Jól í janúar
Ég er komin með upp í kok af lestri námsbóka. Mér finnst efnið reyndar skemmtilegt en það hefði verið enn skemmtilegra ef prófin hefðu verið í desember. Svo eru ritgerðarskil líka svo ég er algjörlega búin að vera á haus. Ég skil ekki þetta fyrirkomulag en það er mjög algengt í Bretlandi, sérstaklega á efri stigum menntunar. Það verða þess vegna jól nr. 2 næstu helgi þegar ég er búin að öllu. Við ætlum að elda góðan mat, baka smákökur og opna pakka...kannski að maður setji jólalög á fóninn. Ég fer alveg bráðum að eiga líf aftur en ég get ekki kvartað þar sem þetta er jú mitt val, enginn að pína mig til að leggja þetta á mig. Sem betur fer eru Afkvæmin enn nógu lítil til að fatta ekki neitt og finnst þetta eflaust bara hið besta mál að fá svona aukajól. Kannski að þetta verði nýja trendið? Janúar jól?
Að öðru, þá er ég búin að opna detox flokkinn svo nú má hefja nýárshreingerningu á kroppinum.
Að lokum langaði mig að deila þessari mynd með ykkur sem ég tók á símann minn um daginn. Það gengu allir fram hjá þessum fallega einkagarði sem var eins og úr einhverju ævintýri. Hann var svo sem ekki áberandi en ef maður leit aðeins annað en beint fram fyrir sig, blasti hann við. Flestir eru bara að flýta sér svo mikið (ég svo sem líka en ég kíki alltaf í kringum mig, ef ég myndi sjá eitthvað svona skemmtilegt). Ég gat ekki annað en stoppað og tekið myndir, vildi að ég hefði verið með alvöru myndavél. Það var kalt og napurt þennan morgunn og enginn í garðinum.
Ummæli
18. jan. 2012
Dásamleg mynd!