Hvernig....

...dettur konu með tvö börn (2ja ára og 4ra mánaða) að hefja mastersnám í sálfræði og reka uppskriftavef samhliða því. Ég held að það ætti að loka mig inni, í burtu frá öllum námsbókum, Internetinu og öllu sem gæti freistað mín. Málið er að allar þessar greinar sem birtar eru, í þessum vísindatímaritum og allar þessar bækur um málefni heilsu og sálfræði eru svo hroðalega spennandi. Ég hreinlega tími ekki að vera ekki í skóla (vissuð þið t.d. að karlmenn eru 8 sinnum líklegri til að slasa sig á prjónum sem notaðir eru til að borða með? Og að breytingarskeið kvenna (það er líka til breytingaskeið karla sem er vægara) er líklega eitthvað sem er bundið menningu og félagslegum þáttum því japanskar konur t.d. finna fyrir kulda, höfuðverk og stífni í öxlum (en ekki nætursvita og hitakófi) og Maya konur ljúka breytingaskeiðinu 10 árum fyrr en konur á Vesturlöndum og að þær konur sem þyngjast Á breytingaskeiðinu (en voru ekki of þungar áður) eru líklegri til að fá verri einkenni???)).

Það eru 3 hættir í bekknum mínum, vegna álags. Ein sagðist gráta á hverjum degi (sú er í fullu námi, ég er í hlutanámi). Það er helv. mikið álag, það verður að viðurkennast. Og ég er oft utan við mig...(og ég er ekki sérlega lítið utan við mig á góðum degi). Eins og þegar sá litli er að naga tölvusnúruna og ég sé það útundan mér en fatta ekki neitt....og svona eins og þegar maður heyrir eitthvað aftur og aftur endurtekið í fjarska en er ekki að kveikja á perunni....t.d. þegar maður heyrir út undan sér: "patta i gósetti" (pasta í tonnatali að enda í klósettinu því það er gaman að henda því ofan í), eða "gaman a ita me vaggit á veddinn víííí!!!!!" (gaman að lita með vaxlitum á veggina víííí). Og svo koma tímar þar sem manni fallast hendur...eins og þegar tvö börn af tveimur eru veik í miðjum próflestri (núna) og allir fjölskyldumeðlimir eru að hósta og tvö af tveimur börnum þurfa að fara til læknis vegna veikinda. Og þegar þarf að mauka mat handa yngra eintakinu til að frysta og mat handa afganginum af fjölskyldunni (sem borðar sem betur fer allt það sem ég bý til, svo gott sem). Það er á svoleiðis stundum sem ég baka muffinsa til að halda geðinu á floti. Eða ég hendi í eplaböku með kanil og valhnetum, eða ég geri biscotti. Það er nefnilega þannig að maður hefur alltaf tíma til að baka. Núna stendur yfir próflestur og ritgerðarvinna og henni þarf að halda áfram eftir jól. Það finnst mér vera brot á "stúdentamannréttindum" (bara svo það sé á hreinu þá eru þau mjög ólík grunn-mannréttindum). Ég vil frekar klára allt í desember og eiga frí yfir jólin heldur en að standa í svona bulli.....Ég er heppinn að eiga eiginmann sem getur hannað og prentað jólakortin (annars væru engin jólakort í ár), tekið úr þvottavélinni (annars gengi fjölskyldan í plastpokum), sinnt afkvæmunum um helgar (annars væri líklega búið að hringja á Barnaverndaryfirvöld..eða ég segi svona). Án hans væru þetta líklega afskaplega sorgleg jól.

Eftir prófið í næstu viku tekur við 2.5 daga jólafrí áður en næsta próflesturs-og-ritgerðarskrifar-lota hefst (sem verður á Íslandi því við verðum þar yfir jólin). Jóhannes heimtar piparkökur og hótar að loka CafeSigrun ef hann fær þær ekki.....held að ég verði að fara að skella í eina sort.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
09. des. 2011

Takk fyrir þetta Sigrún

Skil þetta svo vel. Hef verið á góðri leið með að tapa glórunni í vetur. Skráði mig úr einum áfanga, var í 80 % námi. Og þetta rétt hafðist. Ég á góðan mann, eins og þú, sem gerir þetta mögulegt. Hann fer með börnin í bíó, sund og út í garð meðan ég hamast við að komast í gegnum námsbækurnar. Ég er sem betur fer í löngu jólafríi vegna þess að það er símat í deildinni, sem þýðir að það er bara meira álag á meðan á kennslunni stendur, próf eða ritgerð nánast í hverri viku. Þannig að ég er byrjuð að lesa fyrir næstu önn. Annars væri þetta ekkert hægt. Ég vil hafa tíma til að hreyfa mig og geta sest niður og borðað og átt tíma með fjölskyldunni. En til þess þarf ég að læra allt jólafríið og líklega skera niður námið eftir áramót um a.m.k. 20%, þ.e. vera í 80 % námi þá líka. Þetta er mikið álag og ég finn til með ungu krökkunum sem koma beint úr menntaskóla og hafa aldrei áður verið í háskóla. Mér finnst glatað þetta með að fá ekki jólafrí í friði. Finnst full ástæða til að kvarta undan því. Fólk þarf einhvern tíman að hafa tíma til að anda.
Gangi þér vel. Kveðja, Melkorka

sigrun
10. des. 2011

Takk Melkorka, gangi þér vel sömuleiðis...við komumst einhvern veginn í gegnum þetta og það er mikið gott að eiga góða að :)

joe
09. des. 2011

Bara svona ef þið eruð að hafa áhyggjur, þá er búið að koma í veg fyrir lokun CafeSigrun þessi jólin. Íbúðin ilmaði öll þegar ég kom heim úr vinnunni áðan :)