, hvort ég væri ekki örugglega með eitthvað neyðar-snarl. Ég átti það til að borða óreglulega og lítið, drekka bara kaffi og vera stressuð og skilja EKKERT í því þó ég væri að skjálfa, með niðurgang, sjáandi stjörnur, svitnandi köldum svita og vera brjálæðislega pirruð. Ég átti það svo líka til að gleyma að taka með mér nesti svo ég gat endað einhvers staðar hálf bjargarlaus í blóðsykursfalli. Ég man eftir því eitt skiptið, þegar ég var um 13 ára, var ég að keppa í hindrunarstökki og ég flaug 4 sinnum af hestbaki (braut engin bein í það skiptið, ótrúlegt en satt). Það var orðið framorðið, klukkan var um 22 og ég skildi eeeeekkkkert í því hvað ég tolldi illa á baki en fattaði svo þegar ég kom heim að ég hafði ekkert borðað allan daginn og drukkið örugglega 1,5 lítra af kaffi.
Svo þegar skynsemi tók völd (og Jóhannes sagðist myndi skilja mig eftir fyrir utan búð í eitthvert skiptið, eins og gert er við litla frekjustrumpa) hætti ég að drekka kaffi og leið 1000 sinnum betur að öllu leyti. Ég hef ekki drukkið kaffi í einhver 10 ár. Stundum fæ ég sopa af espresso hjá Jóhannes (finnst gott að fá bragðið í munninn) en að öðru leyti snerti ég ekki á kaffi né neinu með koffeini í (ekki heldur grænu tei né svörtu tei). Af því ég er þetta viðkvæm fyrir örvandi efnum þá verð ég að passa mig á kakói og borða ekkert með kakói í eftir hádegi (ég hljóma eins og eeeeeeldgömul kerling). Ef ég borða t.d. dökkt súkkulaði (meira kakó en í ljósu), nálægt kvöldmat, sofna ég seint, sef illa, vakna oft og á erfitt með að sofna aftur, dreymi illa og er að drepast daginn eftir. Þess vegna er carob himnasending fyrir svona ræfla eins og mig. Það bragðast auðvitað ekki eins og kakó en ef mann virkilega langar t.d. í súkkulaðibitakökur án súkkulaðis, getur maður notað carob í staðinn og í því eru engin örvandi efni. Ég nota það líka fyrir ungviðið því eldra afkvæmið hefur t.d. ekki enn smakkað kakó/súkkulaði en fær carob í allt sem annars myndi vera með kakó/súkkulaði og það svínvirkar enda þekkir hún ekkert annað.
Í gær, hitti ég Maríu vinkonu mína (áströlsku-grísku sem rak eitt sinn kaffihús hérna í London). Við hittumst yfirleitt einu sinni í viku og það er alltaf gaman því við höfum þekkst lengi, elskum báðar mat (hún er örugglega með öll óþol í heimi) og sérstaklega hráfæði o.þ.h. Í gær höfðum við ekki hist í dálítinn tíma og vorum því báðar niðursokknar í kjaftagang þar sem við sátum á Vantra (hráfæðis-vegan staðurinn sem ég hef bloggað um). Ég pantaði mér soja vanilla no caf (again....elsku Jóhannes, fyrirgefðu *roðn*). Borgar bróðir segir að no caf bragðist eins og sokkasafi, af blautum, skítugum ullarsokkum en Jóhannes neitar auðvitað að smakka drykkinn svo ég veit ekki hans mat..en er líklega í sama dúr. No caf er reyndar gert úr hickory (veit ekki íslenska nafnið), malti, byggi o.fl. Ágætis drykkur og það er 100% pottþétt að maður fær engin koffeináhrif af honum. Svo ég pantaði mér bara þennan ljómandi drykk (já Jóhannes mér finnst hann góður) og af því klukkan var bara 13, ákvað ég að vera svolítið „villt” og pantaði mér súkkulaði trufflu (hráfæðis konfekt, massi af kakói, kókosolíu og agavesírópi). Ég var ekki búin að borða það mikið yfir daginn og ákvað að það væri gott að fá svolitla kókosolíu/fitu í kroppinn. 
Mér fannst no caf drykkurinn minn dálítið sterkur (og það var ekkert vanillubragð af honum) en hugsaði ekki út í það meira því við vorum svo uppteknar í blaðrinu. Við sátum í góða klukkustund og mér var orðið svolítið kalt, en var pínulítið sveitt líka. Pældi ekkert meira í því og labbaði af stað með Maríu því ég þurfti að fara og gera innkaup á jólapappír og jólatréi (janúar jól sjáið til). Ég vissi að það var 75% útsala í einni af uppáhalds búðinni minni, Paperchase. Ég kvaddi Maríu á götuhorninu og lagði af stað þessar 5 mínútur sem ég átti eftir í verslunina. Þessar 5 mínútur breyttust í 20 mínútur. Allt í einu fór ég að skjálfa og hristast, kaldur sviti lak eftir bakinu, mér var illt í maganum, mig svimaði, ég sá stjörnur, mér var flökurt, hjartslátturinn var á milljón en púlsinn veikur. Ég hélt að þetta væru mínar síðustu mínútur. Einhvern veginn náði ég að koma mér upp á 2. hæð verslunarinnar (án þess að ég muni eftir því hvernig ég komst þangað) og fór rakleiðis á salernið, eiginlega með hitabeltisniðurgang (þið sem hafið verið í hitabeltislandi vitið hvað ég er að tala um). Ég sat þar í góðar 10 mínútur og hugleiddi hvernig ég gæti komið mér úr þessu klandri. Annað hvort myndi ég hringja á sjúkrabíl en þá myndi ég lenda í vandræðum því ég þurfti að sækja Afkvæmið á leikskóla, eða hringja í Jóhannes (ég var þó það skýr í kollinum að ég ætlaði að hafa símanúmerið hans tilbúið í símanum fyrir þann sem kæmi að mér þar sem ég væri í dái á gólfinu). Ég beið svo aðeins og ákvað svo að harka af mér og verslaði svolítið af jólapappír, jólatré, merkimiða o.fl. (sem er súrrealískt að kaupa inn í janúar). Ég studdi hönd undir kinn þegar ég rétti debetkortið mitt skjálfandi höndum yfir borðið. Það voru svitaperlur á enninu á mér og ég horfði ofan í gólfið. „Uuuuuu er allt í lagi með þig?” spurði afgreiðslumaðurinn. Það eina sem ég gat stunið upp úr mér var „had a no caf, wasn’t no caf”. Ég er MJÖG hissa á að hann hafi ekki hringt á sjúkrabíl þar og þá, eða lögregluna. Þar sem ég sat á dollunni rifjaðist nefnilega upp fyrir mér að sveimhuga hrífuskaftið sem afgreiðir okkur stundum á Vantra lætur mann ALDREI fá það sem maður pantar. Ég hef sem sagt verið að gæða mér á svörtu kaffi á ekki mjög mettan maga og borðandi kakótrufflu með. Þessi blanda er BANEITRUÐ fyrir mig.
Ég tók dótið og það eina sem ég hugsaði um var að komast í Planet Organic heilsubúðina því ég yrði að fá einhvern sykur í kroppinn (5 mínútna labb á milli). Þeir eiga alls kyns góða djúsa alveg þegar maður kemur inn í búðina og ég stefndi þangað. En hægt, því mér leið illa. Heimilislausa, grútskítuga, tannlausa konan með hækjuna sem selur Big Issue blöð á horni Tottenham Court Road og Torrington Place horfði á mig með augað dregið í pung. Hún hallaði undir flatt og spurði „Awrigh dea?” (lagi með'i ‘skan?). Ég brosti skakkt til hennar og hélt áfram. Þegar ég kaupi af henni blaði læði ég stundum að henni orkustöngum á leið minni frá heilsubúðinni og við kinkumst yfirleitt á. Hún er svona kona sem blessar mann í bak og fyrir og þó að ég sé trúleysingi þykir mér alltaf vænt um að hún geri það, hún er jú bara að gera það sem hún telur að komi mér best. Í þetta skipti leist henni eeeeekkert á blikuna. Ég staulaðist inn í heilsubúðina, fór rakleitt að kælinum og sturtaði í mig smoothie. Mér leið strax betur (eða eftir um 1 mínútu) og var svo heppin að verið var að kynna orkustangir hvers kyns (ekki með kakói, ginsengi, grænu tei eða neinu…las vel utan á) sem ég tók lófafylli af og leið enn betur. Ég týndi svo til eitt og annað og borðaði jafnóðum. Ég var næstum orðin söm en eftir 10 mínútur eða svo, var mér farið að líða illa, næringin uppurin, orkan farin úr líkamanum og kaldur svitinn lak niður bakið. Afgreiðslufólkið horfði furðu lostið á alls kyns umbúðir af vörum sem nú voru annað hvort étnar eða drukknar, og skannaði inn. Mér var orðið aftur illt í maganum og ég þurfti að hlaupa á kaffihúsið við hliðina á. Á salerninu jafnaði ég mig nóg til að geta sótt Afkvæmið og ég dreif mig heim. Þegar heim var komið borðaði ég samfleytt í nánast 6 klukkustundir (jafnt og þétt á um 15 mínútna fresti). Ég var ofvirk, hlaupandi um, en leið samt betur þó að ég væri með hausverk (ekkert til að kvarta yfir). Ég sofnaði 4.30 síðustu nótt, eftir að hafa legið andvaka frá um 22.30. Það vottaði ekki fyrir þreytu þ.e. ég geispaði en ekki fræðilegur séns á því að ég myndi sofna. Eftir að ég sá það að það væri enginn að gera neitt af viti á Facebook kl 2 að nóttu, hvarflaði að mér að baka bara….
Þetta, dömur mínar og herrar, er ástæðan fyrir því að ég drekk ekki kaffi né borða kakó eftir hádegi (og alls ekki saman). Það er víst til eitthvað sem heitir koffeinofnæmi (sumir fá reyndar ofskynjanir og geðraskanir sem fylgifisk koffeins) en ég ætla ekki að láta á það reyna hvort ég enda þar. Sumir ná einhvers konar mörkum sem þeir komast aldrei yfir þ.e. ef þú ert kominn að þínum mörkum varðandi koffein, kemstu ekkert fram fyrir þau.
Þetta kenndi mér líka að spyrja ALLTAF hvort að drykkurinn sé ekki ÖRUGGLEGA koffeinlaus. Ég kyrki helvítis hrífuskaftið líklega næst þegar ég fer á Vantra. 
Ummæli
14. jan. 2012
Þetta var skemmtileg lesning. Þú ert nú aldeilis viðkvæmt blóm Sigrún. Ég hef tvisvar lent í svipaðir vanlíðan. Eitt sinn drakk ég heila pressukönnu af kaffi og í seinna skiptið fékk ég mér lítinn þrist eftir að hafa ekki smakkað sykur í um hálft ár. Þetta var skelfileg líðan svo ég skil vel að þú forðist hana eins og heitan eldinn.
14. jan. 2012
Ha ha....ég er voðalegur ræfill þegar kemur að örvandi efnum. Úff pressukönnukaffi...Jóhannes segir að það sé allra verst fyrir fólk eins og okkur því þar er kaffið búið að bruggast endalaust og er orðið svínslega sterkt í botninn. Þrist hef ég aldrei smakkað á ævinni og ég hef heldur ekki lent í svona sykur viðbrögðum, áhugavert að heyra að viðbrögðin séu svona svakaleg af sykri....hefði ekki getað ímyndað mér það. Kannski að maður ætti að gera tilraun, fórna sér í rannsóknarvinnu ;)
16. jan. 2012
Vá! Svakalega pest færðu af kaffinu... Ég verð reyndar kolrugluð og fæ svima og vanlíðan ef ég dembi mér of geyst í kaffið svo ég fer varlega! Og sammála, magnað með sykurinn!
16. jan. 2012
Ég finn að ég er orðin viðkvæmari fyrir alls konar rusli. Vona að það sé þrátt fyrir allt merki um heilbrigði þ.e. eins og prinsessan á bauninni :)
04. feb. 2012
Ég þekki þetta vel systir kær. Einu sinni ( sem oftar) hafði ég afvatnað mig frá kaffinu enda kominn í 2 litrana. Við vorum austir í sveit og ég vaknaði snemma til að fara að stússast úti. Aumingja Elín, mín kúgaða og hógværa kona, drakk koffínlaust kaffi mér til samlætis þegar ég var í þeim gírnum og hún hafði haft til kaffi í könnuna kvöldið áður og ég þurfti bara að kveikja á um morguninn. Nema hvað að ég drakk 3 STÓRA bolla um morguninn og fór svo út að vinna. SÍJITT!! 30 min seinna dofnaði tungan,ég sá stjörnur og hjartað á milljón. Síðan fannst mér eins og draugar væru á sveimi og ég lagði saman nr á bílnum á ótal mismunandi vegu og fann alltaf út demonískar tilvísanir!! Ég fór svo aftur inn og fattaði allt í einu og spurði Elínu " var þetta nokkuð koffín kaffi" ?? "æ já " sagði hún " Ég gleymdi að segja þér það" aaaaaaaaaaaaarghh
04. feb. 2012
Ég er hissa á að Elín hafi lifað þetta af....Joe hefði ekki gert það he he.