Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Prufrock Coffee

Það má segja að þetta kaffihús sé rúsínan í pylsuendanum, sérstaklega hvað varðar kaffinörda. Jóhannes geymdi þetta kaffihús þangað til síðast og hér kemur umfjöllunin. Þetta er sem sé síðasta kaffihúsið sem gestabloggarinn Jóhannes tekur fyrir og þið þrjú sem hafið fylgst með (eða svona miðað við kommentin þá eru varla fleiri....þó ég viti að það séu nokkur hundruð (frekar lélegt hlutfall kommenta sko, ha....skamm skamm)). Jóhannes ætlar svo að fara yfir kaffihúsin í lokin, eins konar lokaumfjöllun og hún verður birt næsta sunnudag. En nú gef ég Jóhannesi orðið:

Prufrock Coffee
23 - 25 Leather Lane, EC1N 7TE

Horft af götunni inn í Prufrock Coffee kaffihúsið


Glöggir notendur taka kannski eftir því að hurðahúnarnir eru kaffiþjöppur

Horft úr innsta horni staðarins og út


Gestum boðið að taka þátt í&;„cupping”

Espressobollinn sem ég fékk á Prufrock Coffee

Af þessu kaffihúsi hef ég vitað síðan það opnaði fyrir rúmu ári (það var mjög umtalað í kaffinördaheiminum). Ég hafði þó ekki gert mér ferð þangað fyrr en ég fór að skrifa þessa pistla þar sem það er ekki í göngufæri við þar sem við búum. Ég var meðvitaður um að þetta var ekkert alveg venjulegt kaffihús því einn af eigendunum, Gwilym Davies er fyrrum heimsmeistari kaffibarþjóna. Það sem er óvenjulegt við þetta kaffihús er að þeir eru mikið að leyfa gestum og gangandi að upplifa mismunandi aðferðir í að laga kaffi, ekki bara espresso baseraða drykki eða drip (uppáhellt) heldur er líka verið að bjóða upp á mismunandi uppáhellingaraðferðir og allt annað sem kemur nýtt inn í kaffiheiminn. Einnig eru þeir oft með „cupping” á kaffihúsinu og bjóða gestum að taka þátt. Þeir eru einnig með hálfgert tilraunaeldhús í gangi hvað kaffigerð varðar. Þar má nefna 2 mismunandi espressovélar, eina hefðbundna og svo eina “lever” vél (þar sem kaffibarþjónninn togar í stöng á vélinni til að búa til þrýstinginn sem þrýstir gufunni í gegnum kaffið) fyrir utan allt annað.

Eitt af því sem ég fékk hjá þeim núna um daginn sem er alveg nýtt fyrir mér og hef aldrei séð, bara lesið um, eru þurrkuð ber utan af kaffibauninni. Einn kaffibóndinn sem SquareMile kaffibrennslan (sem þeir Prufrock versla við) kaupir kaffið af hefur verið að gera þetta, taka berið sem umlykur kaffibaunina og þurrka og svo er soðið te úr því. Ég þurfti að sjálfsögðu að prófa. Teið sem slíkt var svolítið eins og maður hefði tekið berjate og blandað saman við English Breakfast eða annað svart te. Það var svolítill svona kirsuberjakeimur af teinu en svo var svolítið biturt eftirbragð sem ég kunni ekki alveg að meta. Það gæti reyndar verið að ég hafi bara látið berin vera of lengi í vatninu. Elva Brá vinkona okkar og samsmakkari af þessu tei var á svipuðu máli og fann sterkt berjabragð en fann ekki fyrir eftirbragðinu. Þessi tegund „kaffis” gefur mjög skemmtilega stemmingu og kveikir oft áhuga hjá fólki sem hefur annars ekki spáð mikið í kaffið sem það er að drekka.&;

Þurrkuðu kaffiberin
Þurrkuðu kaffiberin

Beðið eftir að teið sé tilbúið

Þeir hjá Prufrock eru líka alltaf tilbúnir í spjall um kaffi og kaffitengd málefni. &;Einnig vinna þeir mikið með áðurnefndri Square Mile kaffibrennslunni en Gwilym var í læri hjá James og Anette þegar hann vann heimsmeistaratitilinn. Íslendingar geta samt eignað sér smá hluta í þessu skv. því sem Gwylim sagði mér, þar sem hún Jónína Tryggva, núverandi íslandsmeistari í fagsmökkun og fyrrverandi Íslandsmeistari kaffibarþjóna sem og í mjólkurlist kenndi honum og öðrum starfsmönnum kaffihússins til verka hér í „denn”. Gwylim sagði mér að Jónína hefði, óafvitandi, gegnt lykilhlutverki í útbreiðslu gæðakaffimenningar í Bretlandi. Ekkert smávegis hrós þar til Jónínu og fyllilega áunnið!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
23. nóv. 2011

Trúi því ekki að ég sé sú fyrsta til að kommenta. Þetta hljómar alveg eðal og gaman að lesa þetta hrós um Jónínu ;-)

En mér finnst algjörlega vanta sérstaka umfjöllun um þennan ógurlega fallega ljósbláa kaffibolla. Já, já, hann á alveg skilið sér færslu!