Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Vergnano 1882

Næstur í gestablogginu er Vergnano 1882 sem á sérstakan sess í kaffihjarta okkar hjónakornanna. Ef þið eruð nálægt Leicester Square þá eruð þið aðeins nokkrar mínútur að labba á staðinn. Ég gef Jóhannesi orðið...

P.s. það er gestaþraut falin í þessari umfjöllun. Finnið 2 tilvik af Afkvæminu með sólgleraugu að drekka Babychino :)

Vergnano 1882

62 Charing Cross Road (Leicester Square)

Kaffihúsið séð að utan

Kaffihúsið að innan

Annað sjónarhorn inni í kaffihúsinu

Svona er kaffið borið fram á þessum bæ

Elektra Belle Epoque - Er hún ekki falleg?

Það eru 3 ástæður fyrir því að Vergniano fær að fljóta með hér í þessum lista yfir það sem ég tel vera bestu kaffihúsin í mið-London. Fyrsta ástæðan er sú að þetta var fyrsta kaffihúsið sem mér var bent á í London sem sörveraði ekki einhvern óþverra og kallaði það espresso. Sonja hjá Kaffismiðjunni benti mér á þetta kaffihús fyrst eftir að við Sigrún fluttum inn til mið-London og ég var þá eitthvað að tauta að það væri ekkert almennilegt í boði. Önnur ástæðan er að það er ekkert kaffihús hér í borg sem ég hef komið á sem slær þá út í framreiðslu. Maður fær lítinn svartan bakka með svörtum kaffibolla, litlu glasi af vatni og svo er alltaf pínulítið súkkulaðistykki með (sjá mynd). Þetta lítur bara svo vel út! Síðasta ástæðan er svo að þarna var fyrsta Elektra kaffivélin sem ég sá (sjá mynd, sjáið hana bara, er hún ekki falleg?!) og er ástæðan fyrir því að ég fór að skoða og endaði á að kaupa mér Elektru kaffivél líka (þó ekki af sömu stærð). Svo er yfirleitt sígild tónlist spiluð og maður dettur beint í rólegan gír þegar maður er að súpa af bollanum.

Þessi staður er við mjög fjölfarna götu rétt fyrir ofan Leicester Square og er því töluvert meiri túristastraumur þarna en á hinum stöðunum sem ég hef verið að fjalla um. Þeir gefa sig út fyrir að vera "alvuru ítalskt kaffihús" en ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki náð að stoppa nema rétt um sólarhring á Ítalíu og það í vinnuferð svo ég get ekki sagt hvort það sé rétt eða ekki. Bakkelsið er gott það sem ég hef smakkað og töluvert ítalskara en á hinum stöðunum. Ég mæli líka eindregið með heita súkkulaðinu þeirra, tókuð þið eftir að ég sagði ekki kakó heldur súkkulaði!

Vergnano er núna með 3 staði í London en þegar ég kom þarna sem mest var bara einn staður, þessi á Charing Cross Road. Þá var Luciano oftast sjálfur bak við vélina eða konan hans og því hægt að stóla á að fá gott kaffi hjá honum. Eftir að hann opnaði hina tvo hef ég ekki séð þau og greinilegt að kaffibarþjónarnir sem vinna þar þessa dagana hafa ekki alveg sama áhuga á kaffinu og þau gerðu. Kaffið er vissulega betra en hjá risunum þremur (Starbucks, Nero, Costa), en samt ekki þannig að ég geri mér ferð þangað til að fá mér kaffi (Monmouth og Sacred eru það nálægt að ég fer frekar á þá staði), en þetta kaffihús hefur samt smá sentimental gildi og fær því að fljóta með ;)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It